26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

231. mál, dýralæknar

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Landbn. hefur flutt brtt. við frv. þetta og er sú brtt. prentuð á þskj. 629. Brtt. er við 1. gr. og um það, að aftan við gr. bætist ný mgr., sem hljóðar þannig:

„Í stað 17. liðar, sem verður 18. liður sömu lagagr., komi tveir töluliðir, svofelldir, og breytast töluliðir gr. samkv. því:

18. Kirkjubæjarklaustursumdæmi: Hörgslandshreppur, Kirkjubæjarhreppur, Leiðvallarhreppur, Skaftártunguhreppur og Álftavershreppur.

19. Skógaumdæmi: Hvammshreppur, Dyrhólahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur.“

Breyt., sem till. felur í sér, er sú, að settur verði dýralæknir fyrir hreppana austan Mýrdalssands og vestan Skeiðarársands, eða milli sanda, eins og það er kallað. Það eru 5 hreppar, þar verði sett dýralæknisumdæmi með aðsetri dýralæknisins á Kirkjubæjarklaustri. Það var um það leyti, sem 2. umr. um þetta frv. fór fram hér, að landbn. barst bréf frá oddvitunum á þessu svæði þarna milli sanda, og vil ég leyfa mér að lesa bréfið, svo að þm. viti, hvað um er að ræða:

„Við undirritaðir oddvitar Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvallar-, Skaftártungu- og Álftavershreppa í Vestur-Skaftafellssýslu beinum þeirri eindregnu áskorun til Alþ., að það samþykki stofnun dýralæknishéraðs, sem nái yfir sveitirnar austan Mýrdalssands í Vestur-Skaftafellssýslu. Enginn dýralæknir er búsettur í Vestur-Skaftafellssýslu, en sá, sem á að þjóna henni, hefur aðsetur í Skógum í Rangárvallasýslu. Fyrir bændur austan Mýrdalssands er mjög oft ómögulegt að ná til hans, eins og glöggt sést af því, að þar er um svipaðar vegalengdir að ræða og ef Rangæingar yrðu að sækja dýralæknisþjónustu til Reykjavíkur. En þar að auki eru samgöngur oft erfiðar, sérstaklega yfir Mýrdalssand og símasamband við Skóga mjög ófullkomið. Það hefur orðið bændum í þessum sveitum til hjálpar, að fengizt hefur laginn maður til þess að aðstoða bændur og útvega lyf. En hann er orðinn fullorðinn og treystir sér vart til að sinna því lengur, og mun þá skapast algert neyðarástand, þar sem vonlítið er að fá annan slíkan. En skepnur yrðu oft dauðar, áður en til dýralæknis næðist, ef sækja ætti hann út að Skógum, auk þess mikla kostnaðar, sem það hefði í för með sér fyrir bændur.

Við væntum því þess, að Alþ. sjái sér fært að verða við þessari beiðni.

Seglbúðum, 13. apríl 1972.

Bjarni Bjarnason.

Loftur Runólfsson.

Jón Helgason.

Valur G. Oddsteinsson.

Jón Gíslason.

Til landbn. Nd. Alþingis.“

Þegar landbn. hafði fengið þetta bréf, þá sendi hún það til umsagnar yfirdýralækni, og ég hef hér í höndum umsögn hans, sem er dags. 22. apríl þessa árs.

„Mér hefur borizt til umsagnar erindi 5 oddvita í Vestur-Skaftafellssýslu, þar sem þeirri áskorun er beint til Alþ., að sérstakt dýralæknisumdæmi verði stofnað austan Mýrdalssands í Vestur-Skaftafellssýslu. Eins og bent er á í erindi þessu, hafa bændur í þeim 5 sveitum, sem hér um ræðir, verið mjög afskiptir um dýralæknisþjónustu og eru raunar enn vegna fjarlægðar frá aðsetri héraðsdýralæknis, sem nú er að Skógum. Gripafjöldi í þeim sveitum, sem hér um ræðir, var í ársbyrjun 1971 eins og hér segir:

Nautgripir voru 1087, sauðfé 31841, hross 566. Sláturhús er að Kirkjubæjarklaustri og þar er einnig frystihús, og hefur á stundum reynzt erfitt að fá menn til að annast þar lögboðna heilbrigðisskoðun á sláturfé. Vissulega væri því æskilegt, ef fært þætti að stofna dýralæknisumdæmi, sem næði yfir sveitir Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands.

Virðingarfyllst.

Páll A. Pálsson.

Til landbn. Nd. Alþingis.“

Þegar n. hafði borizt þessi umsögn, þá varð hún sammála um að flytja þá brtt., sem hér er fram lögð á þskj. 629. Þess skal þó getið, að ekki voru allir nm. á þeim fundi, þegar þessí samþykkt var gerð. Áður hafði ég haft samband við hæstv. landbrh. og látið hann vita um þessa beiðni oddvitanna austan Mýrdalssands, og hann tjáði mér, að hann mundi ekki beita sér gegn því, að brtt. af þessu tagi yrði samþ. hér.

Ég held, að það sé óþarft fyrir mig að hafa um þetta mál fleiri orð. Þessi bréf, sem ég hef lesið, skýra fyllilega þetta mál fyrir hv. alþm., svo að ég get ekki gert það betur.