04.05.1972
Neðri deild: 70. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

145. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Sigurður Magnússon):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. til breyt. á iðnfræðslulögum frá 11. maí 1966 og nál. verið hér útbýtt. Í því segir:

N. hefur athugað frv. og umsagnir I.andssambands iðnaðarmanna og Iðnnemasambands Íslands.

Gunnar Thoroddsen og Lárus Jónsson telja þá fræðslustarfsemi fyrir iðnnema, sem frv. fjallar um, mjög æskilega og eru því fylgjandi, að henni verði komið í framkvæmd. En þeir hefðu kosið, að fé yrði veitt í fjárlögum í þessu skyni, fremur en að taka upp nýjan markaðan skatt og að leggja hluta kostnaðar á iðnnemana. Af þessum ástæðum skrifa Gunnar Thoroddsen og Lárus Jónsson undir nál. með fyrirvara.“ Þær breytingar, sem n. leggur til. eru síðan:

Við 1. gr.

a) Á eftir orðunum „Iðnnemasambandi Íslands“ í 1. málslið bætist: og fari til eflingar fræðslustarfs þess um iðnfræðslulöggjöfina.

b) 2. málsliður orðist svo:

.,Gjald iðnfyrirtækis eða iðnmeistara skal vera 1% af fyrsta árs árlegu lágmarkskaupi iðnnema í rafvirkjun, eins og það er hverju sinni, en gjald nemans ½% af sömu upphæð.“

Eins og fram kemur í nál., mælir n. einróma með samþykkt frv. Þó gera tveir nm., þeir hv. þm. Gunnar Thoroddsen og Lárus Jónsson, þá aths., að þeir hefðu heldur kosið, að ríkisvaldið tryggði fé til þessarar fræðslustarfsemi, er um ræðir í lögunum, heldur en að þess yrði aflað með þeim hætti, sem ráð er fyrir gert. Ég fagna mjög einróma ákvörðun n. um að mæla með samþykkt frv. og vænti þess, að hún sé í samræmi við almennan hug þm. til málsins.

Varðandi það atriðið, að betra væri að fé væri tryggt til þessarar fræðslustarfsemi af hálfu ríkisins, vil ég einungis segja: Iðnnemasamband Íslands hefur um langt árabil notið nokkurs styrks á fjárlögum til starfsemi sinnar. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að mjög erfiðlega hefur gengið að fá þessa lágu upphæð hækkaða í samræmi við hækkun kaupgjalds og verðlags hverju sinni. Þessi upphæð var þannig 100 þús. kr. árið 1966, en þrátt fyrir mikla óðaverðbólgu á síðustu árum fékkst hún lítið sem ekkert hækkuð fyrr en nú í haust. Þar fyrir utan er það álit mitt, og ég veit, að samtök iðnnemanna eru á sama máli, að það sé of ur eðlilegt, að iðnmeistarar og iðnnemar leggi sjálfir fram smáfjárhæðir til þessa starfs, en vitaskuld má það ekki og á ekki að koma í veg fyrir, að ríkisvaldið auki fjárveitingar af sinni hálfu til kennslueftirlitsins.

Örlitlar breytingar hefur n. gert, eins og fram kemur í nál., og tel ég þær báðar til bóta. Í fyrsta lagi er tekið fram í lögunum, til hvers kyns starfsemi féð skuli notað, en áður var þess einungis getið í grg. Í öðru lagi er tekið sem viðmiðunarkaup kaup rafvirkjanema, en slík einföldun auðveldar mjög innheimtu gjaldsins til iðnfulltrúanna. Ef lög þessi öðlast gildi, eru þær upphæðir, sem hér um ræðir, sé miðað við kaup rafvirkjanema eins og það er nú í dag, um það bil 780 kr. á iðnmeistara, en 390 kr. á nemanda.

Ég hef nú í fáum orðum gert grein fyrir afstöðu iðnn. til þeirra breytinga á iðnfræðslulögunum, sem hér eru til umr. En þar sem málefni iðnfræðslunnar, vandamál hennar og vanefndir ríkisvaldsins í hennar garð, eru að mínum dómi allt of sjaldan til umr. hér í þingsölum, ætla ég að nota tækifærið og lengja mál mitt um þetta efni, því að það er trú mín, að hinn herfilegi aðbúnaður, sem iðnfræðslan og þolendur kerfisins, iðnnemarnir, búa við, væri ekki til staðar, ef hv. alþm. þekktu raunverulega ástand þessara mála.

Enn í dag á 20. öld, öld tækni og þekkingar í þjóðfélagi, sem kallar sig velferðarþjóðfélag, ríkir í skipulagsmálum iðnfræðslunnar ómannúðlegt, stirðnað miðaldafyrirkomulag. Þessar staðreyndir eru ósamrýmanlegar þeim hugmyndum, sem nútímamenn gera sér um skólagöngu og menntun yfirleitt, og alger þversögn við skeleggar stefnuyfirlýsingar stjórnmálaflokka og fullyrðingar stjórnmálamanna þess efnis, að allir eigi að geta notið þeirrar menntunar, er hugur þeirra og hæfileiki stendur til.

