24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. minni hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem þegar er. Það voru þó örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Sunnl. Hann taldi, að þm. ættu ekki að móta skoðanir sínar í samræmi við umsagnir, sem berast um mál, og ég tel rétt að taka það skýrt fram af minni hálfu, að vitaskuld móta þm. ekki skoðanir sínar einvörðungu í samræmi við umsagnir, enda umsagnir ekki alltaf samhljóða. Ég geri ráð fyrir því, að flestir líti svo á, að hér sé um smámál að ræða. Um slíkt smámál, eins og sölu á einni eyðijörð, hafa þær umsagnir, sem leitað er eftir, verulegt gildi. Þar er ekki verið að tala um almenna skoðun viðkomandi þm. á því, hvort skuli selja jarðeignir ríkisins eða ekki. Við höfum báðir tekið það fram, ég og hv. 2. þm. Sunnl., að við teljum það eðlilega þróun og jákvæða fyrir landbúnaðinn í heild, að bændur skuli almennt eiga jarðir sínar. En þegar um einstakt tilvik er að ræða, þá skiptir nokkuð miklu máli, að umsagnir þær, sem berast frá þeim stofnunum, sem kanna þessi mál sérstaklega, séu jákvæðar, ef maður vill samþykkja viðkomandi frv.

Hv. þm. sagði, að með því að selja þessa jörð væri verið að styrkja búskap á Nikhól. Því hefur þegar verið lýst, að Jóhanna Sæmundsdóttir hefur lífstíðarábúð á þessari jörð, og því hefur einnig verið lýst, að sonur hennar Hörður muni geta fengið hana til ábúðar. Þetta er því ekki alls kostar rétt. En þá þótti nú hv. þm. heldur slá í baklás fyrir mér, þegar ég taldi, að með þessu háttalagi kynni að skerðast búrekstraraðstaða í Álftagróf. En svo er, að ef jarðeignadeild ríkisins á jörðina áfram, getur landsdrottinn haft hemil á því, að ekki sé of sett í landi Holts, sem er óskipt frá landi Álftagrófar. Sé hins vegar um sölu að ræða, þá er enginn landsdrottinn, sem getur haft vald á þessu. Það er þetta atriði, sem einkanlega er haft í huga, þegar til þess er horft, að með sölu þessarar jarðar kunni að skerðast búrekstraraðstaða þeirra Álftagrófarbænda. (Gripið fram í.) Eftir því, sem segir í umsögn jarðeignadeildar ríkisins, er það svo torvelt verkefni, að það sé nær ógerlegt.

Mér þótti gaman að heyra hv. 2. þm. Sunnl. tala hvað eftir annað um jörðina Keldudal. Þetta býli hefði ég ánægju af að fá vitneskju um, hvenær þar hefur verið búið. Ég hygg, að það sé nokkuð langt síðan og ég hefði einnig gaman af að fá upplýsingar um það, hvað þetta býli, sem hv. frsm. meiri hl. n. nefnir Keldudal, sé stór jörð. Ég hygg, að hér sé um slíkt smákot að ræða, að ekki taki því að nefna það í þessu sambandi. En hv. frsm. meiri hl. talar um það hvað eftir annað eins og þarna sé um þýðingarmikla jörð að ræða, sem þeir Álftagrófarbændur hafi til sinna umráða og þurfi þess vegna allsendis ekki meira.

Hv. þm. talar um, að það væri fjarri því, að með því að selja þessa jörð, Holt í Dyrhólahreppi, væri verið að reka nokkurn fleyg á milli tveggja ríkisjarða. Í næstu setningu segir hann svo, að það sé auðvitað rétt, að jörðin Holt sé á milli tveggja ríkisjarða, og er þarna vissulega veruleg þversögn í.

Það væri vitaskuld mjög æskilegt og sjálfsagt að leita eftir því að finna aðra lausn á þessu máli heldur en þá, sem hér er stefnt að. Ef svo er, sem fullyrt er og ég dreg ekki í efa, að jörðin Fell sé eyðijörð og nytjuð frá Álftagróf, þá væri ekki ólíklegt, vegna þess að jörðin Fell liggur nær Nikhól, að þar mætti fá land til afnota og jafnvel selja land til bóndans á Nikhól. Það land liggur nær og er miklu hentugra til þess að bæta búrekstraraðstöðu þess bónda, og mætti þá kannske svo fara, að allir aðilar gætu vel við unað. Ég hygg, að réttara væri, á meðan það mál er ekki að fullu kannað, að þá ætti bóndinn á Nikhól að láta sér nægja að hlíta þeim kostum, sem hann þegar getur fengið með fullu samþykki landsdrottins, að fá leigusamning á þessari jörð og leita síðan í framhaldi af því eftir heppilegra skipulagi á þessum málum. Það er í sjálfu sér leiðinlegt, að slík tilfinningamál, sem þetta mál virðist vera orðið, skuli þurfa að reka hér á fjörur Alþingis og koma þar til ákvörðunar þing eftir þing, og væru miklu sæmra, ef unnt væri að leysa slík mál með fullu samkomulagi allra þeirra aðila, sem hlut eiga að máli. Og það hygg ég, að kynni að geta gerzt með því að hafa þarna eins konar makaskipti á landi.