22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel, að nokkur breyting yrði til batnaðar á frv., ef sú till., sem hér hefur verið lögð fram á þskj. 481, næði fram að ganga. Hins vegar tel ég það beztu afgreiðsluna á málinu, ef frv. yrði fellt. Ég hef gert grein fyrir því áður, hvaða ástæður liggja til þess, að ég er andvígur þeirri stefnu, sem þarna er verið að marka, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það.

Það var rétt, sem hv. 11. landsk. þm. sagði hér áðan, að það er nú hvergi í lögum neitt bann við því, að sveitarfélög geti stofnað alls konar fyrirtæki, bæði þjónustufyrirtæki og atvinnufyrirtæki. En ef þau gera það nú, bera þau ábyrgð á afleiðingum gerða sinna og verða að vera ábyrg fyrir því, ef tap verður á fyrirtækjunum. Ég hygg, að það sé einmitt þetta atriði, sem hefur dregið úr því, að sveitarfélög hafi lagt út í áhættusaman atvinnurekstur. Ég benti á það, þegar þetta frv. var síðast til umr., að þetta hefðu nokkur sveitarfélög gert, þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir hingað til landsins, en reynsla þeirra af því varð sú, að það er mjög haldið aftur af sveitarfélögunum almennt að leggja út í áhættusaman atvinnurekstur, eftir að þau höfðu flestöll orðið að taka á sig verulegar fjárhagskvaðir til þess að losna við þá nýsköpunartogara, sem þau þá festu kaup á. Mér þykir það miður, að hv. 1. flm. þessa frv. drap á það í ræðu sinni, þegar frv. var rætt hér síðast, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar væri mjög samþykk þessu frv., og hann gat þess um leið, að það mundi vera vegna Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Ég vil ekki ætla neinum manni í bæjarstjórn Hafnarfjarðar það, að hann ætli að losa sig undan skuldbindingum Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar með því að færa þá útgerð í þetta form, sem hér er rætt um, hvernig svo sem afleiðingarnar kunna að verða fyrir þá, sem hafa haft viðskipti við bæjarútgerðina og hún kann að skulda.

Hv. 1. flm. gat hér um það áðan, að það væru tvenns konar sjónarmið í sambandi við atvinnureksturinn, annars vegar atvinnulega séð fyrir byggðarlagið og hins vegar gróðasjónarmiðið. Ég skal ekki dæma um það. Ég tel mig þó hafa nokkra reynslu af því, en ég hygg, að það séu ekki margir, sem stofna atvinnufyrirtæki, t. d. í sambandi við fiskiðnað eða útgerð, sem geri sér fyrir fram háar vonir um mikinn ágóða. Reynsla undanfarinna áratuga hefur sýnt það, að þetta er mjög áhættusamur atvinnuvegur, bæði útgerð og fiskvinnsla. Ef vel hefur árað og tekjuafgangur hefur orðið, þá hygg ég, að það gildi almennt og fáar undantekningar séu frá því, að þeir, sem hafa eitthvað þénað í þessari atvinnugrein, hafa lagt þénustuna í áframhaldandi uppbyggingu. Ég þekki a. m. k. engan, sem hefur lagt út í slíkan atvinnurekstur og haft upp úr því stórar fjárhæðir í peningum, þannig að einmitt atvinnurekstur frá því sjónarmiði hefur orðið til þess að byggja upp fyrirtækin og stækka þau og orðið til þess að efla atvinnu í bænum og standa undir gjöldum til sveitarsjóða og ríkisins. Ég tel það miklu heilbrigðara form en það að vera að hvetja sveitarfélögin beinlínis til þess- því að það er gert með þessu frv. — að leggja út í alls konar atvinnurekstur, án þess að þau þurfi að vera ábyrg fyrir afkomunni og án þess að þau þurfi að borga nokkuð í opinbera skatta, hvorki til sveitarfélags né ríkisins. Það tel ég vera megingalla þessa frv. og hef þess vegna tekið afstöðu gegn því og mun greiða atkvæði gegn því, þegar það kemur til atkvgr.

Ég benti á það hér, þegar ég ræddi þetta frv. síðast, að það er mjög svipað ástand núna víða og var, þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir til landsins. Nú er verið að kaupa allmikinn fjölda af nýjum togurum, skuttogurum. Þ. á m. eru þó nokkur sveitarfélög, sem ætla sér að festa kaup á þessum togurum. Mér er tjáð, að sum þeirra séu ekki fjársterkari en það, að þau þurfi að fá verulega fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði og jafnvel Atvinnuleysistryggingasjóði einnig til þess að geta náð tökum á skuttogara, og ef þeim á svo að gefast kostur á því að leggja kannske fram, ég vil nú ekki nefna 100 þús. kr., eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að sé lágmarkið, heldur einhverja hærri upphæð, og vera síðan laus allra mála, þá tel ég það ekki atvinnurekstrarform, sem sé til uppbyggingar, hvorki fyrir það sveitarfélag, sem þarna á í hlut, né fyrir þjóðina í heild.