12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

Almennar stjórnmálaumræður

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir rúmu ári, nánar tiltekið 24. marz 1971, fluttu fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka á Alþ. till. til þál. um útfærslu íslenzkrar fiskveiðilögsögu í 50 mílur eigi síðar en 1. sept. 1972. Stuðningsmenn þáv. ríkisstj. voru ekki reiðubúnir til töku slíkrar ákvörðunar og felldu þessa tillögu. Afstaða flokkanna til útfærslu fiskveiðilögsögunnar varð höfuðmál kosninganna, sem urðu hinar sögulegustu á 44 ára tímabili. Þjóðin veitti þreyttum ráðherrum lausn í náð og ný ríkisstj. var mynduð. Í málefnasamningi hennar er landhelgismálið númer eitt, og hún hófst handa án tafar að vinna að framgangi þess og á þann hátt, að eftir var tekið, bæði innan lands og utan.

Deilt er um arfahlut hinnar nýju ríkisstj. úr dánar- og þrotabúi viðreisnarinnar sálugu. Óhaggað stendur, að sú stjórn lét eftir sig hrikalegustu óðaverðbólgu, sem þekkzt hefur á Íslandi, falda fram yfir kosningar bak hrófatildri bráðabirgðaverðstöðvunar. Útgjaldabálkur síðustu fjárlaga viðreisnarinnar var í raun falsaður um 1000 millj. kr. Togurum Íslendinga hafði fækkað stórkostlega, frá því þeir voru flestir, enda var skilningur á togaraútgerð svo takmarkaður á viðreisnartímabilinu, að sjútvrh. stakk einu sinni upp á því á LÍÚ-fundi að fá léðan hjá pólskum gamlan skuttogara til prufu! Og fiskiðnaðurinn var vanræktur í ofurtrausti á erlenda stóriðju.

Þessi dæmi tala sínu máli um eftirlátnar reytur viðreisnar og mörg fleiri mætti nefna af þessum toga. En gott árferði getur aldrei reiknast með erfðagóssi, né hagstætt verðlag á heimsmarkaðinum. Og þá að sjálfsögðu ekki heldur þau herlegheit, sem þessu fylgja í þjóðarbúskap Íslendinga. Því minni ég á þessi atriði, að arfurinn frá síðustu ríkisstj. er óhjákvæmilegur bakgrunnur í sannri mynd af starfi nýrrar.

Fyrsta verk ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar var að rétta nokkuð hlut launþega og sjómanna og hækka lífeyrisgreiðslur til öryrkja og aldraðra. Stjórnarandstæðingar kenndu þetta til óhófs og veizluhalda, sem frægt varð — og voru enn við sama heygarðshornið í umr. á föstudagskvöldið var. Þessum fyrstu aðgerðum í kjaramálum var síðan fylgt eftir með lögum um 40 stunda vinnuviku og víðtækum aðgerðum í orlofsmálum verkamanna, húsmæðra og bænda og með því að koma á lágmarkstekjutryggingu, 18 þús. kr. á mánuði fyrir hjón í stað 8 þús. kr. lífeyris hjá viðreisn.

Bætt kjör byggjast á eflingu framleiðslu og aukningu þjóðartekna. Aðrir hafa drepið á iðju og útgerð. Ég vík að landbúnaðarmálunum örfáum orðum.

Við verðlagningu landbúnaðarvara 1. des. var launaliður verðlagsgrundvallar leiðréttur um 21% í samræmi við kauphækkanir þær, sem orðið höfðu þá og áður. Söluskattur hefur verið felldur niður af mjólkurvörum og fleiri söluvörum bænda.

Unnið er að víðtækum breytingum á landbúnaðarlöggjöfinni. Ný jarðræktarlög verða afgreidd á Alþ. fyrir þingslit og lög um innflutning á sæði holdanauta voru afgreidd áður. Rýmkaður hefur verið réttur bænda til ellilífeyris, og lífeyrissjóðslögin í heild verða nú tekin til endurskoðunar. Undirbúin er löggjöf um orlof sveitafólks.Öll lög um kauprétt og um ábúð jarða eru í skoðun. Frv. til nýrra laga um framleiðsluráð, verðlagningu o. fl. er til meðferðar á Alþ., og unnið er að heildaráætlun um landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða.

