04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

273. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég leyfi mér að flytja hér, er um breyting á sveitarstjórnarlögum frá 1961. Ég vil leyfa mér að lesa upp efnisgreinina, 1. gr., með leyfi forseta. Hún er á þessa leið:

„Afréttarsvæði, sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags, skal teljast til þess sveitarfélags, sem þar á eignar- eða afnotarétt. Ef fleiri en eitt sveitarfélag eiga aðild að slíku landi og ekki er samkomulag um, hverju þeirra það skuli tilheyra, sker sýslunefnd úr. Úrskurði sýslunefndar má skjóta til félmrn., sem fellir fullnaðarúrskurð.“

Ég hef fyrr á þessu þingi borið fram frv. um efni, sem er þessu frv. nokkuð skylt. Það var á þá lund, að sveitarfélög, sem eiga aðild að afrétti, annaðhvort afnotarétt eða eignarrétt, hefðu rétt til þess að leggja útsvör og aðstöðugjald á fyrirtæki og þá einstaklinga, sem hefðu að staðaldri atvinnu á afréttarsvæðum og ættu þar sínar bækistöðvar. Það kom í ljós, þegar frv. til laga kom fram hér á þingi um tekjustofna sveitarfélaga, að það reyndist ekki nein leið þess að koma ákvæði af því tagi, sem í efni þessa frv. míns er, inn í ramma frv., og af þeirri sök og þeirri sök einni hef ég leyft mér að bera fram frv. það, sem hér liggur fyrir til umr.

Eins og kunnugt er, eru ekki bein ákvæði í íslenzkum lögum um staðarmörk sveitarfélaganna, þegar til afrétta kemur og dregur að hálendinu. Í stjórnarskránni er gert ráð fyrir rétti sveitarfélaga til þess að fara með sín mál undir umsjón ríkisstj. og þessum réttarefnum sveitarfélaganna skuli skipað með lögum. Til samræmis við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar hefur svo verið samþ. löggjöf um, að sveitarfélög skuli hafa rétt í ýmsar áttir og að ríkið skiptist í sveitarfélög. Með hliðsjón af þessum lagagreinum er ljóst, að fá eða jafnvel engin svæði landsins væru slík, að eigi féllu þau undir stjórn einhvers sveitarfélags. Nú mun svo vera ástatt um sum afréttarlönd, að þau eru í raun og veru ekki talin heyra undir sveitarstjórnarvald. Um önnur er annars að segja, að þau heyra beinlínis til sveitarfélagi. En það sýnist liggja í augum uppi, að þess konar landsvæði, sem þannig hefur ekki verið ráðstafað undir sveitarstjórnarvald, þau landsvæði þurfi og eigi að heyra til einhverju sveitarfélagi.

Eins og kunnugt er, eru afréttir okkar Íslendinga, bæði margir og stórir, stór hluti lands. Og þeir hafa flestir, ef ekki allir, að meira eða minna leyti verið nýttir, og svo hefur verið um aldir. Á því er ekki minnsti vafi, að nýting afréttarlanda víðs vegar um landið mun verða mun stórkostlegri heldur en nokkru sinni fyrr á næstu árum og áratugum. Og það er ekki aðeins, að landið verði grætt upp. Þar sem ógróið er, mun hefjast mikil ræktun og hún verður að sjálfsögðu á vegum sveitarfélaga og íbúa sveitarfélaga og þá yfirleitt bænda.

