04.05.1972
Neðri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

253. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem nú liggur fyrir til 2. umr. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, er flutt af n., þ. e. allshn. þessarar hv. d. Þar sem frv. er flutt af n., fylgir því ekki nál. við þessa umr. Hins vegar hefur n. áskilið sér rétt til þess að athuga málið nánar og e. t. v. að gefa út sérstakt nál. fyrir 3. umr. En rétt hefur þótt að gera nokkra grein fyrir frv. nú við 2. umr. og aðdraganda þess, og hefur það komið í minn hlut að gera það.

Aðdragandi þessa máls er sá, að árið 1966 – eða fyrir 6 árum — var starfandi mþn. við endurskoðun laga um þingsköp. Hún samdi frv. um breytingar á þingsköpunum, sem nokkrum sinnum hefur verið lagt fram hér í hv. d., en ekki orðið útrætt. Og enn var þetta frv. lagt fram á þingi því, er nú situr, af nokkrum hv. dm. Þessu frv., sem er á þskj. 293, var vísað til allshn. En það kom fram við 1. umr. um það frv., að á þeim 6 árum, sem liðin eru, síðan það frv. var samið, hafa hugmyndir manna um efni þingskapanna að sumu leyti breytzt, sem ekki er óeðlilegt á svo löngum tíma, og þegar n. tók málið til meðferðar, þá varð það niðurstaðan að gera ráðstafanir til þess, að af hálfu n. væri haft samráð við ýmsa hv. þm., sem höfðu látið í ljós áhuga á þessu máli, og í reyndinni hefur sérstaklega verið rætt um þetta við ýmsa hæstv. forseta, núv. og fyrrv., um þetta mál. Ég vil þó geta þess, að það tókst ekki á þeim tíma, sem viðræður fóru fram, að ræða við hæstv. forseta Ed., sem þá var erlendis. En rætt hefur verið bæði við hæstv. forseta Sþ., hæstv. forseta Nd. og hæstv. varaforseta Sþ. og einnig fyrrv. forseta. Með tilliti til þess, sem fram kom við 1. umr. um frv. á þskj. 293, og með hliðsjón af þeim viðræðum við einstaka þm., sem ég nú hef nefnt, var svo á vegum n. samið frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 558. Grundvöllur þess er að sjálfsögðu frv. frá 1966, frv. mþn., en sumu hefur þar þó verið breytt, og inn hafa komið nýmæli, og eru þau byggð á þessum grunni, sem ég þegar hef nefnt, þ. e. því, sem fram kom við 1. umr. frv. á þskj. 293, viðræðum við ýmsa áhugamenn, einkum núv. og fyrrv. forseta, og hugmyndir, sem komið hafa fram innan nefndarinnar.

Með þessum formála vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um einstakar gr. þessa frv., sem fyrir liggur, og gera lítils háttar samanburð á því og þingsköpunum, eins og þau nú eru, en um þetta hlýt ég þó að vera fáorður. Það er æskilegt, að við þessa umr. komi það fram, ef einstakir hv. þm. vilja eða hafa áhuga á því, að n. fyrir 3. umr. athugi nánar einstök atriði.

Greinar frv., eins og þær liggja fyrir, eru alls 22 talsins.

1. gr. er um breytingu á 1. gr. þingskapanna og er þess efnis, að ekki þurfi að skipta þinginu í deildir til prófunar kjörbréfa nema eftir almennar kosningar.

2. gr., sem lýtur að breytingu á 8. gr. þingskapanna, er þá jafnframt um það, að kjörbréfanefndin skuli vera kosin fyrir allt kjörtímabilið, og það er því náið samband á milli þessara breytinga tveggja.

3. gr. er um breytingu á 11. gr. þingskapanna og er lítils háttar, og 4. gr. er um það, að 13. gr. þingskapanna falli niður, en 13. gr. í núgildandi þingsköpum fjallar um kosningu svokallaðra milliþingaforseta. Það er lagt til, að þau ákvæði falli niður. Þess er ekki lengur þörf að kjósa milliþingaforseta.

