18.10.1971
Sameinað þing: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Núverandi ríkisstj. var mynduð 14. júlí s. l. Sú stjórnarmyndun var eðlileg afleiðing kosningaúrslitanna. Þegar stjórnin var mynduð, höfðu þeir flokkar, sem að stjórninni standa, Alþb., Framsfl. og SF, gert með sér málefnasamning, sem birtur var alþjóð. Í þessum málefnasamningi er mörkuð stefna ríkisstj. og afstaða til margra mikilvægra þjóðfélagsmála. Þessi málefnasamningur er því stefnuskrá núv. ríkisstj. Þessi málefnasamningur skiptist í fimm höfuðþætti. Fjallar sá fyrsti um landhelgismál, annar hefur fyrirsögnina kjaramál, sá þriðji hefur yfirskriftina atvinnumál, fjórði þáttur fjallar um félags- og menningarmál og fimmti þáttur nefnist utanríkismál.

Þessar kaflafyrirsagnir gefa nokkra en hvergi nærri tæmandi hugmynd um málefni þau, sem þar er rætt um, því að í sumum köflunum er fjallað um margvísleg efni, sem kaflaheitið nær út af fyrir sig ekki yfir. Þó að málefnasamningurinn hafi þegar verið birtur, svo sem áður er sagt, þykir ríkisstj. rétt að birta hann Alþ. nú í þingbyrjun og gefa þannig hv. alþm. kost á að ræða hann sérstaklega og þar með stefnu stjórnarinnar. Þar sem málefnasamningurinn er alllangur, mun ég þó ekki lesa hann í samfellu, heldur halda mig við þá efnisskipan, sem áður er lýst, og lesa hvern kafla út af fyrir sig og gefa þá um leið á honum nokkrar skýringar, gera m. a. grein fyrir því, hvað þegar hefur komið til framkvæmda af því, sem þar er kveðið á um, og hverjar framkvæmdir eru í undirbúningi og fyrirhugaðar á næstunni.

Eins og áður er sagt, fjallar I. kafli málefnasamningsins um landhelgismál. Þar segir, að það sé stefna ríkisstj., að landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja verði sagt upp og ákvörðun tekin um útfærslu fiskveiðilandhelgi í 50 sjómílur frá grunnlínum og komi sú útfærsla til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. 1972. Jafnframt verði ákveðin 100 sjómílna mengunarlögsaga. Ríkisstj. mun um landhelgismálið hafa samráð við stjórnarandstöðuna og gefa henni kost á að fylgjast með allri framvindu málsins.

Þessi ákvæði málefnasamningsins eru í algeru samræmi við þá stefnu í landhelgismálinu, sem núv. stjórnarflokkar mótuðu á síðasta Alþ. Með þá sameiginlegu stefnu gengu þeir til síðustu alþingiskosninga og lögðu einmitt í kosningabaráttunni áherzlu á, að landhelgismálið væri mál málanna. Er óhætt að fullyrða, að sú stefna hlaut ótvíræðan stuðning í kosningunum. Það er því ekkert vafamál, að þm. núv. stjórnarflokka voru alveg sérstaklega kosnir til þess að koma þessu máli fram. Það er því eðlilegt, að þetta mál sé sett efst á blað í samstarfssamningi stjórnarflokkanna. Það er eins og ég sagði mál málanna hjá núv. ríkisstj. og hefur algeran forgang fram yfir önnur málefni. Sú afstaða er byggð á þeirri sannfæringu, að hér sé um að ræða lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar. Framtíð hennar og lífsskilyrði velta öðru fremur á því, hvort það tekst að vernda fiskimiðin umhverfis landið gegn ágangi útlendra fiskiskipa og að Íslendingar einir geti nýtt þessar auðlindir landgrunnsins, sem eru nú á dögum jafneðlilegur hluti af yfirráðasvæði íslenzka ríkisins eins og landið sjálft. Þetta er svo sjálfsagt mál í augum allra Íslendinga, að um það er óþarfi að fjölyrða hér.

Það má segja, að ríkisstj. hafi á þessu fyrsta starfstímabili sínu einbeitt sér að þessu máli. Það hefur verið hafin kynningarherferð á málstað Íslendinga. Ég fullyrði, að á þremur starfsmánuðum núv. ríkisstj. hefur þetta mál og stefna Íslendinga í því verið kynnt meir en á öllu hinu svokallaða viðreisnartímabili. Fyrirhugaðar aðgerðir hafa verið sérstaklega kynntar Bretum og Vestur-Þjóðverjum, meðal annars með sendiför utanrrh. til þessara landa. En til þess var sérstök ástæða vegna samninganna frá 1961. Þá hefur og utanrrh. flutt um málið skelegga ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar Íslands á undirbúningsfundum hinnar fyrirhuguðu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hafa lagt mikla vinnu í að kynna stefnu Íslands og stuðla að skilningi á sérstöðu þess og í það að leita samstarfs við þær þjóðir, sem svipuð sjónarmið hafa. Þá hefur og stefna Íslands í landhelgismálinu nýlega verið sérstaklega kynnt Einingarsamtökum Afríkuþjóða, þegar sendinefnd frá þeim var hér á ferð.

Ég hika ekki við að fullyrða, að utanrrh. og embættismenn þeir, sem með honum hafa sérstaklega starfað að málinu, hafi unnið ágætt starf. Nú á næstunni mun verða lögð fyrir Alþ. till. til þál., þar sem leitað verður eftir staðfestingu á stefnu stjórnarinnar í landhelgismálinu. Þessi till. hefur nú þegar reyndar verið lögð fram og henni hefur verið útbýtt. Þegar sú till. kemur til umr., verður gerð nánari grein fyrir málinu, og skal ég því ekki fjölyrða frekar um það í þessu sambandi. Þó vil ég segja það, að ákveðnar hafa verið viðræður við Breta og Vestur-Þjóðverja, sem mótmælt hafa fyrirhuguðum aðgerðum. Er gert ráð fyrir því, að þær viðræður hefjist í byrjun nóvember. Þó að ekki verði hvikað frá þeirri grundvallarstefnu í landhelgismálinu, sem mörkuð hefur verið, er vitáskuld sjálfsagt að ræða við þessar þjóðir sem um langan aldur hafa verið góðar viðskiptaþjóðir Íslendinga, og leita að lausn í þessu máli, sem þær líta öðrum augum á en við. Verðum við að vona, að slíkt geti tekizt með gagnkvæmum skilningi og sanngirni.

II. kafli málefnasamningsins ber fyrirsögnina kjaramál. Þar kennir þó ýmissa grasa. Þar er ekki aðeins fjallað um kjaramál í þrengri merkingu, heldur og um verðlagsþróun, efnahagsmál o. fl. Þessi kafli er svo hljóðandi:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti. Til þess að ná þessu marki vill stjórnin hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum. Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum, en halda áfram verðstöðvun, þar til nýjar ráðstafanir til að hamla gegn óeðlilegri verðlagsþróun verða gerðar. Það er stefna ríkisstj. að bæta afkomu verkafólks, bænda, sjómanna og annarra þeirra, sem búa við hliðstæð kjör. Í trausti þess, að ríkisstj. hljóti stuðning til þess að ná sem beztum tökum á þróun verðlagsmála og í því skyni, aðhægt verði að tryggja láglaunafólki árlegar og eðlilegar kjarabætur, mun ríkisstj. beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í kjaramálum:

1. Vinnuvikan verði með lögum stytt í 40 stundir, án breytinga á vikukaupi.

2. Orlof verði lengt í 4 vikur og framkvæmd orlofslaga auðvelduð.

3. Kaupgjaldsvísitalan verði leiðrétt um þau 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með verðstöðvunarlögunum, og komi leiðréttingin nú þegar til framkvæmda.

