12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fyrir um það bil 10 mánuðum kom til valda ný ríkisstj., ríkisstj. Framsfl., Alþb. og SF. Hún leysti af hólmi ríkisstj. Alþfl. og Sjálfstfl., sem setið hafði óvenjulengi, eða í 12 ár. Margir stuðningsmenn Alþfl. voru þeirrar skoðunar, að því stjórnarsamstarfi hefði mátt ljúka mun fyrr, en það er liðin saga.

Miðað við kosningaúrslitin s. l. sumar verður að telja, að ekki hafi verið óeðlilegt, að þeir flokkar, sem áður voru í stjórnarandstöðu, mynduðu ríkisstj., úr því að þeir fengu þingmeirihluta til þess. Alþfl. var að vísu boðið til viðræðna um aðild að þessari ríkisstj., en hafnaði því boði. Eðlilegt var með hliðsjón af kosningaúrslitunum, að Alþfl. kysi að vera í stjórnarandstöðu um sinn. Þó er það skoðun margra Alþfl.-manna, að flokkurinn eigi í grundvallaratriðum meiri samleið með þeim flokkum, sem nú stjórna, en Sjálfstfl., og það er rétt að mínum dómi.

En það er sitt hvað, grundvallaratriði í stefnuskrám og athafnir, þegar til framkvæmdanna kemur hjá núv. stjórnarflokkum, eins og ég mun víkja nánar að hér á eftir. Því hefur verið margyfirlýst af hálfu Alþfl., að afstaða hans til núv. ríkisstj. byggðist á þeim málefnum, sem hún kæmi fram með. Hann vildi styðja öll góð mál, sem til heilla og hagsbóta horfa fyrir almenning í landinu, en berjast gegn því, sem hann telur, að gangi gegn hagsmunum launþega og þeirra, sem Alþfl. vill berjast fyrir. Þessari stefnu sinni hefur hann verið trúr. Þannig studdi Alþfl. till. ríkisstj. um aukningu og eflingu almannatrygginganna, enda voru þær í beinu framhaldi af þeim till., sem hann hafði flutt í tíð fyrri ríkisstj. og átt þátt í að lögfesta. Hann studdi einnig frv. ríkisstj. um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem Sjálfstfl. barðist hatrammlega gegn. Hann var fylgjandi frv. vegna þess, að hann vill skipuleg vinnubrögð í uppbyggingu og framkvæmdum, sem miðist við velferð þjóðarheildarinnar, en ekki við einkahagsmuni og brask. Með það fyrir augum vill hann, að mótuð verði í stórum dráttum þau markmið í fjárfestingarframkvæmdum, sem að skuli stefnt yfir visst árabil, jafnframt því sem ákveðið sé, hvernig þeim markmiðum verði náð, og því fylgt eftir með fjárhagslegum aðgerðum, að svo geti orðið. En Alþfl. var andvígur því að setja þessa stofnun undir stjórn þriggja pólitískra fulltrúa stjórnarflokkanna, eins og gert var. Fleiri mál hefur Alþfl. stutt, sem ríkisstj. hefur komið fram með. Þótt ríkisstj. eigi þannig hluta að framgangi nokkurra góðra mála og eigi hrós skilið fyrir þau, þá hefur henni brugðizt svo gjörsamlega við meðhöndlun annarra, sem allur almenningur á mikið undir komið hvernig tekst með lausn á, að í algjört óefni virðist óðfluga stefna. Af slíkum málum er auðvitað efst á blaði það, sem allur almenningur hefur nú helzt á vörum, — þær ofboðslegu verðhækkanir á öllum sviðum, sem dunið hafa yfir landsfólkið undanfarið. Þar virðist enginn endir ætla að verða á. Daglega verður fólk vart við nýjar og nýjar verðhækkanir í verzlunum og annars staðar og almenningur spyr: Hvar enda þessi ósköp?

