12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

Almennar stjórnmálaumræður

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við Alþfl.-menn teljum, að Alþfl. hafi á síðustu 50 árum unnið þannig að málefnum þjóðarinnar, að ekki verði talið lítils virði, þegar litið er málefnalega á árangurinn á þessu tímabili. Jafnaðarstefnan á Íslandi vann sigur í síðustu kosningum. Aðrir flokkar hafa oft fallizt á skoðanir okkar í Alþfl. í grundvallaratriðum og gjarnan samþykkt þær, þegar augljóst var, að þjóðin var á sömu skoðun. En eins og í öðrum málum er og verður þjóðin sá aðili, sem tekur lokaákvörðun um það, hvort stefna Alþfl. sé í samræmi við vilja fólksins. Sjálfur held ég, að í raun og veru séu fjölmargir Íslendingar sammála okkar stefnu, kannske flestir. En annarleg pólitísk sjónarmið virðast oft ráða ferðinni. Við þessu er hreint ekkert að segja. Fólkið ræður sjálft í lýðræðisþjóðfélagi.

En ég tel það sjálfur fráleitt, að tveir jafnaðarmannaflokkar séu í landinu. Fyrir því er hreint engin forsenda. Ég held, að það sé ekki aðeins æskilegt, að þessir tveir jafnaðarmannaflokkar renni saman, heldur sé það alveg sjálfsagt. Á það verður að reyna á allra næstu vikum. Þessi samruni hlýtur að gerast á næstu mánuðum eða hann gerist hreint ekki. Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem segjast vera jafnaðarmenn, verða á þessu tímabili að gera það hreinlega upp við sig, í hvort ístaðið þeir ætla að stíga. Varla geta þeir ætlazt til, að Alþfl. bíði von úr viti. Þeir verða sjálfir einhvern tíma að taka ákvörðun.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð á s. l. sumri, gekk það nú ekki þrautalaust. Þegar allt ætlaði að mistakast, var fundin upp afbragðs leið til þess að leysa málin. Öll kosningaloforð stjórnarflokkanna voru skrifuð niður. Síðan var nýjum óskum þeirra allra bætt við, enn athugað betur, hvort eitthvað væri eftir, sem hægt væri að lofa. Þegar allt hafði verið tínt til, var plaggið prentað, og heitir málefnasamningur ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Það væri freistandi að rekja afrekaskrá hæstv. ríkisstj. og bera saman við málefnasamninginn, sem menn áttu að lesa bæði kvölds og morgna samkv. beiðni hæstv. forsrh. Og ég er honum alveg sammála. Menn þurfa að lesa þennan samning til að átta sig sjálfir á því, hvernig hann er þverbrotinn í veigamiklum atriðum. Ég ætla aðeins að nefna eitt, sem ég álit raunar langalvarlegast af öllum aðgerðum eða aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj.

Þetta eru svikin við launafólk í landinu. Fyrirsjáanleg óðaverðbólga, hækkandi verðlag á öllum sviðum, vísitölurán í fyrrahaust og stórhækkandi skattar á þessu ári. Þetta gerir sama ríkisstj., sem lofaði fyrir 10 mánuðum að auka kaupmátt launa um 20% á tveimur árum. Helmingur þess tíma er nú að verða liðinn. Dettur nokkrum manni í hug, að við þetta loforð sé með nokkru móti hægt að standa? Í þessu sambandi verður hin alvarlega verðbólga örlagavaldurinn. Má ég minna hæstv. ráðh. á, að húsmæður þessa lands taka vel eftir verðlagsþróuninni. Þær finna bezt, hvernig verðlag hækkar frá degi til dags, allt vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. Þær eru fljótar að átta sig á því, að það, sem kostaði 100 kr. í gær, er komið upp í 110 eða 115 kr. í dag. Alda verðhækkana gengur yfir, sem alls ekki er séð fyrir endann á. Á sama tíma er vísitölunni hagrætt eftir því, sem við verður komið á hverjum tíma. Og að framkvæmdum þessum afrekum leyfir hæstv. ríkisstj. sér að kalla sig ríkisstj. hinna vinnandi stétta. Meira öfugmæli er líklega ekki til.

