24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það má nú raunar segja það, að þær umr., sem hafa farið hér fram á milli hv. frsm. meiri og minni hl. landbn., ættu að geta dugað í umr. um þetta mál. Ég skal viðurkenna það, að þegar við ræddum þetta mál í landbn., þá var afstaða mín til málsins, a. m. k. framan af, mjög tvíráð, og einfaldlega fyrst og fremst vegna þess, að hérna var um mál að ræða, sem ég hafði engin persónuleg kynni af og þekkti sáralítið til. Og svo hlýtur ætíð að fara, þegar við erum að ræða um mál eins og þessi, sölu á jörðum hingað og þangað um landið. Það eru í flestum tilfellum ekki nema einstakir þm., sem hafa aðstöðu til þess að dæma um þessi mál af fullkominni þekkingu nema þá því aðeins, að þeir fari á staðinn, kynni sér þær jarðir, sem um er að ræða, og ræði við það fólk, sem þarna á hlut að máli, og kynni sér skoðanir þess. Þess vegna hefur þingið haft þann hátt á ætíð, þegar þessi mál hafa verið hér til meðferðar, að vísa þessum frv. til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og Landnámsins. Og ég held, að í allflestum tilfellum, a. m. k. sem ég man eftir, hafi landbn. farið eftir umsögnum þessara aðila og eftir meðmælum þeirra um sölu þessara jarða. En nú bregður svo við, að við fáum umsögn frá jarðeignadeild ríkisins, þar sem eindregið er lagzt gegn því, að orðið verði við sölu á þessari jörð. Og ég segi það alveg eins og er, að afstaða mín til málsins mótast fyrst og fremst af þessari umsögn jarðeignadeildarinnar. Eiginlega má segja, að hún mótist einvörðungu af henni.

Í umsögninni kemur fram, að rn. telur, að verði orðið við beiðni um sölu þessarar jarðar, geti af því skapazt ýmiss konar vandamál, sem rangt væri að stofna til. Ég skal nú ekki fullyrða um, hvaða vandamál muni vera hér um að ræða. Það má vera, að það sé einhver persónulegur ágreiningur heima í héraði, að þetta geti orðið til þess að skapa kannske enn þá meiri nágrannakryt, enn þá meiri óvild á milli nágranna en er e. t. v. þegar orðin. Ég vil helzt ekki gera mig dómara í slíku máli. Og ég vil benda á það, sem segir í umsögn Sveinbjörns Dagfinnssonar, að það sé skoðun rn., að með því að heimila syni Jóhönnu Sæmundsdóttur með leigusamningi varanleg afnot Holts sé hægt að tryggja honum fullnægjandi not af jörðinni, eða sem sagt öll þau not, sem hann hefur af þessari jörð nú í dag. Ég get ekki betur séð en þessi maður, — hann var nefndur hér með nafni áðan, en ég man ekki nafn hans á stundinni, — gæti jafnvel fengið erfðafestu á þessu landi, og ég tel, að hann sé þá fullkomlega jafnvel settur með þeim hætti eins og það, þó að hann hefði eignaraðild að jörðinni. Það er a. m. k. mín skoðun, að það er í mörgum tilfellum ekkert verra fyrir bændur að búa í erfðaábúð heldur en eiga jarðir sínar sjálfir, þó að ég kjósi það náttúrlega helzt, að þeir eigi ábýlisjarðir sínar.

En sem sagt, afstaða mín til þessa máls mótaðist einvörðungu af þeirri umsögn, sem liggur fyrir þinginu frá hinu háa landbrn.