10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

135. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., varðar námslán og námsstyrki og lýtur að breytingum á núgildandi lögum varðandi þetta efni og snertir 1. gr. Í 1. gr. núverandi laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk lánasjóðs íslenzkra námsmanna er að veita íslenzkum námsmönnum lán til náms við Háskóla Íslands, kennaradeild stúdenta, framhaldsdeild og menntadeild Kennaraskóla Íslands, fyrsta hluta Tækniskóla Íslands, erlenda háskóla og tækniskóla, svo og aðrar hliðstæðar erlendar kennslustofnanir, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“

Samkvæmt hinu nýja frv. hljóðar 1. gr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk lánasjóðs íslenzkra námsmanna er að veita íslenzkum námsmönnum lán til náms við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, framhaldsdeild og menntadeild Kennaraskóla Íslands, 1.–3. hluta og menntadeild Tækniskóla Íslands, íslenzka stýrimannaskóla, Vélskóla Íslands, framhaldsdeild við íslenzka landbúnaðarskóla, erlenda háskóla og tækniskóla, svo og aðrar hliðstæðar erlendar kennslustofnanir, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“

Hér er 1. gr. m. ö. o. víkkuð út þannig, að fleiri skólar koma undir þetta námslánakerfi, og er enginn vafi á því, að það er alger samstaða um það í þinginu, að ekki einungis langskólamenn svonefndir eða langskólanemendur skuli hljóta þau hlunnindi, sem felast í námslánum, heldur einnig aðrir skólar, eins og hér eru upp taldir, og horfir þar verulega til eflingar, ekki sízt verklegri menntun og menningu í landinu. Ég skal því ekki hafa fleiri orð um jafn sjálfsagðan hlut og hér er um að ræða, heldur aðeins lýsa því yfir, að menntmn. hefur kannað þetta mál og orðið ásátt um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Að lokum er svo í þessu frv. ákvæði til bráðabirgða, þar sem gert er ráð fyrir því, að menntmrh. skuli beita sér fyrir endurskoðun laga um námslán og námsstyrki og skuli að því stefnt að henni sé lokið, áður en þing kemur saman haustið 1972. Hér er m. ö. o. allt með felldu.