20.03.1972
Efri deild: 60. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

120. mál, orkulög

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til athugunar frv. til l. á þskj. 151 um breyt. á orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967. N. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeirri breytingu, að niður falli síðustu orðin, sem eru þannig: „ . . samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð“. Almenn reglugerðarákvæði eru í orkulögum og þetta því óþarft.

N. leitaði umsagnar og bárust þrjár. Eru þær allar jákvæðar. Umsögn barst frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem segir, að stjórn sambandsins mæli einróma með samþykkt frv. Umsögn barst einnig frá borgarverkfræðingi í Reykjavík. Hann mælir eindregið með þeirri breytingu, sem lagt er til í frv., að gerð verði á orkulögum, og bendir jafnframt á þá skoðun sína, sem hann telur vera, að mjög sé til bóta, að Orkustofnun hafi leyfi til rannsókna, t. d. vegna neyzluvatnsleitar, án þess að fyrir liggi beiðni frá viðkomandi sveitarfélagi eða landeiganda. Einnig hefur borizt umsögn frá orkumálastjóra, sem mælir eindregið með frv. Hann segir, með leyfi forseta: „Ég get verið fáorður í umsögn minni um frv. Ég er algerlega samþykkur frumvarpinu og greinargerð þeirri, er því fylgir.“ Hann ræðir síðan nokkuð um þessi málefni almennt, og frá orkumálastjóra er komin sú ábending að gera þá breyt., sem ég sagði áðan, að n. hefði orðið sammála um.

Ég get verið fáorður um þetta frv. Ég hef áður rakið aðdraganda þess nokkuð í framsögu fyrir því hér í hv. d. Eins og ég sagði þá, er nánast um staðfestingu á því, sem orðið er, að ræða. Sú þróun hefur smám saman orðið, að svokallaðar grundvallarrannsóknir á sviði jarðvísinda hafa farið til Raunvísindastofnunar háskólans, til jarðfræðideildar stofnunarinnar, en hins vegar hagnýtar rannsóknir orðið sterkari við Orkustofnun, en þar er mesti fjöldi jarðfræðinga og tækjabúnaður beztur á þessu sviði. Hins vegar hefur nokkuð orðið vart við það hjá fjárveitingavaldinu, að því hefur ekki sýnzt ljóst, að Orkustofnun hefði heimild til þeirrar starfsemi, sem hér um ræðir, enda ekki greinilega fram tekið í núgildandi lögum um Orkustofnun. Því er þessi brtt. fram komin.

Ég vil að lokum aðeins taka það fram, þar sem ég hef orðið var við það lítillega í viðræðum við aðila utan Alþ., að með þessu er alls ekki til þess ætlazt, að svipta eigi aðrar stofnanir, sem verða eigin starfsemi vegna að hafa einhverja jarðfræðistarfsemi á sínum vegum, leyfi til slíks. Til þess er alls ekki ætlazt. Það er eðlilegt, að þær haldi því áfram, eins og verið hefur og eins og eigin þörf þeirra eða þjónustuverkefni krefjast. Hins vegar er með þessu stefnt að því, að opinberir aðilar, sem ekki hafa slíka þjónustu, eins og t. d. vegamálastjóri, vita- og hafnamálastjóri, borgarverkfræðingur í Reykjavík, sveitarfélög og aðrir, leiti fyrst og fremst til Orkustofnunar um slíka almenna þjónustu með rannsóknum á þessu sviði.