13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að leggja stein í götu þessa frv. En ég vil aðeins vekja athygli á því; að á síðasta þingi var mikill áhugi fyrir þeirri lagasetningu, sem heimilaði að gefa út happdrættisskuldabréf til þess að afla fjár í hringveginn, og mig minnir, að þau lög væru samþ. mótatkvæðalaust, a.m.k. í þessari d., og ég held einnig í hv. Ed. Það var rætt um það á milli þm., en ég held ekki í þingræðum, hvort nauðsynlegt væri að hafa heimild til að vísitölutryggja bréfin til þess að tryggja sölu þeirra, eins og sagt er, en að athuguðu máli fannst þm. ekki þörf á því, vegna þess að hér væri um mál að ræða, sem ætti hug ekki aðeins allra þm., heldur flestra landsmanna, og þess vegna mundu bréfin seljast, þótt þau væru ekki vísitölutryggð, auk þess sem hér væri um happdrættisskuldabréf að ræða og vinningar mundu gjarnan verða girnilegir, og það mundi hvetja landsmenn til þess að taka þátt í þessum kaupum ásamt því að styðja gott málefni, sem fjöldi manna hefði áhuga á.

Nú upplýsir hæstv. fjmrh., að Seðlabankinn hafi ekki talið ráðlegt að bjóða út bréfin til sölu, án þess að vísitölubinding væri með. Ég ætla ekki að gera litið úr Seðlabankanum. Þeir, sem stjórna honum, hafa vitanlega reynslu í þessu, en ég hefði haldið, að þessi happdrættisbréf mundu seljast, án þess að vísitölutryggingin væri með. Og ekki er að efa það, að heppilegra væri fyrir vegasjóð að taka lán, sem ekki væri vísitölubundið. Reynslan hefur sýnt það, að vísitölubundin lán hafa hækkað býsna mikið, og hætt er við, að svo muni einnig verða eftirleiðis.

Ég vildi nú vekja athygli á þessu. En í þessu frv. er aðeins um það að ræða að veita heimild til þess að verðtryggja skuldabréfin. Það er ekki skylt samkv. frv., og það er vitanlega á valdi hæstv. fjmrh. og þá sennilega hæstv. samgrh. einnig að meta það ásamt sínum tn., hvort þessi heimild verði notuð. Það er auðvitað alveg rétt, að tilgangslaust er að gefa út þessi bréf, ef þau ekki seljast. En ef þau seljast án vísitölutryggingar, þá er það mikið atriði fyrir vegasjóð að fá lán með þeim hætti frekar en þau séu vísitölutryggð.

Ég vil aðeins vekja athygli á þessu. Það er skoðun mín, og það var skoðun okkar allra, sem áttum sæti á Alþ. í fyrra, að bréfin mundu seljast, án þess að þau væru vísitölubundin. Ég tel svo eðlilegt að hækka heimildina, hafa 250 millj. í stað 200 millj., eins og er í lögunum, vegna þeirra hækkana, sem fram undan eru á vegagerðar- og brúagerðarkostnaði. Það veitir áreiðanlega ekkert af því.

Það var ágætt hjá hæstv. fjmrh. að hafa samráð við þm. Austf. Ekki ætla ég að gera lítið úr því. En ég vek athygli á því, að það var hv. 6. þm. Sunnl., sem kom með fsp. hér í þinginu í haust um það, hvað hefði tafið þetta mál, og ég held, að það sé enginn vafi á því, að þm. Sunnl. a.m.k. hafa mikinn áhuga fyrir þessu máli, og ég ætla flestir þm. Við Sunnlendingar höfum alveg sérstakan áhuga fyrir þessu, og ég tel það hagsmunamál fyrir Sunnlendinga, að þetta komist í kring.

Ég er ekkert að vitna í þetta, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, vegna þess að ég sé afbrýðisamur eða móðgaður út af því, að það skyldi ekki vera við okkur talað um leið og talað var við hv. þm. Austf. En ég spyr nú: Getur verið, að það hafi haft einhver áhrif á skoðun bankastjórnar Seðlabankans í þessu máli, að þeir hafi hugsað sér, að áhuginn væri aðallega á Austurlandi fyrir þessu máli? Ef svo væri, að bankastjórar Seðlabankans hafi hugsað sem svo, að áhugi fyrir þessu máli sé aðeins á Austurlandi, þá sé ekki við því að búast, að skuldabréfin seljist, nema þau séu gerð sérstaklega girnileg. Skoðun mín er, að áhuginn sé ekki aðeins á Austfjörðum og ekki heldur aðeins á Suðurlandi, heldur víða um land, hér í Reykjavík og víða um land. Og ég vil nú fara þess á leit við hæstv. fjmrh., að hann tilkynni bankastjórum Seðlabankans þetta og kanni, hvort það gæti haft nokkra breytingu í för með sér á skoðun þeirra á þessu máli. Ef bankastjórar Seðlabankans tryðu því, að það væri almennur vilji landsmanna að fá hringveginn og hraða honum sem mest, þá mætti vel vera, að þeir teldu óþarft að vísitölubinda bréfin, til þess að þau seljist.