12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Eitt af aðalárásarefnum stjórnarandstöðunnar á núv. ríkisstj. er, að stjórnarflokkarnir hafi svikið verkalýðshreyfinguna. Viðreisnarherrarnir tala um vísitölufölsun hjá núv. ríkisstj. og annað eftir því. Það er engu líkara en stjórnarandstæðingar telji víst, að þið, góðir tilheyrendur, verkafólk, sjómenn, bændur og annað launafólk, séuð búnir að gleyma þeim árum, sem viðreisnarstjórnin var við völd í landinu. Allur þeirra málflutningur hér á Alþ., svo og í málgögnum þeirra, ber þess glögg merki, að von þeirra er sú, að allt sé nú gleymt og grafið, allt það marga, sem viðreisnarstjórnin vann sér til óhelgi í samskiptum sínum við verkalýðshreyfinguna. En illa þekkja þessir hv. þm. íslenzka alþýðu, reikni þeir með slíku. Það kemur vissulega sem grjótkast úr glerhúsi, þegar foringjar viðreisnarinnar, þeir hv. þm. Jóhann Hafstein og Gylfi Þ. Gíslason og þeirra fylgismenn, gera hvað harðasta árás á ríkisstj. og brigzla henni um svik við verkalýðshreyfinguna og launafólk í landinu.

Hv. 2. landsk, þm., Pétur Pétursson, sagði hér í umr. s. l. föstudag, að svikin við launafólk væru verst allra svika núv, ríkisstj., og málgagn þessa hv. þm., Alþýðublaðið, sagði 18. apríl s. l., að ríkisstj. hefði bókstaflega ekkert gert annað s. l. fjóra mánuði en að veitast að launastéttunum í landinu. Og hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, talaði hér um vísitölufölsun. Ég hygg, að launafólki finnist þessir hv. þm., svo og aðrir stuðningsmenn viðreisnarinnar, tala hér digurbarkalega frammi fyrir alþjóð. Eða hvað um fortíð stjórnarandstæðinga í þessum efnum? Skyldu þeir vera hinir hvítþvegnu englar, þegar talað er um vísitölubætur á laun? Við skulum aðeins kíkja í syndaregistur viðreisnarinnar.

Á árunum 1960–1964 bannaði viðreisnarstjórnin með lögum greiðslu verðlagsbóta á laun og hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþfl., rökstuddi þessa aðgerð í ræðu hér á Alþ. með því, að vísitölukerfið færði launþegum engar varanlegar kjarabætur. Á þessu tímabili jókst dýrtíð um nærri 90%, án þess að launafólk fengi neinar bætur. En á sama tíma var verkalýðshreyfingin að heyja hvert stórverkfallið á fætur öðru til að knýja fram grunnkaupshækkanir. Haustið 1964 var svo viðreisnarstjórnin knúin til að taka upp aftur greiðslu verðlagsbóta á laun. En Adam var ekki lengi í Paradís. Eftir kosningarnar 1967 var það fyrsta verk viðreisnarstjórnarinnar á Alþ. að rjúfa júní-samkomulagið svonefnda og afnema þar með greiðslu verðlagsuppbóta. Í kjölfarið fylgdu tvær gengisfellingar, sem höfðu í för með sér stórfellda kjararýrnun fyrir launafólk. Það varð svo fyrst á árinu 1970, að aftur tókst að fá vísitölubætur á laun með samningum við atvinnurekendur. En viðreisnarherrarnir voru nú ekki á þeim buxunum að virða gerða samninga frekar en fyrri daginn. Þeir beittu sér fyrir því haustið 1970 að setja hin svokölluðu verðstöðvunarlög, og eitt aðalefni þeirra laga var að fresta greiðslu tveggja vísitölustiga og breyta vísitölugrundvellinum þannig, að vísitalan lækkaði um tvö stig. M. ö. o.: lögin fólu það í sér, að höfð voru fjögur vísitölustig af launþegum. Þetta var í stórum dráttum vinskapur sá, sem þeir viðreisnarherrarnir Jóhann Hafstein og Gylfi Þ. Gíslason og fylgismenn sýndu verkalýðshreyfingunni. Það er engin furða, þó að þessir hv. þm. taki nú stórt upp í sig og tali um árás á launþega. Nei, það er víst. Öðrum ferst, en þeim ekki.