Forsrh. sagði hér áðan, að aldrei hefði fólk á Íslandi búið við betri lífskjör en nú. Hvað segja íslenzkar húsmæður um þetta? Hvernig gengur þeim að láta peningana, sem þær hafa handa á milli, duga til innkaupa fyrir heimili nú til dags? Svari hver fyrir sig. Sannleikurinn er sá, að launþegar hyllast til að leggja á sig æ meiri og meiri eftirvinnu og jafnvel næturvinnu á stundum til viðbótar venjulegri dagvinnu til þess að geta framfleytt sér og sínum í þeirri ægilegu dýrtíðar- og verðbólguöldu, sem nú flæðir yfir. Samtímis er ausið fjármunum úr ríkissjóði á báðar hendur og það svo mjög, að stjórnarþm. eins og Björn Pálsson og Bjarni Guðnason geta ekki orða bundizt í þingræðum og láta í ljósi vandlætingu sína út af gegndarlausum fjáraustri úr ríkissjóði í ýmsar áttir. Í því sambandi hafa þeir talað um endalausa eyðslu, skipulagslausa eyðslu, fjáraustur, hægt sé að spara hundruð milljóna kr., ekki eigi að strá út peningum, það verði að taka upp aðra og nýja stefnu, svo að notuð séu nokkur orðatiltæki úr þingræðum þessara hv. stjórnarþm.

Það vita auðvitað allir, að fjármunirnir, sem þannig er farið með, koma með einum eða öðrum hætti úr vasa skattborgaranna og þangað fer vissulega hluti þeirra aftur í mynd ýmiss konar þjónustu, sem hið opinbera lætur í té, en mörgum finnst uggvænlegt, hvernig nú virðist stefna óðfluga til myndunar nýrra auðstétta í landinu fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins, sem ekki aðeins njóta margfaldra launa í samanburði við hinn venjulega launamann, heldur margs konar hlunnindi, sem hvergi koma til skatts og eru virði stórra fjárupphæða. Hér á ég við nokkrar starfsstéttir langskólamanna. Nú gegna þessar starfsstéttir ákaflega mikilvægu hlutverki í okkar þjóðfélagi og þeim bera vissulega góð launakjör með hliðsjón af langskólanámi þeirra og þýðingu þessara starfa fyrir alla landsmenn. En launakjör þeirra og annarra verða að vera í samhengi við það, sem gerist og gengur með þjóð vorri. Því fer víðs fjarri, að svo sé. Maður skyldi ætla, að ríkisstj., sem vill láta kalla sig vinstri stjórn, sem vill berjast á móti öllu, sem horfir í ójafnaðarátt, hefði hug á því að reyna að jafna aðstöðu manna á öllum sviðum til að lifa lífinu sem bezt. Víst er um það, að margir mætir stjórnarþm. og ráðh. hafa mjög talað í þeim anda á liðnum árum, en það er eins og áhuginn fyrir þessum háleitu markmiðum hafi dofnað hjá þessum ágætu mönnum við það að komast í stjórnaraðstöðu og í ráðherrastólana. Ég hafði nefnilega orð á því í ræðu hér á hinu háa Alþ. fyrir skömmu, að nauðsynlegt væri að sporna af alefli gegn því aukna misrétti í launakjörum og aðstöðu, sem fyrirsjáanlega mundi eiga sér stað í vaxandi mæli, ef ekki yrði reynt að hamla gegn þeirri óheillaþróun í ójafnaðarátt, sem nú á sér stað. Ég hélt því fram, að ríkisstj. virtist láta sér þetta í léttu rúmi liggja og jafnvel stuðlaði að myndun forréttinda og auðstétta og benti í því sambandi á frv. hennar um heilbrigðisþjónustu, þar sem gert er ráð fyrir, að hátt launuðum starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar sé boðið upp á margs konar hlunnindi, jafngildi stórra fjárupphæða, langt umfram það, sem þekkist hjá öðrum starfsstéttum opinberra starfsmanna.

