01.03.1972
Efri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. meiri 61. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Landbn. Ed. hefur haft til meðferðar frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Holt í Dyrhólahreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, 112. mál, þskj. 135, er vísað var til n. eftir 1. umr. um málið. Frv. þetta er flutt af Birni Fr. Björnssyni og er þannig:

„1. gr. Ríkisstj. er heimilt að selja Jóhönnu Sæmundsdóttur, Nykhól, Dyrhólahreppi, eyðijörðina Holt í sama hreppl. Verð jarðarinnar fer eftir því, sem um semst. Náist ekki samkomulag um kaupverðið, skal það ákveðið með mati dómkvaddra manna.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í grg. flm. með þessu frv. kemur fram, að þetta frv. hefur legið fyrir Alþ. 5 ár í röð, án þess að fá endanlega afgreiðslu. M. a. hefur það verið tvívegis samþ. í Ed., en jafnoft dagað uppi í Nd. Það sýnist því kominn tími til, að úr þessu verði skorið með þinglegum hætti, hver sé vilji Alþ. um framgang þessa máls.

Samkv. tilmælum 3. þm. Sunnl. á fundi n. 14. des. 1971 var landbrn. send till. til umsagnar með ákveðinni ósk um, að svör bærust fyrir jól. Ekkert svar hafði borizt frá rn., er n. hélt lokafund sinn um málið 23. febr. s. l. Er því eðlilegt að álykta, að rn. hafi ekki áhuga á máli þessu.

Landbn. varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Einn nm., Jón Ármann Héðinsson, sat ekki síðari fund n. um málið, en hefur skrifað undir álit minni hl. n. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ., sbr. þskj. 363. Er það álit í fullu samræmi við þá heildarstefnu, sem Alþ. hefur markað nú hin síðari ár í jarðasölumálum, þ. e. að selja eyðijarðir í eigu ríkissjóðs, sé óskað eftir kaupum. Verður að telja í alla staði óeðlilega þá afstöðu, sem til þessa hefur komið fram hér á Alþ. að koma í veg fyrir sölu þessarar eyðijarðar, Holts, svo sem hin fræga saga þessa máls s. l. 5 ár sýnir, þótt það sé staðreynd, að þessi eyðijörð er harla lítils virði fyrir ríkissjóð og ríkistekjur. Ég tel afgerandi fyrir þetta mál. að fyrir liggur skýlaus yfirlýsing viðkomandi sveitarstjórnar, þ. e. a. s. Dyrhólahrepps, dags. 24/10 1970, sem mælir einróma með sölu jarðarinnar, sbr. fskj. II með frv. Á þetta atriði vil ég leggja sérstaka áherzlu, þar sem ég tel, að viðkomandi sveitarstjórnir eigi að hafa mest að segja um slík jarðakaupamál innan sveitarinnar, ekki sízt þegar álit þeirra er einróma, eins og hér liggur fyrir. Ég leyfi mér að telja það fyrir neðan virðingu Alþ. að láta þetta mál daga uppi einu sinni enn. Þess vegna treysti ég því, að meiri hl. sé fyrir hendi hjá hv. Alþ. að samþykkja frv.

Ég endurtek, ef marka má þá stefnu Alþ. í sölu eyðijarða í eigu ríkisins, sem nær undantekningarlaust hafa verið einróma samþykktar til sölu, bæði til einstaklinga og sveitarfélaga, þá skora ég á hv. þd. að samþykkja frv. þetta um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Holt í Dyrhólahreppi, eins og meiri hl. landbn. leggur til.