12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

Almennar stjórnmálaumræður

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Sjálfsagt er það flestu fólki enn í fersku minni, hversu núv. stjórnarflokkar lögðu mikið kapp á að koma viðreisnarstjórninni frá völdum. Má raunar enn í þessum umræðum heyra skammir þeirra og svívirðingar um þá aumu stjórn, sem öllu illu til leiðar kom. Við höfum nú í þessum umræðum heyrt, hvernig mannvonzka hennar og þjónkun við atvinnurekendur og auðvald kom í veg fyrir bætt kjör launþega, og við heyrðum á föstudagskvöldið af vörum Magnúsar Kjartanssonar, hvernig viðreisnarstjórnin rak óþjóðholla landráðastefnu og braut niður þjóðernismetnað og sjálfstæðisvilja þjóðarinnar, svo að notuð séu hans eigin orð.

Þessari voðalegu stjórn var að lokum komið frá, og nú er öldin önnur. Nú ríkir bjartsýni, þjóðarmetnaður og nú er gaman að vera Íslendingur, segir forsrh. Einhver kynni að segja, að það hafi verið kominn tími til, að blessaður maðurinn uppgötvaði þá lífshamingju, en aumt er hlutskipti þess stjórnmálamanns, sem finnst þá fyrst gaman að lifa, þegar hann sjálfur kemst til valda. En kannske er það svo, að þeim mönnum, sem hafa tamið sér það pólitíska siðgæði að saka stjórnmálaandstæðinga sína um landráð og óþjóðhollustu, þeim mönnum finnist ekkert gaman við það að vera Íslendingar, nema þeir fái sjálfir að ráða því í einu og öllu, hvað gerist á þessu landi.

Ragnar Arnalds sagði hér fyrr í kvöld, að stjórnarandstaðan hefði enn ekki áttað sig á, hvar grípa skyldi niður í stjórnarandstöðu sinni hér á þingi. Það vildi ég segja þessum önnum kafna þm., þá loks hann gefur sér tíma til að mæta hér í þingsölum, að stjórnarandstaðan er þá aðeins í erfiðleikum með að grípa niður og taka á málum, vegna þess að af svo ótal, ótal mörgu er að taka. Hitt er rétt, að við setjum fram margvíslega gagnrýni og munum halda áfram að gagnrýna, hversu mikið sem undan henni er kvartað. Við bendum á það, sem miður fer, og látum síðan kjósendur um að leggja dóm á, hvort vegi þyngra kostir eða gallar þeirrar stjórnarstefnu, sem ferðinni ræður. Þannig höfum við vakið athygli á, nú þegar verðhækkanir dynja yfir þjóðina, að það er ekki mannvonzka íhaldsstjórnarinnar, sem veldur því, heldur hin gamalkunnu og óhjákvæmilegu víxláhrif kaupgjalds og verðlags. Þannig höfum við bent á, að stjórn hinna vinnandi stétta sýnir hinum vinnandi stéttum ekki meiri tillitssemi en svo, að hún hefur hnikað til bæði skatt- og framfærsluvísitölu launþegum í óhag og lítilsvirt ein stærstu launþegasamtökin, bandalag opinberra starfsmanna, með því hreinlega að neita að taka upp viðræður um launakjör þeirra. Þannig höfum við bent á, að ef ástandið við valdatöku þessarar stjórnar var svo slæmt sem þeir vilja vera láta, var þá 50% hækkun fjárlaga til þess fallin að draga úr verðbólgu? Ég tek sannarlega undir með síðasta ræðumanni, Bjarna Guðnasyni, að slík vinnubrögð munu að síðustu verða þessari ríkisstj. að falli. Og svo mætti áfram telja. Við höfum bent á galla skattalagabreytinga, minnkandi áhrif sveitarfélaga, óráðsíu í fjármálum, aðgerðarleysi í menntamálum, stefnuleysi í öryggismálum o. s. frv., o. s. frv.

