23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

Skýrsla um utanríkismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Utanríkismál lýðveldisins eru beint framhald af fullveldisbaráttunni. Hlutverk okkar á sviði utanríkismála er að varðveita frelsi þjóðarinnar og gæta hagsmuna hennar í hvívetna gagnvart öðrum ríkjum. Meðferð utanríkismála verður því jafnan prófsteinn á það, hvort Íslendingar standa undir sjálfstæði sínu eða ekki.

Samskipti á milli þjóða á okkar tímum eru mikið völundarhús, þar sem litlum þjóðum getur verið erfitt að rata, ef ekki er að gáð. Þegar þjóðir móta utanríkisstefnu sína, koma mörg sjónarmið til greina. Þá verður að gæta að hugsjónum og vilja viðkomandi þjóða í alþjóðamálum, en það verður líka að gæta að hagsmunum þeirra og fjöldamörgu öðru, sem þar liggur á milli.

Við höfum orðið þess áskynja, síðan við tókum utanríkismálin í eigin hendur fyrir aðeins þremur áratugum, að aðrar þjóðir geta mælt fagurlega í okkar garð, en þegar kemur að framkvæmd málanna, eru það hagsmunir þeirra, sem jafnan ráða stefnunni. Við höfum orðið vör við þetta, t. d. þegar við þurftum að semja við frændur okkar og vini á Norðurlöndum um lendingarrétt fyrir flugvélar. Og við verðum áþreifanlega vör við þetta þessa dagana, þegar við ræðum við nágrannaþjóðir okkar um landhelgismálið. Þá koma hagsmunir þeirra fram.

En við skulum líta í eigin barm. Erum við ekki nákvæmlega eins? Hæstv. utanrrh. sagði okkur í ræðu sinni, að við værum nú meðflm. að till. um það að fordæma apartheid-stefnuna í Suður-Afríku, og Íslendingar hafa raunar greitt atkvæði gegn þeirri stefnu við hvert tækifæri í mörg ár. Þegar við fáum tækifæri til að kaupa ódýra ávexti eða aðra vöru þar sunnan að, þá höfum við gleymt öllum okkar áhyggjum af apartheid-stefnunni. Við erum svo að segja allir Íslendingar harðir andstæðingar þeirrar nýlendustefnu og nýlendukúgunar, sem Portúgalar framfylgja í Afríku. En mér skilst, að við séum stimamjúkir, þegar við göngum til Portúgala og biðjum þá um að kaupa af okkur saltfisk. Við fordæmdum upp til hópa innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu, en ekki man ég eftir einni einustu rödd, sem lagði til, að við hættum viðskiptum eða menningarlegum samskiptum við Sovétríkin fyrir því.

Ég dreg þetta fram til að benda á, að það er vandasamt að móta utanríkisstefnu einnar þjóðar. Það verður að gerast að vel athuguðu máli, þar sem tekið hefur verið tillit bæði til þess, sem menn helzt vilja, þegar þeir geta talað opinskátt án þess að bera ábyrgð, og svo hins, sem menn gera, þegar þeir hafa grandskoðað hagsmuni þjóðarinnar og bera ábyrgð á stefnunni.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, vakti sú utanríkisstefna, sem hún boðaði, meiri athygli hér á landi og erlendis en nokkurt annað atriði í málefnasamningi hennar. Þetta var ekki að ástæðulausu, því að í þessari stefnuyfirlýsingu eru mörg stór og vanhugsuð orð. Ég leyfi mér að halda því fram, að þessi stefna hafi verið mótuð af þremur flokkum, sem höfðu verið lengi í stjórnarandstöðu og voru því miklu frekar í anda ábyrgðarlausir stjórnarandstæðingar en þeir, sem bera ábyrgð á gerðum þjóðar og viðskiptum hennar við aðra. Það var margt vanhugsað í þessari stefnuyfirlýsingu, enda hefur komið í ljós, að núv. ríkisstj. var ekki undir það búin að framkvæma það, sem fólst í stóru orðunum, í neinu máli á sviði utanríkismála nema einna helzt í landhelgismálinu, enda vitum við öll, að að því hafði verið langur aðdragandi og fulltrúar allra flokka höfðu tekið þátt í margra mánaða — ef ekki ára — undirbúningi.

