01.03.1972
Efri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð í viðbót við það, sem ég hef áður sagt um þetta mál, en ég kem hér upp í stólinn aðeins vegna þess, að ég verð að segja, að mér sýnist það vera dálítið undarlega farið með staðreyndir í málinu, þegar það er talið vera rök, sem réttlæti sölu á jörðinni Holti, að tengdafólkinu í Álftagróf og Felli þyki á sig gengið og það sé verið að verja það sérstaklega með þessum hætti. Það má vel vera, að það megi lesa það út úr því, að svo sé, en eins og ég lagði höfuðáherzlu á áðan í ræðu minni, þá er það vitað, að þessar jarðir hafa þá afstöðu hver við aðra, að það eru langeðlilegustu eignarhöldin, að þær séu í einni eign. Og þó að talað sé þarna um allstórar jarðir, þá held ég, að það sé yfirleitt vitað mál, að í Mýrdal er frekar landþröngt. Þessar jarðir eru að fornu mati eitthvað um 1400 hvor jörð. Það þættu ekki alls staðar stórar jarðir, og við þekkjum það, að í slíku þröngbýli er miklu erfiðara um skipti fólksins og not landsins heldur en annars staðar er.

Ég gat um það í fyrri ræðu minni einnig, að afstaða hreppsnefndar til þessara sölumála hefði verið tvenns lags og hefði þar orðið breyting á við kosningarnar 1970. Hv. 4. þm. Sunnl. staðfesti það, að þetta mundi vera rétt, þar sem hann sagði, að kosningarnar mundu hafa snúizt um Holtsmálið, og má telja með ólíkindum, að slík mál skuli hafa getað ráðið úrslitum við kosningar til sveitarstjórnar.

Ég ætla mér ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta málefni. Ég hygg, að ég hafi gert mönnum ljósa þá þætti, sem eru þess valdandi, að við í minni hl. leggjum til, að frv. verði fellt og salan verði ekki leyfð, og ég efast ekki um það, að alþm. í þessari hv. d. leitast við að haga atkv. sínu í samræmi við það, sem þeim þyki sannast og réttast í því efni.

Ég vil að endingu ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að það sé tryggt, að því fólki, sem nú býr í Nikhól, en sækist eftir að fá keypta eyðijörðina Holt, því hefur verið heitið afnotum af jörðinni með sama hætti og verið hefur, og ég hygg, að það ætti að vera fullnægjandi til þess að tryggja afnot þess í þeirri búskaparaðstöðu, sem það hefur nú.