10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

253. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil skýra frá því, að milli 2. og 3. umr. hefur verið haldinn fundur í allshn. þessarar hv. d. og frv. þar tekið til nokkurrar athugunar. Þar voru uppi m. a. þær hugmyndir, sem nú hafa komið fram í brtt. á þskj. 713 og skrifl. brtt. Að athuguðu máli varð n. sammála um það að leggja til. að samþ. yrði brtt. við 10. gr. frv., sem varðar fyrirspurnir. Brtt. er þess efnis, að bætt verði inn í gr., að fyrirspurn skuli ávallt tekin á dagskrá eigi síðar en 8 virkum dögum eftir að hún var leyfð. Þetta sýndist nm. vera sjálfsögð breyting til þess að tryggja það, að ekki drægist um of að taka fyrirspurn á dagskrá. Þessi brtt. er á þskj. 716, en þar er einnig brtt. við 13. gr., sem er aðeins leiðrétting málfræðilegs eðlis og verður að telja sjálfsagða. Ég man ekki, hvort hún var sérstaklega rædd í n., en ég hef rætt um hana við skrifstofustjórann, og það er aðeins málfræðileg leiðrétting.

Til þeirra till., sem fram hafa komið á þskj. 713, og til skrifl. brtt., sem fyrir liggur, hefur n. ekki tekið afstöðu sem slík.