5. gr. er um breytingu á 16. gr. þingskapanna. Í þessari gr. eru meginákvæðin um nefndir þingsins. Þar er t. d. það ákvæði um utanrmn., að hún starfi einnig á milli þinga og sé ríkisstj. til ráðuneytis um utanríkismál, enda skuli ríkisstj. ávallt bera undir hana slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma. Nm. séu bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju, sem þeir fá í n., ef formaður eða ráðh. kveður svo á. Þetta eru ákvæði, sem eru nokkuð breytt frá því, sem í þingsköpunum stendur nú, m. a. um það, að nm. séu bundnir þagnarskyldu, þegar formaður eða ráðh. ákveður, að svo sé. Í gr. eru taldar upp allar þn., og þar er gert ráð fyrir að fjölga nefndum deildanna um eina, sem er nýmæli frá allshn., þannig að heilbr.- og félmn. verði skipt í tvær nefndir, annars vegar félmn. og hins vegar heilbr.- og trygginganefnd. Þetta er í samræmi við núverandi skipun rn. skv. nýju stjórnarráðslögunum. Í þessari gr. er líka nýmæli frá allshn., sem er um það, að hver þn. kjósi sér varaformann. Samkv. gildandi þingsköpum kýs hver þn. formann og ritara, en þá er það svo, að ef formaður nefndar fer af þingi af einhverjum ástæðum, þá tekur varaformaður hans við formennskunni. Það þykir ekki heppilegt eða sjálfsagt, að varamenn, sem kannske hafa ekki mikla reynslu í þingstörfum eða nefndarstörfum, taki sjálfkrafa við formennsku í þn. og það kannske á þeim tíma, sem annríki er mikið, og því þykir það rétt, að kosinn sé í öndverðu varaformaður, sem tæki við starfi formannsins, ef hann forfallast.

Ég vil vekja athygli á því, að það stendur í þessari gr. m. a., að það sé samvinnunefnd, ef samkynja fastanefndir beggja deilda vinna saman að athugun mála, sem vísað hefur verið til annarrar nefndarinnar. Þetta nýmæli, þetta orðalag — . . . sem vísað hefur verið til annarrar nefndarinnar . . .“ — lýtur að því, að þetta ákvæði eigi eingöngu við það, þegar samkynja nefndir Ed. og Nd. vinna að máli saman, en í þessu felst m. a. í rauninni það, að samgmn. d. hætti að vinna saman í Sþ. Það hefur tíðkazt, þótt óeðlilegt sé, að þessar deildarnefndir starfi í Sþ.

6. gr. er um breytingu á 19. gr. þingskapanna, og 7. gr. er um breytingu á 25. gr. þingskapanna. Efni þessara gr. varðar meðferð mála, sem mega teljast minni háttar.

8. gr. er um breytingu á 29. gr. þingskapanna, að þar komi: skal í staðinn fyrir „má“ á einum stað. Þessi breyt. er um það tilvik, þegar till. til þál. er flutt í d., hversu með skuli fara. Algengast er, að þáltill. séu fluttar í Sþ., en þó kemur það fyrir, að þær eru fluttar í deildum þingsins. Oftast er það svo, að till. kemur aðeins til meðferðar í þeirri d., sem hún er flutt í, en í þingsköpunum segir þó, að slíkar till. megi taka til meðferðar í báðum d. Efnisbreytingin í þessu frv. er sú, að til þess að verða gild þál. þurfi að samþykkja till. í báðum deildum þingsins. Að því lýtur þessi orðabreyting að setja .,skal“ í staðinn fyrir „má“.

Þá er ég kominn að því, sem segja má, að sé eitt aðaltilefni til þess, að frv. var samið fyrir 6 árum. og það er efni 9. og 10. gr. þess, sem fjalla um skýrslu ráðh. og um fyrirspurnir. Þessar gr., 9. og 10. gr., höfum við í allshn. tekið upp, að ég ætla, nokkurn veginn alveg óbreyttar, eins og þær voru í frv. mþn. fyrir 6 árum, og þarf því ekki að gera sérstaklega grein fyrir þeim, því að það hefur verið gert oftar en einu sinni hér á þingi. En geta vil ég þess, að okkur hefur verið bent á það, að í 5. mgr. 10. gr., sem varðar fyrirspurnir, muni þurfa nánari ákvæði um það, hversu langur tími megi líða frá því, að fyrirspurn er flutt og þangað til hún er tekin til umr.

