12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar kom til valda á s. l. sumri, mátti tíðum lesa greinar í Morgunblaðinu um reynslulausa ráðherra og var þá gjarnan vitnað í þá, sem reynsluna áttu að hafa, einkum hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein. Þeir, sem hlustuðu á ræðu þessa manns s. l. föstudagskvöld, munu áreiðanlega fáir kjósa að njóta reynslu Jóhanns Hafstein að nýju við stjórn okkar lands.

Einna mesta athygli mína vakti þó málflutningur hv. 11. landsk. þm., Ólafs G. Einarssonar. Þessi hv. þm. hefur sérstaklega tekið sér það fyrir hendur á þessu þingi að sýna fram á mjög aukna skattbyrði með hinum nýju skattalögum, eins og fjölmargar greinar hans í Morgunblaðinu báru með sér. En hann spennti bogann of hátt og óvarlega, og þessi viðkunnanlegi maður hlaut meðaumkun margra, þegar útreikningurinn og rökstuðningurinn hrundi stig af stigi.

Síðan hafa sjálfstæðismenn kappkostað að sanna málstað sinn á þann vafasama hátt að nota, hvar sem þeir ráða, heimildir til hækkunar á fasteignagjöldum og jafnvel útsvörum. Í einstöku tilfellum getur slíkt verið nauðsynlegt, en víðast virðist það ákveðið án minnsta tillits til þess, hver þörfin er. Þó efast ég um, að í nokkru bæjar- eða sveitarfélagi hafi verið seilzt lengra en þar, sem Ólafur G. Einarsson ræður. Þar lét hann fyrir fáeinum dögum meiri hl. þeirra sjálfstæðismanna samþykkja 50% hækkun á fasteignagjöldum, m. a. með þeim vafasama rökstuðningi, þegar allt annað var þrotið, að nauðsynlegt væri að greiða upp allar lausaskuldir hreppsins á þessu eina ári. Það er sorglegt, að þessi annars prúði maður skuli láta vanhugsuð pólitísk skammtímasjónarmið þeirra sjálfstæðismanna hafa sig til slíkra hluta. Þessara vinnubragða sjálfstæðismanna ættu skattgreiðendur að minnast, þegar skattseðillinn birtist.

S. l. haust var einnig óspart hæðzt að málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Hann var talinn hið furðulegasta plagg og óframkvæmanlegur með öllu og gleggsta vitnið um reynsluleysi ráðh. Nú er þessi söngur breyttur, enda dylst engum, að meira hefur verið efnt en nokkur þorði að vona á þeim skamma tíma, sem ríkisstj. hefur setið. Hæstv. ríkisstj. þótti sjálfsagt að gefa út hinn ítarlega málefnasamning, þannig að þjóðin öll gæti gert sér grein fyrir því, hverju væri lofað og hverjar efndirnar yrðu. Þetta þótti stjórnarandstæðingum furðu djarft og drógu dár að. Nú er upplitið annað. Nú má helzt skilja á málflutningi stjórnarandstæðinga, að allt of mikið hafi verið framkvæmt, og ég veit, að einstaka ágætur stuðningsmaður þessarar ágætu ríkisstj. leggur nokkurn trúnað á slíkan málflutning. Athygli þeirra vil ég vekja á því, að arfurinn var gífurlega mikill, og mikið þarf að hreinsa út eftir 12 ára valdatíma viðreisnarstjórnarinnar. Ekki veitir því af að byrja strax. “

Á þeim fáu mínútum, sem ég hef til umráða, vil ég fara nokkrum orðum um loforð og efndir í atvinnumálum.

