13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 117 er stjfrv. til laga um happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið. Frv. þetta var lagt fram í hv. Ed. og hefur nú hlotið afgreiðslu þar.

Hinn 23. marz s.l. voru afgreidd hér á hv. Alþ. lög nr. 12, en tilgangur þeirra var sá sami og þessa frv. um happdrættislán ríkissjóðs vegna brúa- og vegagerðar á Skeiðarársandi, að opna hringveg kringum landið. Skömmu eftir að ég kom í stjórnarráðið í sumar, ræddi ég við Seðlabanka Íslands um þetta mál, og þeir þm. Austf. höfðu rætt það við mig, að hraðað yrði afgreiðslu þess. Að dómi stjórnar Seðlabanka Íslands var talið óhyggilegt að framkvæma lögin, eins og þau höfðu verið samþ., vegna þess að þeir kostir, sem boðið væri upp á í útboðinu í sambandi við happdrættislánið, væru ekki svo æskilegir sem skyldi, og væri því nokkur hætta á, að sala bréfanna næðist ekki, og að þeirra ráði var horfið að því að flytja þetta frv. til þess að tryggja það, að tilgangur laganna næðist, að það fjármagn fengist, sem fyrirhugað var með upphaflega frv. Í sambandi við þá breytingu var einnig ákveðið að hækka fjárhæðina úr 200 í 250 millj. kr. og að binda endurgreiðslu höfuðstólsins vísitölu. Þá er og í þessu frv. gert ráð fyrir því, að fjmrn. ákveði, hve mikill hluti af þessu happdrættisláni verði sett á sölumarkað hverju sinni. Það var mat stjórnar Seðlabankans, að þessi leið mundi tryggja betur sölu bréfanna og það, að það fjármagn næðist, sem stefnt var að með þessu frv. Nú vil ég taka það fram, að þótt horfið hafi verið að þessu ráði, þá er ekki verið að gera lítið úr þeim, sem stóðu að frv. hér í fyrra og lagasetningunni þá, þó það hafi að yfirlögðu og athuguðu máli verið talið hyggilegra að ganga svo frá málinu, að salan væri nokkurn veginn örugg. Um þetta atriði hafði ég samráð við þm. Austf., sem, eins og ég áður greindi, höfðu rætt við mig um þetta mál og allir vita, að eru miklir áhugamenn um hringveginn, svo sem við erum allir, en þó þeir mest. Þetta frv. gekk greiðlega í gegnum hv. Ed., og ég vona, að svo verði einnig í þessari hv. d., að frv. fái hér samþykki og verði afgr. nú fyrir þinghlé. Ég held, að í því sé ekki neitt ágreiningsatriði, sem gæti haft áhrif á gang málsins.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjhn.