23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

Skýrsla um utanríkismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þegar nú hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, hefur lokið máli sínu, get ég lofað honum því, að ég skal ekki verða langorður í svari mínu til hans. Ég tel ekki þörf á að segja eitt einasta orð um þessa ræðu, sem hv. þm. flutti. (BGuðn: Það er mér sérstök ánægja.)

Við höfum hér til umræðu núna skýrslu hæstv. utanrrh., sem hann flutti í dag og afhenti í gær, sem er þakkarvert. Þetta hefur áður verið gert, er tekinn var upp sá siður, eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm., að flytja skýrslu um utanríkismálin og ræða þau á þinginu, og ítarlegum skýrslum hefur verið útbýtt áður af fyrrv. hæstv. utanrrh. En það liggur við, að það megi teljast háð í málefnasamningi stjórnarflokkanna um utanríkismálin, þegar þeir orða það þannig, að stefna Íslands í alþjóðamálum eigi að verða sjálfstæðari og einbeittari, því að einn aðaltilgangurinn af hálfu okkar sjálfstæðismanna í þessum umræðum er að fá að vita, hver sé skoðun stjórnarflokkanna. Hvað meinar hæstv. utanrrh.? Meinar hann það, sem hann sagði fyrir nokkrum dögum, eða meinar hann það, sem hann sagði síðar? Hver er skoðun hæstv. forsrh:? Við þurfum ekki í sjálfu sér að spyrja, hver sé skoðun Alþb. Hver er skoðun Alþýðubandalagsráðherranna? Ég hef sagt það hér áður, að mér er engan veginn ljóst, hver er afstaða ráðh. SF í þeim málum, sem langmest hefur verið talað um hér í dag og vakið hafa mesta athygli í sambandi við utanríkismálastefnuna, þ. e. í sambandi við veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Vilja þeir, að við höldum áfram samstarfi við hinar vestrænu lýðræðisþjóðir eða ekki? Ég hef ekki vænt hæstv. menntmrh. um það, en í blöðunum hefur verið vitnað til þess, sem ekki er óeðlilegt, að hann hafi um langt skeið verið ritstjóri Þjóðviljans og þá skrifað mjög frjálslega um það, að við ættum ekki að vera í þessu varnarbandalagi vestrænna lýðræðisþjóða. En hafi hæstv. ráðh. skipt um skoðun í því sambandi, þá tel ég það vera mjög mikils virði og góðra gjalda vert.

Það hefur verið bent réttilega á það, að það er komið víða við í skýrslu utanrrh., en varnarmálin taka að vísu ekki nema um það bil tvær blaðsíður. En það er sama. Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um það, sem sagt er einmitt um varnarmálin. Hæstv. ráðh. vitnar þar að sjálfsögðu í stjórnarsamninginn, en vitnar einnig m. a. í dr. Bjarna heitinn Benediktsson um það, sem hann sagði hér á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík 24. júní 1968, þar sem hann segir, og vil ég endurtaka það, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi land mitt er það að vísu svo, að við höfum sérstakan varnarsamning innan Atlantshafsbandalagsins við Bandaríkin, en það fer alveg eftir mati okkar sjálfra á heimsástandi, þegar þar að kemur, hversu lengi bandarískt lið dvelur á Íslandi.“

Þessu skilst mér, að hæstv. ráðh. sé að mestu leyti sammála, nema hvað hann vill láta bandalagsþjóðirnar sannfæra okkur um, að það sé þörf á varnarliði. Það er út af fyrir sig gott að vilja leita álits þeirra og meta svo aðstöðuna, en eins og réttilega hefur verið bent á, hefur nú orðið misbrestur á því. En það hefur verið lögð mikil áherzla á, að hér væri alveg um tvennt að ræða. Og í skýrslu hæstv. utanrrh. segir:

„Aðild Íslands að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru því óumdeilanlega“ — þetta er í framhaldi af orðum dr. Bjarna Benediktssonar „tvö aðskilin mál . . .“

Þetta hefur dr. Bjarni Benediktsson aldrei sagt. Það vill svo til, að það er margar tilvitnanir hægt að finna í ræður og skrif dr. Bjarna Benediktssonar um utanríkismál. Hann ræddi þau m. a. mjög ítarlega hér á Alþ. í febrúarmánuði 1967, þegar Einar Olgeirsson var flm. að frv. til l. um, að Bandaríkjaher færi héðan og við segðum upp varnarsamningnum. Það er stefnumál hans, sem hefur verið tekið upp núna, skilst manni, að sumu leyti, en þá segir Bjarni Benediktsson, fyrrv. forsrh., einmitt þessi orð, með leyfi hæstv. forseta, og þessi orð er að finna í þingtíðindunum:

„Það er út af fyrir sig rétt, þetta eru tvö mál“ —- þ. e. Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn við Bandaríkin — „að nokkru leyti sitt hvort málið, en eins og hann einnig tók fram“, — og þá á hann við Einar Olgeirsson — „verða þau að skoðast í samhengi. Ekki verður hjá því komizt, að svo sé gert.“

En mál, sem verður að skoða í samhengi og ekki verður komizt hjá að skoða í samhengi, eru ekki tvö aðskilin mál, eins og segir í skýrslu hæstv. utanrrh. Menn þurfa að átta sig betur á þessu. Það er rétt, að við gengum fyrst í Atlantshafsbandalagið og gerðum síðan varnarsamninginn, en auðvitað verður að skoða þetta í samhengi hvað við annað, eins og dr. Bjarni Benediktsson sagði.