Fleira er í skoðun, og er ekki tóm til að rekja hér einstaka þætti, en að þessum málum öllum er unnið í nánu samráði við fag- og stéttarsamtök bændanna sjálfra.

Varðandi lánamál landbúnaðarins minni ég á, að afurðalánin hafa verið leiðrétt, sjóðum Búnaðarbankans aflað fjár, íbúðalán í sveitum hækkuð um þriðjung til samræmis við önnur íbúðalán og veðdeildarlán til jarðakaupa meira en tvöfölduð. Fjárframlög til Landnámsins eru nú 53 millj. í stað 30 í fyrra og til Framleiðnisjóðs 22 millj. á móti engu 1971. En báða þessa þýðingarmiklu pósta hafði viðreisnin beitt niðurskurði áður. Fjárveiting til Bændaskólans á Hvanneyri var þrefölduð, og nú er í fyrsta sinni veitt fé til undirbúnings bændaskóla á Suðurlandi.

Ákveðið hefur verið að ljúka rafvæðingu Íslands á þremur árum.

Um raforkumálin er það annars að segja í sem allra fæstum orðum, að ríkisstj. hefur kynnt þá stefnu sina, að stórvirkjanir skuli ekki fyrir fram bundnar hagsmunum erlendra, að tengja skuli orkuveitur og orkumálastjórnina í sterka landsheild með þátttöku byggðarlaga og að stefnt skuli að sem jöfnustum kjörum allra orkunotenda í landinu.

Vert er og að víkja að samgöngumálunum. Viðreisnin svelti flugvellina að því marki, að óhjákvæmilegt þótti að tvöfalda framlög til flugmála og vel það. Ný fjögurra ára vegáætlun er í smíðum þessa dagana. Sýnt er, að viðhaldsfé vex nú verulega umfram verðhækkanirnar. Hraðbrautarframkvæmdir eru í fullum gangi næstu fjögur árin. Borgarfjörður mun verða brúaður hjá Borgarnesi og lokið tengingu Djúpvegar. Unnið verður eftir sérstökum lánsfjáráætlunum norðanlands og austan. Torfærurnar á Skeiðarársandi munu verða sigraðar á þremur árum.

„Ég kem aftur að sjá hið nýja Ísland, sem verður að því verki loknu,“ sagði merkur útlendingur hér á dögunum.

Svo er að sjá sem stjórnarandstæðingum hafi orðið meira en lítið bumbult af athafnasemi ríkisstj., ef marka má flaumósa málflutning þeirra við ýmis tækifæri. Í vetur gerðu þeir t. d. mikinn glumrugang út af breytingum á skattalögunum. Enginn bar sér þó í munn þá, að breytingarnar væru óþarfar, enda sagði fjmrh. viðreisnar í þingræðu nokkru áður en sú stjórn afgekk, að kerfið væri flókið, gjöldin of mörg, allt of þungir skattar á unglingum og framkvæmdin sjálf allt of dýr.

Nú er svo óskapast yfir tekjustofnum sveitarfélaga og hrópað um árás á Reykjavík, sem auðvitað býr þó við sömu tekjustofna og önnur sveitarfélög í landinu. En hins er að engu getið, að á síðasta ári viðreisnarinnar voru 18 sveitarfélög komin í þrot og þurftu sérstaka aðstoð úr Jöfnunarsjóði — og sum þeirra fjölmenn og hefði vafalítið stórlega fjölgað að óbreyttum lögum.

