24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. meiri hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. Það hefur áður verið flutt á 4 þingum og er því gamall kunningi hér á Alþ., en hefur aldrei náð samþykki. Er það nokkuð óvenjulegt um jarðasölufrv., því að sú hefur verið stefna Alþ. fram að þessu, að jarðir ættu fyrst og fremst að vera í eign bænda og sveitarfélaga.

Jörð sú, sem hér um ræðir, Holt í Dyrhólahreppi, var í eign og ábúð Þorsteins Einarssonar bónda þar til árið 1936, að ríkið keypti hana, vegna þess að fyrirhleðslur, sem ríkið gerði til þess að veita saman í einn farveg ánum Klifandi og Hafursá, voru taldar líklegar til þess að spilla svo Holtslandi, að þar yrði lítt eða ekki byggilegt. 36 ára reynsla af þessum framkvæmdum hefur hins vegar sýnt, að sá ótti var ástæðulaus. Ekkja Þorsteins Einarssonar hefur lífstíðarábúð á jörðinni, og hefur sonur hennar, Hörður Þorsteinsson bóndi á Nikhól í Dyrhólahreppi, mikill dugnaðarbóndi, sem ekki fær notið athafnasemi sinnar á smábýlinu Nikhól, haft afnot af Holti. En ef hann missti þessi afnot, þá væri búskap hans stefnt í hættu. Yrði það honum og sveitarfélaginu óbætanlegur skaði. Samkv. öllum venjum um jarðasölu ríkisins á Jóhanna Sæmundsdóttir, ekkja Þorsteins Einarssonar, sem bæði var eigandi og ábúandi Holts, fullan rétt á því að fá jörðina keypta og þarf ég ekki að færa frekari rök fyrir því en þau, sem þegar eru fram komin í þessu máli.

Þeir, sem beita andófi í þessu máli, hafa haft þau rök á oddi, að ríkið eigi jarðir sitt hvorum megin við Holtsland. Er þar annars vegar um að ræða hið forna höfuðból, Fell, sem var lengi prestssetur, en er nú í eyði, og hins vegar jörðina Álftagróf með eyðibýlinu Keldudal, en Álftagróf er setin af góðum bónda. Ég get enga ástæðu séð til þess, að ríkið þurfi endilega að eiga allar þessar jarðir fremur nú, þegar Fell er komið í eyði, heldur en áður, meðan Fell var í byggð. Ekki heyrðist þá getið um neina árekstra milli ábúenda þarna á þessum jörðum, og ég veit ekki til þess, að um neitt slíkt sé að ræða heldur nú. Hreppsnefndin í Dyrhólahreppi hefur sent einróma meðmæli sín með því, að Jóhanna Sæmundsdóttir fái að kaupa Holt og tryggja þannig, að þessi gamla ættarjörð komist á sínum tíma í eign niðja hennar og Þorsteins Einarssonar.

Ég tel, að síðan ég kom á þing, hafi fá eða engin, ég hugsa engin, jarðasölufrv. átt meiri rétt á því að ná fram að ganga heldur en þetta frv. Og þess vegna vona ég núna, að það fái góðan byr gegnum þessa hv. d. eins og það fékk í gegnum Ed.

Landbn. hefur haft frv. til athugunar. Meiri hl. n., 5 af 7 nm., mælir með samþykkt þess, og er álit n. prentað á þskj. 588. Minni hl., 2 nm., hefur gefið út sérstakt minnihlutaálit og mun minni hl. gera grein fyrir sinni skoðun í málinu.