Dr. Bjarni Benediktsson hefur nokkuð blandazt inn í þessar umr., m. a. með tilvitnunum í ræðu hans hér á fundi ráðherra Atlantshafsbandalagsins. En hvað var það, sem Bjarni Benediktsson sagði, þegar NATO var stofnað? Og hver var fyrirvarinn, sem hafður var, þ. e. að það skyldi ekki vera her á friðartímum. Það er látið nægja að vitna í það, af því að það er einföld túlkun, en það felst í sjálfu sér nokkuð meira í því. Dr. Bjarni Benediktsson sagði í ræðu, sem birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 1966 og var haldin á ráðstefnu um varnarmál, sem haldin var þá hér í bænum, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins varð hér mikill ágreiningur um það, hvort Ísland skyldi gerast aðili Atlantshafssamningsins. Það var þó samþykkt með u. þ. b. 3/4 hluta atkv. á Alþ. eftir harðar umræður og uppþot utan við Alþingishúsið. Allir voru sammála um, að full aðild Íslands að slíku varnarbandalagi kom ekki til greina. Þess vegna voru hafðir fyrirvarar við inngöngu Íslands í bandalagið. Samkomulag um efni og orðalag þeirra hafði tekizt í undirbúningsumræðum, og lýsti ég, sem þá var utanrrh. Íslands, þeim svo við undirskrift samningsins í Washington“ — og þá kemur það, sem hæstv. þáv. utanrrh. sagði þá:

„Íslendingar eru vopnlausir og hafa verið vopnlausir síðan á dögum víkinganna, forfeðra okkar. Við höfum engan her og getum ekki haft.

Ísland hefur aldrei farið með hernaði gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við né munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af Sameinuðu þjóðunum. Staðreynd er, að við getum alls ekki varið okkur gegn neinni erlendri, vopnaðri árás. Við vorum þess vegna í vafa um, hvort við gætum gerzt aðilar þessa varnarbandalags, en svo getur staðið á, að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norður-Atlantshaf.

Í síðasta stríði tók Bretland að sér varnir Íslands, og síðan gerðum við samning við stjórn Bandaríkjanna um hervarnir Íslands meðan á stríðinu stóð. Aðild okkar að Norður-Atlantshafssamningnum sýnir, að bæði sjálfra okkar vegna og annarra viljum við svipaða skipan og þá á vörnum landsins, ef ný styrjöld brýzt út, sem við vonum og biðjum, að ekki verði.“

Þar með lýkur þessari tilvitnun. En þáv. utanrrh. segir til skýringar á henni áfram svo:

„Í þessum fyrirvörum fólst m. a., að varnarlið skyldi því aðeins staðsett í landinu að ný styrjöld brytist út, þ. e. a. s. ekki á friðartímum. Með árásinni á Suður-Kóreu og viðbrögðum Sameinuðu þjóðanna gegn henni breyttust viðhorfin gersamlega.“ Þá breyttust viðhorfin gersamlega, segir þessi þáv. utanrrh., af því að það brauzt út styrjöld í Suður-Kóreu. „Íslendingar töldu ekki lengur öruggt að hafa land sitt varnarlaust og gerðu varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna, sem var undirritaður hinn 5. maí 1951 og síðar staðfestur af miklum meirihluta á Alþ. Síðan hefur verið bandarískt varnarlið í landinu á vegum Atlantshafsbandalagsins. Raunar var meirihluti Alþ. á árinu 1956 þeirrar skoðunar, að kalda stríðinu hefði létt svo, að óhætt mundi að láta varnarliðið hverfa af landi brott. Atburðirnir í Ungverjalandi þá um haustið eyddu hins vegar öllum slíkum ráðagerðum. Ætíð öðru hvoru vaknar þó sú spurning, einnig í hugum þeirra, sem fylgjandi eru aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, hvort svo friðvænlegt sé orðið, að óhætt sé, að varnarliðið hverfi héðan á brott.“

Þetta eru orð þáv. utanrrh. í framhaldi af því, sem hann sagði við undirskrift samningsins um Atlantshafsbandalagið. Við sjáum þarna í þessum fáu orðum tvö atriði. Fyrst breyttist viðhorfið vegna Kóreustríðsins, og þá eru nær allir sammála hér á Alþ. um það að gera varnarsamninginn við Bandaríkin. Svo situr hér vinstri stjórn, sem svo er kölluð, frá 1956 til ársloka 1958. Stuðningsflokkar þeirrar stjórnar höfðu verið á þeirri skoðun í marzmánuði 1956, að aðstæður væru það breyttar, að það væri rétt að láta varnarliðið fara, og báru fram ályktun um það hér á Alþ. Sú ríkisstjórn var mynduð um mitt sumar eftir kosningar. Eitt af aðalkosningamálunum var m. a. að láta varnarliðið fara, því að aðstæður væru svo breyttar. Strax í nóvember sama ár meta þessir menn aftur, að aðstæður séu svo breyttar, að nú sé rétt að endurnýja samninginn við Bandaríkin um það, að herinn skuli vera áfram. Þannig hefur staðið síðan, og það voru gefnar út um það sérstakar yfirlýsingar. Þetta var 1956.

