22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. þm. hefur gert grein fyrir brtt. á þskj. 481 við það frv., sem hér er til umr. Þótt ég sé í rauninni andvígur efni þessarar till., hef ég skilning á þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki hennar. Ég get mjög vel sett mig inn í þann þankagang, sem er lagður til grundvallar þessari brtt. Aðalatriðið í því máli, sem hér er til umr., er það, að meginefni og hugsun þess frv., sem hér er til umr., nái fram að ganga. Það er í mínum huga aukaatriði í málinu, hvort umrædd brtt. nær fram að ganga eða ekki.

Svo sem fram kemur í frv. og komið hefur fram í umr. hér á hinu háa Alþ. um efni þess, liggur það fyrir, að sú hugsun, sem býr að baki þessu máli, miðar að því að gera sveitarfélögum kleift að starfrækja atvinnufyrirtæki í atvinnuaukningarskyni með takmarkaðri ábyrgð án þátttöku annarra og að því að takmarka fjárhagsábyrgð þeirra við ákveðið framlag sveitarsjóðs. M. ö. o. er stefnt að því, að sveitarfélögum sé gert kleift að reka þess háttar starfsemi á ekki óhagstæðari grundvelli en einstaklingar geta gert á grundvelli núgildandi laga um hlutafélög. Sú spurning hlýtur að vakna í þessu sambandi: Undir hvaða kringumstæðum skyldu nú sveitarstjórnir hér á landi leggja út í slíkan atvinnurekstur, sem hér er hafður í huga, og hvenær mundu þær nota það rekstrarform, sem hér um ræðir?

Það er mín skoðun, að sá ótti, sem fram hefur komið hjá nokkrum hv. þm. Sjálfstfl. um, að sveitarstjórnir mundu stofna til atvinnurekstrar að þarflausu og af ábyrgðarleysi með tilkomu þessa nýja rekstrarforms, sé ástæðulaus með öllu. Ég hef ekki trú á því, að sveitarstjórnir leggi út í áhættusaman atvinnurekstur, nema brýna nauðsyn beri til. Það sjónarmið, sem ræður slíkri ákvörðun hjá sveitarstjórnum, er alls ekki hagnaðarvon, eins og á sér stað, þegar einstaklingar stofna til atvinnurekstrar, heldur það að leysa úr vanda, sem skapast í atvinnumálum viðkomandi byggðarlags og erfitt reynist að leysa á annan hátt. Ég lít nefnilega svo á, að því aðeins leggi sveitarfélag út í áhættusaman atvinnurekstur, að mjög knýjandi nauðsyn beri til. Það er þannig í rauninni þjónustusjónarmið við íbúa sveitarfélagsins og annað ekki, sem ræður úrslitum hjá sveitarstjórnum, þegar þær leggja út í áhættusaman atvinnurekstur, og af því leiðir, að ekki er sanngjarnt að gera kröfur til, að fyrirtæki sveitarfélags, sem rekið er með hag íbúa viðkomandi byggðarlags fyrst og fremst fyrir augum, þ. e. í þjónustuskyni, en ekki í hagnaðarskyni, sé gert að greiða skatt af starfsemi sinni til hins opinbera. Á þessum ástæðum fyrst og fremst byggist mín afstaða til þeirrar brtt., sem hér um ræðir.

Um hlutafélög og fyrirtæki sveitarfélags með takmarkaðri ábyrgð gilda nokkuð ólík sjónarmið. Svo sem ég hef bent á, er annars vegar um að ræða fyrirtæki, sem einn opinber aðili sveitarfélags stendur að og rekið er væntanlega í atvinnuaukningar skyni fyrir íbúa sveitarfélagsins, en hins vegar er um að ræða félag einstaklinga um rekstur í ágóða skyni. Það sameiginlega er, að í báðum tilfellum er um takmörkun ábyrgðar eigenda að ræða og skuldheimtumenn hafa þörf á svipaðri vernd í báðum tilfellum eins og gert er ráð fyrir í frv. Vegna þess að þau fyrirtæki, sem stofnsett yrðu og rekin samkv. því rekstrarformi, sem lagt er til að komið verði í lög samkv. því frv., sem hér er til umr., hljóta í eðli sínu að vera þjónustufyrirtæki, svo sem ég hef bent á, er eðlilegast, að slík fyrirtæki sveitarfélaga séu undanþegin gjöldum til ríkis og sveitarfélaga, eins og á sér stað um aðra þjónustustarfsemi, sem rekin er af sveitarfélögum í þágu íbúanna. Fyrir því leyfi ég mér að vænta þess, að hv. alþm. sjái sér fært að láta 6. gr. frv. standa óbreytta, en hún er svo hljóðandi:

„Fyrirtæki stofnuð og rekin samkvæmt lögum þessum skulu undanþegin gjöldum til ríkis og sveitarfélaga samkvæmt sömu reglum og gilda á hverjum tíma um sömu atvinnustarfsemi, væri hún rekin af sveitarfélagi með ótakmarkaðri ábyrgð.“

Á hinn bóginn vil ég undirstrika mjög og leggja áherzlu á, að að mínu áliti er það algert aukaatriði í þessu máli, hvort brtt., sem hér er á þskj. 481, nær fram að ganga eða ekki. Aðalatriðið er það, að meginefni frv. nái fram að ganga, þ. e. að því verði komið í lög, að sveitarfélögum skuli heimilt að stofna með takmarkaðri ábyrgð til atvinnufyrirtækja, sem þau reka ein sem einkaeigendur án hlutdeildar annarra.