12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir áheyrendur. Fyrir um það bil einu ári var kosningabaráttan hafin af fullum krafti. Í þeim áróðri, sem þá var beitt gegn þáv. stjórnarflokkum, var mjög hamrað á stjórnleysi í atvinnumálum og minnt á mikið atvinnuleysi, sem var á árunum 1968 og 1969 vegna einstæðra efnahagsörðugleika,sem stöfuðu af verðfalli afurða okkar. Var því haldið fast fram, að við stj'orn væru þreyttir menn og úrræðalausir. Eina lausnin væri að fá í ráðherrastólana nýja menn með nýjar hugmyndir, og þá væri þjóðinni borgið. Þessi áróður bar árangur. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. missti meiri hluta sinn, og núv. stjórnarflokkar fengu starfhæfan meiri hluta undir forustu Framsfl., sem þó tapaði í kosningunum.

Var nú mynduð þriggja flokka stjórn. Hæstv. ríkisstj. tók til starfa fyrir réttum 10 mánuðum. Sem starfsgrundvöll hafði hún mjög umfangsmikinn starfssamning. Í þessum samningi má raunar finna með góðri túlkun ákvæði, sem snerta flest milli himins og jarðar. Og til þess að skilja þetta nú allt saman, sem þar er að finna, hefur hæstv. forsrh. bent þingheimi og öðrum á að lesa kverið sitt kvölds og morgna, — þá mun skilningurinn koma með tímanum, eins og hann orðaði það sjálfur.

Eftir nærri mánaðar samningsþóf við stjórnarmyndun, birtist ráðherralistinn. Þá kom í ljós, að kommúnistum voru fengin meiri völd hér á Íslandi en nokkru sinni fyrr í sögu landsins, og vonandi kemur slíkt aldrei fyrir aftur. Þetta segi ég vegna þeirrar reynslu, sem þjóðin hefur af valdaaðstöðu þeirra undanfarna 10 mánuði, og mun ég koma nánar að því síðar.

Auðheyrt var, að hæstv. forsrh. var ánægður í föstudagsumræðunum. Hann undirstrikaði það, að nú væri gaman að vera Íslendingur. Þetta eru merkileg orð. Er hér verið að gefa í skyn, að Íslendingar hafi ekki áður unað vel við sitt hér á landi? Telur hæstv. forsrh., að með meiri valdaaðstöðu en nokkru sinni fyrr í íslenzku þjóðfélagi til handa kommúnistum sé meiri gleði og ánægja meðal almennings í landinu? Ég vil eindregið vara við slíkri afstöðu. Hér líður fólki vel vegna fyrri velgengnisára, en ekki af afrekum núv. ríkisstj. Það er bezt, að hver dæmi fyrir sig, en það mun vera staðreynd, að margir bera ugg í brjósti yfir þróun mála, sem núv. ríkisstj. ber ein ábyrgð á. Þar gætir áhrifa, sem enginn þjóðhollur Íslendingur telur vænlegt að innleiða hér, en það er óvirðing fyrir röð og reglu í samskiptum manna, að fámennir uppivöðsluhópar leiki hér lausum hala. Það er bein ögrun við lýðræðishugsjónina og okkar þjóðskipulag. Engum á að vera þetta betur ljóst en hæstv. forsrh., fyrrv. prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Virðing fyrir lögum og rétti er og á að vera hornsteinn í íslenzku þjóðfélagi. Það hefur ekki farið leynt hjá okkur, sem fylgjumst með vinnubrögðum kommúnista í Alþb., að þeir færa sig nú rækilega upp á skaftið og munu halda því áfram, meðan þess er nokkur kostur. Andvaraleysi gagnvart þessari þróun er ekki verjandi. Nú vill svo til, að hæstv. forsrh. er einnig dómsmrh., og ber honum sem slíkum að tryggja lög og rétt í þjóðfélaginu. Við vonum allir, innan þings sem utan, sem viljum búa við lýðræðisskipulag, þar sem virðing er fyrir frelsi og rétti einstaklingsins, að nokkrir einstaklingar vaði ekki hér uppi og taki fram fyrir hendur ráðh.