Þá má líka geta þess, að stórfelldar framkvæmdir eiga sér stað og hafa átt sér stað um skeið á afréttarlöndum uppi. Þar á ég við stórvirkjanir og undirbúning að stórvirkjunum. Þar hafa verktakar og fyrirtæki þeirra haft bækistöðvar um langa hríð og þar hefur starfað fjöldi manna langtímum saman á hverju ári, þó að óvíða sé komið til þess, að slíkir starfsmenn hafi þar bækistöð og heimilisfestu árið yfir. En það er. enginn vafi á því, að bækistöðvar af ýmsu tagi og starfsmenn einnig munu koma til með að eiga þarna athvarf og eiga þarna heimilisfestu, einstaklingarnir og fyrirtækin líka, og munu ekki langir tímar líða þar til að því kemur. Því er það eðlilegt, að slík svæði og það fólk og fyrirtæki, sem sezt að á þeim, hlíti valdi einhvers sveitarfélags og hafi þar samsvarandi að vísu bæði skyldur og réttindi. En svo er ástatt nokkuð víða um þessi afréttarsvæði, að ekkert sveitarfélag hefur þar sveitarstjórnarvald, og einstaklingar og fyrirtæki, sem kunna síðar að búa á þessum svæðum, þurfa ekki að leita til sveitarfélags, sem er nærri afrétti eða á eða hefur afnotarétt af afréttarsvæðinu. Og það segir sig sjálft, að slíkt getur vart átt sér stað, að þeir einstaklingar, sem þannig er ástatt um, og fyrirtæki geti átt heimilisfestu hvar sem er á landinu. Því tel ég, að sú skipan afréttarlands í þessu efni að því er varðar sveitarstjórn sé nærtækust og eðlilegust, að það svæði heyri til því sveitarfélagi, sem þar hefur haft um langan tíma og jafnvel aldir afnotarétt eða jafnvel eignarrétt, og enn fremur hefur því sveitarfélagi, sem þannig er ástatt um. verið skylt að rækja ýmiss konar störf og athafnir á þessu sama svæði.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að íbúar sveitarfélags, sem hefur haft afrétt, íbúar slíks sveitarfélags líta á þetta landsvæði sem heimaland og jafnvel svo, að þeir telja margir hverjir, að það land sé innan túngarðs hjá þeim. Og dæmi eru þess fyrr og síðar, að afréttarsvæði hafi jafnvel verið talin tilheyra jörðunum innan sveitarfélagsins. Mér er ekki kunnugt um það, að slík afréttarsvæði hafi verið bundin í fasteignamati við ákveðnar jarðir. Þó má það vel vera, ef það mál væri frekar athugað. Og þau bönd, sem binda íbúa sveitarfélagsins við afréttinn, eru æðisterk og jafnvel þó að ekki sé um íbúa sveitarfélagsins að ræða, heldur þá landsmenn, sem upp á afrétt fara, þeir verða óðar en líður mjög tengdir þessu svæði og jafnvel tengdari heldur en sínum heimahögum.

Ég hef ekki talið ástæðu að leggja út í það að ræða sérstaklega um sjálft eignarhaldið á þessum afréttarlöndum. Ég tel, að það sé mál alveg sérstaks efnis, sem væntanlega verður útkljáð fyrir dómstólum. Ekki heldur vil ég ræða frekar um það, að ríkisvaldið sjálft fari með sveitarstjórn á þessum svæðum. En mér sýnist það vera nærtækast að ætla, að svo sé um sum hver afréttarlöndin, eins og háttar nú.

Ég tel það vel viðeigandi á 100 ára afmæli sveitarstjórnarlöggjafar á landi okkar, sem er nú um þessar mundir og verður haldið hátíðlegt með einum og öðrum hætti, að þess væri minnzt m. a. með því að koma eðlilegu sveitarstjórnarskipulagi á þessi landsvæði, sem ég hef hér fjallað um og í frv. getur, — þessi landsvæði, sem bæði nú og sjálfsagt enn frekar þó í framtíðinni eru sá hluti íslenzkrar landhelgi upp til landsins, sem sízt má vanrækja, og fer þá saman hvort tveggja, að hér er um höfuðauðlindir okkar að ræða: Það er landhelgin okkar upp til hálendisins og landhelgin okkar út til hafsins. Og þessar auðlindir okkar verða að sjálfsögðu því verðmætari sem stundir líða fram. Á þeim mun byggjast að verulegu leyti framtíðarvelferð þjóðarinnar og til þeirra mun hún sækja það afl fyrst og fremst, sem knýja má okkur fram til hvers kyns framfara og þeirra lífshátta, sem við bezt teljum okkur geta náð. Um bæði þessi mikilvægustu nytjasvæði okkar gildir það sama, það verður að vinna að hagkvæmu skipulagi, nauðsynlegri vernd og hyggilegri rækt.

