12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Landhelgismálið hefur verið aðalviðfangsefni mitt, síðan núv. ríkisstj. var mynduð hinn 14. júlí í fyrra. Það má því teljast eðlilegt, að ég verji nokkrum mínútum hér í kvöld til að fara um það örfáum orðum.

Ánægjuleg samstaða náðist í málinu hinn 15. febr. s. l., er Alþ. samþykkti með 60 shlj. atkv., að útfærslan skyldi fara fram ekki síðar en 1. sept. n. k., og ber að þakka öllum, sem hlut eiga að máli, fyrir það, hversu þá tókst giftusamlega til. Enn fremur samþykkti Alþ. fyrrnefndan dag, að áfram skyldi haldið viðræðum við Breta og V.-Þjóðverja í því skyni að finna lausn á þeim vandamálum, sem af útfærslunni skapast. Til framkvæmdar á þessari ákvörðun Alþ. hafa farið fram viðræður milli okkar og embættismanna þessara umræddu þjóða, og verður þeim enn fram haldið. Hinn 19. f. m. áttu brezkir embættismenn fund hér í Reykjavík með sjútvrh., og daginn eftir ræddu þeir við þá embættismenn okkar, sem helzt hafa með þessi mál að gera. Næstkomandi mánudag er einn helzti þjóðréttarfræðingur V.-Þjóðverja væntanlegur hingað til sams konar viðræðna við okkur. Þann 23. þ. m. munum við Lúðvík Jósepsson sjútvrh. svo fara til London. Þar munum við hitta utanrrh. Breta og fleiri ráðh. og freista þess að komast að samkomulagi a. m. k. til bráðabirgða um þau vandamál, sem útfærsla landhelginnar kann að valda brezkum hagsmunum.

Ég tel að sjálfsögðu mikils virði, að slíkt samkomulag geti náðst. Við Íslendingar þekkjum rök okkar og rétt í þessu lífshagsmunamáli, og ég þarf ekkert að rifja upp af því hér í kvöld. En við getum líka áreiðanlega öðrum fremur sett okkur í spor þess góða alþýðufólks í hafnarborgum Englands, Skotlands og V.-Þýzkalands, sem hefur átt alla sína afkomu, kynslóðum saman, undir fiskveiði í grennd við Ísland. Það er vegna þessa fólks, sem við leggjum okkur fram um að geta veitt umþóttunartíma, en hvorki vegna samninganna frá 1961 né heildarhagsmuna Bretlands og V-Þýzkalands. Í því sambandi er um algjöra smámuni að ræða, eins og hver maður getur séð t. d. á því, að á árinu 1969 var útflutningur sjávarafurða aðeins 0.2% af heildarútflutningi Breta og Þjóðverja hvorra um sig, en 81.9% af útflutningi okkar. Meðalaflamagn á íbúa úr höfum umhverfis Ísland var á árunum 1962–1969 í Bretlandi 3.57 kg og í V.-Þýzkalandi 2.09 kg, en hér á landi var það hvorki meira né minna en 1808.12 kg á hvert einasta mannsbarn í landinu. Af þessu sést, að enginn samjöfnuður er hér mögulegur, sérstaða okkar er svo algjör.