Hver haldið þið, góðir hlustendur, að hafi orðið viðbrögð hæstv. heilbr.- og trmrh., Magnúsar Kjartanssonar, við þessu: Að hann fordæmdi vaxandi launamismunun? Að hann vildi meiri jöfnuð í aðstöðu manna til að geta notið lífsins gæða? Eða hann mótmælti því, að hér á landi væru í uppsiglingu vissar forréttinda- og auðstéttir langskólamanna? Nei, nei, aldeilis ekki, ekkert af slíku tagi lét hann sér um munn fara. Í þess stað afgreiddi hann ræðu mína um þetta efni einfaldlega með því að kalla hana tízkufyrirbæri. Hann legði nú ekki mikið upp úr tízku af þessu tagi. Það er sem sagt tízkufyrirbæri, þegar bent er á óréttlæti aukins launamisréttis. Það er tízkufyrirbæri, þegar varað er við þróun, sem getur leitt til enn aukinna útgjalda fyrir þá, sem sækja þurfa til hinna dýrt seldu sérfræðingastétta. En það kemur að sjálfsögðu verst við pyngju þeirra, sem minnst hafa auraráðin. Mér sýnist af þessu, að það sé eitthvað farið að fyrnast yfir hátíðlegar yfirlýsingar stjórnarflokkanna um, að það sé stefna ríkisstj. að bæta afkomu verkafólks, bænda, sjómanna og annarra þeirra, sem búa við hliðstæð kjör. Alþýðuflokksmenn fögnuðu slíkum yfirlýsingum stjórnarsinna við myndun núv. ríkisstj., og þeir vilja heils hugar vinna að og styðja allar skynsamlegar aðgerðir, sem stefna að bættri lífsafkomu launþega og annarra, sem eiga við hliðstæð lífskjör að búa. En Alþfl. mun einnig og jafnframt berjast á móti öllu því, sem stefnir í gagnstæða átt og skerðir lífsafkomumöguleika þessa fólks. Þess vegna gagnrýna Alþýðuflokksmenn ríkisstj. fyrir það, hvernig hún hefur látið holskeflur dýrtíðar og verðbólgu flæða yfir landið á undanförnum vikum, sem étið hafa upp þær kjarabætur, sem samið var um á síðastliðnu ári, og meira en það. Þess vegna gagnrýna Alþýðuflokksmenn ríkisstj. fyrir það að vinna ekki gegn myndun forréttindastétta, sem stjórnarvöld landsins beygja sig jafnan fyrir og búa við lífskjör, m. a. á kostnað ríkisins, sem eru úr öllu samhengi við það, sem gerist og gengur með þjóðinni. Alþýðuflokksmenn mótmæla harðlega stefnu, sem leiðir til aukins launamisréttis, svo sem nú er útlit fyrir að verði, því að það kemur með einum eða öðrum hætti verst við þá, er sízt skyldi.

Það er vitað, að kjósendur stjórnarflokkanna gerðu sér háar vonir um væntanleg afrek og frammistöðu núv. ríkisstj. Fleirum og fleirum í hópi þessa fólks er nú að verða ljóst, að henni ætlar ekki að takast að ráða fram úr þeim verkefnum, sem hún setti sér að leysa. Hún ræður ekki við verðbólguna, lífskjör launafólks batna ekki heldur, þvert á móti, launamisrétti eykst, ef svo heldur áfram sem nú horfir.

Um afstöðu Sjálfstfl. til aukins launamisréttis er þarflaust að fara mörgum orðum. Hann lætur sér nú slík mál í léttu rúmi liggja. Hans heimspeki er, að hver sé sjálfum sér næstur í einu og öllu. Ríki og einstaklingar eigi að skipta sér sem allra minnst af náunganum. Lifi frelsi einstaklingsins til að græða sem mest, ef því er að skipta, jafnvel á náunganum, eins og Jóhann Hafstein formaður Sjálfstfl. undirstrikaði svo rækilega í ræðu sinni hér í kvöld. Sá sterki hann lifi, en sá, sem miður má sín, — ja, nú á dögum verður að rétta honum einhverja hjálparhönd, en þó það minnsta, sem hægt er að komast af með. Þannig er í fáum orðum lífsspeki Sjálfstfl. í raun. Er flokkur, sem hefur slíkt að leiðarljósi, líklegur til að berjast gegn launamisrétti? Svari hver fyrir sig. Ég held ekki.