Hæstv. ríkisstj. segir í Ólafskveri, að hún leggi áherzlu á að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem leiði til gengislækkana og óðaverðbólgu. Núv. stjórnarflokkar töldu einmitt, að fyrrv. ríkisstj. hefði hagað sér einstaklega illa í þessum efnum. Var þá ekki öllu kippt í lag? Ónei, ekki aldeilis. Fyrirsjáanleg er hin mesta óðaverðbólga, líklega sú mesta frá upphafi Íslandsbyggðar. Þegar gjaldeyrisvarasjóðnum hefur verið fórnað og verðbólgan haldið áfram í nokkurn tíma, þá er auðvitað ekki nokkurt ráð til annað en gengislækkun. Þangað til mun bæði launafólk og atvinnurekendur finna verulega fyrir þeirri stjórnarstefnu, sem nú er rekin. Það er vissulega kaldhæðni örlaganna, að bæði hæstv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, og hv. þm. Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, skuli standa að þessum aðgerðum, sömu mennirnir, sem unnu hvað glæsilegasta kosningasigra á s. l. ári. Hvaða nauðsyn er eiginlega fyrir þá að taka yfirleitt þátt í þessum dansi, nema þeir séu að standa við bakið á vinum sínum í Alþb., sem raunar sýnir sig að vera sterkasta aflið í stjórnarsamstarfinu? Hvernig stendur annars á því, að hæstv. forsrh. lætur slíkt og þvílíkt viðgangast? Ekki trúi ég því, að flokksmenn hans séu yfirleitt sammála slíkum vinnubrögðum.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um málefni iðnaðarins. Ég tel, að í framtíðinni muni meginhluti vinnuaflsaukningarinnar í landinu leita til tækni- og iðnaðarstarfsemi. Þessi málefni þarf strax að fara að ræða af mikilli alvöru og með skipulegum hætti. Reiknað er með, að eftir tæplega 50 ár, árið 2020, verði Íslendingar orðnir um 450 þús. Það er því ljóst, að atvinnuöryggi fyrir þessa fjölgun er eitt af meiri háttar verkefnum næstu áratuga.

Hæstv. iðnrh. hefur að mínu mati sýnt málefnum iðnaðarins mikinn og þakkarverðan skilning. Sérstaklega er þýðingarmikið að fá það lögfest, að framleiddar iðnaðarvörur og hráefni til þeirra sé veðhæft fyrir lánum eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur. Fyrir þetta ber að þakka. En ég hef spurt um það nokkrum sinnum hér á hv. Alþ., hvort líklegt sé, að fjármagn verði til staðar, þegar lögin hafa verið samþ. nú á allra næstu dögum. Hæstv. ráðh. hafa fáu svarað. Þó hefur hæstv. iðnrh. sagt, að frv. sé samið í samvinnu við Seðlabanka Íslands og hann reikni með, að sá banki endurkaupi afurðalánavíxla af viðskiptabönkum. Þetta er gott og blessað. En stóra spurningin er, eru viðskiptabankarnir tilbúnir til að meta veð iðnaðarins á sama hátt og sjávarútvegs- og landbúnaðarvara? Þetta er hin ósvaraða spurning, sem reynslan ein mun skera úr um. Það er vonandi, að allir atvinnuvegir verði settir við sama borð í lánamálum. En ég er engan veginn viss um, að svo verði í reynd. Þá eru lögin lítils virði. En við skulum vona hið bezta. Ef framleiðsla iðnaðarvara vex stórstígurri skrefum eins og verður að gerast, ef iðnaðurinn á að geta tekið við stærstum hluta fólksfjölgunarinnar, þá verður framleiðsluaukningin að langmestu leyti að byggjast á útflutningi iðnaðarvara.