Forsrh. gat þess, að mörgum þætti nóg um starfsemi ríkisstj. Manni verður nú á að brosa við þessi orð. Eitt fyrsta verk ríkisstj. var að losa um mikla peninga, sem hún tók við í sjóðum af fyrri stjórn, og deila þeim út strax. Í öðru lagi hefur yfirdráttur á reikningi við Seðlabankann vaxið mjög hröðum skrefum og er nú miklu, miklu hærri en nokkru sinni áður í sögunni eða yfir 1800 millj. Þessi yfirdráttur var 408 millj. 1. maí 1971, en 1. maí s. l. var hann 1835 millj., — hvílíkur mismunur. Kannske gleðjast sumir yfir þessu, en þó held ég, að það sé rétt, að einhver hafi áhyggjur af þessari fjármálastefnu, einkum þegar haft er í huga, hversu geysileg þenslan á öllum sviðum athafnalífsins og verðlagsþróunin hefur verið undanfarna mánuði og mun verða áfram að öllu óbreyttu. Þessi uggur í mönnum er t. d. meðal manna í atvinnurekstri frystihúsanna hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Áheyrendur geta sjálfir lesið fréttir af aðalfundi þeirra. Ég held, að þessir menn séu vel dómbærir á stöðu frystihúsanna í dag. Þeir eru forsvarsmenn samvinnufyrirtækja og hljóta að meta stöðuna með það í huga, en ekki út frá þröngum einkahagsmunasjónarmiðum. Mig minnir nú einnig, að marga tugi millj. sé búið að nota til styrktar atvinnulífinu í kjördæmi hæstv. forsrh. vegna erfiðleika þar. Enginn sér eftir þessu fjármagni, en það er hollt að líta á hlutina eins og þeir eru og vera ekki með neina sveitarómantík í því sambandi. Við lifum ekki til lengdar á slíku.

Eitt af grundvallaratriðunum í stjórnarsáttmálanum var að koma á fót Framkvæmdastofnun ríkisins. Þetta hefur verið gert. Að meginefni studdum við þetta frv. í Alþfl., en vorum hins vegar gersamlega á móti því, að þrír sérstakir pólitískir umboðsmenn væru sem forstjórar fyrir stofnuninni. Þetta var þá gert að svo sterku trúaratriði, að ekki mátti heyra annað nefnt. Mikið var gert úr skipulagsleysi undanfarinna ára í sambandi við fjárfestingu og uppbyggingu atvinnulífsins. Hér átti flest að reka á reiðanum, fyrir veðri og vindi, — en hvað skeður nú? Sú meginbreyting, að þrír menn eru settir inn sem sérstakir fulltrúar ríkisstj., en annað starfslið er áfram, og auðvitað er byggt á þeirri reynslu og hæfni, sem þetta fólk hafði, þegar það vann við hliðstæð verkefni hjá Efnahagsstofnuninni. Mikið undirbúningsstarf var við áætlunargerð, og byggir ríkisstj. á þeirri reynslu, sem hafði fengizt í þessum efnum. Það er því vísvitandi blekking og aðeins lúaleg tilraun til að gera lítið úr verkum þeirra manna, sem unnu við þessi störf áður, en þá undir annarri stjórn, og gefur það í skyn, að ekkert hafi verið gert á þessu sviði. Hér má bæta því við í sambandi við hin margumræddu togarakaup, að við umr. í Ed. Alþ. gat hæstv. sjútvrh. þess, að stjórn á þeim kaupum væri í sínum höndum og ekki viðkomandi „stofnuninni“, eins og menn almennt kalla Framkvæmdastofnunina í dag. Þetta kunni 1. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, illa við og taldi hér geta verið við verðugt verkefni að glíma. Það er ekki nóg að hafa stofnunina, ef mikil togstreita er um verkefnin, sem hún á að fá til meðferðar.

