13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú ekki hljóðs til að leggja dóm á það, hvorir hefðu meiri áhuga á þessu máli, hv. þm. Austf. eða hv. þm. Sunnl., og læt mig það ekki miklu skipta, hvorir meiri áhugann hafa. Hitt veit ég, að velflestir landsmenn hafa á því mikinn áhuga, að þjóðvegakerfi landsins í heild verði upp byggt, þannig að Ísland haldi ekki áfram að vera það vanþróaða land í vegamálum, sem það er. Ég tel þetta mál merkilegt, bæði vegna þess að þarna er fundin leið til þess að koma upp sérstöku vegamannvirki og einnig vegna hins, að vera má, að þarna sé vísir að almennri fjáröflunarleið til uppbyggingar þjóðvegakerfisins, sem ég tel náttúrlega enn stærra mál.

Ég kvaddi mér hljóðs aðallega vegna ummæla hv. 1. þm. Sunnl., þar sem hann lét einhver orð falla um það, að það gæti orðið dýrt fyrir vegasjóðinn að vísitölubinda skuldabréfin. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að það sé ríkissjóður, sem gefi út þessi skuldabréf og greiði bæði vinningana og vexti og afborganir af þessum lánum, en ekki vegasjóður. Það finnst mér skipta mjög miklu, og ef það væri á annan veg og hér væri verið að leggja alveg sérstaka byrði á vegasjóð, þá mundi ég hugsa mig betur um, áður en mál þetta verður endanlega afgreitt.