4. Þau vísitölustig, sem ákveðið var í verðstöðvunarlögunum, að ekki skyldu reiknuð í kaupgjaldsvísitölu fram til 1. sept., verði nú þegar tekin inn í kaupgjaldsvísitöluna.

5. Auk þeirra kjarabóta, er að framan greinir, telur ríkisstj., að með nánu samstarfi launafólks og ríkisstj. sé mögulegt að auka í áföngum kaupmátt launa verkafólks, bænda og annars láglaunafólks um 20% á næstu tveimur árum, og mun beita sér fyrir því, að því marki verði náð. Lög um framleiðsluráð landbúnaðarins verði endurskoðuð í samráði við Stéttarsamband bænda og að því stefnt, að stéttarsambandið semji við ríkisstj. um kjaramál bændastéttarinnar og verðlagningu búvara. Miða skal jafnan við það, að kjör bænda verði sambærileg við launakjör annarra vinnandi stétta. Ríkisstj. vill að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt um kjör sín, enda hverfi þá öll sjálfvirk tengsl á milli launasamninga þeirra og annars launafólks. Ríkisstj. leggur sérstaka áherzlu á, að launakjör sjómanna verði bætt verulega og mun vinna að því m. a. með breyt. á l. nr. 79 frá 1968 og með hækkun á fiskverði. Ríkisstj. mun m. a. beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í efnahagsmálum:

1. Að lækka vexti af stofnlánum atvinnuveganna og lengja lánstíma þeirra.

2. Að endurkaupalán Seðlabankans verði hækkuð og vextir á þeim lækkaðir.

3. Að vátryggingarmál fiskiskipa verði endurskoðuð með það fyrir augum að lækka vátryggingarkostnað.

4. Að endurskoða lög og reglur um ýmiss konar gjöld, sem nú hvíla á framleiðsluatvinnuvegunum, og stefna að því, að þau verði lækkuð eða felld niður.

5. Að söluskattur á ýmsum nauðsynjavörum verði felldur niður.

6. Að auka rekstrarlán til framleiðsluatvinnuveganna.

7. Að breyta lögum og reglum um verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins þannig, að unnt verði að tryggja hækkun fiskverðs.

8. Gagnger athugun fari fram á núgildandi verðlagningu á sem flestum sviðum í því skyni að lækka verðlag eða hindra verðlagshækkanir.“

Nokkur af þeim fyrirheitum, sem gefin eru í þessum kafla, eru þegar komin til framkvæmda. Þannig var verðstöðvunin framlengd til áramóta með brbl. Það verður svo Alþingis að ákveða það, hvort það vill framlengja verðstöðvun lengur í sömu eða svipaðri mynd. En hvað sem ofan á verður í því efni, þá leggur ríkisstj. áherzlu á, að ströngu verðlagseftirliti verði haldið uppi. Eins og fram er tekið í þeim kafla málefnasamningsins, sem lesinn var, leggur ríkisstj. ríka áherzlu á, að hafður sé hemill á hinni háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarin ár, og mun því leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Hins vegar er vert að undirstrika það, að ríkisstj. gefur ekkert fyrirheit um það að stöðva algerlega verðbólgu, svo sem viðreisnarstjórnin gerði á sínum tíma. Ég held, að slíkt fyrirheit væri óraunsætt eins og þróunin er í kringum okkur. Ég held einnig, að horfast verði í augu við það, að naumast verður hjá því komizt, að fyrirhugaðra kjarabóta gæti eitthvað í verðlagi, þó að allrar varúðar verði gætt í því efni. Vert er að undirstrika, að sem nánast samstarf skal haft við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum.

Kaupgjaldsvísitalan var strax leiðrétt með brbl. um þau 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með verðstöðvunarlögunum. Sama máli gegnir um þau tvö vísitölustig, sem ákveðið var í verðstöðvunarlögunum, að ekki skyldu reiknuð inn í kaupgjaldsvísitölu. Þá hefur og fyrirheitið um bætt launakjör sjómanna og hækkun fiskverðs komið til framkvæmda, svo sem menn vita. Nefndir skipaðar fulltrúum ríkisstj., verkamanna og vinnuveitenda vinna nú að því að semja lagafrv. um vinnutímastyttingu og orlofslengingu. Ég held, að ekki verði annað sagt en hér hafi rösklega verið tekið til hendi. Þessar ráðstafanir og stefnumörkun ríkisstj. í kjaramálum að öðru leyti hafa það markmið að tryggja kjarabætur og greiða fyrir kjarasamningum og stuðla að vinnufriði. Það má hiklaust telja eitt af höfuðmarkmiðum þessarar ríkisstj.

Nú standa yfir allsherjarkjarasamningar og verður á þessu stigi ekkert um það sagt, hver niðurstaða þeirra verður. Það er auðvitað ekki ætlun ríkisstj. að grípa inn í kjarasamninga. Hitt hefur ríkisstj. gert, að benda á tilteknar leiðir. Hún hefur lýst því, að hún telji mögulegt með nánu samstarfi launafólks og ríkisstj. að auka í áföngum kaupmátt launa verkafólks, bænda og annars láglaunafólks um 20% á næstu tveimur árum. Ríkisstj. hefur heitið því, að beita sér fyrir því, að þessu marki verði náð. Ég undirstrika, að talað er um 20% kaupmáttaraukningu en ekki um 20% kauphækkun. Þarna er mörkuð stefna um kjarabætur í tilteknum áföngum og miðað við tveggja ára tímabil. Ég held að þessi stefna, ef í framkvæmd kemst, geti stuðlað að auknu öryggi á vinnumarkaði og komið í veg fyrir hinar stóru og snöggu sveiflur, sem eru mjög hættulegar traustu efnahagslífi.

Nefnd hefur verið skipuð til að endurskoða lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins, svo sem gert var ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum. Er þess að vænta, að lagafrv. um það efni verði lagt fyrir þetta þing síðar í vetur. Að því er varðar þær sérstöku ráðstafanir í efnahagsmálum, sem nefndar eru síðast í þeim kafla málefnasamningsins, sem hér er um að ræða, þá er þess að geta, að söluskattur hefur þegar verið felldur niður af nokkrum nauðsynjavörum. Að öðru leyti eru þessar ráðstafanir, svo sem vaxtalækkun þargreindra lána, lækkun ýmissa gjalda, sem nú hvíla á framleiðsluatvinnuvegunum, aukin rekstrarlán o. fl. í athugun og undirbúningi.