Síðan hafa dunið yfir þau ósköp, sem öllum er kunnugt um í Tékkóslóvakíu. Síðari hluta sumars 1968 fara herir Sovétríkjanna inn í Tékkóslóvakíu með halarófu á eftir sér af herjum nokkurra ríkja úr Varsjárbandalaginu. Aðstæður verða nú svipaðar, nema annað og meira en þetta hefur gerzt, og það var vikið að því hér af ræðumönnum áður. Það hefur geisað styrjöld í Víetnam, í Asíu, í Kambódíu, við Miðjarðarhafsbotna — ja, það er eins konar púðurtunna við Miðjarðarhafsbotna. Það er sagt, að stríð sé byrjað í Pakistan. Í Afríku hafa stöðugt verið hinar og þessar deilur. Er þá nokkuð óeðlilegt, þó að slíkt eins og þetta geti haft áhrif á það, hvað menn telja friðartíma? Því að það er auðvitað réttilega á það bent — og það gerði Bjarni Benediktsson einmitt á þessari varnarmálaráðstefnu og Benedikt Gröndal, hv. 8. landsk. þm., vék einnig að því nú, hvað aðstæðurnar eru mikið breyttar.

Hér í kringum og yfir landinu eru sífellt á ferðinni skip, kafbátar og flugvélar, og ég man eftir því, að á þessari ráðstefnu túlkar Bjarni Benediktsson í þessari tilvitnuðu ræðu sinni, sem ég hef líka hér fyrir framan mig, þetta þannig, að í raun og veru sé lítill munur á því, hvort við erum staðsett suður í miðri Evrópu eða þar sem við erum. Við erum í miðri þjóðbraut, og atburðirnir hljóta þess vegna að verða metnir með allt aðrar kringumstæður í huga en áður, þegar heimurinn leit vissulega allt öðruvísi út. Nú var sagt hér áðan, að stjórnarflokkarnir allir teldu, að það séu slíkir friðartímar nú, að það væri bezt, að varnarliðið væri hér ekki. Ég veit ekki, hvort hæstv. utanrrh. er á þessari skoðun. Hann hefur ekki tjáð sig þannig. Hann hefur sagt: Ég mun hefja viðræður við Bandaríkin og fulltrúa þeirra og þjóðir Atlantshafsbandalagsins, og að þeim viðræðum loknum mun ég meta það, hvort þörf er á varnarliði hér eða ekki, að vandlega athuguðu máli. Þetta tekur kannske 6–8 mánuði. Sú tímaáætlun getur reynzt röng hjá mér, en þegar ég hef grandskoðað málin, mun ég taka mínar ákvarðanir.

Mér þætti mjög vænt um, að þjóðin fengi að vita þetta og fá þetta staðfest. Ég tel þetta mjög mikilsverða yfirlýsingu hjá hæstv. utanrrh. og vil fá það staðfest af þeim öðrum ráðh., sem eru sama sinnis. Það væri mjög mikilvægt, að almenningur vissi, hvað er í huga þeirra, eins og þar stendur — þessara banamanna okkar, sem felldu okkur svo glæsilega við kosningarnar. Þjóðin vill auðvitað vita þetta vegna þess, að það var ekki kosið um þetta í kosningunum. Hún vill vita, hvernig menn standa núna að þessum málum. Það var einkennilegt að lesa Morgunblaðið í morgun, því að þar kemur fram og reyndar í hinum blöðunum líka, bæði Tímanum og Þjóðviljanum, stjórnarblöðunum — í fyrirsögnum m. a., að Pakistanar segja, að Indverjar hafi byrjað stríð, að hersveitir við Súez búist við nýju stríði og að fjölmennt lið sæki langt inn í Kambódíu. Í þessum heimi búum við í dag. Ég skal ekki meta sannleiksgildi einnar fréttar meira en annarrar. Ég segi aðeins, að þessar fréttir eru teknar úr heimsfréttunum frá hinum og þessum fréttastofum og einnig teknar upp í hin stjórnarblöðin.

Það er náttúrlega ekki eðlilegt, að Íslendingar né aðrir séu rólegir, þegar jafnmikillar óvissu gætir um stefnu hæstv. ríkisstj. í utanríkismálum og raun ber vitni. Það er tvennt, sem verður að athuga hvað í sambandi við annað, eins og ég sagði áðan, Atlantshafsbandalagið og varnarliðið hér á Íslandi. Þá eru nokkrar spurningar, sem ég varpa fram. Þær hafa reyndar þegar komið fram: Hvernig er afstaða núv. ríkisstj. til Atlantshafsbandalagsins? Í hverju er ágreiningurinn fólginn? Hverjir eru með því að vera í Atlantshafsbandalaginu, í þessu varnarbandalagi vestrænna lýðræðisþjóða? Hvaða stjórnarflokkar og hvaða einstakir ráðherrar telja það fáránlegt? Sumir hafa látið hafa það eftir sér, og það heyrðist í ræðustólnum hér áðan. Þetta er mikils virði að fá að vita. Hitt tel ég miklu minna atriði, miklu minna ágreiningsmál og alveg eðlilegt, að varnarsamningurinn sé endurskoðaður og metin afstaða okkar til að hafa varnarlið og hversu fjölmennt það á að vera á hverjum tíma, enda hefur það verið gert.