Fyrrv. ríkisstj. var mjög hart gagnrýnd fyrir sparifjárbindinguna, og voru það einkum framsóknarmenn, sem það gerðu, og margsinnis vildu þeir, að úr henni yrði dregið eða þá hætt. Vald Seðlabankans var að þeirra dómi of mikið, — en hvað skeður nú? Ekkert einasta orð um hina hættulegu sparifjárbindingu núna í Seðlabankanum. Nei, þvert á móti er afar gott að geta fengið milljón eftir milljón, já, hundruð milljóna hjá bankanum núna handa ríkissjóði. Ég bið áheyrendur að taka eftir svona vinnubrögðum. Vitanlega vissu þessir menn betur, en það gat verið heppilegt til áróðurs gagnvart þáv. ríkisstj. að segja fólki, að allt of mikið fé væri bundið undir stjórn Seðlabankans og þess vegna væri erfitt með víxla og kaupfélögin í rekstrarvandræðum. En hver eru hin raunverulegu viðbrögð hæstv. ríkisstj. varðandi sparifé landsmanna og aðferð hennar til þess að ná inn fé frá bönkunum í þeim tilgangi fyrst og fremst að fá lánsfé og draga úr verðþenslunni? Jú, það er að gefa út skuldabréf á aðeins hálfu ári að upphæð um 700 millj. kr. Auk þess á Seðlabankinn að taka upp alveg nýja hætti í peningaviðskiptum milli ríkissjóðs annars vegar og viðskiptabankanna hins vegar. Hér er farið út á hála braut. Seðlabankinn hyggst greiða alls 12% í vexti og þóknun, en takið eftir því, að hér er talað um þóknun í sömu andránni. Ef þetta verður innleitt, er komið á vaxtaokri og innleidd þóknunarrenta, og kann það að vera hættulegt fordæmi í peningamálum þjóðarinnar almennt séð, jafnt í bankakerfinu sem manna á meðal. Ég vara við svona vinnubrögðum, þótt ríkissjóður eigi í erfiðleikum og mikil þensla ríki. Miklu vænlegra tel ég vera að viðurkenna gildi sparifjárins með því að láta ákveðna prósentu af innlögðu fé vera skattfría eða draga það frá tekjuskattinum og þetta fé sé til ráðstöfunar fyrir framkvæmdir hjá hinu opinbera eftir sérstökum reglum. Eðlilegt er, að Seðlabankinn tæki við þessu sparifé og allt yrði skráð á nafn. Ég tel sannarlega kominn tíma til þess, að fólk fái viðurkenningu fyrir að fara vel með fjármuni sína. Sparifé, sem þannig er lagt inn, verður að vera bundið um sinn og síðan til ráðstöfunar með vissum fyrirvara, þar sem það hefur notið sérstakra skattfríðinda.

Glaðzt er mjög yfir hinum mikla framkvæmdavilja þjóðarinnar og sagt, að aldrei hafi annar eins vilji ríkt á meðal þjóðarinnar og nú í þessum efnum. En hvers vegna vilja menn flýta sér? Því er sleppt. Má ég hins vegar benda hæstv. ríkisstj. á þá staðreynd, að tvær meginorsakir liggja þessari þróun til grundvallar: Í fyrsta lagi góð afkoma áranna 1970 og 1971, í öðru lagi mjög sterkur og almennur ótti við óðaverðbólgu og síþverrandi gildi peninganna, en ávinning af skuldasöfnun. Mikil sparifjáraukning hefur verið á tveimur síðastliðnum árum, og fólk vill eðlilega ekki sjá fé sitt hverfa sem dögg fyrir sólu vegna þeirrar miklu óvissu, sem nú er fram undan í peningamálum okkar. Fólkið treystir sem sagt ekki á jafnvægið og skipulagið og því síður á það, að gengið haldist óbreytt, þrátt fyrir gefin loforð í málefnasamningnum góða. Efast heldur nokkur um það? Örstutt frétt kom hér á dögunum á þá leið, að nýtt stofngengi væri formlega viðurkennt. Hvað þýðir þetta í raunveruleikanum? Auðvitað gengisfellingu um nærri 8% gagnvart flestum gjaldmiðlum, og sá enginn hæstv. ríkisstj. bregða hið minnsta við þessa gengisfellingu. Það má bara ekki kalla hlutina réttu nafni, af því að í málefnasamningnum segir: Við munum ekki beita gengisfellingum til lausnar efnahagsvandamálum. Nú er ég alls ekki talsmaður gengisfellinga og tel þær algjört neyðarúrræði og áður eigi að reyna næstum hvað sem vera skal til lausnar efnahagsörðugleikum. Hins vegar sýnir reynslan það, að menn verða að gera stundum þær ráðstafanir, sem góður málefnasamningur kemur jafnvel ekki í veg fyrir.

Þeir eru hugmyndaríkir framsóknarmennirnir. Að loknum miðstjórnarfundi þeirra fyrir skömmu kom ritari þeirra fram í sjónvarpi með nýja kenningu, sem hefur manna á meðal fengið nafnið kofakenningin, og er inntak hennar, að fólkið hafi það of gott í landinu og menn verði nú að byggja smátt og ódýrt og spara mjög við sig, m. a. ferðalögin. Ég held, að almenningur í landinu sé nú í dag sem fyrr fullfær um að taka ákvarðanir á eigin spýtur innan þess ramma, sem þjóðfélagið skapar honum, fyrir sína fjölskyldu og um íbúðir sínar og ráðstöfun fjármuna.

