01.03.1972
Efri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég hygg, að hv. 6. þm. Sunnl. sé vart sjálfrátt, þegar virtur er hinn mikli ákafi hans fyrir því að leggja hina ágætu stórjörð Holt í Dyrhólahreppi í eyði. Og það er ekki aðeins nú, sem þessi ákafi hans sýnir sig, heldur hefur hann komið oftar fram. Og við, sem eldri erum hér í þessari d., í raun og veru þekkjum ekki aðeins þennan áhuga hans og fleiri, heldur málið allt í heild. Það er fyrir þá, sem síðar eru komnir í d. og kannske má álíta að hafi ekki fylgzt með þessu máli, að nokkurra skýringa þyrfti við. En ég hygg, að það, sem er kjarni máls, hafi komið fram fyrst og fremst í grg. fyrir því frv., sem hér er til umr., og svo í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. landbn.

Það eru að vísu nokkur stórveldi, sem hafa gefið sig fram til aðstoðar við þá hv. þm., sem mælt hafa gegn framgangi þessa máls, og hafa þeir verið tilnefndir. Það er landnámsstjóri og svo að sjálfsögðu rn. sjálft. Bréf kom frá rn., sem er harla síðbúið, ritað 28. og kom í hendur n. 29. febr. eða 1. marz, og gat að sjálfsögðu ekki komið til álita, þegar n. afgreiddi málið. En þetta bréf er nú þess eðlis, að sams konar efni hefur legið hérna fyrir, og er ekkert nýtt í þessu erindi rn. til landbn. Ég vil leyfa mér í örstuttu máli að taka fram aðeins örfá atriði.

Ríkissjóður bíður hnekki mikinn við sölu þessarar jarðar, segir minni hl. landbn. Ábúandinn í Álftagróf, sem setið hefur jörðina um 40 ára skeið, fer brott, ef af sölu jarðarinnar Holts verður, og ríkissjóður verður að greiða fyrir hús og önnur mannvirki, sem ábúandinn á á þessari jörð. Að sjálfsögðu eru orð ábúandans, sem koma fram í margnefndu bréfi rn., sem var lesið hér upp áðan, ekkert annað en fullkomin hótun við ríkisvaldið og eiganda jarðarinnar Álftagrófar, og eðlilega á ekki að taka nein mið af slíkri hótun, sízt í máli eins og þessu, sem er að sjálfsögðu fremur lítið mál að kalla, en er orðið stórvægilegt mál og raunar eitt af meiri háttar deilumálum á þingi og hefur verið undanfarin ár, eins og við vitum. Þessa hótun af hálfu ábúandans í Álftagróf á ekki að taka til athugunar eða hafa nein mið af henni, eins og ég sagði áðan. Auðvitað getur bóndinn í Álftagróf, sem er kominn nokkuð til ára sinna, hætt búskap hvenær sem er, og um leið getur hann fengið og skyldað ríkið til þess að kaupa húseignir og önnur mannvirki. Hann getur gert það hvenær sem er, hvernig sem fer um jörðina Holt, þannig að þetta er mjög lítilvægt.

Þá er talað um það, að heiðar- og beitilönd yrðu nánast upp urin eða a. m. k. þannig með farin, að bóndinn í Álftagróf geti ekki lengur stundað beit fyrir búfé sitt á annarra landi. Það hefur nú ekki þótt og sízt á síðari árum mikið til þess koma, að einn bóndi hafi skefjalausan rétt eða tök á að beita annarra manna lönd. Og ég veit, að hv. 6. þm. Sunnl. þekkir slík mál frá upphafi til enda og allt þar á milli. Þess vegna er þetta mjög lítilvægt. Það er ekki hægt að skipta beitar- eða heiðarlöndum. Hvað þýðir það? Það þýðir það, að Álftagrófarábúandinn getur bara haldið áfram að beita þessi sömu lönd. Og þetta atriði einmitt, að það er ekki hægt að girða þessi mikilvægu heiðalönd Holts, gerir það að verkum, að það er vel búandi áfram á Álftagrófinni. Ég sé ekki betur. Enda er það mála sannast, að sá ágæti maður, sem ég þekki vel og að öllu góðu, bóndinn í Álftagróf, hann er einn af betri bændum ekki aðeins í sínum hreppi, heldur um alla sýsluna. Og ég man eftir því, að það var viðtal við hann í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum — ég ætlaði nú að lesa hluta úr því, en ég gat ekki náð í blaðið nægilega snemma — og eins viðtal við tengdason hans, að ég hygg, sem býr á jörðinni, sem er hinum megin við Álftagróf, þ. e. a. s. tengdamennirnir búa sitt hvorum megin, og Holt er þar á milli. Það kemur fram í þessu viðtali, að honum hafi mjög vel farnazt þarna í Álftagróf á alla lund og enginn ágreiningur hafi verið milli Holtsmanna og Álftagrófar alla þessa tíð. Þetta gefur okkur í skyn, að ekki sé líklegt, að ágreiningur verði uppi, þó að Holt verði selt, ágreiningur verði uppi með Álftagrófarmönnum og Holtsmönnum, og það er engin ástæða til þess að ætla, að svo verði. Sambeit þarna á þessum miklu heiðalöndum mundi halda áfram eins og ekkert hefði í skorizt. Um það þarf ekki að deila. Hver er þá undirrótin að þeirri andspyrnu, sem hefur verið gegn framgangi þessa máls? Skyldi það nú ekki vera, að tengdafólkið, annars vegar í Álftagróf og hins vegar á Felli, telji hagsmunum sínum betur borgið eftir en áður, ef Holtið yrði eyðijörð áfram og ég tala ekki um, ef enginn kæmi nærri þeirri jörð? Þetta er ákaflega mannlegt og liggur nærri að álykta, að sé hinn rétti undirtónn þessa máls. En ég hygg, að það séu fleiri en ég af þm. hálfu, sem telja þetta eiga að vera úrslitaatriði um framgang málsins.

