24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. meiri hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að taka til yfirvegunar nema eitt af þessu, sem hv. þm. var að segja seinast, aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast á. Hann lét eiginlega að því liggja, að ég hefði búið þarna til eina jörðina í viðbót, jörðina Keldudal. Ef hann lítur í fasteignamatið, jarðamatið, þá mun hann sjá það, að Álftagróf er metin með Keldudal, og ég get sagt honum það, að ég þekki hóp af fólki, sem er fætt og uppalið í Keldudal. Jörðin er að vísu lítil, það efast ég ekki um, en mér fannst engin ástæða til þess að leyna því, að þarna er um jörð að ræða, sem hefur lagzt undir Álftagróf. Ég er ekki að telja það eftir á nokkurn hátt. Ég get vel unnt bóndanum í Álftagróf að hafa fengið að njóta þeirrar jarðar. Og ég sé ekki, að bóndinn í Álftagróf sé rændur neinum búskaparmöguleikum í sambandi við Holt. Eins og ég sagði áðan, hefur hann aldrei haft neinar nytjar af Holti. Ég veit ekki, hvort hann hefði heldur nokkurn áhuga á að hafa þau afnot, ég hef aldrei orðið þess var, og ég sé ekki, að hann sé rændur neinum möguleikum. Ef einhverjir erfiðleikar eru þarna í sambandi við samgang á milli Fells og Álftagrófar, vegna þess að Holtsland liggur þarna inn á milli, þá hafa slík mál iðulega verið leyst með góðu samkomulagi. Ef samkomulag er ekki, þá eru girðingalögin, sem koma til greina. Þá er að girða á milli jarðanna, skipta þeim og girða á milli þeirra. Og ég trúi því ekki, — ég skal að vísu játa, að ég er ekki svo staðkunnugur þarna, — en ég þekki hvergi svo landamæri á milli jarða, að það sé ekki hægt að girða þar á milli, svoleiðis að ég sé enga meinbugi á þessu af þeim ástæðum, sem hv. frsm. taldi upp.