Það hefur og komið í ljós, að hæstv. utanrrh. hefur við framkvæmd þessarar stefnu á mörgum sviðum reynt að fara gætilega. Það er sýnilegt, að hann hefur gert sér ljóst, hversu mikill munur er á því að gefa yfirlýsingar í ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu eða eiga að framkvæma þær á ábyrgan hátt, svo að hagsmunum þjóðarinnar sé nægilega vel borgið.

Í skýrslu sinni fjallaði utanrrh. um marga þætti utanríkismálanna, sem von er, og hefði þó mátt nefna ýmsa fleiri til viðbótar. Ég vil byrja, þar sem hann endaði, og nefna utanríkisþjónustuna — ekki sízt af því, að einmitt nú er allmikið um hana rætt og deilt. Eins og hæstv. ráðh. skýrði frá, hefur verið fjallað um það í utanrmn., hvaða breytingar þurfi að gera á kjörum þeirra, sem í utanríkisþjónustunni starfa, og hvaða breytingar kunna að vera æskilegar á staðsetningu sendiráða.

Það er ekki nýtt hér á Íslandi, að utanríkisþjónusta sé gagnrýnd. Í þá tíð, þegar við höfðum eitt sendiráð erlendis, var hafinn upp þvílíkur rógur hér heima um þetta sendiráð og starfsemi þess, að við sjálft lá, að Sveinn Björnsson gæfist upp og færi heim. Það er ekki nýtt, að menn tortryggi utanríkisþjónustuna, og það er heldur ekki einstakt fyrir okkur Íslendinga. Að vissu marki er þetta eðlilegt. En það er nauðsynlegt fyrir þá fámennu sveit manna, sem við höfum valið til þess að fara með umboð okkar hjá öðrum þjóðum, að þeim sé sýnt traust og þeim séu skapaðar þær aðstæður, sem þeir geta starfað við. Utanríkisþjónustan kostar Íslendinga nú ekki nema rétt innan við 1% af ríkisútgjöldum, sem er ekki mikið fyrir svo litla þjóð, er hefur færzt það í fang að halda uppi sjálfstæðum samskiptum við allan umheiminn. Það er því ekki ástæða til þess fyrir okkur að kvarta um það, að utanríkisþjónustan sem heild sé of dýr, enda þótt rétt sé framvegis, eins og gert hefur verið hingað til, að fara jafnan varlega, hvað kostnað snertir í þeirri starfsemi.

Um fólkið, sem vinnur í utanríkisþjónustunni, vil ég segja, að ég tel nauðsynlegt að búa eins vel að því og hægt er. Við vitum, að þeir menn, sem við sendum utan, starfa fyrir mun lægra kaup en aðrir sendimenn í sömu borgum. En ýmislegt getum við fyrir þá gert, sem okkur ber skylda til að gera. Ég tel t. d., að við verðum að tryggja þeim fullkomnar sjúkratryggingar, eins og þær eru beztar hér heima á Íslandi, þegar við vitum, að í mörgum borgum erlendis getur sjúkdómur í fjölskyldu sendimanns orðið til þess að gera hann gjaldþrota á skömmum tíma. Ég tel líka, að við verðum að tryggja, að það fólk, sem við sendum í utanríkisþjónustuna, geti alið börn sín upp á íslenzkan hátt. Margra ára fjarvera má ekki dæma börn íslenzkra sendiráðsstarfsmanna til að verða útlendingar. Þessi orð læt ég falla til að hvetja til þess, að á þessum málum verið tekið af skilningi og ekki af óeðlilegri nízku. Margt mætti athuga og mörgu mætti breyta í sambandi við starfsemi utanríkisþjónustunnar, það skal ég játa, og eðlilegt er að hafa mjög náið eftirlit með starfi hennar og útgjöldum, enda hefur það eftirlit á síðustu misserum verið aukið til muna.

Varðandi staðsetningu sendiráða hefur ríkisstj. tilkynnt, að hún vilji endurskoða það mál. Þó virðist eins og í flestum öðrum liðum utanríkismála, að ríkisstj. sé sammála um að varpa þessu fram, en hafi ekki gert sér nokkra grein fyrir málinu og hafi ekki um það neinar fastar hugmyndir. Ég vil spá því, að það reynist, eins og raunar kom fram hjá hæstv. utanrrh., erfitt að leggja niður flest þau sendiráð, sem við höfum nú, og að við munum hugsa okkur um tvisvar við hvert nýtt sendiráð, sem við bætum við.

