24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. minni hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. n., þá er frv. þetta ekki nýr gestur hér í þingsölum. og áður hefur það verið flutt á a. m. k. 4 þingum. Frv. varð eigi útrætt fyrr en á síðasta Alþ., en þá var það fellt í hv. Ed. Það er því ekki rétt, sem hv. frsm. sagði, að frv. þetta hafi ekki hlotið afgreiðslu hér á þingi áður. Þetta ranghermi er einnig í grg. frv. og í fskj. með frv.

Það er út af fyrir sig nýlunda, að jarðarsölumál skuli valda deilum í Alþ. og vera flutt þing eftir þing til þess að freista þess að fá það samþykkt. Yfirleitt er það svo með mál sem þetta, að þau mál eru einföld og hafa þótt sjálfsögð, ef ekki eru sérstakir meinbugir á. Nauðsynlegar forsendur hafa þó jafnan þótt þurfa að vera fyrir hendi til þess að slík frv. væru samþykkt. Ber þar fyrst að nefna, að samstaða sé um málin heima fyrir. Í annan stað, að fyrir liggi meðmæli jarðeignadeildar ríkisins, og í þriðja lagi, að berist jákvæð umsögn Landnáms ríkisins. Þessar þrjár meginforsendur hafa jafnan verið hafðar í huga og höfð hliðsjón af þeim við afgreiðslu slíkra mála hér á hv. Alþ.

Nú er það svo með það frv., sem hér liggur fyrir, að að þessu sinni liggur fyrir einróma álit viðkomandi sveitarstjórnar, þar sem mælt er með sölu jarðarinnar. Þetta hefur ekki gerzt áður og hafði fyrr á þingum þegar þetta mál var á dagskrá, verið ýmist neikvætt eða klofið álit sveitarstjórnar.

Þá fylgir hér með prentað sem fskj. með nál. okkar minni hl. n. álit landbrn., undirritað af Sveinbirni Dagfinnssyni, þar sem mælt er gegn sölu, en jarðeignadeildin hefur jafnan mælt gegn sölu þessarar jarðar. Það verða að teljast glöp hjá okkur í hv. landbn., og á ég þar ekki síður sök en aðrir nm., að hafa hér ekki á takteinum nýtt álit frá Landnámi ríkisins. Að vísu liggur fyrir gamalt álit frá fyrrv. landnámsstjóra, en að þessu sinni var kannske meiri ástæða en nokkru sinni áður til þess að leita eftir áliti þessarar stofnunar, vegna þess að á síðasta ári voru samþ. ný lög um Landnám ríkisins undir lagabálknum um Stofnlánadeild landbúnaðarins o. fl. Í þessum nýju lögum er breytt um stefnu í þeim málum, er snerta starfssvið Landnáms ríkisins, að verulegu leyti. Það er horfið frá þeirri landskiptastefnu og smábýlastefnu, sem áður hafði gilt, og horfið að því meginmarkmiði að freista þess að haga svo gerðum, að það megi verða til þess að treysta byggðina og vinna þá fremur að því að sameina jarðir en sundra þeim til þess að búseta megi verða sem öruggust og traustust. Þetta er megintónninn í hinum nýju lögum um Landnám ríkisins.

Í þessum nýju lögum er Landnámi ríkisins fengið það verksvið í hendur að koma á skipulagi í sveitum, sem miði að þessu markmiði. Í sambandi við eyðijarðir er þar einnig kveðið svo á, að samþykki Landnáms ríkisins þurfi til þess að eyðijörð skuli endurbyggð eða að eyðijörð, sem endurbyggð er, nýtur ekki framlaga og lána úr Stofnlánadeild landbúnaðarins nema til komi samþykki Landnámsins. Enn fremur er þar lagt á herðar Landnáms ríkisins og landnámsstjórnar að meta það, hvort það hafi æskileg áhrif á viðkomandi byggðarlag að sala jarðar fari fram, hvort hún verði endurbyggð að nýju eða hvort hún skuli sameinuð nágrannajörð eða nágrannajörðum. Þessi stefnubreyting í lagakaflanum um Landnám ríkisins er vissulega þess eðlis, að ástæða hefði verið til að taka hana til nánari athugunar í sambandi við þetta mál og leita eftir umsögn Landnáms ríkisins um það að nýju.

Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. n. gat um, að n. varð eigi sammála um þetta mál. og svo hefur verið á öllum þeim þingum, sem það hefur verið flutt á, að eigi hefur verið samstaða um málið. En hvað er það þá, sem liggur til grundvallar því, að þessi samstaða hefur ekki tekizt og við tveir þm. eða ég ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. höfum séð ástæðu til þess að leggja til. að frv. þetta verði fellt?