11. gr. er um breytingu á 43. gr. þingskapanna og varðar leyfi ráðh., hvort mál megi taka til meðferðar, þ. e. að þess þurfi ekki við.

12. gr. er um breytingu á 48. gr. þingskapanna og varðar hlutfallskosningu og lagt til, að orðalagið verði þannig í upphafi gr., að þegar kjósa á um tvo menn eða fleiri í þingdeild eða Sþ., sé forseta heimilt að beita hlutfallskosningu með aðferð þeirri, sem kennd er við de Hondt (listakosning) o. s. frv. En aðalnýmælið er það, að þegar kjósa skal í n. aðalmenn og varamenn, þá skuli kosnir á einum lista í einu lagi aðalmennirnir og varamennirnir, en það hefur ekki gerzt þannig hingað til, heldur hafa aðalmenn verið kosnir sérstaklega og varamenn á eftir. Þetta getur haft það í för með sér, að kosning varamanna verði ekki í fullu samræmi við kosningu aðalmanna, en með því að hafa einn lista á það að vera tryggt.

Þá kem ég að 13. gr., sem er um breytingar á 2. mgr. 51. gr. þingskapanna. Í greininni, eins og hún er nú í þingsköpunum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá skal og útvarpa framsöguræðu fjármálaráðherra um frv. til fjárlaga og, ef óskað er, hálfrar stundar ræðum af hálfu annarra þingflokka, enda hefur fjmrh. þá og rétt til stundarfjórðungs svarræðu.“

Í frv., eins og það liggur nú fyrir, er þessum reglum um útvarp nokkuð mikið breytt. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að útvarpa innan tveggja vikna frá þingsetningu stefnuræðu forsrh. og umr. um hana. Umferðir skulu vera tvær. Í fyrri umferð hefur forsrh. til umráða allt að hálfri klukkustund, og fulltrúar annarra þingflokka — hér mun hafa orðið villa í prentun, þar sem stendur „af hálfu annarra þingflokka“, en á auðvitað að standa „af hálfu annarra þingflokka en flokks forsrh.“, forsrh. er ekki þingflokkur — 20 mínútur hver, en í annarri umferð hefur hver flokkur 5–10 mínútur til umráða. Enn fremur segir í þessari grein frv., að einnig skuli útvarpa framsöguræðu fjmrh. um frv. til fjárlaga, þó ekki lengur en 1 klukkustund, ef samkomulag verði milli allra þingflokka um útvarpsumræðurnar að öðru leyti.

Í frv. frá mþn. fyrir 6 árum voru felld niður ákvæðin um, að útvarpa skyldi fjárlagaumræðu og umræða um stefnu forsrh. átti að koma í staðinn. En hér í frv. allshn. er tekin upp aftur umræða um fjárlög, en þó með þeim hætti, að það er í raun og veru gert að samningsatriði milli þingflokka, hvort sú umræða fer fram. Það má vera, að það séu ekki margir, sem kæra sig um umræðu um fjárlög eða fjárlagaræðuna, en þó hygg ég, að það sé töluverður hópur manna í landinu, sem gjarnan vill hlýða á skýrslu fjmrh. um fjárhag ríkisins. Hins vegar tel ég, að það þurfi að takmarka lengd þeirrar ræðu, sem þannig er flutt í útvarp.

14., 15., 16., 17., 18., 19. og 20. gr. frv., sem fela í sér breytingar á 53., 54., 55., 56. og 60. gr. þingskapanna auk þess, sem gert er ráð fyrir viðbótargrein, fjalla allar um útvarp frá Alþ., og um þær hefur verið allmikið rætt á undanförnum þingum. Ég vil þó geta þess, að í þessu frv. er gert ráð fyrir meiri styttingu á ræðutíma en gert hafði verið í fyrra frv. frá því, sem nú er.