Af því að þetta mál er komið á dagskrá, hafa nokkrir þm. Alþfl. leyft sér að flytja till. þess efnis, að Íslendingar setji upp sendiráð í Kanada. Ég vil nefna þessa till. til þess, að hún komi til umræðu í sambandi við þetta mál. Höfuðorsök þess, að við flytjum þetta mál nú, er ekki hin gömlu tengsl okkar við Kanada og það, hve margir menn af íslenzku bergi brotnir búa þar, heldur fyrst og fremst tvær ástæður, sem hafa komið til á allra síðustu árum. Önnur er sú, að við höfum tekið upp náið samstarf við Kanadamenn í sambandi við fiskmarkað í Bandaríkjunum og þetta samstarf á e. t. v. verulegan þátt í því, að fiskverð hefur haldizt svo hátt eða hækkað svo ört sem raun ber vitni. Hin ástæðan er sú, að við höfum tekið upp náið samstarf við Kanadamenn í sambandi við landhelgismálið. Þar að auki mundi sendiráð í Kanada geta tekið að sér svo sem hálfa Suður-Ameríku á móti sendiráðinu í Washington. Þar með gæti utanríkisþjónustan sinnt löndunum frá Mexíkó og suður úr miklu betur en hægt hefur verið til þessa. Landhelgismálið knýr mjög á um það, að sambandi við þessi ríki sé sinnt meir en ástæða var til áður.

Fyrir utan þessa hugmynd, sem við höfum varpað fram um Kanada, skilst mér, að einna helzt kæmi til greina að staðsetja nýtt sendiráð í Austurlöndum fjær. Ég vil fagna því, sem hæstv. ráðh. skýrði frá, að stjórnmálasamband muni nú verða tekið upp við stjórnina í Peking og minna á, að Alþfl. lýsti yfir því á s. l. sumri, að hann væri hlynntur því, að leitað væri eftir slíku sambandi. Mér skilst, að sérfróðir menn telji í þessu sambandi mjög vel geta komið til greina, ef við teljum okkur hafa ráð á einu sendiráði enn, að setja það niður í Tókíó fyrir viðskiptin við Japan og önnur lönd á þessu svæði.

Skal ég svo láta útrætt um utanríkisþjónustuna með þeim orðum, að Alþ. beri skylda til að gefa henni gaum og standa vel að baki þeim mönnum, sem við sendum utan til þessara mikilvægu starfa.

Ég vil fagna því, sem fram kom hjá hæstv. utanrrh., að hann lítur á norræna samvinnu sem einn af máttarstólpum í viðskiptum okkar við umheiminn. Ég gleðst yfir því, að hann virðist vera ánægður með fyrsta fund sinn með utanríkisráðherrum hinna Norðurlandanna og gerir sér vonir um, að þau muni, hvað sem á dynur, frekar veita okkur hjálp en verða í vegi okkar í landhelgismálinu.

Ég tel, að það sé ekki aðeins vegna marglofaðrar frændsemi eða menningarviðskipta, að við eigum að halla okkur mjög að norrænu samstarfi. Við skulum gera okkur ljóst, að Ísland hefur undanfarna áratugi verið í þeirri stöðu, að risaveldin í austri og vestri hafa á okkur og landi okkar megináhuga og þau munu vafalaust halda áfram að veita okkur óeðlilega mikla athygli miðað við þann fjölda fólks, sem býr í þessu landi. Ég tel því, að náin tengsl við Norðurlönd muni verða nauðsynlegt mótvægi fyrir okkur gegn ásókn, vinsamlegri og óvinsamlegri, af hálfu hinna stóru ríkja. Ég tel, að t. d. á sviði utanríkismála munum við geta gengið að heiðarlegum og hlutlausum upplýsingum um hvað eina með því að leita til frænda okkar á Norðurlöndum. Þetta höfum við raunar gert mörg undanfarin ár, og þessu munum við halda áfram. Ég vil enn fremur geta þess, að ég tel, að við mundum varla geta haldið þátttöku okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sómasamlega, ef við nytum ekki norrænnar samvinnu. Við höfum ekki í New York nógu marga menn til að sitja í öllum nefndum Allsherjarþings, nema þessar fáu vikur, sem þm. eru þar á haustin. Það er aðeins vegna þess, að hinir Norðurlandafulltrúarnir vaka yfir þessum nefndum og ýmsu öðru fyrir okkur og láta okkur vita, ef í vændum eru atkvæðagreiðslur, að við höfum getað gegnt skyldum okkur sómasamlega. Þegar smáþjóðir eru taldar óhæfar til þess að fara með atkvæði á Allsherjarþinginu, eins og oft heyrist nú á dögum, þá er það nefnt sem röksemd á móti, að 200 þús. manna þjóð, Íslendingar, hafi allt frá stofnun Sameinuðu þjóðanna — eða skömmu þar á eftir — rækt hlutverk sitt óaðfinnanlega sem aðili að bandalaginu.

