13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Það er náttúrlega ekki ætlazt til þess, að þessi vegur verði eingöngu til þess að fara eftir honum austur á land. Þetta verður hluti af hringleiðinni um landið, og menn fara þarna fram og aftur alla vega, ekki bara til þess að skoða Austurland, heldur verður þetta liður í ferðalögum manna. (Gripið fram í: Og að Löngumýri líka.) Og m.a. að Löngumýri, já.

Ég held, að hv. þm. hafi ekki, sem ekki er heldur von, kynnt sér þetta mál nægilega ítarlega, og ég efast ekki um, að hann kæmist að nokkuð annarri niðurstöðu, ef hann gerði það. Ég vil gefa þær upplýsingar, að simalina hefur staðið þarna á þessum slóðum, þar sem brýrnar eiga að vera, nálega áfallalaust í 30 ár, og á þeim tíma hafa komið mörg flóð. En flóðin eru að vísu mjög mismunandi stór, og síðan 1934 hefur ekki komið þarna neitt flóð, sem mundi granda þeim brúm, sem fyrirhugað er að byggja. Við skulum taka dæmið þannig, að af og til kæmu einhver flóð, sem færu með eitthvað af görðum, t.d. á 10 ára fresti eða svo. Það er auðvitað alger hégómi samanborið við þann ávinning, sem verður af veginum fyrir allt þjóðarbúið. við skulum t.d. taka það dæmi, að framkvæmdin kosti 300–400 millj. eða svona þrjú togaraverð og að á 10 ára fresti færu mannvirki þarna, svo að við séum reglulega svartsýn, sem svöruðu til hálfs eða eins togaraverðs. Slíkt væri léttbært miðað við gagnið. Hér yrði sem sé um algera byltingu að ræða í öllu lífi þjóðarinnar, þegar veginum verður komið upp. Þessa áhættu sýnist vera skynsamlegt að taka og ekki sízt, þegar þess er gætt, hvað óralangt er síðan stórflóð hefur komið, sem hefði verulega áhættu í för með sér. Ég vil fara fram á það við hv. þm., að hann kynni sér þetta mál nánar og ræði t.d. við vegamálastjóra og menn hans um þessi efni.

Varðandi vísitölutrygginguna er þess að gæta, að við höfum samþ. hér stórfelldar lánsheimildir með vísitölutryggingu, þannig að það er ekkert sérstakt, þó að löggjöf yrði sett um það í þessu falli, og ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á, að það er afar þýðingarmikið, að þetta útboð mistakist ekki, vegna þess að þetta gæti orðið upphaf að fjáröflun í fleiri framkvæmdir, ef vel tækist til.