Nú er það kunnugt eða ég hygg, að það sé rétt hjá mér, að Holt er að fornu mati mun stærri jörð heldur en Fellið annars vegar og Álftagrófin hins vegar, þó að báðar þær jarðir sitt hvorum megin við Holt séu mjög dýrar í mati og á þeim jörðum hafi alla tíð verið vel búið. Og meira að segja var Fell prestssetur um langa hríð. Ég man ekki, hvort þar var kirkjustaður. Ef vandkvæði einhver væru á að selja jörðina af hálfu ríkissjóðs frú Jóhönnu Sæmundsdóttur að því er varðaði hættu fyrir ríkissjóð, að ríkissjóður þyrfti að greiða skaðabætur, ef Klifandi rynni nú aftur yfir löndin með því, sem slíku mundi fylgja, aur og leðju, þá hygg ég, að það væri hægt og einfalt að setja inn í afsal, þegar að því kæmi, ákvæði, sem gæti varnað því, að ríkissjóður yrði fyrir fjárhagslegu tjóni af þeirri sök, þannig að þann brunn má hæglega byrgja.

Ég hygg nú, að hreppsnefndin í Dyrhólahreppi, sem skipuð er 5 úrvalsmönnum, sé mun líklegri til þess að gæta hagsmuna sveitarfélagsins heldur en okkur þm. hér er unnt. Þó að við værum allir af vilja gerðir, hygg ég, að hreppsnefndin mundi bezt geta sinnt því hlutverki. Og hún hefur látið álit sitt í ljós á þá lund einróma, að jörðin Holt verði látin af hendi af hálfu ríkissjóðs til frú Jóhönnu Sæmundsdóttur. Og það má geta þess, að í síðustu hreppsnefndarkosningum var Holtsmálið eitt af höfuðmálum í sambandi við kosninguna. Það er vitað bæði innan þess hrepps og utan og ekki síður vegna þeirra úrslita, sem urðu úr þeirri kosningabaráttu. Gefur það enn frekar auga leið, hvert við eigum að stefna, þegar við greiðum atkv. um þetta mál.

Það getur vel verið, að það séu fleiri undirtónar þessa máls en ég hef getið um, en ég ætla mér ekki að fara út í þau efni, enda tel ég varla ástæðu til þess. En lokaorð mín eru þau, að hagsmunir ríkissjóðs eru engan veginn í neinni hættu, enda hefur það verið venja hér á hv. Alþ., að jarðasölur úr hendi ríkissjóðs hafa átt greiðan gang um báðar deildir þingsins og yfirleitt ekki mætt neinni andstöðu að kalla af hálfu neins þm.

Þetta virðist vera orðið dálítið pólitískt mál, og það er nú oft svona um minni málin, sem við teljum svo, þurfa ekki að vera lítil, að þau geta orðið að stórum og verða það, þegar fer að hlaðast utan á þau. Og ég hygg, að svo gegni um þetta mál. En fyrst alls og síðast er þetta réttlætismál að fólk fái aftur eignarhald á jörð, jörð, sem þetta sama fólk er tengt mjög sterkum böndum, og slíka aðstöðu eigum við Íslendingar vel að þekkja og við eigum líka að kunna að meta það. Og það er það manneskjulega í þessu máli, sem er kannske fremst alls og á að íhuga, þegar þetta mál er virt.