Engu skal ég spá um það hér, hverjar niðurstöður þessara samningsumleitana kunna að verða, því að vissulega er við ramman reip að draga, þar sem er rótgróin tregða viðsemjenda okkar að viðurkenna rétt smáþjóða til einhliða útfærslu fiskveiðilögsögunnar, en ég leyfi mér þó að vona, að takast megi að finna viðhlítandi lausn, því að sannarlega væri það illa farið, ef sjálfsbjargarviðleitni okkar Íslendinga yrði til þess að spilla vináttu okkar við þær þjóðir V.-Evrópu, sem við viljum eiga samskipti við, ekki einungis viðskiptaleg samskipti, heldur einnig og ekki síður mannleg og menningarleg. En hvernig sem um þessa samninga verður, þá er hitt óbreytanleg staðreynd, að eigi síðar en 1. sept. n. k. verður íslenzka fiskveiðilögsagan færð út í 50 sjómílur frá grunnlínum, og það er bjargföst trú mín, að sú stefna okkar, að strandríki og eyríki eigi fullan rétt á einhliða ákvörðunum um landhelgi sína og sú regla eigi að gilda ekkert síður um fiskveiðar heldur en t. d. um nýtingu hafsbotnsins, sé stefna framtíðarinnar, enda sýnir stuðningur vaxandi fjölda þjóða við hana, að svo hljóti að verða. Nýverið hafa Bandaríkin gert samning við Brasilíu, þar sem í reynd er viðurkenndur réttur Brasilíu til tiltekinna veiða allt að 200 mílum frá landi. Ummæli utanrrh. Bandaríkjanna við íslenzku fréttamennina um daginn voru einnig til þess fallin að auka okkur vonir, auk fleiri atburða, sem borizt hafa fregnir af og allir þekkja. Engu að síður skulum við varast órökstudda bjartsýni, en líta raunsætt á þá staðreynd, að við erum lítil þjóð í deilum við volduga andstæðinga. Að vísu eigum við góða og öfluga bandamenn og er skylt að þakka það, en mestur styrkur er þó okkar eigin samheldni, allrar þjóðarinnar. Megi hún aldrei rofna.

Áfram verður haldið og af auknum krafti að kynna málstað okkar erlendis og vinna honum fylgi. Nýlega hefur verið ráðinn sérstakur aðili til að annast kynningarstarfsemi, upplýsingasöfnun og upplýsingadreifingu í Bretlandi. Það er fyrirtækið Wittacker & Hunt Public Relations Ltd., sem góðkunnugt er fyrir störf á þessu sviði. Væntum við þess, að þekking og skilningur á málstað Íslendinga muni aukast fyrir tilstuðlan þessara aðila. Það er mjög mikilvægt að tryggja, að sjónarmið okkar berist sem flestum, bæði almenningi og ráðamönnum á ýmsum sviðum, fulltrúum hagsmunasamtaka, þingmönnum, embættismönnum og fréttamönnum blaða, útvarps og sjónvarps. Fyrirtækið Wittacker & Hunt starfar á vegum utanrrn. og í tengslum við sendiráð okkar í London. Þá hefur verið hér stöðugur straumur erlendra sjónvarps- og fréttamanna, er margir hverjir hafa kynnt málstað okkar vel í heimalöndum sínum og sumir ágætlega, þótt árangur sé raunar nokkuð misjafn, eins og gengur. Gerð sjónvarpskvikmyndar íslenzkrar, er ég hef áður skýrt frá, miðar vel og verður henni víða dreift. Ýmislegt er á prjónunum til áframhaldandi kynningar, sem ég skal ekki þreyta hlustendur á að telja hér upp, en aðeins geta þess að lokum, að fjölmargir aðilar íslenzkir, bæði einstaklingar og félagasamtök, vinna mikið og gott starf til kynningar landhelgismálinu og spara hvorki til þess fé né fyrirhöfn. Ég kem því ekki við í stuttri ræðu að telja upp alla þessa aðila. Sá lestur yrði að vera langur og þó hætt við, að einhverjir gleymdust, þannig að bezt er að byrja ekki á honum, en nota þetta tækifæri til að færa þessu fólki öllu innilegar þakkir fyrir framlag þess.

Vegna þess að landhelgismálið hefur algjöran forgang hjá okkur í ríkisstj. og þá í utanrrn. að sjálfsögðu einnig, hefur minna verið unnið að því að undirbúa endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin en vert hefði verið. Samningaviðræður um það mál eru ekki hafnar, og þau voru ekki rædd á fundi okkar við utanrrh. Bandaríkjanna um daginn að öðru leyti en því, að ég gerði honum á nýjan leik grein fyrir þeim ákvæðum í málefnasamningi ríkisstj., er varnarmálin varða. Og í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, sagði hér áðan, skal ég ítreka það, að á fundinum benti ég jafnframt á þá staðreynd, að NATO-samningurinn frá 1949 og varnarsamningurinn frá 1951 eru tvö aðskilin mál og að við vildum leitast við að uppfylla upphaflegar skyldur okkar við Atlantshafsbandalagið, án þess að þurfa að þola hér erlendan her. Ekkert af þessu kom ráðherranum á óvart, þar eð ég hafði tvívegis áður gert honum grein fyrir þessum atriðum og því, hvernig við lítum á þau. Viðræður um endurskoðunina munu fara fram, þegar tími og tækifæri gefst til, en ég bendi á, að enn eru aðeins 10 mánuðir liðnir af því kjörtímabili, sem ríkisstj. hefur til ráðstöfunar. Um utanríkismál að öðru leyti væri vissulega ástæða til að ræða hér, en ég mun þó láta það bíða annars tækifæris, en verja í staðinn þeim fáu mínútum, sem ég á eftir, til að ræða um efnahagsmálin, enda hafa verðlagsmál verið aðalræðuefni þeirra stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað.