Upphlaupið út af stuðningi Íslands við aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum er dæmigert fyrir írafárið, sem greip um sig fyrst eftir umskiptin, á heimili Sjálfstfl. En einna broslegast verður þó fólkið á bænum þeim, þegar það upptendrast af áhuga fyrir þeim málum, sem stjórn þess sat á, á meðan hún gat. Svo var t. d. um þátttöku ríkisins í stofnun og rekstri elliheimila, sem aldrei þýddi að orða, en nú verður tekin upp, sbr. stjfrv., sem lagt var fyrir Alþ. í dag og á að taka gildi 1. jan. 1973. Hvergi hefur þetta þó komið neyðarlegar fram en að því er varðar jöfnun námskostnaðar strjálbýlisfólks. Það tók nefnilega þrjú ár að þvinga viðreisnina til að skoða málið og síðan önnur þrjú að þoka framlögum upp í 15 millj. kr. Nú hafa verið sett lög, sem þýtt geta, ekki 15 millj. kr. framlag heldur 115 millj., og mun ekki af veita, en nú flytja sjálfstæðismenn frv. um málið á Alþ. og frægja í ræðum forustu fyrrv. ríkisstj. í þessu máli!

Svona málflutning kalla ég nú hreint bríarí og varla forsvaranlegt fyrir fullorðið fólk, enda er hann satt bezt að segja í engu samræmi við störf velflestra þessara hv. þm. í þingnefndum og á Alþ. yfir höfuð. Þar er unnið sameiginlega að fjölmörgum málum, m. a. að undirbúningi og.gerð fjárlaga og vegáætlunar, þótt stjórnarliðið hljóti að sjálfsögðu að ráða rammanum. Samstarfið á Alþ. hefur að mínum dómi sjaldan verið betra en í vetur, og því ber að fagna. Fyrri varaforsetar eru nú stjórnarandstæðingar. Vinnubrögð í Sþ. eru gjörbreytt, og þingsköp hafa verið endurskoðuð.

Sá merki atburður gerðist á Alþ. 15. febr. s. l., að hver einasti alþm. galt jáyrði till. um útfærslu fiskveiðilögsögu Íslendinga í 50 mílur 1. sept. n. k. Þeirrar stundar verður áreiðanlega minnzt, þegar margt er gleymt af því, sem við þráttum um í dag. Og ég trúi því, að það, sem þá gerðist, geti síðar orðið til eftirbreytni, þegar vanda ber að höndum, því að þann dag hlaut þjóðin öll ávinning og enginn beið hnekki.

1. maí setti svo verkalýðshreyfingin sinn stimpil undir samþykkt Alþingis með eftirminnilegum hætti. Fráfarandi ríkisstj. játaði ófeimin trú sína á ál og gúr.

Að hennar dómi hlaut vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu að verða í stóriðju í tengslum við erlenda.

Hvergi eru skilin gleggri en einmitt hér. Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar styður af alefli endurnýjun togaraflotans. Fullir þrír tugir togskipa, stærri og minni, verða keyptir eða smíðaðir fyrir íslenzka útvegsmenn og dreifast á 20 útgerðarstaði um allt land. Frystiiðnaðurinn verður byggður upp og öflugur stuðningur veittur fullvinnsluiðnaði á sjávarafla.

Þessu verða svo að fylgja viðeigandi félagslegar aðgerðir, ekki sízt í húsnæðismálum, en skortur á leiguhúsnæði hindrar nú bókstaflega vöxt fjölmargra þéttbýlisstaða um land allt.

Þannig er hin nýja atvinnu- og byggðastefna ríkisstj. Vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu skal verða í íslenskum atvinnurekstri og ekki sízt í sjálfum matvælaiðnaðinum, sem er í raun stóriðja okkar Íslendinga. En möguleikarnir á að framfylgja þessari stefnu byggjast á því öllu öðru fremur, að giftusamlega takist til með útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Góðir hlustendur. Það kemur ríkisstj. vel, að þið fylgist sem gerst með framvindu í þjóðmálum, og það er auðvitað öllum fyrir beztu, alltaf. Í kvöld bið ég ykkur þó aðeins um eitt: Eflið órofa samstöðu íslenzku þjóðarinnar í landhelgismálinu. — Góðar stundir.