Því var heitið að taka upp skipulagshyggju í stað þess handahófs, sem áður ríkti. Í þessu skyni var þegar á fyrstu vikum þingsins lagt fram frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Markmiðið með Framkvæmdastofnun ríkisins er að taka upp forgangsröðun og áætlanagerð í þjónustu atvinnulífsins. Vitanlega hefur áætlanagerð þekkzt í þessu landi á undanförnum árum, en með slík vinnubrögð var nánast farið sem feimnismál. Áætlanir voru vart sýnilegar nema skyggnum mönnum, eins og einn hv. þm. komst að orði fyrir fáeinum dögum. Ég hygg, að flestum sé raunar orðið það ljóst, að slík skipuleg vinnubrögð og forgangsröðun verkefna eru lífsnauðsyn í okkar fámenna landi, þar sem þörfinni fyrir fjármagn til margs háttar framkvæmda verður seint eða aldrei fullnægt.

Með Framkvæmdastofnun ríkisins hefur einnig verið stigið mikilvægt skref á þeirri yfirlýstu braut að rétta hlut dreifbýlisins frá því, sem verið hefur. Sem betur fer, er hugtakið „jafnvægi í byggð landsins“, ekki lengur það hlátursefni, sem það gjarnan var fyrir fáeinum árum. Við, sem búum á þéttbýlissvæðunum, skiljum það betur og betur, að við eigum ekki lengi þetta land, ef við byggjum það ekki allt. Við skiljum það einnig, að þjóðarbúið er sem ein heild, félagsbú, þar sem allir þættir eru jafnréttháir. Því hvað yrði um okkur, sem Suðvesturlandið byggjum, ef hráefnisöflunina, landbúnaðinn og fiskvinnsluna í kringum landið þryti. Þeirri spurningu geta allir svarað. Það er einnig ljóst, að þeir, sem að slíkum störfum vinna, hvar sem þeir búa, eiga rétt á sömu lífskjörum og lífsgæðum sem aðrir landsmenn.

Með þetta í huga m. a. var ákveðið að efla verulega sjóð þann, sem áður hét Atvinnujöfnunarsjóður, en nefnist nú Byggðasjóður. Gjafmildi viðreisnarstjórnarinnar var auglýst með miklum orðaflaumi, þegar sú ríkisstj. hét 15 millj. kr. í Atvinnujöfnunarsjóð á ári hverju í 10 ár. Mátti jafnvel halda, að þar væri um ofrausn að ræða. Ég er hins vegar ekki viss um, að menn hafi gert sér grein fyrir því sem skyldi, að í þennan sjóð rennur nú nálægt því sjöfalt meira fjármagn úr ríkissjóði, eða 100 millj. kr. á ári hverju í 10 ár.

Full ástæða er til að binda miklar vonir við það, að Framkvæmdastofnun ríkisins verði öllu atvinnulífi landsmanna mikil lyftistöng. En sérstaklega ber þess að vænta, að stofnuninni megi takast að rétta verulega hlut dreifbýlisins í atvinnuþróun.

Því var einnig heitið að stórefla togaraflota landsmanna, sem var kominn í algjöra niðurníðslu á tímum viðreisnarstjórnarinnar. Þetta er nú verið að gera það myndarlega, að sumum þykir nóg um.

Heitið var sérstöku átaki til endurbóta á frystihúsunum, enda komið á 11. stundu vegna þeirrar þróunar, sem orðið hefur á erlendum mörkuðum. Unnið er að ítarlegri áætlunargerð á þessu sviði, en þótt henni sé ekki að fullu lokið, er ákveðið að hefja framkvæmdir í töluverðum mæli þegar á þessu ári, m. a. með 200 millj. kr. aukinni fjárveitingu til Fiskveiðasjóðs og tvöföldun á því fjármagni, sem lánasjóður sveitarfélaga fær til umráða. Fjárþörfin í þessu skyni verður mikil, líklega um eða yfir 2000 millj. kr. Þetta er hins vegar forgangsverkefni og verður að sitja fyrir flestu öðru, og það verður að sjálfsögðu fjármagnað á næstu 3–4 árum.

