16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur fjallað um þetta mál og hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þess.

Það er alkunna, að einstaklingar, sem reka atvinnufyrirtæki, geta ekki takmarkað fjárhagsábyrgð sína í sambandi við atvinnureksturinn. Í einstaklingsfyrirtækjum er ábyrgð eiganda fyrirtækisins ávallt ótakmörkuð. Hins vegar hefur íslenzkur félagaréttur eins og félagaréttur allra annarra landa viðurkennt takmarkaða ábyrgð í félögum. Til eru félög, þar sem ábyrgð er ótakmörkuð, félög með ótakmarkaða ábyrgð, en til eru einnig ýmis form fyrir takmörkun ábyrgðar í félagarekstri. Þar er algengast bæði hér og annars staðar hlutafélagsformið, þar sem fjárhagsábyrgð hluthafanna, sem eiga og reka fyrirtækið, er bundin við hlutafjárframlag þeirra.

Spurningin um takmarkaða ábyrgð í rekstri opinberra aðila hefur oftsinnis verið rædd. Að því er ríkisfyrirtæki snertir, var það löngum þannig, að ábyrgð ríkisins á rekstri eigin fyrirtækja var talin ótakmörkuð. Þó hefur ríkisvaldið talið sig sjá nauðsyn þess, að takmarka megi ábyrgð í opinberum rekstri ríkisins og um það hafa þá verið sett sérstök lög hverju sinni.

Fyrstu lög um þetta efni munu hafa verið lög um Síldarverksmiðjur ríkisins frá 1938, en í þeim lögum segir, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldum, sem verksmiðjurnar stofna til eftir árslok 1937, nema heimild sé til þess veitt af Alþ. Þarna var m. ö. o. stofnað til ríkisrekstrar, þar sem heimiluð var takmörkuð ábyrgð ríkisins á skuldbindingum þess fyrirtækis, sem ríkið rak. Annað dæmi um þetta má nefna stofnun Fiskiðjuvers ríkisins 1949, en í þeim lögum er einnig tekið fram að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldum fiskiðjuversins, nema heimild sé veitt til þess sérstaklega af Alþingi. Þó var í hvorugum lögunum gerð sú krafa, að það skyldi koma fram í heiti fyrirtækisins, að ábyrgð ríkisins á skuldbindingum þess sé takmörkuð við það fé, sem lagt hefur verið fram til fyrirtækisins.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að sveitarfélög á Íslandi reka margs konar atvinnufyrirtæki, og er það reyndar algengara hér en mun vera í nokkrum öðrum nálægum löndum, að sveitarfélög reki atvinnufyrirtæki. Ber þetta vott um það, að að ýmsu leyti sé íslenzka þjóðfélagið félagslega séð lengra á veg komið en mörg önnur nálæg þjóðfélög, því að sveitarfélög geta að sjálfsögðu gegnt mjög mikilvægu hlutverki og eðlilegu hlutverki varðandi rekstur atvinnufyrirtækja. Hingað til hefur verið litið þannig á atvinnufyrirtæki sveitarfélaga, að bak við þau hljóti að standa ótakmörkuð ábyrgð þess sveitarfélags, sem stofnsett hefur fyrirtækið og rekur það. Hingað til hafa sveitarfélög ekki átt annars kost, ef þau hafa viljað takmarka ábyrgð sína við rekstur einhvers félags, en velja því hlutafélagaformið, það stendur að sjálfsögðu áfram opið. En segja má, að löggjafinn hafi að vissu leyti auðveldað sveitarfélögum að takmarka ábyrgð sína í hlutafélagaformi með því að undanþiggja sveitarfélög, sem eru hluthafar í hlutafélagi, þeirri reglu, sem almennt annars takmarkar atkvæðisrétt hluthafa við 1/5 af heildarhlutafé. Þau ákvæði gilda ekki um sveitarfélög, ef þau eru aðili að hlutafélagi.

Hins vegar er það að ýmsu leyti mjög óeðlilegt að knýja sveitarfélög til að stofna hlutafélög, ef þau vilja takmarka ábyrgð sína. Hlutafélagaformið er hugsað sem form fyrir marga einstaklinga, sem stofna vilja til mikils atvinnurekstrar, sem krefst mikils fjár, og vilja þess vegna takmarka ábyrgð sína. Hlutafélagaformið er ekki hugsað fyrir sveitarfélög, eitt eða fleiri, í því skyni, að þau geti takmarkað ábyrgð sína, og kemur þetta fram í ýmsum atriðum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér nánar, enda virðist mér það liggja í augum uppi, að hlutafélögin eru hugsuð fyrir einstaklinga til að gera þeim kleift að takmarka ábyrgð sína, en ekki fyrir opinbera aðila.

Ef þess vegna vilji er fyrir hendi, ef menn þess vegna telja eðlilegt, að sveitarfélögin geti takmarkað ábyrgð sína við rekstur fyrirtækis, sem þau koma á fót, þá er nauðsynlegt, að um það séu sett sérstök lög, það sé heimilað í sérstökum lögum. Það er tilgangur þess frv., sem hefur verið flutt í hv. d. Efni þess er m. ö. o. það, að sveitarfélög megi takmarka ábyrgð þeirra atvinnufyrirtækja, sem þau stofna og reka sem einkaeigendur án hlutdeildar annarra. Skal þá ábyrgðin takmörkuð við það stofnfé, sem lagt er til fyrirtækisins, auk annarra framlaga og ábyrgða, sem sveitarstjórnin kann að ákveða. M. ö. o.; sams konar reglur um takmörkun ábyrgðar skulu gilda í þessum félögum eins og í hlutafélögum og félögum með takmarkaða ábyrgð, sem víða um lönd eru til, en að vísu ekki í íslenzkum félagarétti. Jafnframt eru sveitarfélögunum lagðar nokkrar skyldur á herðar í þessu sambandi, m. a. það að taka það fram í heiti félagsins, að um takmarkaða ábyrgð sé að ræða. M. ö. o., í heitinu skal vera skammstöfunin „STÁ“, þ. e. „Sveitarfélagarekstur með takmarkaðri ábyrgð“, þannig að allir viðsemjendur fyrirtækisins viti, að um takmarkaða ábyrgð af hendi sveitarfélagsins er að ræða.

Mál þetta var rætt allítarlega í hv. heilbr.- og félmn., og voru allir nm. sammála um það, að hér væri um mjög nýtilegt og gagnlegt nýmæli að ræða. Það væri sjálfsagt að auðvelda sveitarfélögum þann atvinnurekstur, sem þau hafa með höndum eða vilja stofna til, vegna þess að sveitarfélögin stofna auðvitað ekki til atvinnurekstrar, nema því aðeins, að þau telji félagslega nauðsyn á atvinnuaukningu eða þau gera það í ákveðnu þjónustu skyni við íbúa sveitarfélagsins. Og þá er sjálfsagt að auðvelda sveitarfélögunum að stofna til, slíks rekstrar, og það mundi vera gert, ef þetta frv. næði fram að ganga.

Með hliðsjón af því, að n. hefur verið sammála um afgreiðslu málsins, leyfi ég mér að vænta þess, að málið geti fengið greiðan gang gegnum þessa hv. d., komist til Ed. og verði að lögum á þessu þingi.