Þriðji kafli málefnasamningsins er um atvinnumál, og er hann svo hljóðandi: „Ríkisstj. einsetur sér að efla undirstöðuatvinnuvegina á grundvelli áætlunargerðar undir forustu ríkisvaldsins. Koma skal á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hafi á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum. Stofnunin skal gera áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma, þar sem greindar eru þær fjárfestingarframkvæmdir, sem forgang skulu hafa. Stofnunin fari með stjórn Framkvæmdasjóðs ríkisins og annarra þeirra fjárfestingarsjóða, sem eðlilegt verður talið að falli undir hana. Stofnunin skal hafa náið samstarf við aðila atvinnulífsins um það, hvað unnt sé að gera til að búa í haginn fyrir hverja atvinnugrein í því skyni að lækka rekstrarkostnað og gera m. a. mögulegt að bæta kjör starfsmanna, án þess að hækkun verðlags fylgi. Þær stofnanir og nefndir, sem fyrir eru og gegna skyldum verkefnum og þessi nýja stofnun, verði sameinaðar henni, eftir því sem ástæða þykir til. Í tengslum við Framkvæmdastofnun ríkisins skal starfa sjóður undir sérstakri stjórn, sem veitti fjárstuðning til þess að treysta sem bezt eðlilega þróun í byggð landsins. Eignir og tekjur Atvinnujöfnunarsjóðs gangi til þessa sjóðs og aðrar tekjur, eftir því sem ákveðið verður síðar. Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun. Stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land meira en nú er gert. Ríkisstj. hefur ákveðið, að helztu verkefni í einstökum atvinnugreinum verði þessi: Að fela Framkvæmdastofnun ríkisins að semja iðnþróunaráætlun og verði í henni lögð höfuðáherzla á uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar í eigu landsmanna sjálfra. Skal einkum stefnt að því að gera stórátak til að byggja upp fjölbreyttan fullvinnsluiðnað íslenzkra afurða, sjávarútvegs og landbúnaðar, með því m. a. að útvega verulegt fjármagn til niðursuðu- og niðurlagningariðnaðar, skipuleggja víðtæka markaðsleit og koma upp öflugum sölusamtökum þessa iðnaðar. Að beina auknu fjármagni til iðnaðarins með það fyrir augum, að hann verði fær um að taka við verulegum hluta þess vinnuafls, sem sjá þarf fyrir atvinnu á næstu árum. Könnun fari fram á því, hvaða greinar iðnaðar hafi mesta þjóðhagslega þýðingu og þær látnar njóta forgangs um opinbera fyrirgreiðslu. Að halda áfram með auknum þrótti rannsóknum á möguleikum til íslenzks efnaiðnaðar. Að leggja áherzlu á eflingu skipasmíðaiðnaðarins með það takmark fyrir augum, að Íslendingar smíði að miklu leyti skip sín sjálfir og geti annazt viðhald fiskiskipa og kaupskipa.

Að gera sérstakt átak til að endurbæta frystihúsareksturinn og taka löggjöf um rekstur síldarverksmiðja ríkisins til endurskoðunar.

Að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða. Stuðla að aukinni fjölbreytni landbúnaðarins, m. a. með ylrækt og fiskirækt og efla innlenda fóðurframleiðslu, auka stuðning við félagsrækt.

Að endurskoða lánakerfi landbúnaðarins með það fyrir augum að gera stofnlán hagstæðari, koma rekstrarlánum í eðlilegt horf, hækka jarðakaupalán og færa íbúðalán í sveitum til samræmis við önnur íbúðalán. Gera sveitarfélögum kleift að kaupa jarðir, sem ekki byggjast með eðlilegum hætti.

Að stuðla að nauðsynlegri endurnýjun og uppbyggingu vinnslustöðva landbúnaðarins.

Að stórefla fiskiskipaflotann með skuttogurum og öðrum fiskiskipum, sem vel henta til hráefnisöflunar fyrir fiskiðnaðinn. Afla skal fjár í þessu skyni og veita nauðsynlega forustu og fyrirgreiðslu. Skal þegar gera ráðstafanir til, að Íslendingar eignist svo fljótt sem verða má a. m. k. 15 til 20 skuttogara af ýmsum stærðum og gerðum. Þar sem staðbundið atvinnuleysi ríkir og ekki reynist unnt að afla nægilegs hráefnis til vinnslu, verði gerðar ráðstafanir til að koma upp útgerðarfyrirtækjum með samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra heimaaðila.

Að hefjast þegar handa um undirbúning að stórum vatnsafls- og jarðhitavirkjunum, sem nægi til hitunar á húsakosti landsmanna og tryggi íslenzkum atvinnuvegum næga raforku. Stefnt sé að því að tengja saman meginaflstöðvar landsins. Að koma svo fljótt sem verða má upp raforkuverum til öryggis, þar sem þess er mest þörf. Jafnframt verði unnið að því að leysa af hólmi raforkuframleiðslu með dísilvélaafli.

Að ljúka innan þriggja ára rafvæðingu allra þeirra bújarða í sveitum, sem hagkvæmt er talið að fái raforku frá samveitum. Hinum, sem tryggja verður raforku með einkavatnsaflsrafstöðvum eða dísilstöðvum, verði veitt aukin opinber aðstoð.

Að vinna að aukinni jöfnun raforkuverðs í landinu. Að endurskoða allt samgöngukerfið, m. a. með hagkvæmustu þungavöruflutninga á sjó og landi til allra byggðarlaga í huga. Leggja verður jöfnum höndum aukna áherzlu á endurbyggingu eldri vega og lagningu nýrra. Lán, sem tekin verða til vegagerðar, endurgreiðist af tekjum ríkisins af umferðinni. Ljúka þarf hringvegi um landið. Taka ber upp að nýju farþegaflutninga á sjó umhverfis landið. Bæta skal flugvelli og skipulag flugsamgangna.

Að endurskoða allt bankakerfið, þ. á m. löggjöf varðandi Seðlabankann og hlutverk hans og vinna að sameiningu banka og fjárfestingarsjóða. Að taka skipulag olíusölunnar til endurskoðunar með það fyrir augum sérstaklega, að sjávarútveginum verði tryggt hagstætt olíuverð. Að taka vátryggingarmálin til endurskoðunar með það fyrir augum, að vátryggingarkerfið verði gert ódýrara og einfaldara.

Að endurskipuleggja lyfjaverzlunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn.“

