12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

Almennar stjórnmálaumræður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er undarlegt, að jafn dagfarsprúður maður og Ragnar Arnalds skuli bera á borð fyrir alþjóð jafn fáránleg ósannindi um Alþýðublaðið og hann leyfði sér að gera hér áðan. Í sambandi við það, að nú er tekið að offsetprenta Alþýðublaðið, hafa verið gerðar ýmsar skipulagsbreytingar á rekstrinum, en Alþýðublaðið er að sjálfsögðu eign Alþfl. eftir sem áður og málgagn hans. Hins vegar hefur sala og útbreiðsla Alþýðublaðsins stóraukizt undanfarna mánuði. Það er eflaust ástæðan til ósanninda Ragnars Arnalds.

Það er furðulegt, að maður, sem fylgist eins vel með málum hér á Alþ. og Þórarinn Þórarinsson, skuli telja sér sæma að segja, að einhver breyting hafi orðið á stefnu og störfum þingflokks Alþfl., síðan ég kom heim frá Kaupmannahöfn í des. s. l. Hann hlýtur að vita, að þetta er ekki rétt, enda hafa engin dæmi verið nefnd um slíkt. Í þingflokki Alþfl. hefur enginn ágreiningur verið um starf eða stefnu, hvorki meðan ég var erlendis né eftir að ég kom heim.

Þegar ný ríkisstj. er mynduð, er eðlilegt, að ýmsar vonir séu bundnar við störf hennar, einkum og sér í lagi er við því að búast, að þeir, sem stuðluðu að myndun hennar með atkvæði sínu, fagni henni og vænti af henni góðs. Slíkt átti sér án efa stað á s. l. sumri. En þótt ekki séu liðnir nema 10 mánuðir síðan hin nýja ríkisstj. var mynduð, er enginn vafi á því, að þeim hefur farið mjög fækkandi, sem glaðzt hafa yfir myndun ríkisstj. Þeim hefur farið mjög fjölgandi og fer nú fjölgandi með hverjum mánuðinum sem líður, sem verða fyrir vonbrigðum, jafnvel sárum vonbrigðum. Auðvitað glöddust menn í fyrra yfir auknum tryggingabótum, sem góð afkoma ríkissjóðs gerði mögulegar, allir góðir Íslendingar fögnuðu því, að kjarasamningar tókust til tveggja ára án verkfalla, — en hvað er það þá, sem veldur vonbrigðum, hvers vegna er nú uggur í mönnum?

Íslendingar búa nú við eitt hið mesta góðæri í sögu sinni. Þjóðarframleiðsla hefur aldrei verið meiri, viðskiptakjör hafa aldrei verið hagstæðari. Þegar þetta er haft í huga, ætti það að geta verið rétt, sem hæstv. forsrh. sagði í útvarpsumr. á föstudag, að nú sé gaman að vera Íslendingur. Í sjálfu sér er ávallt gaman að vera Íslendingur, — en hvers vegna skyldi nú ekki öllum Íslendingum finnast jafngaman og hæstv. forsrh? Ef við svipumst um í íslenzku þjóðfélagi í dag, í hagstæðasta árferði, sem um getur, er myndin þessi: Verðlag neyzluvöru fer síhækkandi, fasteignaverð rýkur upp úr öllu valdi, útgjöld ríkisins vaxa, gjaldeyriseyðsla eykst hröðum skrefum, gjaldeyriseign þjóðarinnar minnkar, skuldir erlendis vaxa, sparnaður minnkar, undirstöðuatvinnuvegirnir eiga erfiðara að fá nauðsynlegt vinnuafl, fjárskortur fyrirtækja vex, framleiðslukostnaður þeirra hækkar. Það er þetta ástand, sem kallað er verðbólga. Í mesta góðæri, sem komið hefur um langan aldur, vex verðbólga örar en átt hefur sér stað í langan tíma. Það hefði átt að vera höfuðverkefni nýrrar ríkisstj. á fyrsta starfsári hennar að vinna gegn verðbólgu. Slík þróun bitnar jafnt á launþegum og atvinnuvegum. Þess vegna hefði ný ríkisstj. átt að skoða það meginskyldu sína að koma í veg fyrir slíkt. Í þessum efnum hefur núv. ríkisstj. brugðizt. Hún hefur ekki reynzt þessum vanda vaxin. Hún hefur engar tilraunir gert til þess að hemja verðbólguvöxtinn, hún hefur þvert á móti eflt eða kynt undir verðbólgubálinu með gegndarlausri hækkun fjárlaga og fyrirætlunum um skipulagslausar framkvæmdir án mótunar nokkurrar heildarstefnu í framkvæmda- og fjáröflunarmálum.

