17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

151. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun ekki gera ágreining um afgreiðslu þessa máls að þessu sinni. Ég vil hins vegar benda á þá staðreynd, að ákvæði lagafrv. þess, sem við erum að afgreiða nú, taka einungis til sjómanna, sem lögskráðir eru samkv. lögskráningarlögum. Er þar um að ræða sjómenn á skipum 12 rúmlesta og stærri. Hér fyrir Alþ. hefur legið í vetur frv., sem ég hef flutt ásamt nokkrum sjálfstæðismönnum, um breytingu á lögskráningarlögum á þann veg, að sjómenn, sem stunda fiskveiðar á skipum undir þessari stærð, öðlist m. a. þau réttindi, sem fylgja þessari löggjöf. Hv. formaður sjútvn. Nd. hefur ekki séð ástæðu til þess að taka þetta mál fyrir í n. eða afgreiða það, þannig að ég tel miður farið, þegar við erum að afgreiða þetta mál, að svo sé ekki. En þar fyrir utan þá auðvitað áskilja þeir þm., sem flutt hafa þetta mál, sér allan rétt til þess að taka það upp á næsta Alþ., ef þeir eiga þangað afturkvæmt, en ég vil aðeins undirstrika þetta, að með þessari löggjöf, sem við erum að samþykkja, er verið að skera af smábátasjómenn allt í kringum land og það hefur legið fyrir þessu hv. Alþ. í sjútvn. Nd. frv. um þetta efni, án þess að það hafi fengizt nokkur afgreiðsla á því máli þar.