Ákvæði þau, sem ég hef nú lesið, þurfa naumast skýringar við. Þær viljayfirlýsingar, sem þar er að finna, eru ákveðnar og fullljósar. Í þessum atvinnumálakafla kemur m. a. fram sú stefna ríkisstj., að beita skuli skipulegum áætlunarvinnubrögðum við uppbyggingu atvinnuveganna og eflingu atvinnulífsins. Er hinni fyrirhuguðu Framkvæmdastofnun ríkisins ætlað að hafa þar forustu og frumkvæði. Hefur verið samið frv. um þá stofnun og verður það lagt fyrir þingið á næstunni. Ég vil einnig vekja athygli á, að það er lögð rík áherzla á byggðarþróunarstefnu. Kemur sú stefna, jafnvægis- og jafnréttisstefna raunar auk þess fram í ýmsum ákvæðum málefnasamningsins á víð og dreif. Um verkefni þau í einstökum atvinnugreinum, sem sérstaklega eru nefnd, er það að segja, að það hlýtur eðli málsins samkvæmt að taka sinn tíma að koma þeim í framkvæmd. Það liggur í hlutarins eðli, að á hinum stutta starfstíma stjórnarinnar hefur ekki unnizt tími til að undirbúa aðgerðir í þeim efnum nema að litlu leyti. Nefna má þó ráðstafanir þær, sem þegar hafa verið gerðar til að greiða fyrir aukningu skipastólsins, bæði með skipasmíðum og skipakaupum erlendis og með skipasmíðum innanlands, ákvörðun um stórvirkjunarframkvæmdir, Sigölduvirkjun, og sérstaka athugun á niðursuðu- og niðurlagningariðnaði, sem nú er unnið að. Enn fremur er byrjað á undirbúningi að löggjöf um sum þau efni, sem um er fjallað í atvinnumálakaflanum, og ég hirði ekki um að tíunda það hér. Athugun annarra er enn ekki komin af stað. Um þessi mál ætla ég ekki að fjölyrða frekar að sinni, nema tilefni gefist til síðar. Er og ekki ólíklegt, að þessi mál öll beri á góma, er væntanlegt frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins verður rætt hér innan tíðar. Ég get þó ekki stillt mig um að vekja aðeins athygli á, hver áherzla er lögð á umbætur í samgöngumálum, jafnt á landi, í lofti og á sjó. En sérstaklega vil ég nefna stefnumarkið um hringveg um landið. Það er ekki lítið atriði að brúa það bil, sem þar er eftir. Ég hygg, að engin ríkisstjórn hafi áður sett fram það stefnumið. Vissulega þarf þar til stórt átak, en það átak þarf að gera og það átak verður gert.

Ég vek athygli á þeirri stefnu í raforkumálum, að tengdar skuli saman meginaflstöðvar landsins og að rafvæðingu sveitanna skuli lokið á þremur árum.

Í fjórða kafla málefnasamningsins um félags- og menningarmál segir svo:

Ríkisstj. hefur sett sér þessi höfuðmarkmið í félags- og menningarmálum: Að beita sér fyrir auknum jöfnuði lífskjara og tryggja í framkvæmd fullt jafnrétti landsmanna, án tillits til kynferðis, stéttar eða búsetu.

Að beita sér fyrir setningu löggjafar um alhliða vinnuvernd, svo og löggjafar um hlutdeild starfsfólks í stjórn fyrirtækja og tryggja, að slíkri skipan verði komið á í ríkisfyrirtækjum. Að ríkisfyrirtæki segi sig úr Vinnuveitendasambandi Íslands. AS styðja launþegasamtökin til þess að koma upp hagstofnun á sínum vegum. Að tryggja með löggjöf, að vinnulaun fáist greidd þrátt fyrir gjaldþrot atvinnurekenda.

Að endurskoða allt tryggingakerfið, m. a. með það fyrir augum, að greiðslur almannatrygginga til aldraðs fólks og öryrkja verði hækkaðar að því marki, að það nægi til framfæris þeim bótaþegum, sem ekki styðjast við aðrar tekjur.

Að lögtekinni hækkun elli- og örorkulífeyris verði flýtt með setningu bráðabirgðalaga.

AS aðstaða landsmanna í heilsugæzlu og heilbrigðismálum verði jöfnuð. Verði sérstaklega kostað kapps um að bæta úr vandræðum læknislausra héraða og ráða bót á ófremdarástandi í málefnum geðsjúkra og drykkjusjúkra.

Að sett verði löggjöf um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri barnaheimila, elliheimila og annarra hliðstæðra stofnana og séð fyrir fullnægjandi menntunaraðstöðu starfsliðs þeirra.

Að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings, m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána.

Að hafa forgöngu um, að byggt verði leiguhúsnæði, er lúti félagslegri stjórn og sé einkum í þágu frumbýlinga og aldraðs fólks.

Að endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátlegar en nú er gert. Slík endurskoðun skattakerfisins haldist í hendur við endurskoðun tryggingalöggjafar í því skyni, að öllum þjóðfélagsþegnum verði tryggðar lífvænlegar lágmarkstekjur. Tekjur, sem einungis hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlagðar. Skattaeftirlit verði hert, þannig að réttlát skattaframkvæmd verði tryggð betur en nú er. Stefnt verði að því, að persónuskattar eins og til almannatrygginga verði felldir niður, en teknanna aflað með öðrum hætti. Jafnframt verði gerð ítarleg athugun á rekstrarkostnaði ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja í þeim tilgangi að gera reksturinn einfaldari og draga úr kostnaði.

Að framkvæma endurskoðun á fræðslukerfinu og gera heildaráætlun um þörf þjóðarinnar fyrir hvers konar fræðslustofnanir, kennaralið, námsleiðir og tengsl milli þeirra í því skyni að skapa samræmt og heilsteypt menntakerfi. Skólarannsóknir verði efldar og skipulag þeirra endurskoðað. Menntunaraðstaða ungmenna verði jöfnuð, námsbrautum fjölgað, komið á víðtækum stuðningi við námsfólk og fjárframlög til skólabygginga aukin. Fólki á ýmsum aldri verði gert kleift að njóta menntunar og endurmenntunar og gefinn kostur á að ljúka fullgildu námi í sem flestum sérgreinum. Iðnnám og tæknimenntun þarf að endurskipuleggja frá rótum, allt frá almennri iðnfræðslu til stofnunar tækniháskóla. Rannsóknarstörf og vísindi verði efld og tengd áætlunum um þjóðfélagsþróun. Listir, bókmenntir og önnur menningarstarfsemi hljóti aukinn stuðning. Aðstoð sé veitt til stofnunar og rekstrar félagsmálaskóla verkalýðshreyfingar og samvinnuhreyfingar.

Að stuðla að breyttu gildismati á þann veg, að til hinna eftirsóttustu lífsgæða verði talið hreint og ómengað umhverfi og fullnægjandi skilyrði til eflingar frjálsrar hugsunar og andlegs þroska einstaklingsins.

Við hagnýtingu íslenzkra auðlinda skal kosta kapps um alhliða náttúruvernd, svo að hver þjóðfélagsþegn eigi þess kost að njóta heilbrigðra lífshátta.

Að gera þær ráðstafanir, sem þörf krefur, til að girða fyrir mengun umhverfis af völdum iðnvera og annars atvinnurekstrar. Að tryggja náttúruverndarráði nauðsynleg fjárráð og stuðla á annan hátt að öflugri framkvæmd einstakrar löggjafar um náttúruvernd.“

Hér í þessum kafla, sem ég hef nú lesið, eru boðaðar margar og mikilsverðar aðgerðir í félags- og menningarmálum. Margar þeirra þurfa verulegan undirbúning. Það má því búast við, að það taki nokkurn tíma að koma þeim í framkvæmd. Í sumum málunum hefur þó þegar verið hafizt handa. Þannig hefur hin lögtekna hækkun elli- og örorkulífeyris, sem fyrst átti að öðlast gildi við næstu áramót, þegar komið til framkvæmda, svo sem kunnugt er. Skipaðar hafa verið nefndir til að endurskoða tryggingalöggjöfina og skattamálin og tekjustofna sveitarfélaga í samræmi við þau fyrirheit, sem gefin eru í málefnasamningnum, og með það fyrir augum, að náð verði þeim markmiðum, sem þar eru sett. Verða frv. um þau efni væntanlega lögð fyrir Alþ. síðar í vetur.