Ýmsum mun hafa brugðið í brún, er þeir heyrðu ræðu hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, í umr. s. l. föstudagskvöld. Þar var ekki á ferðinni sá landsfaðir, sem birzt hefur öðru hverju undanfarið í þessum ræðustóli og ósjaldan í útvarpi og sjónvarpi. Hér var nú enn kominn „Austri“ Þjóðviljans, og að þessu sinni með óvenju ófyrirleitnar blekkingar. Kjarni máls hans var að bera saman erfiðleika áranna 1967 og '68, þegar Íslendingar urðu fyrir mestu efnahagsáföllum í áratugi, og kenna þá erfiðleika andstæðingum sínum, en miklast hins vegar yfir góðærinu í ár og þakka sér og samherjum sínum það. Til slíks málflutnings þarf ekki litla óskammfeilni. Þeir, sem vilja vita það, vita það auðvitað, að atvinnuleysið og kjararýrnunin árin 1967 og '68 áttu rót sína að rekja til þess, að útflutningstekjur þjóðarinnar rýrnuðu á þessum árum um 45%. Enginn mannlegur máttur hefði getað komið í veg fyrir, að þetta rýrði hag þjóðarinnar og þá um leið kjör launþega. En það tókst að vinna bug á þessum erfiðleikum, m. a. með ráðstöfunum, sem þessi hv. ráðh. barðist. gegn og reyndi að gera tortryggilegar á allan hátt. Hitt er jafnaugljós firra, að góð afkoma þjóðarinnar í dag sé að nokkru leyti verk hæstv. iðnrh. og samherja hans. Afturbatinn byrjaði strax 1969 og hélt áfram 1970. Ekki getur það, sem þá gerðist, verið árangur af störfum núv. ríkisstj. Enn batnaði hagurinn í fyrra. Dettur nokkrum í hug í alvöru, að þar hafi nokkru getað ráðið um ríkisstj., sem kom til valda á miðju ári? Nú á þessu ári er aftur farið að síga á ógæfuhlið. Það skyldi þó ekki vera, að 10 mánaða valdaferill hæstv. iðnrh. og samherja hans ætti þar nokkurn hlut að? En ósmekklegast af öllu í ræðu hæstv. ráðh., Magnúsar Kjartanssonar, voru þó brigzl hans í garð andstæðinga sinna um óþjóðholla stefnu og skort á þjóðlegum metnaði. Enginn, sem nú á sæti á Alþ., hefur dinglað pólitískri rófu með meiri velþóknun til geðs erlendum valdhöfum, og eingöngu einræðisherrum, en einmitt þessi hæstv. ráðh., ráðamönnum allt frá A.-Evrópu til Kína og Kúbu. Hann hefur skrifað bækur og blaðagreinar þeim til lofs og dýrðar. Að gefnu þessu tilefni er ekki úr vegi að spyrja: Hvar var þjóðlegur metnaður Magnúsar Kjartanssonar, þegar hann í reynd samþykkti, að Bandaríkjastjórn greiddi kostnaðinn við lengingu flugbrautarinnar í Keflavik, þótt hann væri búinn að lýsa yfir því, að slíkt samræmdist ekki sjálfstæðri íslenzkri utanríkisstefnu? Þá réð ekki þjóðlegur metnaður gerðum hæstv. ráðh., heldur annar metnaður ómerkilegri tegundar. Magnúsi Kjartanssyni hefði verið það innan handar, ef hann hefði viljað, að koma í veg fyrir þá samningsgerð íslenzku og bandarísku ríkisstjórnanna, sem hann taldi ekki samrýmast sjálfstæði íslenzkrar utanríkisstefnu. Hann hefði ekki þurft annað en að hóta að fara úr ríkisstj., en hann lét sér nægja að bóka mótmæli og sat síðan kyrr í ráðherrastólnum. Þetta var allur þjóðlegi metnaðurinn þá! Sjálfstæð, íslenzk utanríkisstefna mátti fara veg allrar veraldar, ef Magnús Kjartansson fengi að halda völdum sínum. Þjóðhollusta virðist geta birzt í ýmsum myndum. Þegar utanrrh. Bandaríkjanna kom hingað skömmu síðar, sá iðnrh. ekki ástæðu til þess að ræða við hann, en leit á það með velþóknun, þegar vinir hans og stuðningsmenn fóru á fund hins bandaríska ráðherra með þjóðleg tákn á borð við rauða fána og nagla. Þarna var enn á ferðinni vitnisburður um þjóðholla stefnu Magnúsar Kjartanssonar á borði en ekki í orði.