Iðnfræðslan og verkmenntun öll hefur orðið út undan í menntakerfinu. Þetta hefur gerzt, þótt allir viðurkenni, að góð verkmenntun sé ein helzta forsenda þess menningarþjóðfélags, sem við höfum kjörið okkur að byggja. Orsaka aðgerðaleysis þjóðfélagsins, þegar verkmenntun er annars vegar, held ég að verði fyrst og síðast að leita í því ranga gildismati menntunar, sem hér hefur verið landlægt og enn í dag stendur í vegi fyrir framförum í þessu efni, og þetta ranga gildismat hefur ekki aðeins verkað sem hemill á eðlilega uppbyggingu iðnskólakerfisins, heldur hefur það beinlínis verkað sem kjaradómur. Það hefur skammtað hinum vinnandi stéttum, sem svo eru oft nefndar, lægri kjör, þar sem gildi vinnu þeirra eins og gildi menntunar þeirra hefur í augum hinna ráðandi þjóðfélagsafla verið dæmt þýðingarminna og þá um leið verðminna. Það er hins vegar ofur eðlilegt, að laun séu að einhverju leyti miðuð við lengd og kostnað skólagöngu, meðan við búum við núverandi menntunaraðstæður, en slík viðmiðun verður að vera réttlát og nær sanni. Það er álit mitt, að við uppbyggingu nútímamenningarþjóðfélags hljóti öll hagnýt menntun, öll þroskaleið, hvort sem hún fellur undir hið svokallaða andlega eða verklega svið, að hafa sama grundvallargildi. Saman eru allir hinir einstöku menntaþættir sú máttarstoð, sem framvinda þjóðfélagsins hvílir á. Sé einn numinn brott eða að honum þrengt, veikist sjálf undirstaðan og hætta steðjar að. Það er hins vegar hlutverk framsýnna menntunaryfirvalda að hafa áhrif á þróun einstakra menntunarbrauta með tilliti til sérstakra þarfa þjóðfélagsins hverju sinni.

En víkjum aftur að iðnfræðslunni. Ég sagði áðan, að í málefnum hennar ríkti miðaldafyrirkomulag. Hvað á ég við með því? Jú, enn í dag gildir í öllum meginatriðum sama kennsluformið og gilt hefur frá tímum handiðnaðarins, þar sem nemendur fara í læri til iðnmeistara. Þannig fer meginhluti hins venjulega iðnnáms enn fram utan ramma hins eiginlega skólakerfis á vinnustað iðnmeistarans, þótt forsendur vinnustaðarnámsins séu í mörgum tilfellum alveg horfnar. Sé þannig einungis höfð í huga hin öra sérhæfing innan einstakra iðngreina, sem átt hefur sér stað, þar sem einstök verkstæði tileinka sér þröng, afmörkuð svið, má vera ljóst, að öll skynsamleg forsenda vinnustaðarnámsins er brostin. Enda er það ein algengasta kvörtun iðnnema, að þeir hafi ekki hlotið þá almennu fagþekkingu, sem lög ætlast til. Þetta veldur þeim síðan miklum erfiðleikum að námi loknu og í sumum tilfellum meinar þeim að vinna við þann þátt iðngreinarinnar, sem þeir hefðu helzt kosið.

Í öðrum tilfellum sjá iðnmeistararnir sér beinlínis hag í því, að nemendur þeirra vinni sérhæfð störf, afkastageta þeirra vex um leið og færnin og gróði fyrirtækisins að sama skapi. Um þessa misnotkun meistara á iðnnemunum segja iðnnemarnir sjálfir í bréfi, sem nýlega hefur verið dreift hér meðal þm., með leyfi forseta: „Í flestum tilfellum skoðar meistarinn iðnnemann sem láglaunaðan vinnukraft, vinnukraft, sem malar honum gull. Þennan ódýra vinnukraft hefur margur meistarinn nýtt í sína eigin þágu, án tillits til þeirrar fræðslu, sem meistaranum er skylt að veita.“ Þannig komast iðnnemarnir sjálfir að orði.

En þótt dæmin séu mörg, þar sem iðnmeistarar sjái nemum sínum ekki fyrir þeirri alhliða verklegu fræðslu, sem þeim er skylt, eru einnig mörg dæmi þess, að þeir láti þá vinna verk, sem alls ekki heyra til náminu. Einhver hroðalegustu dæmin þekki ég úr hárgreiðsluiðn, þar sem stúlkur eru oft frekar notaðar sem ræstingarkonur, barnapíur og jafnvel þjónustustúlkur á heimilum hárgreiðslumeistara, meðan námið sjálft situr á hakanum. Auk þess er þeim oft þrælað út á frídögum og fram eftir kvöldum, án réttrar þóknunar. Og nýlegt dæmi þekki ég, þar sem iðnnemi, eftir tveggja ára samningsbundið nám hjá meistara, vinnur enn sem afgreiðslumaður í búðarholu, sem fyrirtæki iðnmeistarans rekur. Eftir tveggja ára samningsbundið nám hefur hann raunverulega ekki komizt í snertingu við hið eiginlega námssvið sitt. Þessi ungi maður hafði, áður en hann komst á samning, beðið í rúmt ár eftir slíkum námssamningi, svo lái honum hver sem vill, þótt hann vilji í lengstu lög forðast stórdeilur og jafnvel samningsslit.