Einnig er unnið að undirbúningi löggjafar um afnám vísitölubindingar húsnæðislána, og verður væntanlega unnt að leggja frv. um það efni fyrir Alþ. innan tíðar. Í málefnasamningnum segir, að ríkisfyrirtæki skuli segja sig úr Vinnuveitendasambandi Íslands. Sú ákvörðun er byggð á þeirri skoðun, að óeðlilegt sé, að ríkisfyrirtæki leggist á sveif með öðrum aðilanum í kjarasamningum og vinnudeilum. Ákvörðun um úrsagnir þessara fyrirtækja úr Vinnuveitendasambandinu mun verða tekin fyrir áramót, þ. e. úrsagnir munu verða lagðar fram fyrir áramót.

Í sambandi við þau stefnumörk, sem sett eru í menningarmálum, vil ég segja þetta: Það fer ekki á milli mála, að ein styrkasta stoð framfara hér á landi er útbreiddur vilji fólksins til að afla sér þekkingar, bæði almennrar menntunar og starfsþjálfunar og stuðla að því, að afkomendunum séu búin betri menntunarskilyrði en kynslóðinni, sem á undan fór. Svo hefur þó til tekizt þrátt fyrir almennan og góðan vilja, að mikið skortir á, að ríkjandi ástand í fræðslumálum geti talizt viðunandi. Á ýmsum stöðum reynist torvelt að framfylgja fræðsluskyldu. Misbrestur er á, að unglingar eigi kost á skólavist að skyldunámi loknu. Iðnnám og tæknifræðsla eru langt á eftir tímanum. Menntaskólar eru tvísettir og Háskóli Íslands ætlar að springa utan af nemendafjöldanum. Mörgum þeirra meina, sem nú hrjá fræðslukerfið, hefði mátt afstýra, ef í tæka tíð hefði verið tekið tillit til hinna fjölmennu árganga, sem nú eru á skólaaldri, og skólakerfið búið markvisst undir að veita þeim viðtöku. Því miður voru þau vinnubrögð ekki viðhöfð og afleiðingin varð sú, að í ótíma var gripið til neyðarráðstafana, sem hlutu að gefast misjafnlega eins og í pottinn var búið. Í þessu efni hvílir þung ábyrgð á herðum fyrrv. ríkisstj., svo lengi sem hún fór með völd. En vítin eru til þess að varast þau, og það er með reynslu undanfarins áratugar í huga, sem núv. ríkisstj. hefur sett sér það markmið að framkvæma endurskoðun á fræðslukerfinu og gera heildaráætlun um þörf þjóðarinnar fyrir hvers kyns fræðslustofnanir, kennaralið, námsleiðir og tengsl milli þeirra í því skyni að skapa samræmt og heilsteypt menntakerfi, eins og segir í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og ég las áðan. Undir lok valdaferils fyrrv. stjórnar tók hún að sýna þess nokkur merki, að henni var orðið ljóst, að ekki mátti lengur við svo búið standa um handahófsvinnubrögð í fræðslumálum. Seint á síðasta þingi var borið fram frv. að miklum lagabálki um grunnskóla, þar sem vissulega er að finna athyglisverð nýmæli. Frv. þetta hefur mjög verið rætt utan þings, bæði hjá skólamönnum og almenningi. Núv. ríkisstj. telur, að þetta mál þurfi nákvæmrar athugunar við, áður en það verður tekið upp að nýju, og mun gangast fyrir því, að hún fari fram, þótt ekki sé enn ákveðið í einstökum atriðum, hvernig þeirri endurskoðun verður hagað. Um kosningaleytið í sumar birtist annað ítarlegt plagg um þýðingarmikinn og lengi vanræktan þátt fræðslumála. Var það nál. um nýskipan verk- og tæknimenntunar á Íslandi. Þar eru bornar fram rækilegar till. um úrbætur á því, sem kalla verður ófremdarástand í ýmsum greinum, bæði ráðstafanir til að ráða skjóta bót á verstu vanköntunum og frambúðarskipun í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Ríkisstj. mun, áður en langt um líður. taka afstöðu til þeirra megintillagna, sem fram eru bornar í þessu nál.

Ríkisstj., sem sett hefur sér það mark að tryggja svo sem framast er kostur jafnrétti landsmanna, getur ekki horft á það aðgerðalaus, að sá hluti þjóðarinnar, sem elst upp í strjálbýli, búi við stórum lakari hlut í að afla sér menntunar en uppvaxandi kynslóð í þéttbýli. Fyrir eftirgangsmuni núverandi stjórnarflokka, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, hafa fyrstu skrefin þegar verið stigin til að jafna námsaðstöðuna, sem búsetan skammtar. En mikið verk er þó óunnið. Til bráðabirgða er framlag til aðstoðar við þá, sem sækja verða nám fjarri heimili, aukið verulega á fjárlögum, eða fjárlagafrv. En ljóst er, að hér verður að koma til könnun á þörfinni og lagasetning í samræmi við hana. Ekki er þess að dyljast, að þrátt fyrir ríkan menntavilja með miklum hluta þjóðarinnar eimir enn eftir af því sjónarmiði, að bókvitið verði ekki í askana látið, að allt skuli miðað við þrengsta nytsemdarsjónarmið í fræðslu sem öðru. Slíkt viðhorf var skiljanlegt í samfélagi, sem bjó við varanlegan skort á viðurværi, hvað þá öðru. En í tæknivæddu nægtaþjóðfélagi er það beinlínis háskalegt, á tækniöld fer sérhvert samfélag sjálfu sér að voða, ef það er ríkjandi hugsunarháttur, að sá sé hólpnastur í lífinu, sem mest getur hremmt og hrifsað úr sameiginlegum sjóði landkosta og náttúrugæða. Dæmi um voðann, sem af slíku hátterni leiðir, verða ljósari með degi hverjum í hinum fjölbýlu löndum, sem við höfum sótt tækni okkar til. Vegna fámennis fremur en hófsemi og fyrirhyggju erum við Íslendingar skár á vegi staddir í þessu efni, enn sem komið er, en því aðeins verður svo einnig til frambúðar, að við látum ófarir annarra okkur að kenningu verða. Í því skyni, að sú verði raunin, hefur ríkisstj. sett sér í stefnuyfirlýsingu sinni að stuðla að breyttu gildismati á þann veg, að til hinna eftirsóknarverðustu lífsgæða verði talið hreint og ómengað umhverfi og fullnægjandi skilyrði til eflingar frjálsrar hugsunar og andlegs þroska einstaklingsins. Við hagnýtingu íslenzkra auðlinda skal kostað kapps um alhliða náttúruvernd, svo að hver þjóðfélagsþegn eigi þess kost að njóta heilbrigðra lífshátta eins og segir í stefnuyfirlýsingunni og ég las hér áðan.