Það er aðeins það, sem við höfum gagnrýnt sjálfstæðismenn, að við teljum ekki líklegt— og það held ég varla, að okkur verði álasað fyrir — að þeir menn, sem telja fáránlegt að vera í Atlantshafsbandalaginu, vilji leggja hönd á plóginn að semja um, að á vegum Atlantshafsbandalagsins skuli vera varnarlið á Íslandi. Ég hélt, að þeir sjálfir mundu alls ekki gera kröfu til þess, og við héldum það ekki. En fáist ekki skorið úr okkar málum með þeim tillöguflutningi, sem við þegar höfum staðið að hér á þingi, þá tek ég undir það með hv. 2. þm. Reykv., að við munum auðvitað reyna til hlítar enn frekar að fá málin skýrð, þannig að þjóðin fái rétta mynd af því, sem er að gerast innan stjórnarherbúðanna, og af því, hvernig líklegt er, að staðið verði að varnarmálunum.

Enn einu sinni er ástæða til að undirstrika það, að það hefur auðvitað aldrei verið skoðun okkar sjálfstæðismanna, að það sé eftirsóknarvert — og ég skil ekki, að það geti verið nokkrum manni keppikefli — að hér sé varnarlið. En við sjálfstæðismenn höfum viljað meta kringumstæðurnar. Ég ætla að leyfa mér að vitna svolítið betur í ummæli okkar fyrri foringja og vissulega örugga leiðtoga í utanríkismálum, Bjarna Benediktssonar, í þeirri þingræðu, sem ég vitnaði í áðan, en þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Einmitt þess vegna er varnarsamningurinn gerður með þeim tímafrestum og einhliða uppsagnarrétti, rétti, sem Íslendingar fengu settan inn í samninginn og var algerð forsenda fyrir samningsgerðinni, vegna þess að við gerðum okkur ljóst, að ekki er hægt að sjá nema skammt fram í tímann. Þetta verður að metast af þeim, sem ábyrgð bera á stjórn landsins á hverjum tíma, eftir því sem þeirra sannfæring og þekking segir til um hverju sinni, að auðvitað of skjótar og of tíðar breytingar á þessu séu óhyggilegar og raunar óframkvæmanlegar.

Aðstaðan er að ýmsu leyti orðið mjög breytt frá því, sem áður var. Ég held, að það séu engar ýkjur, þó að við segjum, að Ísland sé nú ámóta sett og það væri suður í Mið-Evrópu. Það er svo mikil umferð af alls konar farartækjum, í lofti, á hafinu og í hafinu umhverfis landið, að ef menn kynna sér það, er það svipaðast eins og maður væti staddur í fjölmennum umferðarstað í stórborg, ef svo má segja. Við komumst þess vegna ekki hjá því, að meðan hættuástand er í heiminum, og það er ótvírætt, að svo er enn þá, þá eru það fjörráð við íslenzku þjóðina að skilja landið eftir varnarlaust.“

Þetta var mat þessa manns á þessum tíma, en það er kunnugt, að í tíð fyrrv. stjórnar var leitað álits náttúrlega bæði aðila í Atlantshafshandalaginu og auk þess ýmissa sérfræðinga til að fá eitthvert hlutlægara mat en beinlínis mat embættismanna eða ráðherra Atlantshafsþjóðanna á aðstöðunni og þörfinni á varnarliðinu hér á landi. Ég legg, eins og ég sagði áðan, megináherzlu á það, að ég treysti alveg hæstv. utanrrh. til þess að kanna það mál vandlega. Till. okkar sjálfstæðismanna er ekki undarlegri en það, að við höfum boðið það fram af okkar hálfu, að ekki skuli standa á okkur, ef óskað er eftir samráði við okkur í þeim viðræðum, sem munu fara fram um þessi alvarlegu mál. Nú er það vitað og hefur komið fram í blöðum, að Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlegur gestur hér til Íslands næstu daga, og tel ég það mjög gott. Auðvitað verða það fyrst og fremst ríkisstj. og utanrrh., sem hafa tækifæri til þess að heyra álit þessa manns, og það hefur hæstv. utanrrh. líka gert, eins og hann skýrði okkur frá, þegar hann dvaldist í New York. Hverjir hafa nú viðtal við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er hann kemur hér? Þegar við vorum í ríkisstj., þá var stjórnarandstaðan kvödd til þess að sitja á sérstökum fundum til viðræðna við þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég vil leyfa mér að vona, að einhver svipuð vinnubrögð verði höfð núna. Það er einmitt í samræmi við þann vilja að vilja taka þátt í að styrkja aðstöðu landsins og skilja rétt, hvernig aðstaðan er, og það er megintilefni till., sem við flytjum, en er ekki beint á dagskrá í dag.

Fyrir utan þau mörgu mál sem ég nefndi áðan, sem sýna, hvernig ástandið er nú í heiminum, vil ég aðeins minnast á það, að ég get tekið undir það með hv. 8. landsk. þm., að það vantar nokkuð á í skýrslu hæstv. utanrrh. að vekja athygli hv. þm. á þeim breytingum, sem orðið hafa á norðurslóðum, einmitt í sambandi við vaxandi herstyrk stórveldanna, risaveldisins sovézka sérstaklega. Það er rétt, sem fram hefur komið, að þegar við gerðum varnarsamninginn árið 1951, var þessi Norður-Atlantshafsfloti Sovétríkjanna ekki til; það voru bara nokkrir bátar. Hann er allur orðinn til síðan, og hann er stærsta flotadeild Sovétríkjanna nú. Þeir hafa sínar stóru flotadeildir í Kyrrahafinu, Karabíska hafinu, Miðjarðarhafinu og Norður-Atlantshafi og kannske á öllum öðrum heimsins höfum, en eitt er víst, að hann var bara ekki til þessi floti þá.