Hæstv. ráðh. ræddi ítarlega um hin ýmsu málefni, sem nú liggja fyrir Sameinuðu þjóðunum, og skal ég ekki fara ítarlega út í þau mál. Ég vil aðeins taka mjög undir það, að hann skuli ætla að halda áfram þeirri stefnu, sem raunar hefur verið ríkjandi lengi, að Íslendingar styðji í hvívetna ófrjálsar þjóðir og stuðli að fullveldi þeirra, að þeir vinni gegn hvers konar nýlendukúgun og styðji hvers konar viðleitni til þess að hjálpa vanþróuðu þjóðunum til betri lífskjara en þær njóta nú.

Hér hefur mikið verið rætt um Atlantshafsbandalagið, enda varði hv. síðasti ræðumaður meginhluta ræðu sinnar til að fjalla um viðskipti okkar við það. Í sambandi við þátttöku Íslands í bandalaginu vil ég undirstrika, að það kerfi varnarbandalaga, sem verið hefur í Evrópu undanfarið 21 ár, Atlantshafsbandalagið í Norður-, Vestur- og Suður-Evrópu, en Varsjárbandalagið í Mið- og Austur-Evrópu, hefur tryggt frið á þessu svæði — á sama tíma og ófriður hefur logað í flestum öðrum heimsálfum. Þetta kerfi bandalaga hefur skapað í Evrópu valdajafnvægi, sem er undirstaða þess, að svo friðsamlegt hefur þrátt fyrir allt verið í álfunni sem raun ber vitni. Enda þótt það sé vinsælt að ráðast að þessum bandalögum, gagnrýna þau, gera lítið úr starfi þeirra og eigna þeim hinar verstu hvatir, vil ég biðja menn að meta það á raunsæjan hátt, hver árangur hefur orðið af starfi þeirra.

Nú er mikið reynt til þess að koma á annars konar víðtæku samkomulagi um öryggismál Evrópu. Ég tel, að það væri fásinna fyrir þjóðir Evrópu að kasta þessum tveimur bandalögum á glæ, áður en þær hafa fundið eitthvað annað til að koma í staðinn fyrir þau einhverja aðra skipan öryggismála, sem getur tryggt okkur það sama og þetta kerfi hefur þrátt fyrir allt tryggt, sem er friður í álfunni í meira en 20 ár.

Hæstv. utanrrh. fagnaði mjög þeim árangri, sem hefur náðst í samkomulagsviðleitni í Berlínarmálinu. Ég get tekið undir hvert orð hans í því sambandi. Hann fagnaði því, að hugmyndin um ráðstefnu um öryggismál Evrópu á nú vaxandi fylgi að fagna. Ég minni á orð hæstv. ráðh. þess efnis, að nú hafi loks tekizt samband á milli bandalaganna tveggja um að ræða um að draga úr herafla sínum á öllum sviðum, og þessu ber líka að fagna. Loks tek ég undir orð ráðh. um, að SALT-viðræðurnar um takmörkun kjarnorkuvopna, sem nú standa yfir í Vínarborg og hafa verið þar og í Helsinki til skiptis, gefi vonir um það, að hætta af notkun kjarnorkuvopna fari minnkandi.

