22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í sambandi við frv. á þskj. 17 og brtt. þá, sem er á þskj. 481, vil ég vekja athygli á því, að hér er um allmikla breytingu að ræða frá því, sem áður hefur verið í sambandi við rekstur sveitarfélaga. Og það, sem hefur verið einkennandi fyrir rekstur sveitarfélaga í atvinnurekstri, er það, að þar hefur venjulega verið um takmarkalausa ábyrgð af hendi sveitarfélagsins að ræða. Með þessu formi, sem hér er lagt til, verður mikil breyting, en með þeirri breytingu, sem hér er lögð til. er þó horfið mikið frá þeirri leið, sem áður hefur verið farin, þ. e. að fyrirtækjum sveitarfélaga væri með þeim hætti fyrir komið, að í flestum tilfellum væri þar um fulla ábyrgð af hendi þess að ræða. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er till. á þskj. 481.

Ég vil vekja athygli á því, að með skattalögunum og tekjustofnalögunum, sem hv. Alþ. hefur nýlega afgreitt, hefur verið lengra gengið inn á þá braut en áður hefur verið gert í því, að opinberir aðilar eins og ríki og bæjarfélög eigi að greiða skatta af þeim fyrirtækjum, sem þar eru rekin. Og nú var t. d. í fyrsta sinn ákveðið, að bankar landsins skyldu verða skattgreiðendur með vissum hætti, sem ekki hefur verið áður. Ef slík fyrirtæki sem þessi ættu að njóta algers skattfrelsis eins og hér er gert ráð fyrir í frv., þá væri það spor aftur á bak, þar sem enn þá lengra væri gengið í skattfrelsi en við höfum búið við í sambandi við fyrirtæki, sem sveitarfélög og ríki hafa staðið að, svo að ef á að gera þá breytingu eins og hér er lagt til með þessu frv., er það að minni hyggju alveg óhugsandi, að slík fyrirtæki gætu notið skattfríðinda.

Þess vegna vildi ég mæla með samþykkt till. á þskj. 481, því að með þeim hætti sitja þó þessi fyrirtæki við sama borð og hliðstæð fyrirtæki önnur í byggðarlaginu, en njóta ekki þeirra forréttinda, sem opinber fyrirtæki hafa áður notið, og mér fyndist það fráleitt, að þau nytu þess, eftir að ábyrgðin væri frá þeim tekin eins og hér er lagt til, því að hér er aðeins um takmarkaða ábyrgð að ræða. Ég verð því að segja það, að ég tel, að það orki nokkuð tvímælis, hvort þessu frv. hér á þskj. 17 eigi að beina inn á þessa braut, en ef það verður gert, verður skattgreiðsla slíkra fyrirtækja að vera með sama hætti og annarra fyrirtækja. Þau geta ekki verið undanþegin skatti, eins og lagt er til í frv., og því mæli ég með samþykkt till. á þskj. 481.