Hingað kom á s. l. ári varnarmálaráðherra Noregs, Tidemand. Hann hélt hér ræðu, sem var gerð almenningi kunn. Hann sagði m. a., að ástandið í dag gæfi ekki tilefni til neinna rólegheita, hvað snerti varnir landa okkar, Noregs og Íslands, það væri því miður staðreynd, að vígbúnaðarkapphlaupið væri nú harðara en nokkru sinni og hraðinn ykist ár frá ári. Ég er ekki að hafa þetta eftir til þess að beyg setji að mönnum né til þess að draga úr því, sem réttilega hefur verið sagt, að margt hefur áunnizt, eða við trúum því eða viljum trúa því, að ýmislegt hafi áunnizt m. a. s. fyrir tilstuðlan Atlantshafsbandalagsins, í því að koma á meiri kyrrð í Evrópu en ella hefði verið. Varnarmálaráðherra Noregs segir, með leyfi hæstv. forseta, að hvað snerti öryggismál Íslands og Noregs, hafi það verið eðlilegt fyrir okkur að tengja þau öryggismálum þjóðanna umhverfis Atlantshafið, og hann segir enn fremur, að á vopnamerki norsku flugsveitarinnar, sem hér var á Íslandi á stríðsárunum, hafi verið skrifað: Tryg havet. Það hefur eins mikið gildi nú. Það er jafnaugljóst, að Ísland og Noregur nú eru algjörlega háð hernaðarlegu samstarfi við Vesturlönd. Vegna legu sinnar eru þau mjög mikilvæg, sameiginlegum vörnum bandalagsins.

Norski ráðherrann segir einnig hérna — og mér er ókunnugt um það að öðru leyti en því, að ég hef getað séð á opinberum skýrslum það, sem ég sagði áðan um styrk Norður-Atlantshafsflotans, sem kallast svo — að á síðustu tíu árum hafi Sovétríkin lagt æ meiri áherzlu á uppbyggingu flota síns, eins og eftirfarandi orð frá sovézkri hlið gefa til kynna: Í fyrsta skipti í sögu okkar er sjóher okkar orðinn langdræg árásarleg varnareining. Aldrei áður hefur máttur hans verið jafnmikill, aldrei hefur hann verið jafn vel við því búinn að reka til haka árásaraðila á sjó. Ásamt eldflaugavopnum okkar er flotinn nú mikilvægasta verkefni yfirstjórnarinnar. Það var eitthvað sagt lauslega frá því í blöðum, að ég og Morgunblaðið værum að fjargviðrast eitthvað yfir þessum flotastyrk Sovétríkjanna. Sitthvað mun hafa verið haft eftir mér og Morgunblaðinu um þennan styrk flotans. Ég sá það í blaði, sem einhver af sendimönnum okkar, sem fór til Rússlands í viðskiptasamninga, kom með og var á enskri tungu, að Jóhann Hafstein og Morgunblaðið væru að fjargviðrast yfir stærð þessa flota. Það væri eins og hvorki hann né Morgunblaðið vissu neitt um það, að ekki væri til eins friðelskandi þjóð í heiminum og Sovétríkin. Ég get vel óskað þess, að þessi ummæli væru sönn, en þegar ég hef í huga, að þessi ríki hafa þó innlimað og lagt undir sig Austur-Evrópu að meira eða minna leyti, annaðhvort með beinni innlimun eða með því að gera smáríki eftir smáríki að leppríkjum með því, að þar voru menn, sem fengust til að draga lokur frá hurðum.

Ég veit, að þessum hv. þm., Gils Guðmundssyni, sem hér talaði áðan, er ekki illt í huga og að hann vill ekki svíkja land sitt. Ég efast um, að hv. þm. Gils Guðmundsson geri sér grein fyrir því, þegar hann talar um utanríkismál, hverra erinda hann gengur. Það eru nefnilega margir meðreiðarsveinar, sem vilja vel, en þeir gera sér ekki grein fyrir því, að þeir eru bara verkfæri í höndum annarra manna og annarra afla í heiminum. Það kemur kannske sú tíð, að þeir átta sig á því. Það er einn maður hér í þingsölunum, sem þekkir svolítið félaga í Alþb. Það er formaður þingflokks Framsfl., hv. 4. þm. Reykv. Hann hefur lýst því í Alþingistíðindum á bls. 460, hvernig þeir voru árið 1963. Þórarinn Þórarinsson, sem er núv. form. utanrmn., segir:

„Stefna Alþb. hefur verið hin sama og stefna kommúnistaflokka í öðrum vestrænum löndum. Hún hefur í samræmi við stefnu annarra kommúnistaflokka beinzt að því megintakmarki að fjarlægja Ísland sem mest frá öllu samstarfi við vestrænar þjóðir, en þessa einangrun hefur síðan átt að nota til að koma á sem nánustum skiptum við kommúnistalöndin. Þetta hefur ekki verið sagt opinberlega, heldur reynt að breiða yfir þetta skikkju hlutleysisins. Til þess að fela sem dyggilegast nafn og númer hafa ýmsir óflokksbundnir meðreiðarsveinar, eins og Alfreð Gíslason, Gils Guðmundsson og Ragnar Arnalds, verið notaðir til að túlka þessa stefnu, en sjálfir forustumenn kommúnista hafðir í felum, eins og hefur gætt í þessum umr. Þetta eru algeng vinnubrögð kommúnista, þar sem þeim þykir ekki sigurvænlegt að koma hreint til dyra.“

Hv. þm. Gils Guðmundsson í utanrmn. ætti að fara í tíma til formanns n. og læra svolítið af vinnubrögðum kommúnistanna, áður en hann heldur sína næstu ræðu um utanríkismálin.