Síðasti kafli málefnasamnings stjórnarflokkanna er um utanríkismál. Þar segir svo:

„Í utanríkismálum hafa stjórnarflokkarnir komið sér saman um eftirtalin meginatriði:

Stefna Íslands í alþjóðamálum verði sjálfstæðari og einbeittari en hún hefur verið um skeið og sé jafnan við það miðað að tryggja efnahagslegt og stjórnarfarslegt fullveldi landsins. Haft skal fullt samráð við utanrmn. Alþ. um öll meiri háttar utanríkismál og mótun utanríkismálastefnu landsins. Á hverju Alþ. skal gefin skýrsla um utanríkismál og fari þá fram almennar umr. um þau. Hafa skal sérstaklega náin tengsl við Norðurlandaþjóðirnar.

Innan Sameinuðu þjóðanna og annars staðar á alþjóðavettvangi ber Íslandi að styðja fátækar þjóðir til sjálfsbjargar og jafnréttis við efnaðar þjóðir. Ríkisstj. beitir sér fyrir jöfnum rétti allra þjóða og mun því greiða atkv. með því, að stjórn Kínverska alþýðulýðveldisins fái sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Enn fremur mun hún styðja það, að bæði þýzku ríkin fái aðild að Sameinuðu þjóðunum, ef það mál kemur á dagskrá. Ríkisstj. leggur áherzlu á frelsi og sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða og fordæmir því hvarvetna valdbeitingu stórvelda gegn smáþjóðum. Ríkisstj. telur, að vinna verði að því að draga úr víðsjám í heiminum og stuðla að sáttum og friði með auknum kynnum á milli þjóða og almennri afvopnun, og telur, að friði milli þjóða væri bezt borgið án hernaðarbandalaga.

Ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Að óbreyttum aðstæðum skal þó núgildandi skipan haldast, en ríkisstj. mun kappkosta að fylgjast sem bezt með þróun þeirra mála og endurmeta jafnan stöðu Íslands í samræmi við breyttar aðstæður. Ríkisstj. er samþykk því, að boðað verði til sérstakrar öryggisráðstefnu Evrópu.

Varnarsamningur við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.

Ísland gengur ekki í Efnahagsbandalag Evrópu, en mun leita sérstakra samninga við bandalagið um gagnkvæm réttindi í tolla- og viðskiptamálum. Utanríkisþjónustan skal endurskipulögð og staðsetning sendiráða endurskoðuð.“

Þetta er stefnuyfirlýsing ríkisstj. í utanríkismálum. Eins og þar er tekið fram, skal skýrsla um utanríkismál gefin á hverju Alþ., og er gert ráð fyrir því, að þar fari fram almennar umr. um þau. Í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu mun utanrrh. gefa Alþ. síðar og sennilega áður en langt um líður sérstaka skýrslu um utanríkismál og verður þá tilefni til að ræða þau sérstaklega. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða þau ítarlega að þessu sinni. En það er sérstaklega eitt ákvæði í þessari utanríkismálayfirlýsingu, sem hefur gefið tilefni til umræðu. Það er ákvæðið um varnarsamninginn og aðild landsins að NATO. Það ákvæði hefur verið nokkuð afflutt, bæði innanlands og utan. Ég ætla því að fara fáeinum orðum um það. Í málefnasamningnum segir, að varnarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skal að því stefnt, að brottför varnarliðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu. Því hefur verið haldið fram í málgögnum stjórnarandstöðunnar, að ósamræmis hafi gætt af hálfu ríkisstj. í túlkun á þessu ákvæði. Það er alger misskilningur. Í málefnasamningnum er engin fjöður dregin yfir það, að stjórnarflokkarnir hafa mismunandi afstöðu til aðildar Íslands að NATO. En þar er sagt og það höfum við jafnan síðan aðspurðir sagt, að Ísland yrði að óbreyttum aðstæðum áfram í NATO. Jafnframt höfum við margundirstrikað, að Ísland mundi standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart NATO. En við teljum, að þátttaka okkar í NATO leiði ekki til þess, að við séum skuldbundnir til að hafa erlendar hersveitir hér á landi á friðartímum. Því til sönnunar bendum við á forsögu málsins og fyrirvara af Íslands hálfu við inngöngu í NATO, sem ég ætla ekki að fara að rifja upp hér, nema tilefni gefist síðar til. En ég ætla, að hér gerist enginn til að vefengja þær yfirlýsingar, sem þá voru gefnar bæði af íslenzkum stjórnmálamönnum og útlendum mönnum, sem talað var við. Enn fremur er það augljóst mál af mismunandi gildistíma NATO-samningsins og varnarsamningsins, að þar er um tvö aðskilin mál að ræða. Hefur sú staðreynd oftlega verið undirstrikuð af hálfu forsvarsmanna allra þeirra stjórnmálaflokka, sem stóðu að inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Varnarsamningurinn er því fyrst og fremst málefni milli Íslands og Bandaríkjanna. Eins og við höfum margsagt, munum við eftir áramótin eða þegar við höfum kynnt okkur öll málefni varðandi varnarstöðina nægilega rækilega, óska eftir viðræðum við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins. En í tíð fyrrv. stjórnar var núverandi stjórnarflokkum haldið utan við öll varnarmál, svo að það er ekkert óeðlilegt við það, þó að þeir þurfi að kynna sér þau gaumgæfilega, áður en þeir ganga til viðræðna um endurskoðun samningsins.

Ég vona, að í þessum fyrirhuguðu viðræðum takist að finna þá lausn þessara mála, sem báðir aðilar geti unað við. Stefnumark okkar er skýrt. Við viljum, að hið erlenda varnarlið hverfi úr landinu í áföngum. Við viljum, að slíkt geti átt sér stað á kjörtímabilinu.

Stefnumark okkar er þannig ljóst, eins og ég sagði. Við viljum, að erlent lið sé ekki á Íslandi á friðartímum, og er það í samræmi við yfirlýsingar, sem allir flokkar hafa áður gefið. En eins og ég hef sagt, munum við láta fram fara rækilega könnun á málum þessum öllum. Við þá könnun hlýtur margt að koma til skoðunar og þá fyrst og fremst öryggi okkar sjálfra, og má í því sambandi ekki gleyma þeirri hættu, sem herstöð í landinu kann að skapa. En jafnframt þarf að hafa í huga skyldur okkar gagnvart bandalagsþjóðum, enda væntum við þess, að þær sýni sjónarmiðum okkar fullan skilning, þegar þau eru skýrð fyrir þeim.

Enn fremur er skylt að hafa í huga stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar um að stuðla að sáttum og draga úr viðsjám í heiminum. En samkvæmt því er Íslandi skylt að leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar til stuðnings viðleitni þeirra ágætu stjórnmálamanna, sem eru að reyna að draga úr spennu í heiminum. Þá þarf og auðvitað að athuga, hvernig viðhaldi og vörzlu varnarmannvirkja skuli háttað eftir brottför varnarliðsins. Ég vil taka það skýrt fram, að stefnuyfirlýsingu okkar í varnarmálum má ekki með neinu móti skoða sem óvináttuvott í garð Bandaríkjanna. Síður en svo. Samskipti okkar við þá voldugu vinaþjóð hafa að mínum dómi verið góð og munum við fyrir okkar leyti kappkosta, að þau góðu samskipti megi haldast. Tilefnið er ekki heldur neinir sérstakir árekstrar við varnarliðið umfram það, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af dvöl herliðs. Og persónulega get ég sagt það, að ef og á meðan nauðsynlegt er talið að hafa hér erlent varnarlið, þá vil ég enga fremur en Bandaríkjamenn. Stefnan í varnarmálunum byggist einfaldlega á þeirri eðlilegu ósk lítillar þjóðar, sem nýlega fékk fullveldi, að geta lifað í landi sínu án þess að erlent herlið hafi þar varanlega setu. Sú ósk er efalaust auðskilin öllum frelsisunnandi lýðræðisþjóðum.