Það er auðvitað bæði rétt og skylt að viðurkenna, eins og forsrh. gerði hér áðan, að vandi verðbólgunnar er mikill og ríkisstj. hefur enn ekki náð á honum nægilegum tökum. Jafnframt er þó skylt að gera sér grein fyrir því, af hverju vandamálið stafar, hvað það er, sem við er að fást. Fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin svonefnda, brá á sérstakt ráð sér til lífsbjargar fyrir tvennar síðustu kosningar. Ráð þetta var verðstöðvun. Eins og mönnum nú er fyllilega ljóst, leysir verðstöðvun engan vanda í efnahagsmálum, heldur skýtur honum á frest fram yfir þann tíma, sem verðstöðvunin varir. Notagildi verðstöðvunar er því aðeins fólgið í því ráðrúmi, sem þannig gefst til undirbúnings raunhæfra aðgerða. Sé tíminn ekki til þess notaður, kemur vandinn aftur til sögunnar og er verri viðureignar en hefði strax verið ráðizt gegn honum. Dæmin sanna, að þá skellur yfir alda verðbólgu og verðhækkana, rétt eins og þegar sprengd er flóðgátt í stíflu. Ég skal rifja upp, hvernig fór við verðstöðvunina 1967, af því að svo virðist sem furðu margir séu búnir að gleyma því, hvernig þá tókst til. Fyrri verðstöðvun viðreisnarstjórnarinnar, sem í gildi var frá 15. nóv. 1966 til 31. okt. 1967, leysti aðeins einn vanda þeirrar ríkisstj., sem sé þann að halda velli í kosningunum 1967. Það bragð að blekkja landsmenn með verðstöðvun tókst í það skiptið, og ríkisstj. hélt velli. Afleiðingarnar að öðru leyti urðu hins vegar þær, að á næstu tveimur mánuðum, eftir að verðstöðvun lauk, eða frá októberlokum 1967 og fram í janúar 1968, hækkaði framfærsluvísítalan um 21 stig. Til samanburðar má geta þess, að allt áríð 1966 hækkaði framfærsluvísitalan þó ekki nema um 13 stig, og þótti auðvitað yfrið nóg, og allt árið 1965 hækkaði þessi sama vísitala um 15 stig. Þetta einfalda dæmi sýnir vel það eðli verðstöðvunar að slá vandanum á frest, en leysa hann ekki, og þetta dæmi sýnir líka, að landsmenn þurftu á skömmum tíma, en með ærnum tilkostnaði, að greiða kosningavíxil viðreisnarstjórnarinnar, enda varð ekkert lát á verðhækkunum allt árið 1968, en á því ári hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 19 stig, þrátt fyrir risastökkið í árslok 1967. Nú eru kosningar venjulega á fjögurra ára fresti, og þegar að því dró á árinu 1971, að landsmenn skyldu enn einu sinni ganga að kjörborðinu, tók fyrrv. ríkisstj. að líta í kringum sig í leit að ráðstöfunum, sem líklegastar gætu virzt til bjargar í komandi kosningum, því að á afrekaskrá kjörtímabilsins var fátt um fína drætti og ekkert öruggt flotholt, sem notast mætti við. Þá var brugðið á sama ráð og 1967 og verðstöðvun boðuð. Sú verðstöðvun tók gildi 1. nóv. 1970 og skyldi standa til 31. ágúst 1971. Þannig átti á nýjan leik að slá þann kosningavíxil, er duga mundi til áframhaldandi lífdaga. Allir vita, hvernig þessum leik lauk. Landsmenn létu ekki blekkjast eins og 1967. Viðreisnarstjórnin féll, og á hana verður ekki framar kallað til raunhæfrar ábyrgðar, en fylgjan hennar er enn hér á meðal vor. Núv. ríkisstj. og landsmenn allir verða að glíma við þann vanda, sem fráfarandi ríkisstj. skildi eftir óleystan, sem sé þann, að nú eftir lok verðstöðvunartímabilsins rís sú háa alda verðbólgu og verðhækkana, sem sumpart varð til meðan á verðstöðvuninni stóð, en sumpart var fyrir hendi áður en verðstöðvunin tók gildi. Um þetta segir t. d. Gunnar J. Friðriksson, formaður Félags ísl. iðnrekenda, í ræðu á ársþingi þess félagsskapar nú fyrir skemmstu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar verðstöðvunin var sett á hinn 1. nóv. 1970, hafði fjöldi iðnfyrirtækja ekki enn reiknað inn í verðlag vöru sinnar þær hækkanir, sem orðið höfðu undangengna mánuði, auk þess varð veruleg hækkun á þjónustu- og flutningsgjöldum skömmu eftir að verðstöðvunarlögin tóku gildi. Þessi fyrirtæki voru því þegar í upphafi verðstöðvunarinnar mjög illa sett. Auk þessa urðu allt verðstöðvunartímabilið stöðugar hækkanir á aðfengnum rekstrarvörum iðnaðarins, sérstaklega þegar kom fram yfir mitt ár, en þá varð veruleg hækkun á hráefnum frá þeim þjóðum, sem sjá iðnaðinum fyrir megninu af þeim erlendu hráefnum, sem hann notar, vegna breytinga á gengi gjaldmiðils þeirra. Allar þessar hækkanir varð iðnaðurinn að taka á sig án þess að geta borið þær uppi í hærra verði á framleiðsluvörum sínum.