Ég hef að mestu leyti bundið mig við varnarmálin og á kannske eitthvað eftir enn um þau, en eins og réttilega hefur verið bent á, var ræða hæstv. utanrrh. um ýmis önnur mál, sem athyglisverð eru. Hann gerði grein fyrir landhelgismálinu og þeim aðalsjónarmiðum, sem hann hefði haldið þar fram. Þar segir hann m. a. mjög réttilega á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég lagði áherzlu á, að þessi ákvörðun“ — þ. e. að stækka landhelgina — „væri í samræmi við þá þróun, sem ætti sér stað í lögsögu strandríkja yfir fiskveiðum. Sú skoðun ætti vaxandi fylgi að fagna, að fiskimið undan ströndum séu óaðskiljanlegur hluti af auðlindum strandríkis, sem það eigi að hafa sérréttindi til að nytja. Stærð þessa svæðis ætti að miðast við aðstæður hjá hinum ýmsu ríkjum, en á Íslandi ætti lögsagan eðli sínu samkvæmt að miðast við endimörk landgrunnsins.“

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi ummæli, og þetta er í sjálfu sér ekki nýtt, heldur er það í samræmi við allar fyrri yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið af fyrri ríkisstj. á erlendum vettvangi, og í samræmi við það, sem fram kemur í I. um vísindalega verndun fiskimiðanna, landgrunnslögunum. sem svo hafa verið nefnd, frá 1948.

En það er algerlega nýtt, sem kom hér fram í umr. um landhelgismálið, þó að ég megi ekki blanda því inn í málin nú, en það var gert hér nokkuð áðan, þ. e. að við þættumst vera menn til þess að miða landhelgina eða fiskveiðilögsöguna við 400 m jafndýpislínu, en hefðum ekki verið til í það í vor. Þetta var sagt hér áðan, en þetta er þó í gildandi landhelgissamþykkt, þáltill., og ég hef sagt það hér í umr. um landhelgismálið, að ef við hefðum verið í stjórn áfram, þá hefðum við lagt þetta fyrir þingið núna, eins og ákveðið var í þessari samþykkt Alþ., og kosið n. til að undirbúa frv. til l. um landhelgi Íslands, þar sem fiskveiðilögsaga Íslands hefði verið við þetta miðuð. Það er ósatt, að við höfum sagt, að landhelgin skyldi ekki færð út fyrr en eftir hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1973. Ég geri ráð fyrir, að það sé misminni og ranghermi þess sem fór með það. Við nefndum alveg sérstök tilvik, og þau eru fyrst og fremst tvö. Það getur orðið það mikil ásókn á fiskimiðin, að við viljum færa út fyrir 1. sept. 1972. Þetta vita allir, sem þá sátu á þingi, og við sögðum í öðru lagi, að sú aðstaða gæti skapazt við nánari kynni af afstöðu annarra þjóða til sérréttinda strandríkisins og þróun þjóðaréttarins, að við teldum æskilegt að flytja út mörkin fyrir hafréttarráðstefnuna. Þessi tvö tilvik hafa verið rædd oftar en einu sinni í landhelgisnefndinni, sem nú starfar hæstv. ríkisstj. til ráðuneytis og við stjórnarandstæðingar eigum sæti í, og það fer ekkert á milli mála og hefur ekkert verið vefengt af stjórnarsinnum, ráðherrum í þessari nefnd, að þetta er rétt.

Mig langar aðeins til að benda á, af því að ég vitnaði í blöðin hér um ástandið, eins og það væri nú, að í skýrslunni, sem hæstv. utanrrh. afhendir okkur í gær og lesin er í dag, segir hann þessi athyglisverðu orð m. a.:

„Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins kemur væntanlega til kasta Allsherjarþingsins eins og á fyrri þingum. Því miður hefur ekki miðað í samkomulagsátt upp á síðkastið. Tilraunir til málamiðlunar, bæði á vegum Sameinuðu þjóðanna með milligöngu Gunnars Jarring og fyrir tilstilli stórveldanna, hafa ekki borið árangur ... Síðan í ágúst 1970 hefur að vísu verið vopnahlé með deiluaðilum, en það er mjög ótryggt og upp úr getur soðið hvenær sem er.“

Enn fremur segir hann: „Horfur í deilum Indlands og Pakistan eru vissulega mjög uggvænlegar . . .“

Þegar hæstv. utanrrh. víkur að fjárhagserfiðleikum Sameinuðu þjóðanna og segir, að þeir séu tröllauknir og fari stöðugt vaxandi, þá bætir hann m. a. við: „Ástæðan er fyrst og fremst sú, að nokkur aðildarríki hafa ávallt neitað að greiða sinn skerf til vissra, sameiginlegra útgjalda . . .“

Ég vildi gjarnan biðja hæstv. utanrrh. að gefa okkur í þessum umr. nánari skilgreiningu á því, hvaða ríki hér er átt við, sem ekki hafa greitt sitt framlag til Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er það ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga, svo fámennir sem við erum, að vita það, að það eru fjöldamargar þjóðir í Sameinuðu þjóðunum, sem greiða minni framlög en við til þessarar stofnunar, sem við teljum og viljum, að sé friðarstofnun alls heimsins.

