18.10.1971
Sameinað þing: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eftir ítarlega framsöguræðu hæstv. forsrh. af hálfu ríkisstj. get ég leyft mér að vera stuttorður. Úrslit seinustu þingkosninga og myndun núv. ríkisstj. marka skýr og ótvíræð þáttaskil í íslenzkum stjórnmálum. Málefnasamningur stjórnarflokkanna, sem hér hefur verið rakinn og ekki skal endurtekinn, ber augljós merki um þau tímamót, sem orðin eru. Ég nefni örfá dæmi. Loksins hefur ákveðin stefna verið mörkuð í landhelgismálinu eftir margra ára hik. Úrtöluraddirnar eru þagnaðar og þjóðin öll tekur nú virkan þátt í að undirbúa erfiða og örlagaríka baráttu, sem fram undan er til verndar íslenzkum fiskimiðum.

Í utanríkismálum hafa Íslendingar tekið upp sjálfstæðari stefnu en áður var og herseta erlendra manna í landinu er ekki lengur eðlilegt ástand í augum íslenzkra ráðamanna. Í efnahags- og atvinnumálum er að verða mikil breyting. Á skömmum valdaferli ríkisstj. hefur tekizt að bæta kjör aldraða fólksins og öryrkja og rétta að nokkru hlut láglaunamanna. Og áfram verður haldið á þessari braut. Víðtæk áætlanagerð mun senn hefjast, nútímaleg vinnubrögð við eflingu íslenzkra atvinnuvega, og megináherzlan verður nú lögð á uppbyggingu atvinnutækja í eigu landsmanna sjálfra.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málefnasamning ríkisstj. En ég minni á það, sem flestum mun vera ljóst, að þessi samningur túlkar ekki nema að nokkru leyti stefnu Alþb. Ef við hefðum einir mátt ráða, hefði þar ýmislegt staðið, sem þar er ekki að finna. En samningurinn er góður samnefnari þriggja stjórnmálaflokka, sem beina nú sameiginlega kröftum sínum að því að byggja upp betra og heilbrigðara þjóðfélag. Alþb. styður þessa ríkisstj. af öllum mætti og mun gera sitt til að varðveita hinn ágæta samstarfsanda, sem ríkt hefur í samskiptum flokkanna þriggja frá myndun núv. ríkisstj.