Hæstv. ráðh. dregur af öllu þessu þá ályktun um samskipti austurs og vesturs í Evrópu, að friðarhorfur séu nú betri en oft áður, og hann telur það von allra hugsandi manna, að sú sýn sé ekki blekking ein, heldur byggð á raunverulegum vilja forystumanna allra þjóða til bættrar sambúðar. Ég tel þessa ályktun ráðh. ekki aðeins eðlilega, heldur mjög mannlega, og ég vil eins og hann vona, að hún reynist rétt. Í sambandi við þær umræður, sem hér hafa farið fram um varnarmál okkar Íslendinga og dvöl varnarliðsins í landinu, mundi ég telja, að ef allt þetta, sem er að gerast í Evrópu, leiðir til jákvæðs árangurs eins og menn vonast eftir, muni það skapa nýjan grundvöll til þess að ræða um þörf fyrir varnarlið á Íslandi. Í fyrsta lagi eru þessar viðræður allar í gangi, en engar þeirra nema e. t. v. Berlínarviðræðurnar hafa leitt til niðurstöðu enn þá. Í öðru lagi hafa gerzt ýmis tíðindi á þessu svæði, sem hæstv. utanrrh. ekki nefnir í skýrslu sinni. Þar á ég við þá þróun, sem orðið hefur á Norður-Atlantshafi og það vígbúnaðarkapphlaup, sem þar er í fullum gangi. Ég tel, að þessi þróun varpi skugga á þann árangur, sem er að nást á meginlandinu í viðleitninni til að koma málum þar í friðvænlegra horf. Ég er ekki einn um þá skoðun, ef marka má fregnir um skoðanir margra annarra. Ég tel það einn helzta gallann á skýrslu hæstv. ráðh. um utanríkismál að — hann skuli ekki sjá ástæðu til þess að nefna einu orði þessa þróun mála á hafinu rétt út af ströndum okkar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fyrir rúmlega áratug virðast Sovétríkin hafa tekið ákvörðun um að hefja stórfellda uppbyggingu á herskipaflota — raunar samtímis því, sem haldið var áfram stórfelldri uppbyggingu á kaupskipaflota, fiskiflota og flota rannsóknaskipa. Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Við þessu mátti búast. Á síðustu öld var keisaradæmið í Rússlandi orðið mikið flotaveldi og lagði á það áherzlu að byggja upp flota sinn. Hlaut að koma að því, að jafnvoldugt ríki og Sovétríkin kæmi sér upp flota til þess að auka áhrif sín á heimshöfunum.

Undanfarin 300–400 ár hafa Engilsaxar verið alls ráðandi á heimshöfunum, fyrst Bretar og síðan á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar Bandaríkjamenn. Þessi yfirráð hafa mótað heimsmálin meira en nokkuð annað á þessu tímabili, og þau hafa alveg sérstaklega haft úrslitaáhrif á örlög okkar Íslendinga. Tyrkjarán og annar slíkur ófögnuður lagðist ekki niður fyrr en brezki flotinn varð það voldugur á Norður-Atlantshafi, að hann gat hindrað slíkt og hafði hagsmuni af að hindra það, til þess að fiskveiðar gætu gengið stórvandræðalaust. Þá er skemmst frá að segja, að örlög okkar á Napóleonstímanum sýndu okkur betur en nokkuð annað, hver raunveruleg staða okkar var. Það var einu sinni sagt í þessum sal, — ég held, að það hafi verið Guðmundur landlæknir, sem sagði það — að Íslendingar hefðu í marga mannsaldra lifað í skjóli brezka flotans. Það hlýtur því óhjákvæmilega að varða okkur miklu — og við verðum að gera okkur grein fyrir hvað er að gerast — þegar nýtt ríki kemur til sögunnar og sendir það mikinn flotastyrk inn á þetta haf, að enn verður ekki séð fyrir endann á því, hverjir muni verða taldir ráða hafinu. Þetta eru breytingar, sem hljóta að hafa áhrif á stöðu okkar. Við hljótum að fylgjast með þessu og gera okkur grein fyrir því, hvort þetta gefur okkur tilefni til að breyta stefnu okkar í utanríkismálum á einn eða annan hátt eða ekki. Það eina, sem er óafsakanlegt, er að láta sem maður sjái ekki slíka þróun.