Ég vildi með þessum orðum benda á það, að þessi svæði, sem hér ræðir um að koma sveitarstjórnarskipulagi á, eru æðimikilsverð og mega engan veginn vera út undan í því efni, sem hér ræðir. Það er þannig að mínu áliti og enda margra annarra fyllilega tímabært, að þegar sé þessu sérstaka landsvæði skipaður sess að sveitarstjórnarlögum. Hér hefur orðið nokkur misbrestur á, þegar sveitarstjórnarlög voru síðast samþ. eða frá þeim gengið, að ekki skyldi verða tekinn fyrir þessi þáttur þeirra. En hér er sem sagt gerð tilraun til þess að koma hæfilegu og eðlilegu lagi á.

Eins og getur um í 1. gr. frv. eða fyrri gr. frv., þá er gert ráð fyrir því, að fleiri en eitt sveitarfélag hafi haft afnot eða eignarrétt á afréttarlandi. Það má gera ráð fyrir því, að samkomulag geti náðst um, hverju sveitarfélaginu afrétturinn skuli að þessu leyti tilheyra, og ég vil ætla, að það gæti orðið höfuðreglan og bezt fyrir alla aðila. Og ég vil geta þess í því sambandi, að þetta mætti kannske leiða til þess, að sá ágreiningur, sem yrði um ákvörðun í þessu efni, hverju sveitarfélagi afrétturinn ætti að tilheyra, sá ágreiningur gæti leitt til þess, að sveitarfélög sameinuðust enn frekar en ella. Það þætti mér ekki ótrúlegt. En hvað sem því líður, þá hefur verið reynt að setja varnagla í þessu efni og hann er sá, að ágreiningsmáli af þessu tagi verði vísað til viðkomandi sýslunefndar, sem fellir að sjálfsögðu úrskurð um. Það gæti oft orðið erfiður úrskurður, en ég sé ekki annað ráð betra eða hef ekki séð, og síðan megi skjóta þeim úrskurði sýslunefndar, ef verkast vill, til félmrn., sem mundi þá fella fullnaðarúrskurð um málið.

Ég hef þá leyft mér að rekja hér í örstuttu máli þau rök, sem ég tel vera til þess, að þetta frv. er hér lagt fram, og ég vil vænta þess, að því verði vel tekið og ég hef haft nokkurt samráð við stjórnarmenn í Sambandi ísl. sveitarfélaga og lagt þetta undir þeirra dóm og þeir, sem ég hef við talað, hafa fallizt á, að þetta væri nokkuð heppileg leið til að ráða fram úr þessu vandamáli, að bæta þann brest, sem hér er orðinn á í sveitarstjórnarlögunum. Nú má vel vera, að ýmislegt komi inn í þetta mál, sem er ófyrirséð. Ég segi fyrir mig, ég er ekki svo kunnugur um land, að ég viti, hvernig háttar til þar um afréttarlönd, legu þeirra og alla aðstöðu og notkun. En þar, sem ég til þekki, hygg ég, að slík löggjöf sem þessi, ef til hennar kæmi, mundi vel henta.

Þá held ég, að ég ljúki máli mínu, en óska eftir því, að þessu máli mætti verða svo hraðað, ef lítill eða enginn ágreiningur verður um það, að það geti fengið lagastaðfestingu á þessu þingi. Það væri að ýmsu leyti mjög ákjósanlegt, en að sjálfsögðu fer það eftir atvikum.

Þá vil ég, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að eftir þessa 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til heilbr.og félmn.