13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það sé engin deila meðal landsmanna um það, að æskilegt væri að fá veg þarna austur, svo að við gætum skroppið austur yfir Skeiðarársandinn. Ég hef lítið ferðazt um Austurland, en mundi hafa mikla ánægju af að geta farið það. Ég er heldur ekki kunnugur þessari leið, en ég hef lesið um það, að þegar flóðin verða þarna á söndunum, þá sé það svipað og Amazonfljótið, en það er stærsta fljót í heimi. Ég man ekki, hvort það eru 3000 teningsmetrar af vatni á sekúndu, sem þeir telja, að þetta sé. Ég álít, að það væri ekki óhyggilegt að byggja dálítinn kafla þarna á söndunum, steypa trausta brú á einhverja kvíslina og byggja einhvern smávegarkafla og bíða eftir næsta flóði — það er sennilegt, að það fari að koma, það er svo langt síðan siðasta flóð kom — og sjá, hvernig þetta stæði. Ég held, að það sé dálítið óhyggilegt að rjúka í það núna að leggja veg yfir sandinn fyrir allt að 400 millj. — ég efast nú um, að búið sé að gera áætlun, sem trygg sé, enda alltaf breytilegt, hvað þetta kostar, það getur kostað yfir 400 millj. — svo kæmi e.t.v. flóð árið eftir að búið væri að fullgera veginn og færi með allt út í sjó. Það væri réttara að byggja dálítinn kafla, bíða svo eftir að flóðið kæmi, og þá væri hægt að Læra af því, í fyrsta lagi hvort brýrnar og þessi vegarkafli stæðust og í öðru lagi á hvern hátt væri hagkvæmast að byggja veginn.

Viðvíkjandi hinu atriðinu um vísitölulánin, þá fór ég nú nokkrum orðum um það um daginn, að ef reiknað er með lánunum frá 1964, þá eru það allt að 30% vextir. Vonandi verður þessi stjórn betri en sú fyrrí hvað gengislækkanir snertir, þannig að krónufjölgunin verði ekki eins mikil, en þó virðist mér eftir ýmsum veðrabrigðum að dæma, að talsverðar líkur séu til, að um hækkanir verði að ræða, m.a. af því hvað ríkisútgjöld hækka mikið, þannig að ég hygg, að þetta geti orðið dálítið dýrt, ef í fyrsta lagi kemur vísitala á bréfin og í öðru lagi færi vegurinn út í haf, þegar flóðið kæmi, svo að ég vildi helzt fara varlega í hvort tveggja, bæði að taka þessi vísitölulán og eins að leggja allan veginn, áður en nokkur reynsla er fengin fyrir, hvort vegurinn stendur þrátt fyrir þessi vatnsmiklu flóð. Og ég held satt að segja, af því að við höfum baslað þetta hingað til án þess að hafa veg yfir Skeiðarársand, að við gætum nú beðið 3–4 ár enn, án þess að ríkisbúskapurinn hallaðist mikið, þó að ég sé fús að styðja það, að vegur sé lagður þarna og m.a. góður vegur, svo framarlega sem álitið er, að hægt sé að treysta því, að hann verði varanlegur. Ég er á móti vísitölulánum, jafnt þessu vísitöluláni sem öðrum, ég tel, að ríkið ætti að hlutast til um það, ef ekki er hægt að selja bréfin án þess að taka vísitölulán, að fá lán á annan hátt, jafnvel þó að vextirnir væru eins og venjulegir útlánsvextir. Það væri hagkvæmara en vísitölulán.

Ég hef ekkert á móti frv. eins og það var í fyrra, að seld séu venjuleg bréf án vísitölu. Þá væri hægt að borga 10% vexti, þá væri það í lagi. En mér er heldur illa við þessi vísitölulán. Eins tel ég óviturlegt að rjúka í það að byggja veg yfir allan sandinn án þess að hafa reynslu fyrir því, hvort vegurinn þolir þetta eða ekki. Mér er sagt, að verkfræðingar telji, að steyptar brýr standist þessi flóð, og það má vel vera. En það væri gott að prófa það fyrst, steypa eina brú og vita, hvort hún hyrfi. Þeir sögðu nú líka, að einhver garður stæði í Grímsey, og svo kom brim og skolaði honum öllum í burt, þannig að þeir eru eigi alvitrir, þessir verkfræðingar. Þetta eru nú mínar hugmyndir um þetta mál.