Núv. hæstv. ríkisstj. lagði í upphafi áherzlu á, að hún vildi reynast stjórn vinnandi stétta. Hefur hún reynzt það? Til þess að auðvelda mönnum að dæma um það ætla ég að nefna tvö atriði. Stjórn, sem vildi reynast velviljuð launþegum, hefði að sjálfsögðu átt að stefna að því að lækka skatta á launatekjum. Hefur ríkisstj. gert það? Ný skattalög hafa verið sett. Skyldu launþegar yfirleitt eiga að greiða minni hluta af tekjum sínum í skatta í ár en þeir gerðu í fyrra? Við skulum taka nokkur dæmi: Iðnaðarmaður greiddi í fyrra af meðaltekjum 75 þús. kr. í opinber gjöld. Í ár mun hann greiða 87 þús. kr., og það er hærra hlutfall af tekjunum. Undirmenn á fiskiskipum greiddu í fyrra 56 þús. kr., en nú munu skattar þeirra hækka upp í 90 þús. kr. Í stað 13% tekna sinna í fyrra mun hann nú þurfa að greiða 17% teknanna í skatta. Skattgreiðslur yfirmanna á fiskiskipum munu vaxa úr 106 þús. kr. í 169 þús. kr. Skattgreiðslur ríkisstarfsmanna munu hækka úr 99 þús. kr. í 146 þús. kr. eða úr 19% teknanna í 22% þeirra. Er þá ótalið, að gjöld af fasteignum munu stórhækka. Ber þessi skattahækkun á tekjur launþega vott um, að stefna ríkisstj. sé þeim í hag? Því verður auðvitað að svara neitandi. Sannleikurinn er sá, að þegar skattseðlarnir berast skattgreiðendum á sumri komanda, getur ekki hjá því farið, að þeim fjölgi enn stórum, sem telja ríkisstj. hafa brugðizt sér.

Annað atriði langar mig til að nefna, sem ber ekki vott um umhyggju fyrir hag launþega. Þegar nefskattarnir voru afnumdir með lagasetningu fyrir nýár og gera mátti ráð fyrir, að kauplagsnefnd mundi til bráðabirgða lækka vísitölu framfærslukostnaðar vegna þess, notaði ríkisstj. tækifærið til þess að draga úr niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum og láta verð þeirra hækka verulega, án þess að launþegar fengju þá verðhækkun bætta. Svaraði þessi verðhækkun, sem launþegar hafa ekki fengið bætta enn, til tæplega fjögurra vísitölustiga. Slíkt háttalag ber ekki vott um umhyggju fyrir hag launþega. Ég hef borið fram fsp. til hæstv. fjmrh. um, hversu mikið skattgreiðslur fjölskyldu eins og þeirrar, sem vísitala framfærslukostnaðar er miðuð við, mundu hækka í ár frá því í fyrra og hversu mikið vísitalan ætti að hækka vegna þess, ef tekið væri tillit til allra þeirra opinberu gjalda í vísítöluútreikningnum. Verður þeirri fsp. væntanlega svarað á morgun. Allir launþegar hljóta að hafa mikinn áhuga á því svari. Það mun leiða í ljós, hvort það er rétt, sem m. a. ég hef haldið fram, að skattbyrði muni í ár þyngjast miðað við árið í fyrra. Svarið mun enn fremur leiða í ljós, hversu mikið kaupgjaldsvísitalan ætti að réttu lagi að hækka vegna þessarar skattahækkunar. Ef ríkisstj. beitir sér ekki fyrir því, að hún hækki vegna skattahækkunarinnar og kaupgjald þá einnig í kjölfar þess, eru réttmætar tekjur hafðar af öllum launþegum í landinu.

Að síðustu þetta: Óvilhallur dómur um störf ríkisstj. getur ekki orðið annar en sá, að henni sé að mistakast, að hún hafi ekki valdið verkefni sínu. Hún ræður ekki við verðbólguvandann, hún sviptir launþega tekjum, sem þeir eiga rétt á, rekstrargrundvöllur atvinnuveganna er í hættu, á þessu ári verður verulegur viðskiptahalli gagnvart útlöndum, spáð er minnkun gjaldeyrisvarasjóðs um 2000 millj. kr., nema lántökur verði stórauknar. Það er von að menn spyrji: Hvernig má þetta gerast í mesta góðæri, sem orðið hefur? Á því er ekki til nema ein skýring. Ríkisstj. er ekki nógu starfhæf, af því að hún er ekki nógu samhent. Stjórnarflokkarnir klofna í hverju málinu á fætur öðru hér á Alþ., jafnvel ráðh. greinir opinberlega á. Frv. og till. koma ekki fram fyrr en á síðustu stundu vegna ágreinings innan ríkisstj. eða stuðningsflokka stjórnarinnar. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, þótt ólíka flokka í ríkisstj. greini á, en ef slíkt veldur losaralegu stjórnarfari, ef slíkt veldur stjórnleysi, ef það veldur því, að ekki er tekizt á við vandamál, heldur allt látið reka á reiðanum, þá er voði á ferðum. Það er slíkur voði, sem því miður er nú á ferðum í íslenzku þjóðlífi. — Góða nótt.