Svo hagar til á þessum stað, að hér er um samliggjandi þrjár ríkisjarðir að ræða. Á einni jörðinni er búið og eftir því, sem ég bezt veit, munu þar vera tveir ábúendur, sem jafnframt hafa ábúð á jörðinni Felli, sem einnig er í þessari torfu. Eyðijörðin Holt liggur á milli þessara tveggja jarða, og ef um sölu hennar yrði að ræða, væri rekinn fleygur í þetta land, þannig að það yrði klofið í sundur. Þó er sagt að vísu, að þessu landi sé svo hagað, að eigi sé unnt að koma við eðlilegum landskiptum á beitilandi jarðanna, sem er sameiginlegt, og það megi eigi með girðingu skilja það í sundur, svo að með eðlilegum hætti sé. Það er því ljóst, að það er óhyggilegt að selja þennan fleyg úr þessari þriggja jarða torfu, sem þarna er sameiginleg. Hv. frsm. meiri hl. n. gat þess, að á jörðinni Nikhól, sem er nokkuð fjarri þessum jörðum, búi sonur Jóhönnu Sæmundsdóttur, Hörður Þorsteinsson, og sé mikill dugnaðarbóndi. Ekki skal kastað rýrð á dugnað þessa manns eða búumsvif hans. En þau mæðgin hafa haft afnot af eyðijörðinni Holti síðan hún var seld ríkinu. Þessara afnota eiga þessi mæðgin kost áfram með leigusamningi, og þarf því ekki að raska búrekstraraðstöðu þessa manns, þó svo að frv. þetta verði fellt.

Það er hins vegar svo, að ef þarna yrði um sölu að ræða og landskipti með öllum þeim annmörkum, sem lýst hefur verið á framkvæmd þeirra, þá má búast við, að það geti leitt til þess að skerða verulega búrekstraraðstöðu þeirra manna, sem búa á nágrannajörðinni Álftagróf. Ég hygg því, að það séu engin tvímæli á því, að ef leitað hefði verið eftir áliti Landnáms ríkisins í þessu máli, þá hefði það í samræmi við nýsett lög frá Alþ. 1971 mælt gegn því, að þessi sala fari fram. Enn er þó tækifæri á milli 2. og 3. umr. að leita eftir því, hvernig sú umsögn mundi hljóða, og þætti mér ástæða til þess, að það yrði gert, ef frv. verður ekki þegar fellt hér við 2. umr.

Mál þetta, sem svo lengi hefur verið að velkjast hér í þingsölum, hefur verið sótt af óvenjulegu harðfylgi af hálfu annarra aðila. Nú skal því ekki hallmælt, þó að þeir menn, sem sækja þurfa mál til Alþ., reyni að hafa áhrif á, að þau fái þann framgang, sem þeim þykir sér henta. Hins vegar er það svo, að hv. alþm. hljóta og verða að halda sjálfstæði sínu fyrir slíkri ásókn og meta mál af fullri skynsemi eftir því, sem þeim þykir, að sé sannsýnilegt hverju sinni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta mál frekar, svo kunnugt sem það er. En ég tel, að það sé óhyggilegt frá búrekstrarsjónarmiði þessara jarða, sem þarna eiga hlut að máli, að þetta frv. verði samþykkt. Ég vitna til þess, að í umsögn Sveinbjörns Dagfinnssonar er sagt, að telja verði, að jarðeiganda, sem í þessu tilliti er jarðeignadeild ríkisins, beri skylda til að taka tillit til hagsmuna ábúandans í Álftagróf, sem þar hefur dvalið allan sinn aldur og rekið búskap í hartnær 40 ár. Og það er jafnframt augljóst, að jarðeigandi, sem á þrjár samliggjandi jarðir, verður að haga svo sínum gerðum, að það bitni ekki á þeim, sem býr á hluta af þessum jarðeignum.

Hv. frsm. meiri hl. n. sagði það réttilega, að það hefði á undangengnum árum verið svo, að flest jarðasölufrv. hefðu fengið jákvæða afgreiðslu. Það er einnig mín skoðun, að svo eigi fram að halda. Það er mín skoðun, að svo bezt sé hagur bænda tryggður, þeirra, sem nytja landið og búa á því, að þeir eigi eignarhald á því sömuleiðis. En það á ekki að gerast í þeim tilvikum, þegar sérstakir meinbugir eru á sölu slíkra jarða, svo sem þeirrar, er hér um ræðir. Með hliðsjón af því, sem ég hef hér að framan rakið, þá legg ég til fyrir hönd minni hl. n., að frv. verði fellt.