16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

253. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Á þskj. 293 er þmfrv. um þingsköp flutt í Nd. Eftir 1. umr. þar kom það til allshn. Síðan flutti allshn. þeirrar d. sérstakt frv. um sama efni, og er það mál nr. 156, og það er það frv., sem Nd. afgreiddi frá sér og er hingað komið og er hér til umræðu.

Í grg. er sagt, að frv. sé samið á grundvelli frv. um sama efni, sem var samið af mþn., sem skipuð var af Sþ., að mig minnir á árinu 1966. Þetta var sjö manna n., sem var falið að endurskoða gildandi lög um þingsköp, og í þetta sinn hefur málið komizt þetta langt, það er komið til seinni deildar.

Ég tel það alveg víst, að allir hv. þm. hafi kynnt sér þetta mál og þá ekki sízt þau nýmæli, sem í frv. felast, sem hafa áður velflest, ef ekki öll, komið fram í umræðum. Og ég ætla því ekki og tel það enda ástæðulaust að rekja frv. eða ákvæði þess frekar. Slíkan lagabálk, sem varðar svo mjög störf þm., verða þeir sjálfir að kynna sér vel og vandlega og munu gera það. En þetta frv. er samið af hinum færustu mönnum í þessum efnum, og við verðum að treysta því, að í heild sé þar fullforsvaranlega að verki staðið.

Allshn. hefur samt sem áður leyft sér að bera fram tvær brtt., ekki stórvægilegar, við frv., eins og það var samþ. við síðustu umræðu í Nd. Og þessar tvær brtt. eru á þskj. 815. Þær eru báðar við 13. gr. frv. Önnur þeirra fjallar um það, að eftirrit af stefnuræðu forsrh., sem útvarpa skal innan tveggja vikna frá þingsetningu hverju sinni, skuli sendast formönnum þingflokkanna viku áður en stefnuræðuna á að flytja. Hin brtt. er á þá lund, að niður falli með öllu að útvarpa framsöguræðu fjmrh. við frv. til fjárlaga.

Um hina fyrri brtt. vildi ég segja þetta, að n. taldi rétt að veita stjórnarandstæðingum fyrst og fremst tækifæri til að kynna sér efni stefnuræðunnar hverju sinni og taldi jafnframt eðlilegt, að þeir hefðu hæfilegan tíma til þeirrar athugunar. Okkur í n. þótti ekki hlýða, að stefnuræðan væri flutt á einum og sama degi, ef andstæðingar stjórnarinnar skyldu svara henni.

Í annan stað þótti n. sem stefnuræða forsrh. gæti mætavel komið í stað útvarps- og framsöguræðu fjmrh. við framlagningu frv. til fjárlaga og umræðu um hana og að fjmrh. eins og aðrir ráðh. hefðu tækifæri til þess að koma höfuðatriðunum fram í fjölmiðlum með öðrum hætti.

Þetta eru þær brtt., sem fylgja nál. frá allshn. Allshn. hélt fund í morgun, og þá tókum við að ræða aðeins um þetta frv. og aðeins eitt atriði þess. Það var í sambandi við nefndir, fastanefndir í deildum. Og okkur kom öllum í n. saman um það að flytja skrifl. brtt. við þetta tækifæri, sem væri á þá leið, að 3. mgr. 1. tölul. 5. gr. frv., eins og það kom frá Nd., yrði á þá lund, að þar væri um nefnd að ræða, sem héti fjárhags- og viðskiptanefnd, þannig að mál viðskiptalegs eðlis kæmu til fjhn., og okkur þótti eðlilegt, að þetta tvennt færi saman, því að viðskiptamál yfirleitt eru fjárhagslegs efnis og væri samræmi í því, að slík mál féllu til fjhn. En vegna þess að þessi hugmynd var svo síðborin, að hún kom ekki fram fyrr en eftir að við höfðum gengið frá nál. og tveimur fyrrnefndum breytingum, þá þótti okkur rétt, eins og ég sagði, að flytja skrifl. brtt. í þessa átt, og hún er á þessa leið: „Við 5. gr., 3. mgr. 1. töluliður orðist svo: Fjárhags- og viðskiptanefnd.“ Og ég leyfi mér að afhenda þessa till., sem er of seint fram komin og auk þess skrifleg, og leyfi mér að biðja hv. forseta að leita afbrigða.

Að lokum vildi ég geta þess, af því að því var skotið að mér rétt áðan í sambandi við fyrri brtt. okkar um það, að afrit af stefnuræðu forsrh. skyldi fengið formönnum þingflokkanna í hendur, að það væri eðlilegra og lýðræðislegra, að þetta endurrit yrði fengið í hendur öllum þm. Það gæti átt sér stað og er alveg hugsanlegt, að þm, væri ekki í flokki einhvern eða mestan hluta þingtímans, svo að ekki sé meira sagt, og hann væri t. d. í stjórnarandstöðu. Þá þætti það ekki tilhlýðilegt, að hann fengi ekki eins og aðrir þm. — ég tala ekki um þm. stjórnarandstöðunnar — slíkt eftirrit í hendur. En af því að þetta er síðbúið, þá hef ég ekki tök á því, þótt ég vildi, að flytja brtt. við þetta nú, en ég vildi varpa þessu fram, því að ein umr. er eftir, ef hv. þm. vildu sinna þessari mjög síðbornu aths.

Og að síðustu vil ég segja það, að við nm. leggjum nokkurt kapp á afgreiðslu þessa frv. úr hv. d., en ef brtt. verða samþ., fer það að sjálfsögðu aftur til Nd.

Þá hef ég lokið máli mínu, herra forseti.