Viðbrögð stjórnarsinna við þessari gagnrýni eru aftur á móti afar athyglisverð og um leið barnalega einföld. Allt, sem gert hefur verið, er til hins betra, en það, sem miður fer í þjóðfélaginu, er afleiðing og arfur frá víðreisninni. Ég nefni dæmi: Fyrir kosningar töldu þeir lífshagsmunamál að komast til valda til að forðast efnahagslega hrollvekju, sem nokkuð hefur borizt í tal hér í kvöld, en nú, níu mánuðum eftir valdatöku þeirra, segja þeir hrollvekjuna enn á góðu lífi. Til hvers að kjósa nýja stjórn, ef vandamálin dafna engu að síður? Og annað dæmi: Eftir að ríkisstj. beitir sér fyrir breytingum á skattalögunum, sem heimila og raunar lögbinda hækkaða fasteignaskatta fyrir sveitarfélög vegna tilfærslu opinberra gjalda frá sveitarstjórnum í ríkiskassann, þá er hafinn áróður fyrir því, að hækkun fasteignaskatta sé sök borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík. Þriðja dæmi: Eftir að allir réttsýnir menn á Íslandi hafa löngu viðurkennt, að erfiðleikatímabilið 1967–68 stafaði af utanaðkomandi og óviðráðanlegum áhrifum, þá grípur Magnús Kjartansson til þess ráðs. að gera samanburð á þeim erfiðleikum og ástandinu í dag í þeim villandi tilgangi að draga fram ágæti þessarar ríkisstj. Þannig er þeirra málflutningur, og það er engin furða, þótt þeim mönnum þyki gaman að lifa, sem búa í svo einföldum hugarheimi svarts og hvíts. Og á hvaða plani eru þessar umr., þegar forustumenn þjóðarinnar leyfa sér málflutning slagorða og útúrsnúninga í stað raka og skynsemi?

Ég held, að enginn stjórnarandstæðingur haldi því fram, að ekkert hafi verið framkvæmt af þessari ríkisstj., enda væri það gæfusnauð ríkisstj., sem engu gæti í verk komið. Sjálfstfl. gagnrýnir ekki þá sjálfsögðu skyldu ríkisstj. að gera till. um áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs og félagslegrar þjónustu, eins og allar ríkisstj. hafa reyndar gert fyrr og síðar. Gagnrýni okkar sjálfstæðismanna beinist heldur ekki að því, að ríkisstj. geri ekki tilraun til að standa við málefnasamning sinn. Sjálfstæðismenn gagnrýna hins vegar þá grundvallarstefnu, sem þessi málefnasamningur markar. Þeir benda á, að flestar ákvarðanir þessarar ríkisstj. að grundvallarstefnu til þurfa ekki að koma á óvart, ef vinstri stjórn er tekin alvarlega og hún vill standa undir því nafni.

Þannig eru auknir skattar, þ. á m. á hin svonefndu breiðu bök, eðlileg viðleitni þeirrar stjórnar, sem vill draga sem mest fé í ríkiskassann og vill auka völd og umsvif ríkisins. Það þarf engum að koma á óvart, þótt þessi ríkisstj. dragi úr möguleikum atvinnurekstrarins til fjármagnsöflunar og sjóðsmyndunar. Frjáls atvinnurekstur er arðrán í augum sósíalista og skiptir þá engu máli, þó breiðu bökin séu meira en 80% skattgreiðenda, né heldur að frjáls atvinnurekstur sé undirstaða alls atvinnulífs á Íslandi. Það þarf engum að koma á óvart, þótt settur sé á fót skipulagður áætlunarbúskapur, framkvæmdastofnun, sem hrifsa skal til sín alla forustu og frumkvæði í atvinnulífinu. Og það þarf engum að koma á óvart, þótt þess verði vart, að opinberir fjölmiðlar séu misnotaðir með hlutdrægum hætti, þegar það er yfirlýst stefna þessara afla, að það eigi að velta fólkinu pólitískt uppeldi.

Þróun mála og gerðir ríkisstj. eru sannarlega mjög í anda sósíalískrar stefnu, og fólk verður einfaldlega að átta sig á, að það er m. a. þetta, sem að framan er talið, sem í henni felst. Við sjálfstæðismenn vekjum aðeins athygli á, að þeir, sem eru vinstri köllun sinni trúir, vinna markvisst að því, að þessi ríkisstj. gangi mun lengra í átt til ríkisafskipta sósíalismans. Það eru nefnilega fleiri en Ólafur Jóhannesson, sem hafa þá aðeins gaman af því að vera Íslendingar að þeir fái að ráða sjálfir.