Því var heitið að ljúka innan þriggja ára rafvæðingu allra þeirra bújarða í sveitum, sem hagkvæmt er talið að fái raforku frá samveitum. Þegar í nóv. s. l. var lögð fram á Alþ. þriggja ára áætlun um rafvæðingu dreifbýlisins, og í frv. að framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir öllu því fjármagni, sem talið er nauðsynlegt til að standa við þá áætlun. Jafnframt er unnið að því að kanna, hvort unnt megi reynast að veita raforku til þeirra fáu byggðarlaga, sem enn eru ekki á þriggja ára áætluninni. Þannig má t. d. telja öruggt, að samþ. verði veita um verulegan hluta Reykjarfjarðarhrepps í Djúpi, og verið er að kanna, hvort til greina geti komið að rafvæða frá samveitu góðan hluta af Gufudalssveit. Samfara þessari stórauknu rafvæðingu dreifbýlisins er ætlunin að auka virkjunarframkvæmdir eins og frekast er kostur. Er það víða orðin hin brýnasta nauðsyn eftir vanrækslu undanfarinna ára. Á Vestfjörðum hefur t. d. ekki verið virkjað í áratug. Þar var á s. l. ári varið 10.7 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við miðlun í Langavatni við Mjólkárvirkjun. Á þessu ári er hins vegar ætlunin að verja 14 millj. kr. til þess að ljúka við þessa miðlun. Auk þess hefur hæstv. fjmrh. fallizt á að gera í framkvæmdaáætlun ráð fyrir u. þ. b. 11 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við aðra virkjun við Mjólká, þannig að tryggt megi verða, að þeirri virkjun verði lokið á árunum 1973 og 1974. Loks eru ætlaðar 4 millj. kr. til Blævardalsárvirkjunar í Djúpi. Þar með verður tryggð raforka í nýtt dreifikerfi um Nauteyrarhrepp og Reykjarfjarðarhrepp. Til virkjunarframkvæmda í Vestfjarðakjördæmi munu því renna um 29 millj. kr. á þessu ári, eða nálægt því þrefalt meira fjármagn en á því síðasta.

Vegáætlun liggur nú fyrir hinu háa Alþingi. Einnig í vegamálum kemur fram ríkur vilji til þess að stórauka framkvæmdir. Því var t. d. strax vel tekið, þegar ég við 1. umr. s. l. miðvikudag vakti athygli á því, að nauðsynlegt væri að gera ráð fyrir verulegu lánsfé, a. m. k. 25 millj. kr., til Djúpvegar á ári í næstu þrjú ár, til viðbótar framlagi á vegáætlun, enda má annars segja, að þeim 10 millj. kr., sem teknar voru að láni á s. l. ári, hafi verið til lítils varið.

Að sjálfsögðu verður að ljúka framkvæmd, sem þannig er hafin, á sem skemmstum tíma, til þess að arður fáist af fjármagninu. Eins og fram er komið, hefur hæstv. fjmrh. samþ. að gera ráð fyrir viðbótarlánsheimild að upphæð 25 millj. kr. í þessu skyni. Sýnist mér með þessu sæmilega tryggt, að Djúpvegi að Ögri verði lokið á næstu þremur árum.

Góðir Íslendingar. Þessi stutti samanburður á loforðum og efndum sýnir það glöggt, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluti hafa talið það skyldu sína að láta hendur standa fram úr ermum og leitast við að lagfæra sem fyrst fjölmargt það, sem vanrækt hefur verið á undanförnum árum. Þó veit ég, að ýmsum þykir sinn hlutur of lítill. Það er eðlilegt. Þar sem lítið hefur verið framkvæmt í lengri tíma, þar er þörfin mikil. Engu að síður er það staðreynd, að aukning á því fé sem ætlað er til opinberra framkvæmda er gífurleg og boginn spenntur til hins ýtrasta. Þetta sannar því fyrst og fremst það, hversu mikil þörfin er fyrir forgangsröðun, áætlanagerð og skipulagshyggju í okkar þjóðarbúskap. Það eru þau vinnubrögð, sem þessi hæstv. ríkisstj. vill við hafa. Um hana mun íslenzka þjóðin standa vörð.