Á árunum eftir 1960 fóru Sovétríkin að efna til flotaæfinga undan ströndum Noregs og færðu sig smám saman með hverju árinu sem leið sunnar í hafið. Árið 1963–64 voru þessar æfingar teknar að ná til hafsins á milli Íslands og Færeyja og fóru með hverju ári vaxandi. Árið 1968 kom í fyrsta skipti í sögunni rússneskt herskip og sigldi umhverfis Ísland á þann hátt, að það var greinilega að láta bera sem allra mest á sér. Hér var ekki um hernaðaraðgerðir að ræða, heldur var eitt af stórveldum heimsins að auka áhrif sín með því að láta vita af tilvist sinni. Þetta skip var að segja við okkur: Sjáið þið til, hérna erum við! Skömmu síðar, þegar spurzt var fyrir um, hvort sovézk herskip mættu koma hér inn og taka olíu, þá neitaði Emil Jónsson, þáv. utanrrh., að vísu um olíu, en af íslenzkri gestrisni sagði hann: Komið inn og fáið ykkur kaffi! Rétt á eftir komu hingað tvö sovézk skip í fyrstu opinbera heimsókn sína til Íslands.

Það er almennt álitið, að þessi uppbygging sovézka flotans sé meiri háttar aðgerð til að breyta nú gangi heimsmálanna. Þetta hefur ekki aðeins gerzt hér á Norður-Atlantshafi. Þetta hefur gerzt á Miðjarðarhafi og alveg sérstaklega á Indlandshafi. Þegar brezki flotinn hvarf brott af Persaflóa og svæðinu þar í kring, þar sem hann hafði verið alls ráðandi í margra mannsaldra, liðu ekki mörg ár, þar til sovézk skip voru komin þar í staðinn.

Ég vil taka fram, að ég er ekki með því að tala um þennan vopnabúnað að reyna að vekja hræðslu. Þessu er ekki sérstaklega beint gegn Íslandi eða öðrum smáríkjum í kringum okkur, það er ég sannfærður um. Þetta er hluti af valdatogstreitu stórvelda, sem nær um allan heim, en við erum hluti af þessum heimi. Þess vegna verðum við að gera okkur grein fyrir þessum atburðum.

Ég las það nýlega í grein, sem skrifuð var af þremur sérfræðingum við norsku utanríkismálastofnunina í Osló, en sú stofnun er algjörlega óviðkomandi norskum yfirvöldum, að þeir teldu, að þessi flotauppbygging gjörbreytti allri stöðu Norðmanna. Þeir töldu, að Sovétríkin væru að reyna að skapa eins konar varnarlínu á hafinu, ekki norður af Múrmansk, heldur á milli Skotlands, Færeyja og Íslands. Þeir töldu, að hér væri ekki um að ræða aðgerðir, sem væri beint gegn íbúum á Íslandi, í Færeyjum, á Grænlandi eða í Noregi, heldur hluta af stórkostlegri áhrifatogstreitu. Eins og sú þróun, sem hæstv. utanrrh. lýsti í öryggismálum á meginlandi Evrópu, hefur verið jákvæð undanfarin ár og gefið ríkar vonir um bætt og betra ástand þar, þá hefur þessi þróun á hafinu óneitanlega gengið í öfuga átt. Sjást þegar merki þess, að önnur stórveldi, sem lengi hafa talið sig ráða ríkjum á þessu hafi, hvort sem þau eiga nokkurn rétt á því eða ekki, eru farin að mæta þessari þróun með því að hefja stórfelldar herskipasmíðar. Þessi atriði verðum við að gera okkur ljós, þegar við íhugum, hvort það er ástæða til að gjörbreyta um stefnu í sambandi við varnar- og öryggismál okkar Íslendinga.

Það hefur þegar verið rætt allmikið um meðferð ríkisstj. á varnarmálunum, og er óþarfi fyrir mig að endurtaka það. Er hverjum manni ljóst, sem nokkuð hlustar eftir umræðum um þessi mál að alvarlegur ágreiningur er innan ríkisstj. og miklu meiri togstreita með þeim öflum, sem standa bak við ríkisstj., en nokkurn tíma kemur upp á yfirborðið eða hefur gert það enn þá. Það er ljóst, að stefnan er veik og óljós, af því að fyrst er birt stefnan og svo á að koma til 6–8 mánaða athugun á málinu án þess, að það sé ljóst, hvort niðurstöður athugunarinnar munu nokkru breyta eða ekki.