Ég lýsti á síðasta ársþingi ótta iðnrekenda við áhrif þessarar verðstöðvunar. Það er viðurkennt af öllum, að verðstöðvun leysi engan vanda, heldur veiti aðeins frest til þess að takast á við hann.“

Hér lýkur þessari tilvitnun í ræðu Gunnars J. Friðrikssonar. En Gunnar J. Friðriksson hefur sagt meira en þetta. Hann hefur áréttað þessi ummæli sín enn betur, eftir að þau höfðu verið gagnrýnd og dregin í efa af formanni Sjálfstfl., því að í grein í Morgunblaðinu segir Gunnar enn, með leyfi hæstv. forseta, — það var 4. maí s. l.: Ræðan — það er sú ræða, sem ég var hér áðan að vitna í — ræðan var „lögð fyrir stjórnarfund, áður en hún var flutt, og samþ. þar einróma og síðan rædd og samþ. á ársþinginu, eftir að hún var flutt þar. Túlkar hún því ekki aðeins mínar persónulegu skoðanir, heldur einnig skoðanir þorra iðnrekenda.“

Í greininni eru nefnd dæmi því til staðfestingar, sem í umræddri ræðu greinir, að verðhækkanir voru óframkomnar. Þannig hækkuðu flutningsgjöld um 10% í okt. 1970, póstur og sími um 15–20% í nóv. sama ár, olía um 12% í sept. það ár. Launaskattur hækkaði um 150% og ýmis hráefni hækkuðu verulega auk þeirrar gengisbreytingar, sem áður er um getið. Það, sem hér segir um iðnað, á auðvitað við í flestum ef ekki öllum atvinnugreinum öðrum og er það því deginum ljósara, að vandi sá, sem við er að glíma, er að stórum hluta arfur frá fyrri stjórn, fallinn kosningavíxill viðreisnarstjórnarinnar, sem landsmenn eru að greiða, því að vitanlega nota þessi iðnfyrirtæki og önnur atvinnufyrirtæki í landinu, sem búið hafa við þá skerðingu verðstöðvunar, sem Gunnar J. Friðriksson lýsti í þeim ummælum, sem ég hef hér rakið, fyrsta tækifæri til þess að fá leiðréttingu mála sinna, þ. e. að hækka framleiðsluvöru sína sem þessum útgjaldaauka nemur.

