16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri afgreiðslu, sem þetta frv. hefur fengið í þeirri n., sem hefur haft það til meðferðar. Það er vitað, að það hefur verið áhugamál margra sveitarstjórnarmanna víða um land, að í lög yrði tekið rekstrarform, sem tryggði það, að sveitarfélög gætu rekið áhættusaman atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð á sama hátt og einstaklingsframtakið getur stofnað til áhættusams atvinnurekstrar og lagt í áhættu einungis eigið fé, sem lagt er fram til stofnunar hlutafélags.

Síðasti ræðumaður talaði um það, að slíkt form sem þetta væri út af fyrir sig alls ekki fullnægjandi fyrir slíkan rekstur, sem mundi verða rekinn undir þessu rekstrarformi, þar sem til yrðu að koma frekari ábyrgðir, sem viðkomandi sveitarfélag yrði að leggja til. Það má vel vera, að slíks væri þörf undir vissum kringumstæðum, en við sveitarstjórnarmenn þekkjum það mjög vel, að það gildir oft og tíðum það sama í þessu efni, að því er snertir einstaklingsframtakið. Það kemur oft og tíðum til sveitarfélaga og biður um fyrirgreiðslu, bæjarábyrgð og annað þess háttar til að geta lagt út í þær fjárfestingar, sem viðkomandi hlutafélög hafa áhuga á. Hefur einstaklingsframtakið, hlutafélög, fengið slíka fyrirgreiðslu sveitarfélaga undir þessum kringumstæðum. Þess vegna er það ekki á nokkurn hátt nein goðgá að láta sér detta það í hug, að slíkt rekstrarform sveitarfélaga til rekstrar fyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð fengi slíkar bæjarábyrgðir undir þeim kringumstæðum.

Ég vil taka það fram, að í bæjarstjórn Hafnarfjarðar er alger einhugur um það að vilja fá slíka löggjöf sem hér er lagt til, að verði á komið, og sá áhugi skapast einkum og sér í lagi af því, að bæjarsjóður Hafnarfjarðar rekur fyrirtæki, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, og bæjarstjórnin vill gjarnan geta komið þeim rekstri í slíkt rekstrarform, sem hér er um að ræða, ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég leyfi mér að fullyrða með tilvísun til umr., sem farið hafa fram á ýmsum vettvangi sveitarstjórnarmanna á liðnum árum, að það er áhugi á því hjá þeim, að í lög verði tekin sú hugsun, sem felst í þessu frv., sem hér er til umr.

Varðandi 6. gr. frv., þar sem segir: „Fyrirtæki stofnuð og rekin samkvæmt lögum þessum skulu undanþegin gjöldum til ríkis og sveitarfélaga samkvæmt sömu reglum og gilda á hverjum tíma um sömu atvinnustarfsemi, væri hún rekin af sveitarfélagi með ótakmarkaðri ábyrgð“, þá vildi ég aðeins vekja athygli á því, að ýmis sú starfsemi, sem rekin er með ótakmarkaðri ábyrgð á vegum sveitarfélaga, en má kallast áhættusamur atvinnurekstur, eins og t. d. bæjarútgerðir, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og Bæjarútgerð Reykjavíkur, greiða ekki gjöld til sveitarsjóðs og ríkis, og þetta ákvæði í frv. er tekið hér inn með hliðsjón af því.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. sjái sér fært að veita þessu frv. brautargengi.