25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs í þessu máli til þess að láta í ljós efasemdir mínar um ágæti þessa frv., og mér þykir vænt um það, að fram komu aths., áður en mér tókst að koma hingað upp í ræðustólinn, þó að ég hafi reyndar ekki átt von á því, að þær aths. mundu koma úr þessari átt. Síðasti ræðumaður benti réttilega á, að núverandi löggjöf um hlutafélög væri að ýmsu leyti úrelt og þyrfti endurskoðunar við, og þegar af þeirri ástæðu held ég, að það sé eðlilegt fyrir okkur að íhuga, hvort rétt sé að afgreiða nú frv. sem lög, byggð á þessari löggjöf í aðalatriðum, sem er að mati mjög margra meira og minna úr sér gengin.

Hlutafélagalöggjöfin byggir á því, að menn geta haft takmarkaða ábyrgð á þeim atvinnurekstri eða þeim áhættusama atvinnurekstri, sem þeir leggja í, og í grundvallaratriðum hljóta allir að vera á móti slíkri aðferð eða slíkri löggjöf, sem gerir ráð fyrir því, að menn geti lagt í atvinnurekstur, slegið lán og lagt út í vissa fjárfestingu án þess að bera fullkomna og ótakmarkaða ábyrgð á þessum atvinnurekstri. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sveitarfélög geti lagt út í áhættusaman atvinnurekstur með takmarkaða ábyrgð. Það er eflaust rétt til getið af flm., að þetta mál geti orðið til hagræðis og hagsbóta fyrir viðkomandi sveitarfélög, en ég hafði a. m. k. ekki hugsað mér að láta það verða eitt af mínum fyrstu verkum hér á hinu háa Alþ. að stuðla að auknum atvinnurekstri hins opinbera. Ég skal vissulega gera greinarmun á atvinnurekstri ríkisins annars vegar og atvinnurekstri sveitarfélaga hins vegar og tel á því mikinn stigsmun, þótt það sé kannske ekki eðlismunur, en ég hafði verið og er þeirrar skoðunar, að löggjafinn hverju sinni eigi fyrst og fremst að stuðla að því, að einstaklingarnir í þjóðfélaginu hafi aðstöðu og hafi tækifæri til þess að leggja út í atvinnurekstur, en við eigum ekki sem löggjafar að stuðla að því, að sveitarfélög eða ríkið eða hið opinbera, hverju nafni sem það nefnist, hafi vissan forgang og viss réttindi umfram einstaklingana í þjóðfélaginu. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sveitarfélögin geti stofnað til slíks atvinnurekstrar eins og segir í grg., þar sem um er að ræða nauðsyn á atvinnuaukningu eða í þjónustu skyni. Hins vegar er það svo, að í frv. sjálfu er hvergi fjallað um, hvers eðlis þessi atvinnurekstur eigi að vera, og ég get ekki séð í fljótu bragði, að það séu nein takmörk fyrir því, að sveitarfélög geti stofnað og starfrækt atvinnu- og þjónustufyrirtæki á mjög víðum og breiðum vettvangi.

Sú hætta eða sá möguleiki er vissulega fyrir hendi, ef þetta frv. verður að lögum, að sveitarfélög færi mjög út kvíarnar, stofni til samkeppni við einstaklinga og þau atvinnufyrirtæki, sem fyrir eru, og þá á þann hátt, að þau eru undanþegin opinberum gjöldum og njóta annarra fríðinda umfram þann atvinnurekstur, sem er starfræktur við hlið þessara opinberu þjónustufyrirtækja. Þetta tel ég óeðlilegt og tel þurfa mjög mikillar athugunar við, áður en til samþykktar á slíku frv. kemur.

Ég tel það með öðrum orðum mjög varhugavert spor, sem Alþ. mundi stíga, ef það stuðlaði á þann hátt að því, að opinberir aðilar fengju viss forréttindi umfram hinn almenna, einstaka atvinnurekanda og aðra þá einstaklinga, sem hugsa sér að leggja út í atvinnurekstur. Nú er til athugunar verkefnaskipting eða verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga, og ég á von á því, að sú verkaskipting eða sú athugun leiði til þess, að mjög sé skorið á milli þeirra verkefna, sem falla í hlut ríkis annars vegar og sveitarfélags hins vegar, og það sé ekki það samspil, það loðna og flókna samspil, sem er á milli ríkis og sveitarfélaga í ýmsum verkefnum og verkefnavali, þannig að sveitarfélögin fái meira í sínar hendur, sem hlýtur þá að vera eðlileg afleiðing af þeirri ákvörðun, að sveitarfélögin fái fleiri tækifæri og meira fjármagn til þess að beita sér í hinum ýmsu málum. Þar á ég fyrst og fremst við, að það fjalli um nauðsynlega þjónustu, sem einstaklingar leggja ekki út í, en óhjákvæmilegt og nauðsynlegt er, að sé á hverjum stað.

Þegar þessari verkefnaskiptingu eða þessari athugun er lokið milli ríkis og sveitarfélaga, teldi ég eðlilegt, að tekið væri upp til athugunar, að hvaða leyti sveitarfélög ættu að taka að sér ýmiss konar þjónustu og atvinnurekstur í viðkomandi sveitarfélögum, og þá væri betur hægt að átta sig á því, hvort slíkt frv. ætti rétt á sér.