Athyglisverð eru þessi orð hæstv. forsrh. á föstudagskvöldið: „Það verður að hafa í huga, að núv. ríkisstj. er samsteypustjórn þriggja flokka, sem um margt eru ólíkir og hafa mismunandi viðhorf til ýmissa málefna.“ Þetta eru orð að sönnu, og vil ég í því sambandi t. d. nefna eftirfarandi dæmi, sem sýna, hvað sundurleitur hópur fer með stjórn landsins í dag. Það er nauðsynlegt, að almenningur viti um þetta og geri sér grein fyrir því til þess að forðast slíkt í framtíðinni. Fyrst vil ég nefna, að hæstv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, flutti fyrir alllöngu frv. um húsnæðismálastofnun, sem nú er algjörlega fast í n. og enn ekki samstaða um að halda áfram. Engin fjárhagsleg lausn á peningavandamálum við húsbyggjendur er þó finnanleg í frv., og allt í lausu lofti með lausn þeirra mála, en mörg hundruð millj. vantar í byggingarsjóði. Einnig flutti sami ráðh. stórt og mikið frv. um hafnarmálin og rakti gildi þess í langri ræðu og bað samgmn. að flýta afgreiðslu frv., en enn hafa ekki verið fundir í n., og frv. mun því ekki fara í gegn á þessu þingi. Um hæstv. menntmrh. get ég verið stuttorður. Hann hefur valið þann kostinn að fara sér varlega, og er það sennilega mjög skynsamlegt eftir atvikum. Þó sýndi hann tvö mikilsverð frv. nú þessa dagana, en auðvitað skeði ekkert meira. Hæstv. iðn.- og orkumrh., Magnús Kjartansson, hefur talað fyrir sölustofnun lagmetisiðnaðarins, þ. e. niðursuðunni. Hann vissi um mikla mótstöðu frá samráðherrum og félögum sínum, en til þess að berja frv. áfram hótaði hann öllu illu við umr. í Ed. og kom því þannig áfram, þó með því, að hv. stjórnarþm. Björn Jónsson greiddi ekki atkv., heldur sat hjá. Deilan stóð um það, hver skyldi hreppa sinn fulltrúa í stjórn sölusamtakanna, en Magnús Kjartansson og Lúðvík Jósepsson fá að tilnefna sinn fulltrúann hvor og svo fjmrh., en Hannibal Valdimarsson ekki. Einnig kom fram í Sþ. till. til þál. um undirbúning að breyttri skipan raforkumála. Um margt í þessari till. er mikill ágreiningur innan stjórnarliðsins, og nú er verið að berja saman till., sem er hvorki fugl né fiskur, kannske einhvers konar lagmeti í dós, sem á að reyna að koma í gegnum þingið nú fyrir lokin. Að lokum vil ég nefna frv. frá hæstv. sjútvrh., Lúðvík Jósepssyni, um tæknistofnun sjávarútvegsins. Það frv. er nú til meðferðar í Ed. og hefur strandað þar í bili, og upplýst er, að það var alls ekki borið upp í umsögn hjá aðalstjórnarflokknum og mætir þar andspyrnu. Eins og er verður ekkert sagt um framvindu þess. Þessi tilvik, sem ég nefni hér, eru aðeins spegilmynd af innri átökum, sem eru að koma fram í dagsljósið við afgreiðslu mála hér á hv. Alþ.

Við í stjórnarandstöðunni erum mjög gagnrýndir fyrir óraunhæfa afstöðu gagnvart hæstv. ríkisstj. Þetta er ekki rétt hvað okkur í Alþfl. snertir. Vissulega höfum við veitt lið sumum málum, sem komið hafa fram frá ríkisstj., en svo uppteknir hafa sumir þm. stjórnarliðsins verið innanlands sem utan, að þeir hafa ekki mætt í þingsölunum, og við í stjórnarandstöðunni höfum hjálpað til að koma góðum málum fram og þannig flýtt fyrir þingstörfum hæstv. ríkisstj. Haldi hins vegar svo fram sem nú stefnir, fer þeim málum sennilega fækkandi, sem fylgis njóta af okkar hálfu. Það yrði þá áfall fyrir vinstrisinnaða fólkið í landinu, ef stjórn, sem kennir sig við vinstri stefnu, bíður algert skipbrot. Slíkt mundi aðeins flytja fylgi yfir til íhaldsins. Þess vegna leggjum við á það höfuðáherzlu í Alþfl., að allt vinstrisinnað fólk meti stöðu flokkakerfisins upp að nýju í dag og geri sér grein fyrir, að lýðræðisjafnaðarstefnan er það, sem sigur gefur, og tryggir borgurum þessa lands beztu lífskjörin, þegar til lengdar lætur. Látum öfgastefnurnar sigla sinn sjó, stöndum fast saman um lýðræðislega jafnaðarstefnu í þjóðfélagi okkar.

Þökk þeim, er hlýddu. — Góða nótt.