Nú er hér til meðferðar á hv. Alþ. frv. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, þar sem tekið er myndarlega á því verkefni með árlegu fjárframlagi næstu fimm ár upp á 25 millj. hvert ár. Ég hef lýst hér stuðningi mínum við þetta frv. En það er nú fleira matur en feitt kjöt. Það er til margs konar annar iðnaður í þessu landi, sem er hæfur til útflutnings. En þessi annar iðnaður heldur en niðursuðuiðnaðurinn hefur ekki átt því láni að fagna, að svo myndarlega væri staðið að útflutningstilraunum hans. Það er rétt eins og þar sé um einhvers konar annars flokks iðnað að ræða, sem ekki eigi rétt á sams konar fyrirgreiðslu og þessi fyrsta flokks iðnaður, og þessu mótmæli ég.

Þegar fjárlög voru afgreidd í vetur, var framlag ríkisins til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins lækkað úr 6 millj. í 4 millj. frá árinu á undan. Ég flutti till. um að færa þessa upphæð upp í það sama og verið hafði. Ekki var það nú stórbrotnara. En allt stjórnarliðið, hver og einn einasti hv. þm. í stjórnarflokkunum, sagði nei við nafnakall um till. Jafnvel þeir hv. stjórnarþm., sem oft hafa verið skilningsríkir á þarfir iðnaðarins, sögðu líka nei. Þetta er auðvitað alveg forkastanleg afstaða og ómögulegt að túlka á annan hátt en sem algert viljaleysi til að stuðla að auknum útflutningi almennra, íslenzkra iðnaðarvara og þar með eflingu iðnaðarins í landinu. Þessi stofnun þyrfti auðvitað að fá svipaða fyrirgreiðslu og Sölustofnun lagmetisiðnaðarins. Allt annað er óviðunandi. Ég vil eindregið skora á hæstv. iðnrh. að taka jafnmyndarlega á þessu máli og hann hefur gert í ýmsum öðrum málum, sem eru mikils virði fyrir iðnaðinn.

Umtalsverður útflutningur á íslenzkum iðnaðarvörum er þjóðarnauðsyn. Fólksfjölgunin á næstu áratugum bókstaflega krefst þess. Þess utan verður íslenzkur iðnaður að mæta síharðnandi samkeppni frá öðrum löndum, eftir því sem tollar lækka hér á erlendum iðnaðarvörum. Annars finnst mér, að allir Íslendingar ættu að leggja metnað sinn í að kaupa íslenzkar iðnaðarvörur fremur en erlendar. Þær eiga auðvitað að vera álíka góðar og ekki dýrari. En slíkt væri iðnaðinum í heild til mikils stuðnings.

Þeir Íslendingar eru langflestir, sem í öðrum löndum eru kallaðir miðstéttarfólk eða millistétt. Þetta fólk vill yfirleitt eiga sína íbúð búna þokkalegum húsgögnum, e. t. v. á fjölskyldan bíl og leyfir sér að fara í orlof. Þetta eru þau lífskjör, sem hafa skapazt í landinu á s. l. þremur áratugum eða svo. Öryggi fyrir aldraða eða þá, sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni, er nokkurn veginn jafnmikið hér á landi og í öðrum löndum, þar sem bezt er fyrir þessum málum séð. Svona vill íslenzka þjóðin, að lífskjör hennar séu og að þau haldist svona. Undir það tekur Alþfl. heils hugar. Það er enginn lúxus að eiga íbúð, sem oftast er að verulegu leyti í skuld. Það er heldur enginn lúxus að eiga þokkalegt innbú og ekki heldur að eiga smábil. Og enn getur það ekki talizt lúxus, þó að vinnandi fólk geti leyft sér að taka orlof árlega, jafnvel að fara til útlanda einu sinni á ævinni eða svo. En spurningin er, hvort núv. hæstv. ríkisstj. sé treystandi til þess að halda þannig á efnahagsmálum þjóðarinnar, að þessi almennu lífskjör haldist. Um það hef ég miklar efasemdir. Mér hefur oft fundizt hæstv. ríkisstj. haga störfum sínum á þann veg, að hún væri fremur að vinna fyrir einstaka hópa í þjóðfélaginu heldur en fyrir fjöldann í landinu, langstærsta hópinn, millistéttina, sem flestir tilheyra sem betur fer. Auðvitað er sjálfsagt, að þeir séu aðstoðaðir, sem búa við lökust lífskjör. Það er líka stefna jafnaðarmanna um allan heim. En það verður að finna önnur ráð til þess en níðast á millistéttinni, og það á að vera hægt.

