10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

253. mál, þingsköp Alþingis

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt., sem sjá má á þskj. 713 og er um að bæta við einni nýrri n. í hvorri d. Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir þessari hugmynd minni og þessari till. og skal því ekki orðlengja það miklu frekar hér, sem ég hef áður sagt. Ég vakti athygli á því, að nú væri það svo, að n. væru skipaðar vegna allra helztu atvinnuvega landsmanna, landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. Auk þess væru n. um samgöngumál og mál félagslegs eðlis. Því væri ekki óeðlilegt, þótt sérstök n. væri skipuð vegna verzlunar og viðskipta, sem einnig hljóta að teljast til höfuðatvinnuvega þjóðarinnar.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það, hvers eðlis þau mál yrðu, sem til þessarar n. yrði vísað. Nafn n. bendir til þess og felur það í sér. Það er mín skoðun, að þetta sé sjálfsögð og eðlileg nefndarskipan, og það ætti varla að vera til mikils trafala, þó að ein n. bættist við í d. Ég er jafnvel þeirrar skoðunar, að það geti flýtt fyrir nefndastörfum, ef n. yrði fjölgað með þessum hætti, því að mín reynsla er sú, að oft vill fara svo, að í hinum ýmsu n., sem fyrir eru nú, hlaðast upp mál og vegna tímaskorts og anna hjá nm. vill verða erfitt að ganga frá málum og afgreiða þau. Því fleiri sem n. eru, því færri mál fara til hverrar n., og því ætti að ganga rösklegar að afgreiða þessi sömu mál.

Ég held svo, að ég sjái ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa till., en óska eftir því, að hún verði tekin til afgreiðslu nú við þessa umræðu.