Vitaskuld er mér ljóst, að í sambandi við brottför varnarliðsins geta komið til viss atvinnuleg vandamál, en þau ætti að vera auðvelt að leysa á hæfilegum umþóttunartíma. Og ég vil segja það, að í þessum efnum geta ekki gerzt neinar breytingar eins og hendi sé veifað. Þær hljóta allar að taka sinn tíma. Þar verður að gera ráð fyrir hæfilegum umþóttunartíma: Það verða menn að gera sér ljóst, enda eru ákvæði varnarsamningsins á því byggð. Ég læt þetta nægja um varnarmálin að sinni.

Að sjálfsögðu eru margar athyglisverðar stefnuyfirlýsingar aðrar í utanríkismálakaflanum, eins og t. d. ákvæði um öryggisráðstefnu Evrópu og um jafnrétti og sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða, en ég mun ekki ræða það hér frekar, þar sem ég tel eðlilegt, að það sé gert af utanrrh., er hann gefur skýrslu sína um utanríkismál, og mun ég því ekki fara fleiri orðum um utanríkismálakaflann sérstaklega.

Ég hef nú gert grein fyrir málefnasamningi stjórnarflokkanna og þar með stefnuskrá ríkisstj., og er nú ekki óeðlilegt, að spurt sé: Hvað hefur breytzt? Hverjar eru helztu breytingarnar á stefnu ríkisins, sem núv. stjórn hefur mótað?

Breytingarnar eru margar og mikilvægar, eins og málefnasamningurinn sýnir og ég hef þegar rakið. Skal ég nú að lokum til frekari áréttingar rifja upp nokkur höfuðatriði, er gefa hugmynd um þá stefnubreytingu, sem átt hefur sér stað.

Ég hygg, að ein mikilvægasta grundvallarstefnubreytingin sé sú, að núv. ríkisstj. er og vill vera ríkisstj. hins vinnandi fólks í landinu, launþega og framleiðenda til sjávar og sveita. Hún vill stjórna í þeirra þágu og hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og framleiðenda. Fyrrv. ríkisstj. beitti hins vegar ríkisvaldinu hvað eftir annað gegn verkalýðshreyfingu og launafólki, bæði með setningu brbl. og gerðardómum í kjaradeilum, en einnig með því að beita gengislækkun æ ofan í æ og rýrði þannig kjör launþega, eftir að þeir höfðu háð árangursríka kjarabaráttu. Núv. ríkisstj. hefur aftur á móti sett sér það meginmarkmið að bæta verulega afkomu verkafólks, bænda, sjómanna, iðnverkafólks og allra þeirra, sem búa við hliðstæð kjör. Jafnframt hefur hún heitið því, að hún mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Þar að auki hefur hún ákveðið að stytta vinnuvikuna niður í 40 stundir án breytinga á vikukaupi og lengja orlof í 4 vikur. Hún hefur þegar leiðrétt þau 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með verðstöðvunarlögum fyrrv. ríkisstj., og látið taka inn í kaupgjaldsvísitöluna þau tvö vísitölustig, sem ákveðið var í verðstöðvunarlögunum, að ekki skyldu reiknuð í kaupgjaldsvísitölunni fram til 1. sept., svo sem ég hef rakið hér áður. Auk þess vill núv. ríkisstj. vinna að því í nánu samstarfi við samtök vinnandi fólks í landinu, að kaupmáttur launa verkafólks, bænda, sjómanna, iðnverkafólks og annars láglaunafólks aukist í áföngum um 20% á næstu tveimur árum. Verður að vona, að þessi markmið náist með frjálsum samningum launþega og atvinnurekenda og ríkisstj. mun að sjálfsögðu beita áhrifum sínum í þá átt, að svo megi verða. Umfram allt mun hún reyna að tryggja, að umsamdar kjarabætur renni ekki út í sandinn, svo að stefna ríkisstj. um kaupmáttaraukningu komist raunverulega í framkvæmd. Hér hefur því orðið grundvallarstefnubreyting hvað snertir meðferð ríkisvaldsins miðað við það, sem var. Í stað þess styrjaldarástands, sem allt of oft ríkti á vinnumarkaðinum í tíð fyrrv. ríkisstj., leitar núv. ríkisstj. samvinnu við launþegasamtökin og samtök framleiðenda til sjávar og sveita til þess að stuðla að vinnufriði, aukinni hagsæld, meiri framleiðslu og framleiðni og bættum hag og betra lífi fólksins í landinu.

Ég vil nefna aðra meginbreytingu. Með málefnasamningnum frá 14. júlí er því slegið föstu, að komið skuli á skipulögðum áætlunarbúskap á Íslandi, þannig að undirstöðuatvinnuvegirnir verði efldir á grundvelli áætlunargerðar undir forustu ríkisvaldsins. Í þessu skyni verður komið á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hafa skal á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum, gera áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma og raða fjárfestingarframkvæmdum með tilliti til mikilvægis þeirra fyrir þjóðarbúið. Í stað handahófsins, sem einkenndi efnahagsstefnu fyrrv. ríkisstj., koma nú skipulögð vinnubrögð og áætlunarbúskapur. Í stað þess að láta handahófsleg og skammvinn gróðasjónarmið ráða forgangi fjárfestingarframkvæmda, verður nú stefnt markvisst að auknum hagvexti, meiri framleiðslu, meiri framleiðni og fullri atvinnu fyrir alla með því að skipuleggja efnahagskerfið þannig, að það þjóni bezt markmiðum ríkisstj. um bætt kjör, betra líf og bjartari framtíð fólksins í landinu. En jafnframt hinum skipulega áætlunarbúskap vill ríkisstj. efla frjálst framtak í atvinnurekstri, bæði einstaklinga og félaga. En þar sem frjálst framtak einstaklinga og félaga dugir ekki til, verður hið opinbera, ríki og sveitarfélög, að koma til og hjálpa við að ryðja framþróuninni braut. Rétt er að taka það fram, að það er langt í frá, að ríkisstj. stefni að haftabúskap eða skömmtunarkerfi. Það hefur aldrei komið til greina að stefna að haftabúskap og skömmtunarkerfi. Hins vegar er höfuðmarkmiðið að skipuleggja ríkisbúskapinn þannig, að fólkið í landinu njóti betra lífs og batnandi kjara án hafta og skömmtunar, en raða fjárfestingarframkvæmdum eftir mikilvægi þeirra fyrir þjóðarbúið og hagsæld þjóðarinnar allrar.

