11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

71. mál, innlent lán

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er annars vegar fsp. til hæstv. fjmrh., hvort gert sé ráð fyrir því, að þessi spariskírteini, sem hér er lagt til að afla heimildar fyrir ríkisstj. til þess að gefa út, verði gefin út og seld á þessu ári. Fjmrh. gat um það hér í ræðu sinni áðan, að það væri verið að afla fjár til framkvæmda á árinu 1972, en jafnframt óskaði hann eftir afgreiðslu málsins með þeim mesta hraða, sem d. teldi sér fært. Þess vegna vildi ég spyrja: Er ætlunin að gefa þessi bréf út og selja þau á verðbréfamarkaði nú á þessu ári?

Í öðru lagi óska ég eftir því sem einn af nm. fjhn. þessarar hv. d., að n. og þar með d. verði gefnar einhverjar upplýsingar um það, með hvaða hætti ríkisstj. hyggst nota það fjármagn, sem hún með þessu frv. ætlar að afla sér. Ég held, að í hvert það skipti, sem áður var lagt fram svipað frv., þá hafi ýmist það fylgt með frv. í grg., með hvaða hætti ríkisstj. hygðist nota fjármagnið, eða fjmrh. eða starfsmaður hans gerái í fjhn. þessarar d. grein fyrir, með hvaða hætti og til hvers ætti að nota það fjármagn, sem aflað var heimildar fyrir.