Í sambandi við það, sem hæstv. utanrrh. sagði um athugun á varnarmálunum, verð ég að segja nokkur orð. Hefur oft verið um það spurt, hvernig þessi athugun fari fram og hverjir annist hana. Við því hafa engin svör fengizt, nema okkur sé ætlað að taka það sem svar, er Þjóðviljinn upplýsti okkur um hina furðulegu ráðherranefnd, sem situr vikulega og fjallar um þetta mál innan ríkisstj.

Að vísu er ýmislegt í ummælum hæstv. utanrrh. í skýrslu hans, sem rétt er að vekja athygli á. Hann segir, að hann telji það nú hlutverk bandalagsþjóða okkar í Atlantshafsbandalaginu að sannfæra okkur um, að hér sé enn nauðsyn varnarliðs. Það er von, að menn spyrji í þessu sambandi: Er ætlun utanrrh. og ríkisstj. að óska eftir því frá ráði Atlantshafsbandalagsins, að það láti í ljósi álit á þessu máli? Við þessu væri mjög fróðlegt að fá svar.

Hæstv. ráðh. sagði einnig: Við munum kanna málin m. a. með viðræðum við alla þá, sem hlut eiga að máli. Það væri fróðlegt að vita, hverjir „allir þeir“ eru. Við vitum, að það er ætlunin að ræða við Bandaríkjamenn, en er ætlunin að ræða við fleiri þjóðir og þá hverjar og hvenær? Ég hef áður bent á þá hugmynd, að það gæti verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að koma á sérstökum viðræðum um öryggis- og utanríkismál við Norðmenn og Dani til þess að fjalla sérstaklega um það svæði nyrsta hluta Atlantshafsins, sem okkur skiptir mestu máli, þannig að þar væru aðilar, sem talað geta fyrir Grænland, Færeyjar, Noreg og Ísland, en stórveldin þyrftu ekki að vera þátttakendur þar. Ef það á að ræða við alla, sem hlut eiga að máli, finnst mér sú hugmynd vera vel þess virði að athuga hana einnig.

Í sambandi við þær hörðu deilur, sem komið hafa upp um athugun á öryggismálum, sem nú er sagt, að standi yfir, hefur Alþfl. leyft sér að flytja þáltill. á þskj. 62. Þar er lagt til, að utanríkismálanefnd verði falið að gera ítarlega athugun á öryggismálum Íslands. Þar er tilgreint í átta liðum, hvaða höfuðviðfangsefni ætlazt er til af okkar hálfu, að nefndin athugi. Þó eru þessi átta viðfangsefni í raun og veru heill málaflokkur hvert um sig. Okkur finnst, að það sé búið að binda varnarmálin í slíkan hnút bæði með skipan þeirra innan ríkisstj. og með deilum á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að það verði á einhvern hátt að finna á því lausn. Finnst okkur ekki óeðlilegt, að Alþ. geri sjálfstæða athugun á þessu máli. Hún yrði gerð í utanrmn., sem er samkvæmt landslögum og skipulagi Alþ. réttur aðili til að fjalla um þetta mál. Það er ekki hægt að kvarta um, að þar eigi ekki allir þingflokkar aðild. Það er beinlínis hugmyndin með þessari till. að gera athugun, sem væri til birtingar og til upplýsingar fyrir þjóðina.