En hver er þá sannleikurinn varðandi þær ásakanir, sem stjórnarandstæðingar bera núv. stjórnarflokkum á brýn, að búið sé að ræna öllum þeim kjarabótum, sem um var samið í des. s. l., og meira en það. Þessar fullyrðingar fá engan veginn staðizt. Lög og samningar ákveða, að verðlagsbætur á laun skuli reiknast á þriggja mánaða fresti. Getur því, þegar um snöggar verðbreytingar er að ræða og miklar, mjög hallazt á launafólk í lok kaupgreiðslutímabils. Á hitt er þá líka að líta, að 1. júní n. k. koma fullar umsamdar og lögfestar verðlagsbætur á laun miðað við verðlag í byrjun maímánaðar, og réttist þá aftur hlutur launafólks. Enn er þess að geta, að 1. júní n. k. kemur einnig til framkvæmda annar áfangi umsaminnar grunnkaupshækkunar, 4%, þannig að allt kaupgjald hækkar að samanlagðri kaupgreiðsluvísitölu og grunnkaupi um a. m. k. 9–10%, og er þá fullvíst, að kaupmáttur tímakaups verður stórfellt hærri en hann var, þegar upp var staðið frá samningunum í des. s. l., varla minna en sem nemur nærri 20% hærri en fyrir þá samninga. En það er hin mesta kaupmáttaraukning miðað við tímakaup, ef ekki mesta, sem orðið hefur á jafnskömmum tíma.

Til viðbótar þessu bendi ég á, að á öðrum ársfjórðungi 1971, við lok viðreisnartímabilsins, var kaupmáttur í almennri vinnu miðað við framfærsluvísitölu 11 l.9 stig. En á öðrum ársfjórðungi þessa árs er kaupmáttur tímakaupsins áætlaður 139.5 stig eða 27 stigum hærri, sem þýðir 23% meiri kaupmáttur en á síðasta valdamissiri viðreisnarstjórnarinnar. Þetta kallar málgagn Gylfa Þ. Gíslasonar svívirðu í leiðara 3. maí s. l., og á sama hátt kallar málgagn Jóhanns Hafstein þetta árás á launafólk.

Ég hef nú í stórum dráttum rifjað upp, hvernig viðreisnarstjórnin stjórnaði í algerri andstöðu við launafólk í landinu. Við þetta má svo bæta þeim gerðardómum, sem sjómannastéttin varð að þola af hálfu þeirrar stjórnar. Einnig hef ég bent á, hver umskipti urðu við valdatöku núv. ríkisstj., sem tekið hefur fullt tillit til hinna vinnandi stétta. Á þessu tvennu er reginmunur. Öllum má því ljóst vera, að allt tal stjórnarandstæðinga um árásir ríkisstj. á launafólk eru staðlausir stafir. Hitt vil ég minna á, að það er vissulega áhyggjuefni allra hugsandi manna, á hvern hátt komizt verði til fulls frá þeirri hrollvekju, sem viðreisnarstjórnin var búin að kalla yfir þjóðarbúið. Við skulum vona, að núv. ríkisstj. takist að leysa farsællega úr þeim vandamálum, sem við er að glíma.

Að lokum þetta. Eitt er það mál, sem öllum málum ris ofar hjá okkur Íslendingum nú. En það er landhelgismálið. Hvað sem öðrum málum líður, standa Íslendingar einhuga í því máli. Öllum er ljóst, að þar er um að ræða algera lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar.

Farsæl lausn landhelgismálsins er framtíð Íslands. Góða nótt.