Ég hef hér nokkuð rætt um, hvernig til hefur tekizt í okkar innanlandsmálum. Hvernig horfir með þau mál, sem hæst hefur borið á sviði utanríkismála landsins undanfarið og þjóðinni eru nátengdust? Þar er að sjálfsögðu efst á blaði landhelgismálið. Um það eru allir Íslendingar sammála, að það sé brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar í dag, að fiskveiðilögsaga hennar stækki. Ákveðið hefur verið, að útfærslan í 50 mílur eigi sér stað 1. sept. n. k. Mikið ríður á, að við berum gæfu til að vinna rétt, skynsamlega og skipulega að undirbúningi málsins, til þess að fullur sigur vinnist. Íslendingar hafa staðið sem einn maður um þá skoðun, að verndun fiskistofna við strendur landsins og stækkun fiskveiðilögsögu verði að eiga sér stað. Einhugur þjóðarinnar í þessu máli, sem ég tel að hafi komið fram á Alþ., er allir alþm. sameinuðust um að greiða atkv. þáltill. í vetur, sem markaði þá stefnu í málinu, sem fara á eftir, hlýtur að vera þeim mönnum, sem standa í fararbroddi í þessu máli, hvatning til að fylgja því fast eftir, sem þá var ákveðið, en þó með skynsamlegri gætni, hafandi ávallt í huga, hvað landsmönnum öllum kemur bezt, þegar til lengdar lætur.

Annað mál vildi ég nefna, sem snertir skipti Íslendinga við aðrar þjóðir og nýlega hefur verið á dagskrá, en miklar deilur staðið um. Þar á ég við dvöl varnarliðs Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og lengingu flugbrautarinnar þar. Allt það mál hefur því miður æxlazt þannig í meðförum hér á landi, að til lítils sóma hefur orðið landi voru út á við, svo að ekki sé meira sagt. Í málefnasamningi ríkisstj. segir, að varnarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skuli að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu. Fjarri fer því, að þeir, sem gerst ættu að vita, hafi verið sammála um, hvernig þetta bæri að túlka. Annars vegar hefur því verið haldið fram, að herinn skuli fara án tillits til endurskoðunarinnar, og hins vegar, að fyrst skuli endurskoðunin fara fram og síðan tekin ákvörðun um brottför varnarliðsins á grundvelli hennar. Á þessu tvennu er að sjálfsögðu reginmunur. Við þessa ringulreið bætist svo það, að af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um afstöðu stjórnarþm. til þessa máls, virðist allt í óvissu um, hvort ríkisstj. hafi þingmeirihluta til framgangs hinni óljósu stefnu sinni í málinu. Ekki hefur það orðið til álitsauka fyrir ríkisstj. í skiptum sínum við Bandaríkjastjórn, þegar hún þiggur fjárframlag frá henni að fjárhæð næstum 600 millj. ísl. kr. til lengingar flugbrautar á Keflavíkurflugvelli, en í orðsendingu til íslenzku ríkisstj. frá hinni bandarísku, þar sem tilkynnt er um þessa peningagjöf, segir, að hún sé boðin fram í þágu aukinna varna hins vestræna heims. Gjöfin var þegin, eins og allir vita, og jafnframt tekið fram, að haldið yrði fast við áformin um brottför hersins, þótt hæpið verði að teljast, að þingmeirihluti sé fyrir hendi til þess. Vandséð er, hvernig því verður komið heim og saman, að Bandaríkjamenn láti næstum 600 millj. kr. af hendi rakna til lengingar þverbrautarinnar á Keflavíkurflugvelli með það fyrir augum að auka varnarmátt hins vestræna heims, en Íslendingar samþykki og tilkynni jafnframt, að varnarliðið verði rekið brott af Keflavíkurflugvelli og frá Íslandi.

Allt þetta mál sýnist mér vera á þann veg, að ekki sé til þess fallið að auka veg Íslendinga í augum annarra þjóða, nema síður sé. Alþfl. hefur markað sér skýra afstöðu í þessum málum. Hann vill, að utanrmn. Alþ. geri ítarlega athugun á öryggismálum Íslands. Í þáltill., sem alþm. flokksins hafa lagt fram í Sþ. um þetta efni, er gerð grein fyrir einstökum atriðum þeirrar könnunar, sem nauðsynlegt er að fram fari, til þess að unnt sé að ákvarða um nauðsyn varnarliðs á Íslandi og annars, er snertir öryggi landsins í náinni framtíð. Ekki vinnst tími til þess hér við þetta tækifæri að fara nánar út í einstök atriði þess máls, en þær ítarlegu athuganir, sem Alþfl. vill láta gera nú þegar í öryggismálum landsins, eru nauðsynlegur undanfari skynsamlegra ákvarðana í þessu viðkvæma og vandasama stórmáli íslenzkrar þjóðar.

Þökk sé þeim, er hlýddu. — Góða nótt.