Það hefur því miður verið svo, síðan varnarliðið kom hingað, að yfir því hefur hvílt óeðlilega mikil leynd. Ég hygg, að þetta stafi ekki af því, að þar sé neitt óeðlilegt að gerast, heldur stafi þetta af því, að árekstrar, sem voru algengir her á árunum 1953–1959, leiddu til þess, að bæði íslenzk yfirvöld og yfirmenn varnarliðsins töldu það því betra, því minna, sem var um varnarliðið talað, og því minna, sem Íslendingar hefðu af því að segja. Hvað árekstra snertir og önnur sambúðarvandamál, sem minnkað hafa til stórra muna á s. l. áratug, þá er þetta ekki óeðlileg stefna, en hún hefur leitt til þess, að Íslendingar vita nú sáralítið um það, af hverju varnarliðið er hér á landi, hvert hlutverk þess er eða hvernig það gegnir því hlutverki. Það sjást yfirleitt varla skrif um varnarliðið í blöðum, nema þegar pólitískar deilur eru komnar í gang, en þá valda deilurnar því venjulega, að upplýsingar, sem fram koma, fara fyrir ofan garð og neðan, því að menn mæna á deiluatriðin. Því er mjög rík ástæða til að láta óháða athugun á vegum Alþ. fara fram, þar sem alþm. geta spurt um það, sem þeir vilja fá að vita. Leitað verði til þeirra, sem geta svarað og eiga að svara slíkum spurningum, svörin verði dregin fram í dagsljósið og síðan verði gerð um þetta skýrsla, sem yrði opinbert mál og gerði öllum almenningi betur kleift að átta sig á málinu og taka afstöðu til þess. Það er varhugavert fyrir okkur að láta umræður um öryggis- og varnarmálin eingöngu byggjast á tilfinningum okkar og þjóðerniskennd, því að varnarmálin eru svo alvarlegs eðlis, að við verðum oft að gripa til ýmissa ráðstafana, sem stríða gegn því, er við helzt vildum búa við.

Ég vil því gera mér vonir um, að hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. íhugi þessa tillögu okkar gaumgæfilega. Ég vona, að þeir komist að þeirri niðurstöðu, að það væri eðlilegt og gagnlegt, að slík skoðun færi fram. Ég geri mér ekki í hugarlund, að slík athugun geti á nokkurn hátt komið í staðinn fyrir þá rannsókn málsins, sem hæstv. ríkisstj. vill láta gera fyrir sig. Til þess er ekki hægt að ætlast, en það er heldur ekki hægt að ætlast til þess, að Alþ. reyni ekki sjálft að gera sér grein fyrir málum eins og þessum, heldur bíði og taki aðeins við því, sem að þinginu er rétt, þegar búið er að ákveða niðurstöður málsins.

Hæstv. utanrrh. fjallaði að lokum um landhelgismálið í skýrslu, sinni, og sé ég ekki ástæðu til að fara ítarlega út í það, vegna þess að um það hafa verið sérstakar umræður á Alþ. Það eina, sem er nýtt í skýrslu hæstv. ráðh. um landhelgismálið, er, að hann skýrir frá undirtektum þeim, sem við höfum fengið í viðræðum við Breta og Þjóðverja. Það er sýnilegt, að þær hafa orðið til þess, að hæstv. ráðh. telur, að nokkur samkomulagsvilji sé fyrir hendi og sérstaða okkar sé viðurkennd, þannig að enn megi vona, að samkomulag geti náðst. Þetta er nýtt í ræðu hæstv. ráðh., og ég vil fagna þessu. Ég vænti þess, að það verði kannað til þrautar í þessum viðræðum, hvort unnt er að ná samkomulagi, því að sannarlega ber okkur skylda til þess að ná friðsamlega þeim markmiðum í utanríkismálum, sem við setjum okkur, ef þess er kostur, og forðast deilur við aðrar þjóðir eins og hægt er, innan þeirra marka, að við höldum fast við stefnu okkar.

Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh., eru utanríkismál okkar fjölþætt og koma víða við. Það sannast hér eins og oft endranær, að vandamálin geta verið jafnmörg hjá lítilli þjóð og stórri. Þau geta oft verið torleystari hjá lítilli þjóð en stórri.

Ég vil enda á því, sem ég byrjaði á, að benda á algjöra sérstöðu utanríkismálanna. Þau eru framhald af frelsisbaráttu okkar, og það getur verið eins erfitt að varðveita frelsið og að öðlast það. Hætturnar eru ekki eins augljósar nú á dögum og þær voru þá, þegar við áttum við eina herraþjóð að stríða. Nú geta þær leynzt hvar sem er og sótt að okkur svo til hvenær sem er. En ef við sýnum alúð í meðferð utanríkismála og utanríkisþjónustu okkar, ef við ástundum eins mikil samráð og framast er hægt, þá vil ég vænta þess, að okkur takist í framtíðinni eins og hingað til að halda svo á utanríkismálum, að virðing okkar vaxi af og við öðlumst traust annarra þjóða í heiminum.