25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég held, að þessar umr. hafi orðið til góðs, þó að ekki væri til annars en upplýsa og draga fram, að skilningur flm. er mjög skiptur á þessu máli. Það kom fram hér í ræðu 1. flm. áðan, að það væri eðlilegt, að menn, sem hefðu þá lífsskoðun að vera á móti opinberum atvinnurekstri, væru á móti þessu frv., en hins vegar kæmi honum það á óvart, að jafnaðarmenn skyldu mæla því í gegn. M. ö. o. frv. virðist, a. m. k. að skilningi 1. flm., vera flutt til þess að útfæra nánar hina göfugu og ágætu jafnaðarstefnu, en alls ekki í þeim tilgangi — eins og síðasti ræðumaður tók fram, að hann héldi, að væri tilgangur frv.— þ. e. eingöngu að veita sveitarfélögunum heimild til þess að stunda þá þjónustu og þann atvinnurekstur, sem nauðsynlegur væri, þar sem einstaklingar létu ekki til sín taka. Á þessu er náttúrlega grundvallarmunur, þessum skilningi þessara tveggja aðila. Og ég skal ekki segja, hvor skilningurinn verður ofan á.

Rétt er að benda á, að í frv. kemur hvergi fram, að atvinnurekstur sveitarfélaga sé takmarkaður á einn eða annan hátt. Frv. gerir vissulega ráð fyrir því, eins og 1. flm. tekur fram, að atvinnureksturinn geti fært sig út á flest, ef ekki öll svið, þar sem rekstur og þjónusta á sér stað. Og þá er gert ráð fyrir því, að þegar sveitarfélög fara af stað með þennan atvinnurekstur og þessa þjónustu, séu þau undanskilin opinberum gjöldum. Þá njóta þau ýmissa fríðinda og hlunninda af hálfu hins opinbera, þannig að það verður mikill aðstöðumunur á atvinnurekstri hins opinbera, þ. e. sveitarfélagsins í þessu tilfelli, og svo einstaklinganna, sem jafnhliða stunda sama atvinnurekstur. Þetta tel ég náttúrlega fyrir neðan allar hellur, og ég skammast mín ekkert fyrir að taka það fram, að það er algerlega í andstöðu við lífsskoðun mína. Ég held, að sú lífsskoðun hafi nokkuð til síns máls, þegar þannig er verið að gera upp á milli einstaklinga og á milli aðila í þjóðfélaginu, þegar um atvinnurekstur er að ræða. Það er a. m. k. ekki í samræmi við jafnrétti og jafnaðarstefnu 1. flm.

Ég ætla ekki að fara að ræða hét um rekstur bæjarútgerða, hvorki í Hafnarfirði né annars staðar, en ég skal taka fram, að ég held, að stofnun þeirra fyrirtækja hafi verið mjög eðlileg á sínum tíma til þess að stuðla að aukinni atvinnu í viðkomandi sveitarfélögum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að ýmsar þessara bæjarútgerða hafi runnið sitt skeið til enda og það sé löngu orðið tímabært — ég skal ekki segja um Hafnfirðinga, en a. m. k. fyrir okkur Reykvíkinga — að endurskoða rekstur bæjarútgerðar okkar með það fyrir augum að breyta formi þess rekstrar. Ég vil undirstrika að gefnu tilefni, af því að þessar umr. hafa farið fram, að ég er þeirrar skoðunar, að opinber atvinnurekstur, opinber þjónusta sé nauðsynleg, þar sem aðrir geta ekki komið til skjalanna, en þörf er á atvinnurekstri eða þjónustu fyrir sveitarfélagið — fyrir borgarana á hverjum stað. En ég tel algerlega óeðlilegt, að verið sé beinlínis að stuðla að því með frv. og með löggjöf, að slíkur að stöðumunur skapist eins og ég hef hér fjallað um. Síðasti ræðumaður tók fram, að hann liti svo á, að það ætti alls staðar að gilda sama aðstaða, hver sem í hlut ætti, og ég vildi láta það verða mitt síðasta orð, að annað kemur bara ekki til greina.