Auðvitað ber að viðurkenna, að nú upp á síðkastið hafa orðið verðhækkanir, sem rekja verður til annarra orsaka en þeirra, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, og fyrir þeim hefur nýlega verið gerð grein hér á hv. Alþ. og sundurliðun á þeim hækkunum hefur verið lögð fram, og ég skal sleppa því að fara með þá sundurliðun hér. Þótt nauðsynlegt sé að átta sig á því, sem reynt hefur verið að draga fram í þessu máli mínu, þ. e. af hverju verðbólgan stafar, er þó hitt meira virði, að gera sér grein fyrir því, hvað sé til ráða. Nú er ákveðið, að allar þær hækkanir, sem um er beðið, skuli háðar endanlegu samþykki ríkisstj., sem þannig tekur á sig þá ábyrgð að greina á milli óhjákvæmilegra verðhækkana og hinna, sem komast má hjá, og freistar þess á þann hátt að halda verðbólgunni í skefjum. Það er því ríkisstj., sem ákvað, að hitaveitugjöldin í Reykjavík hækkuðu um 5% í staðinn fyrir 13.2%, eins og sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur fóru fram á. Og rafmagnið hækkaði um 10% vegna afskipta ríkisstj., en ekki 16.6%, eins og sömu menn vildu þó, að yrði. Afnotagjöld útvarpsins hækkuðu af sömu ástæðu vegna afskipta ríkisstj. um 10%, en ekki um 30%, eins og forráðamenn þeirrar stofnunar fóru fram á. Gosdrykkir hækkuðu um 12% vegna aðgerða ríkisstj. í stað þeirrar 28.7% hækkunar, sem framleiðendur töldu sig þurfa, svo að ég nefni hér aðeins nokkur dæmi sitt úr hverri áttinni. Þannig hefur þessi ríkisstj. reynt að sporna við vexti verðbólgunnar, þótt enn skuli viðurkennt, að ekki sé nóg að gert og betur þurfi á að taka. En er það of mikil bjartsýni að vona, að hækkunarskriðan, sem innibyrgð var, hafi nú um það bil fengið útrás og við geti tekið stöðugra tímabil? Ég held ekki, að sú bjartsýni þurfi að verða sér til skammar.

Að vísu er það svo, að nokkrar kauphækkanir eru enn þá óframkomnar, bæði af þeim, sem samið var um í tíð fyrrv. ríkisstj., og eins frá því í des.- samningunum 1971, og vafalaust verður atvinnurekstrinum í sumum tilfellum örðugt að mæta þeim. Á móti þessu kemur þó alveg ótvírætt hagræði af því, að samningar tókust nú til lengri tíma en áður, og síðast en ekki sízt það, að þeir samningar fengust án verkfalla, en verkföll hafa löngum reynzt fyrirtækjunum fjárhagslega erfið, enda er mér kunnugt um það, að sanngjarnir atvinnurekendur meta þessa staðreynd til verulegra fjármuna og vilja heldur borga starfsfólkinu sínu þá í formi hærri launa en að verja þeim til herkostnaðar gegn þessum samstarfsmönnum sínum. Ég vil því vona, að takast megi að hefta ferð verðbólgufáksins, því að vissulega verður að kannast við það, að í þessum efnum hafa Íslendingar á undanförnum árum riðið meira en þeir vildu, eins og Otkell forðum. Takmark ríkisstj. er ekki að stöðva verðbólguna. Við gerðum okkur frá upphafi ljóst, að það mundum við eigi geta, heldur hitt, sem segir í málefnasamningi hennar, að leitast við að tryggja, að hækkun verðlags í landinu verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Vísitala framfærslukostnaðar hefur ekki verið reiknuð síðan í. febr. s. l., en þá voru litlar sem engar hækkanir komnar fram, þannig að ég veit ekki fyrir víst, hverjum breytingum vísitalan hefur tekið að undanförnu, en vafalaust eru þær miklar. En ég geri mér vonir um, að nú geti dregið úr þeim og jafnhliða geti tekizt að gera ráðstafanir, sem að gagni megi koma, þannig að hægt verði, þegar á lengra tímabil er litið, að standa við þetta ákvæði málefnasamningsins, er ég áðan nefndi, enda mikið í húfi, að svo geti orðið.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.