Þá langar mig til að nefna aðeins atvinnumál almennt. Ég fer ekkert leynt með, að ég tel þann málaflokk langþýðingarmestan allra landsmála. Atvinnuleysi er böl, sem ekki á að þekkjast í nútímaþjóðfélagi. Það hefur hins vegar víða gengið erfiðlega að vinna bug á þessu böli. Ytri aðstæður geta verið slíkar, að næstum ómögulegt sé að yfirvinna tímabundið atvinnuleysi, í okkar tilfelli t. d. aflaleysi. Á þessum uppgangsárum, sem nú ganga yfir landið, er hins vegar óafsakanlegt, að til skuli vera jafnalvarlegt atvinnuleysi og sums staðar er á Norðurlandi einmitt nú. Þessu hlýtur bókstaflega að vera hægt að kippa í lag, ef vilji er fyrir hendi. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að gera viðhlítandi ráðstafanir fyrir þá staði, þar sem atvinnuleysi hefur verið og er. Að vilja vinna og fá ekki vinnu er niðurdrepandi fyrir alla menn, sem á annað borð eru heilbrigðir. Atvinnumálin eru margslungin. Stundum vantar starfsfólk á einum stað, en svo er atvinnuleysi á öðrum. Við þetta er oft erfitt að ráða. Hins vegar finnst mér, að það eigi að vera hægt með viðeigandi skipulagi. Mér finnst það vera grundvallaratriði, að léttur iðnaður sé efldur úti um landið, til að fólkið sé ekki algjörlega háð því, hvort fiskur komi á land. Slíkur léttur iðnaður verður að byggjast á útflutningsmöguleikum hans. Ef Framkvæmdastofnun ríkisins verður starfrækt á þann hátt, sem til er ætlazt, verður að gera ráð fyrir, að hún hafi forustu um skipulega starfsemi í þessum efnum. Ég tel, að framkvæmdaáætlanir fyrir tiltekna landshluta séu forsenda fyrir skipulegum aðgerðum til atvinnuaukandi framkvæmda á hverju landssvæði. Þetta verk þarf alveg nauðsynlega að vinna í náinni samvinnu við heimamenn á hverjum stað, þeirra, sem bezt þekkja til allra staðhátta. Slíkar áætlanir ættu fyrst og fremst að vera byggðar upp með það fyrir augum, að framkvæmdirnar séu atvinnuaukandi fyrir viðkomandi byggðarlag.

Núv. hæstv. ríkisstj. lagði í upphafi afar mikla áherzlu á að verða vinsæl meðal landsmanna. Sjálfsagt vilja allar ríkisstj. verða vinsælar. En þær mega bara alls ekki gleyma því, hvaða stjórn sem er, að fólkið í landinu ætlast til þess, að ríkisstj. stjórni eftir einhverri ákveðinni stefnu, en ekki að eitt sé ákveðið í dag og svo verði stjórnarandstaðan að koma til hjálpar til að bjarga málum, eins og komið hefur fyrir á þessu þingi. Fólkið ætlast líka til að það sé metið nokkurs, hvað það vinnur mikið fyrir, ja, við skulum segja góðum lífskjörum. En það ætlast ekki til að lífskjörin séu skert, eins og því miður margt virðist benda til. Á því ber hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, fulla ábyrgð. Fyrir það svara þeir á sínum tíma.

Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum í júlí í fyrra, var mikil gleði, sem hefur staðið langt fram eftir vetri. Stjórn hinna vinnandi stétta, eins og þeir kölluðu sjálfa sig, var í gleðivímu yfir að hafa komið gömlu ólukkustjórninni frá. En nú er ég hræddur um, að gleðskapnum sé lokið og við taki innan skamms stórbrotin eftirköst, eins konar pólitískir timburmenn. Fólkið í landinu fer að krefjast reikningsskila fyrir því, hvers vegna ekki hafi verið staðið við mörgu og fallegu loforðin, þ. á m. loforðið um 20% kaupmáttaraukningu. — Góða nótt.