Það er vikið að ráðstefnu um öryggismál Evrópu, sem núv. ríkisstj. hefur tjáð sig samþykka, að haldin væri, og fyrrv. ríkisstj. hafði einnig gert á undan henni. Við áttum m. a. viðræður við sendimann frá Finnlandi, sem gekk erinda þess á meðal þjóða að koma á þessari öryggismálaráðstefnu. Heldur núv. ríkisstj., að afstaða hennar í utanríkismálunum, sem mótast af því að taka einhliða vafasamar ákvarðanir, sem lesa má út úr eitt eða annað, án vandlegrar undangenginnar rannsóknar, sé líkleg til að styrkja þessi áform, þar sem lögð hefur verið megináherzla á það í þessum viðræðum, sem þarna hafa farið fram, að aðildarríki Atlandshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins gerðu gagnkvæmt samkomulag um að draga úr herafla sínum og sameiginlega væri unnið að því að koma á öryggismálaráðstefnu. Það kemur einnig fram í skýrslu ráðh. á bls. 7 að megináherzla er lögð á gagnkvæman samdrátt herafla landanna. Við getum vel hugsað okkur, að eitthvert ríki — við skulum segja Noregur t. d. — hefði gengið úr Atlantshafsbandalaginu eitthvað um svipað leyti og núv. ríkisstj. var mynduð. Telja menn, að það mundi hafa verið líklegt til að styrkja Atlantshafsbandalagið í viðræðum við Varsjárbandalagið í þeirri viðleitni, sem nú er uppi til að koma á þessari öryggismálaráðstefnu? Auðvitað hefðum við ekki verið hrifnir af því, að Noregur hefði gengið úr Atlantshafsbandalaginu.

Ég held, að mér sé alveg óhætt að segja það, að á sínum tíma hafi það haft áhrif á okkur, þegar bæði Noregur og Danmörk voru í Atlantshafsbandalaginu, og haft áhrif á þá fyrirsvarsmenn okkar, sem undirbjuggu þetta mál og fóru af hálfu allra lýðræðisflokkanna þriggja til Bandaríkjanna, eins og kunnugt er. Ég held, að það hafi verið Emil Jónsson, Eysteinn Jónsson og Bjarni Benediktsson, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að það hafi haft áhrif á þessa þm. eins og okkur hina þm., að einmitt Norðurlöndin, strandríkin, höfðu ákveðið að vera í Atlantshafsbandalaginu. En við þurfum að gera okkur grein fyrir því, að alveg eins og ákvarðanir þeirra hljóta eðli málsins samkvæmt að hafa áhrif á okkur, þá hefur það mikil áhrif á Norðurlöndin frá þessu sjónarmiði, hvað við gerum, þegar við erum að taka okkar ákvarðanir í sambandi við Atlantshafsbandalagið.

Ég sé hérna, að hæstv. utanrrh. telur ekki óeðlilegt að draga þá ályktun, að friðarhorfur í okkar hluta heims séu betri en oft áður. Af því að ég fór að vitna til ýmissa annarra, sem draga það í efa, þá vil ég á engan hátt vera að leggja dóm á þetta honum til lasts, heldur get ég vel tekið undir það, sem sagt var áðan af öðrum hv. þm., að það sé aðeins mannlegt og eðlilegt að líta svo á, en hér þarf vissulega að skoða málið frá mörgum sjónarmiðum og vandlega, eins og ráðagerðir eru, að ég hygg, uppi um.

Einn þm. minntist aðeins lauslega á þann þáttinn, sem snertir efnahagsmálin og viðræður okkar á því sviði við þjóðir Evrópu í Efnahagsbandalaginu og EFTA, og það kemur sérstaklega fram í skýrslu hæstv. ráðh., að á það hefur verið lögð áherzla. Þar segir svo um það: „Drög samningsumboðsins hafa að vísu enn ekki verið birt, en vitað er, að í því eru ákvæði um tengsl milli tilboðs Efnahagsbandalagsins um tollaívilnanir á sjávarafurðum og réttinda bandalagsþjóðanna til fiskveiða á Íslandsmiðum.“

Ég vil af þessu tilefni taka það fram, að það hefur aldrei mér vitanlega í viðræðum við ríki Efnahagsbandalagsins nokkurn tíma af hálfu Íslendinga verið gefið neitt vilyrði um rétt bandalagsþjóðanna til fiskiveiða á Íslandsmiðum, og reikna ég alveg með því, að afstaðan sé óbreytt að þessu leyti. Hins vegar var mér tjáð það í dag, að núv. hæstv. viðskrh. vildi halda áfram svokallaðri EFTA-nefnd, sem breytist þá eitthvað vegna þessara breyttu viðhorfa, þar sem nú er verið að ræða við Efnahagsbandalagsríkin og hefur verið boðaður fundur í slíkri n. á föstudaginn kemur og þangað hefur viðskrh. einnig boðað fulltrúa frá stjórnarandstöðuflokkunum, og mun ég ræða um það við minn flokk á morgun að tilnefna fulltrúa í þá n., og ég tel vel ráðið, að svo hafi verið gert. En hæstv. utanrrh. ítrekaði það líka, að við munum aldrei, eins og hann orðaði það, sætta okkur við neina nauðungarsamninga né gera landhelgi Íslands að verzlunarvöru, og undir þetta geta, held ég, allir alþm. heils hugar tekið.