Ég vil vekja athygli á 19. gr. frv., en þar segir svo: „Ef Ríkisútvarpið óskar að útvarpa umræðu eða hluta af umræðu, beinir það tilmælum sínum til hlutaðeigandi forseta. Forseti tekur þessi tilmæli á dagskrá, og ákveður þingið eða þingdeild, að lokinni umræðu, hvort leyfð skuli. Þegar útvarpað er umræðu á þennan hátt, skal þess gætt, að ræðutími skiptist sem jafnast milli flokka eða mismunandi sjónarmiða.“

Í frv., eins og það lá fyrir fyrir 6 árum, var gert ráð fyrir, að forsetar gætu veitt útvarpinu slíkt leyfi, en hér er gert ráð fyrir, að beiðni frá útvarpinu um útvarp frá þinginu á þennan hátt sé lögð fyrir hlutaðeigandi þingfund og afgreidd þar.

Ég vil einnig vekja athygli á 21. gr. frv., sem er um það, að ný gr. komi inn á eftir 62. gr. þingskapanna, eins og þau nú eru, og sú nýja gr. hljóði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Umræður þingdeildanna og sameinaðs þings, ásamt þingskjölum og atkvæðagreiðslum, skal prenta jafnóðum og gefa síðan út í Alþingistíðindum.“

Þessi gr., ef samþ. yrði og framkvæmd, hefur í för með sér mikla breytingu frá því, sem verið hefur. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú á síðari áratugum hefur prentun Alþingistíðinda dregizt mjög. Venjulega er búið að prenta A-deild eða skjalabálk þingsins um það leyti, sem næsta þing kemur saman, en það getur dregizt í mörg ár, að lokið sé prentun umræðna á þingi. (Gripið fram í.) Hann er nú alveg að ljúka máli sínu, en mun reyna að fara eitthvað hærra með þau fáu orð, sem eftir eru, en annars var hér svo mikill hávaði úti fyrir, á meðan meginhluti ræðunnar var fluttur, að það tók því varla að reyna að keppa við þann hávaða. En í 21. gr. frv. felst það, ég skal endurtaka það, að umræður frá þingi ásamt þingskjölum og atkvæðagreiðslum skuli prenta jafnóðum og gefa síðan út í Alþingistíðindum. Á þessu hefur verið misbrestur lengi, áratugum saman, að því er umræðurnar varðar. Þær hafa ekki komið út fyrr en nokkrum árum eftir að þær fóru fram, og er þetta náttúrlega mjög mikill galli, en hér er gert ráð fyrir því, að reynt verði að stefna að því, að prentað sé jafnóðum allt það, sem frá þinginu kemur opinberlega, að prentuð séu jafnóðum þingskjöl, umræður og atkvæðagreiðslur, og með orðinu jafnóðum er náttúrlega átt við, að það megi ekki dragast. Ég lít svo á, að það megi ekki dragast nema svona nokkra daga og sé svo síðar eins og nú að sjálfsögðu gefið út í Alþingistíðindum. Á þessari grein vil ég vekja sérstaka athygli.

22. gr. frv. er um breytingu á 64. gr. þingskapanna og varðar ráðherraleyfi. Það er á ýmsum stöðum, að felld eru niður ákvæði um, að leyfi ráðh. þurfi til þess, að umræður geti farið fram eða hægt sé að taka mál fyrir, sem í raun og veru er orðið úrelt ákvæði.

Þá hef ég farið lauslega yfir efni frv. og nefnt allar greinar þess, um hvað þær fjalli og hvaða greinum sé gert ráð fyrir að breyta. Eins og ég sagði í byrjun, þá er það mjög æskilegt, ef einstakir hv. þm. eru með breytingaráform í huga, að þeir láti þau koma fram við þessa umræðu eða við allshn., því að n. hefur gert ráð fyrir því að taka málið til nánari athugunar fyrir 3. umr. og þá, ef ástæða þykir til, að gefa út framhaldsálit, en eins og frv. liggur fyrir hér á þskj. 558, þá er það í raun og veru ekki þannig, að nm. séu við það bundnir eins og það er, heldur hafa þeir áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. En ef það á að takast að afgreiða þetta mál á þessu þingi, þyrftu menn að hafa hraðan á, ef menn vilja koma á framfæri við n. hér á þessum fundi eða á annan hátt breytingum sínum. Ég hygg, að n. muni halda fund mjög fljótlega og þá taka þetta mál fyrir á ný.