Ég sagði hér áðan, að óttinn við að komast ekki aftur í nám réði því iðulega, að iðnnemar slíta ekki námssamningi, þótt á þeim sé brotið. Þetta leiðir hugann að hinum alvarlegasta galla núgildandi iðnfræðslukerfis, galla, sem stríðir gegn öllum jafnréttishugmyndum, en það er sú miðaldamennska, að iðnmeistararnir, duttlungar þeirra og sveiflur lítt skipulagðs atvinnulífs eru ákvarðandi um það, hvort, hvenær og hverjir fá að læra þær iðnir, er hugur og hæfileiki hvers og eins stendur til. Þannig eru heilu iðngreinarnar oft lokaðar tímunum saman og aðeins fáir útvaldir komast að til náms og þá einatt án tillits til þess, hve lengi þeir hafa beðið eða hverjir hæfileikar þeirra séu. Miklu frekar eru það ættartengsl, kunningsskapur og aðrar klíkuaðferðir, sem bezt duga.

Mér varð það fyrst fyllilega ljóst, hversu hroðaleg misþyrming á réttlæti þetta eðli kerfisins er, á atvinnuleysisárunum 1968–1970, en þá var iðnaðurinn í miklum öldudal og leiðin til iðnnáms flestum lokuð, því að fáir iðnmeistarar vildu taka á sig fjögurra ára samningsskyldu, eins og þá áraði. Á þessum árum eða 1969 gerði Iðnnemasambandið könnun til að finna út áætlaðan fjölda þeirra ungmenna, sem ekki komust til náms á árinu 1968 af þessum sökum. Í könnuninni var stuðzt við upplýsingar iðnfræðsluráðs um fjölda nemenda þrjú árin þar á undan. Þessi könnun leiddi í ljós, að ætla má, að um það bil 400 ungmenni hafi orðið fyrir barðinu á þessum þrælalögum á þessu eina ári, 1968, ef miðað er við landið allt. Ég hef ekki við höndina heildarniðurstöður könnunarinnar, en niðurstöðurnar í Reykjavík voru sem hér segir:

360 iðnnemar hófu nám í Reykjavík árið 1965, 407 árið 1966 og 344 árið 1967. Meðaltal þessara ára er um það bil 370 nemendur. Hins vegar hófu nám í Reykjavík árið 1968 einungis 176 nemendur, þannig að ætla má með nokkurri vissu, að tæplega 200 ungmennum í Reykjavík einni hafi af þessum sökum verið meinuð leiðin til iðnnáms þetta eina einstaka ár. Í heild voru niðurstöðurnar úti á landsbyggðinni svipaðar, en þó á einstaka stöðum miklu alvarlegri. Þannig man ég, að talan í Vestmannaeyjum féll úr 23 iðnnemum árið 1965 í 0 1968 og á Akureyri úr 79 iðnnemum í 26 á sama tíma. Næstu tvö ár á eftir, eða 1969 og 1970, var atvinnuástand enn mjög bágborið og inntaka nýrra nema lítil, þannig að víst er, að á þessum þremur árum voru ungmenni svo að hundruðum skipti dæmd frá námi, dæmd frá námi af þessu óréttláta iðnfræðslukerfi. Ég hef ekki í hyggju að tína til fleiri einstök dæmi um hið alvarlega ástand iðnfræðslumálanna, þó að af nægu sé að taka. Ég vona, að orð mín verði til þess, að hv. alþm. hugleiði gaumgæfilega vandamál þessa skólastigs og finni sem fyrst leiðir til úrbóta. Stórhækkað fjárframlag núv. vinstri stjórnar til uppbyggingar iðnskólum landsins gefur manni vonir um, að betur verði staðið að þessum málum nú en verið hefur um sinn. Ég vona líka, að orð mín verði til þess, að það frv., sem hér er til umr., verði samþ., því að víst er, að efling samtaka iðnnemanna sjálfra í því skyni að kynna iðnfræðslulöggjöfina mun auðvelda ríkisvaldinu hlutverk sitt að tryggja sem bezt framkvæmd iðnfræðslulaganna. Og eins og sést bezt, ef litið er hér upp á þingpallana, fylgjast iðnnemar af áhuga með gangi þessa máls og þarf enginn að efast um hug þeirra til þess.