Herra forseti. Það, sem ég vildi að lokum gera að sérstöku umtalsefni, er sú heildarmynd, sem fæst af stefnu ríkisstj. með tilliti til ungs fólks og viðhorfa þess. Sú spurning hlýtur eðlilega að vakna, hvort þessi meginstefna, vinstri stefna, stefna ríkisforsjár og miðstjórnarvalds sé í samræmi við þau viðhorf, sem gætt hefur meðal ungs fólks á seinni tímum. Um þau lífsviðhorf og hið nýja gildismat ungrar kynslóðar þarf ekki að fjölyrða, en almennt er viðurkennt, að ungt fólk hafi sett sig upp á móti eða a. m. k. í varnarstellingar gagnvart vélmenningu nútímans, skrifstofubákni og valdakerfi og því standi stuggur af ópersónulegri ofstjórn ofan frá og ofurvaldi iðnvæðingar og fjármagns. Unga fólkið leitar að hlutverki manneskjunnar í tilverunni og þegar öllu er á botninn hvolft, þá höfðar hið nýja gildismat til einstaklingshyggju, frjálsræðis og valddreifingar.

Vegna ummæla Benedikts Gröndal hér fyrr í kvöld, um stuðning Sjálfstfl. við stofnun Seðlabanka Íslands, vil ég taka fram, að Sjálfstfl. hefur aldrei verið og er ekki á móti opinberum hagstjórnartækjum, sem veita upplýsingar og leiðbeiningar, svo framarlega sem slíkar stofnanir taka ekki í sínar eigin hendur allt frumkvæði og framkvæmdir, eins og núv. ríkisstj. stefnir að með sínum till. Ef Alþfl. vill styðja ríkisstj. í þeirri viðleitni að efla valdakerfið og opinbera íhlutun á kostnað einstaklinga, félaga og sveitarstjórna í þessu landi, þá hann um það, það vekur aðeins enn betur athygli á sérstöðu Sjálfstfl. í íslenzkum stjórnmálum. Og sú staðreynd verður þá enn ljósari en fyrr, að ef einhverjir flokkar munu beita sér gegn þeirri þróun, að áhrifum, ábyrgð og framkvæmdum sé dreift í þessu landi, þá munu það sannarlega vera þeir flokkar, sem nú stjórna undir handleiðslu sósíalískra viðhorfa. Ef einhverjir flokkar vilja einstaklingana enn háðari ríkisvaldinu, þá eru það þeir flokkar, sem auka skattbyrðar og draga úr efnahagslegu sjálfstæði borgaranna, og ef það eru einhverjir flokkar, sem hafna samstarfi og samvinnu, þá eru það þeir flokkar, sem boða stéttastríð og byggja málflutning sinn á þeim kenningum, að ein stétt sé verri en önnur. Sjálfstfl. er í andstöðu við þessa ríkisstj. vegna þess, að þessi ríkisstj. er í andstöðu við stefnu Sjálfstfl., einstaklingshyggju, frjálsræði og valddreifingu. Í rauninni er einstaklingshyggjustefnan stærsta viðfangsefni hverrar lýðræðisþjóðar á okkar tímum og aðeins tímaspursmál. hvenær íslenzka þjóðin uppgötvar sinn vitjunartíma í þeim efnum. Þróunin á vissulega að verða í þá átt, að hlutur einstaklinganna í þjóðfélagi nútímans verði aukinn, þannig að það hvetji til ábyrgðar, áhrifa og þátttöku. Þess vegna segi ég, að vinstri stefna, sem boðar miðstjórnarvald, alræði embætta og almætti áætlunarbúskapar, sú stefna er ekki aðeins í andstöðu við brýnustu verkefni lýðræðisins, hún brýtur gegn þeirri hreyfingu, sem raunverulega á sér stað meðal ungs fólks á Vesturlöndum. Hún er dæmd til að mistakast.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.