Þá vil ég og aðeins nefna stefnuna í landhelgismálinu, Í stað þess tómlætis og sinnuleysis, sem lengst af ríkti um landhelgismálið á því tímabili, sem fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, hefur núv. ríkisstj. tekið upp þá stefnu að segja upp landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja og færa út fiskveiðilögsöguna í 50 sjómílur í síðasta lagi 1. sept. 1972. Þetta er eitt stærsta og mikilvægasta mál þjóðarinnar í dag, og ég leyfi mér að segja óhikað, að þjóðin öll er nú einhuga um þessa stefnu. Við erum þeirrar skoðunar, að þjóð, sem byggir 80–90% útflutningstekna sinna á fiski og fiskafurðum, eigi rétt til fiskveiðilögsögu, sem nær til alls landgrunnsins. Það er greinilegt, að fiskistofnarnir við Ísland þola ekki meiri veiði en nú á sér stað. Ef Íslendingar ætla að auka fiskveiðar sínar, verður það að gerast á þann hátt, að við tökum stærra hlutfall af veiðinni úr sjónum umhverfis landið en við höfum gert fram að þessu. En útlendingar veiða nú um helming aflans við Ísland. Reynslan hefur sýnt, að þeir hirða lítt um fiskverndarsjónarmið, en stunda gjarnan rányrkju á miðunum. Við erum því að vernda lífshagsmuni okkar Íslendinga, þegar við færum út landhelgina í 50 sjómílur. Enda þótt því hafi verið haldið fram af erlendum aðilum, að við værum að brjóta alþjóðalög með því að færa út fiskveiðilögsöguna, þá hefur þeim sömu erlendu aðilum vafizt tunga um tönn, þegar þeir hafa verið beðnir um að benda á, hvaða alþjóðalög við séum að brjóta með fyrirhugaðri útfærslu. Enda er það sannast sagna, að við brjótum engin alþjóðalög með því að færa út fiskveiðilögsögu okkar í 50 sjómílur, heldur eiga þessar aðgerðir okkar stoð í ákvörðun margra ríkja, auk þess sem alþjóðalög um landgrunnið eru ótvíræð hvað snertir rétt strandríkja til þess að hagnýta sér efnahagsleg gæði á botni landgrunnsins. En auðvitað er það í samræmi við heilbrigða skynsemi, að rétturinn til botnsins og gæða sjávarins yfir honum fylgist að. En aðalatriðið er þó, að það er ekki til nein almennt viðurkennd þjóðréttarregla um víðáttu landhelgi. Þess vegna er það réttur hvers strandríkis að ákveða fiskveiðilögsögulandhelgi sína með einhliða aðgerðum innan sanngjarnra og eðlilegra marka. Núv. ríkisstj. hefur mótað trausta og farsæla stefnu í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar, og við munum framkvæma þessa stefnu á grundvelli réttlætis og sanngirni.

Það hefur einnig orðið mikil breyting frá því, sem var í tíð fyrrv. ríkisstj. hvað snertir kynningu á landhelgismálinu og röksemdum okkar í því. Þann stutta tíma, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum, hefur hún eins og ég hef áður sagt gert meira til þess að kynna landhelgismálið heima og erlendis heldur en fyrrv. ríkisstj. gerði öll þau 12 ár samanlögð, sem hún sat að völdum. Þessu mikla kynningarstarfi mun haldið áfram og stefnt að því, að sá skilningur skapist sem víðast í heiminum, að Ísland eigi fyllsta rétt til þeirrar 50 mílna fiskveiðilögsögu, sem ríkisstj. hefur ákveðið, að taka skuli gildi 1. sept. n. k.

Það getur að sjálfsögðu orðið þungur róður í landhelgismálinu. Vel má vera, að einhverjum detti í hug að beita okkur þvingunaraðgerðum. En í þessu máli verða Íslendingar ekki kúgaðir. Þeir munu ekki láta kúga sig í þessu máli. Það skal hér sagt í eitt skipti fyrir öll.

Það hefur einnig orðið stórkostleg stefnubreyting í utanríkismálum. Í stað aftaníossaháttar og undanlátssemi, sem allt of oft einkenndi viðhorf fyrrv. ríkisstj. í utanríkismálum, hefur verið mótuð sjálfstæð og einbeitt utanríkisstefna, sem miðast við að tryggja okkur Íslendingum efnahagslegt og stjórnarfarslegt fullveldi og sjálfstæði og losna við varanlega hersetu í landinu. Þeirri stefnu mun núv. ríkisstj. fylgja fast fram.

Ég gæti nefnt fjöldamörg önnur dæmi um þá miklu stefnubreytingu, sem núv. ríkisstj. hefur mótað í málefnum ríkisins miðað við það, sem var í tíð stjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. Málefnasamningurinn, sem ég hef nú lesið, er gleggsta dæmið um breytingu, og þarf ég ekki að endurtaka það. En ég vil aðeins árétta hin mismunandi viðhorf fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. í virkjunar- og stóriðjumálum, í tryggingamálum, menntamálum, byggðaþróunarmálum, náttúruvernd, atvinnumálum og á fleiri sviðum. Ég bið menn að grandskoða málefnasamninginn til þess að ganga úr skugga um þá miklu breytingu, sem orðið hefur á stefnu ríkisins við valdatöku þessarar ríkisstj.

Núv. ríkisstj. á sér það markmið að beita ríkisvaldinu í þágu þjóðarheildarinnar. Hún vill efla félagslegt jafnrétti á Íslandi og skapa þar með jafna möguleika, jöfn tækifæri fyrir alla til þess að þroska sína hæfileika og gegna áhugaverðu hlutverki í lífinu með tilliti til hæfni og áhugasviðs. Hún vill stuðla að efnahagslegu öryggi og atvinnu fyrir alla og efla lýðræði í landinu, þ. á m. atvinnulýðræði, þar sem þátttaka í verðmætasköpuninni, framleiðslustarfinu ekki síður en fjáreign ráði stjórn fyrirtækja og atvinnugreina. Hún leggur höfuðáherzlu á að auka framleiðslu og framleiðni og efla vinnufriðinn í landinu með það fyrir augum að bæta kjör landsmanna allra. Hún vill efla menntun og menningu í landinu og skapa það byggðajafnvægi, að landið verði allt byggt og nýtt, en framkvæmd stefnu sinnar byggir hún á hollustu við hið þingræðislega lýðræðisskipulag, sem á sér rótgróna hefð hér á landi. Ríkisstj. gerir sér þess fulla grein, að hún kemur til með að mæta ýmsum erfiðleikum og erfiðum úrlausnarefnum á valdaferli sínum. En hún er þess jafnframt fullviss, að hvaða ríkisstj. sem með völdin fer mætir erfiðleikum af ýmsu tagl. En miðað við núverandi aðstæður á Íslandi mundi engin samsteypustjórn geta leyst aðsteðjandi vandamál betur en núv. ríkisstj. Í öllum stuðningsflokkum ríkisstj. er sterkur vilji til samstöðu og samstarfs. Fólk gerir sér grein fyrir því, að stjórnin þarf starfsfrið til að koma áformum sínum í framkvæmd. Þess vegna hlýtur allt stuðningsfólk ríkisstj. að vera á verði gegn broslegum tilraunum stjórnarandstöðunnar til að veikja ríkisstj. með því að vekja upp og ala á innbyrðis tortryggni stuðningsflokka hennar. Ríkisstj. á sinn mikla styrk í því trausti, sem þjóðin hefur sýnt henni, eftir að hún tók við völdum. Ég trúi því, að þetta traust eigi enn eftir að eflast. Ríkisstj. mun gera sér allt far um að bregðast ekki því trausti.