Þá ætla ég ekki alveg að ganga fram hjá Evrópuráðinu, og það tel ég vel gert í skýrslu utanrrh. og eðlilegt að víkja að því. Hann segir um það sennilega alveg réttilega, að honum sé ekki grunlaust um, að heldur lítill skilningur sé hér á landi á starfsemi Evrópuráðsins. Það má vera, að það sé, en þá kannske vegna þess, að við Íslendingar höfum tæplega sjálfir staðið nógu vel að Evrópuráðinu og þátttöku í þeim margvíslegu málum, sem Evrópuráðið hefur fjallað um. Það getur vel verið, að kannske allsherjarfundir og Allsherjarþing Evrópuráðsins sem ráðgefandi samkoma séu hreint ekki merkilegasti þátturinn í starfsemi þessa ráðs, en það eru ráðherrafundir, eins og kunnugt er, og það eru ýmiss konar sérstofnanir, þ. e. samvinna á sviði menningarmála, mannúðarmála, vísindamála og ekki sízt það, sem hér er sérstaklega vikið að, að Evrópuráðið, eins og þar segir, hefur frá því fyrsta mjög helgað sig mannréttindamálum, og innan vébanda þess er starfandi mannréttindanefnd og mannréttindadómstóll, og er Ísland eitt af 11 aðildarríkjum Evrópuráðsins, sem viðurkennir dómsvald mannréttindadómstólsins. Já, þetta er hér sagt, að við séum bara 11 af aðildarríkjunum, sem viðurkennum dómsvald mannréttindadómstólsins, en ég tel það okkur til sóma, og ég tel einmitt, að það sé mjög æskilegt, að utanrrh. sæki ráðherrafundi Evrópuráðsins og við eflum samstöðu okkar á því sviði, ekki sízt á sviði þessara mála, sem varða réttargæzluna í þjóðfélaginu með hinum ýmsu þjóðum. Það er svo, að það hefur verið mjög náin samvinna milli Norðurlandanna um langan aldur á sviði réttargæzlu og mannréttinda í lögum, rétti og stjórnarskrám, og sú samvinna hefur færzt út á síðari árum við aukna samvinnu milli ríkjanna í Evrópuráðinu. Annað hvert ár eru haldnir dómsmálaráðherrafundir Evrópuríkjanna og þessi og önnur mál rædd þar, og þar hefur sérstaklega verið til þess tekið, að Norðurlöndin virðast vera langt á undan öllum öðrum ríkjasamtökum eða ríkjum í Evrópu með samvinnu einmitt á sviði þessara mála, sem eru jafnmikilvæg og raun ber vitni, og þess vegna fagna ég því, að að þessu er vikið — og engin vanþörf á því — í skýrslu hæstv. utanrrh.

Um landhelgismálið skal ég ekki fara neinum orðum nú vegna þess, eins og aðrir hafa sagt hér, að það hefur verið rætt sérstaklega.

Ég vil svo aðeins ljúka máli mínu með því að ítreka það, sem ég hef reyndar áður gert, að ég bíð hæstv. utanrrh. að misskilja ekki þá till., sem við sjálfstæðismenn flytjum og vitnað hefur verið til í þessum málum og er á þskj. 47. Hún þarf ekki að vera neitt furðuverk í augum neins háttv. þm., þó að svo hafi verið tekið til orða áður, en það er einmitt í sambandi við hana, sem ég mundi mjög gjarnan vilja spyrja spurninga, sem kannske hefur þegar verið varpað fram. 1) Liggur það fyrir, með hvaða hætti ríkisstj. hyggst haga endurskoðun varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins og hverjir verða fulltrúar ríkisstj. í þeim samningaviðræðum? Þetta er nú einföld spurning, sem ætti að vera auðvelt að svara. Mér þætti mjög vænt um, ef svör við henni kæmu fram. 2) Telur utanrrh. ekki líklegt, að valdið geti tortryggni, að hann hefur fallizt á að hafa einkum samráð við tvo ráðh. í ríkisstj. í sérstakri ráðherranefnd um öryggis- og varnarmál, en þessir tveir ráðh. hafa jafnan beitt sér gegn samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins og krafizt þess, að Ísland segi sig úr bandalaginu? Ég verð að hafa fyrirvara um annan þennan hæstv. ráðh. Það virtist koma fram hér áðan hjá honum og mátti skilja það á þá leið, að hann væri annars sinnis en áður fyrr, og væri það vel. Og loks: Af hvaða tilefni verður til slík ráðherranefnd um varnarmálin, sem upphaflega var sagt frá í Þjóðviljanum? Mér er ekki kunnugt um neitt fordæmi slíkrar ráðherranefndar. Ég þekki það ekki. Utanrrh. sagði, að hann gæti nefnt mörg dæmi, sem væru svipuð þessu hjá erlendum þjóðum. Það væri gott, að hann gerði það. Hann bætir þá úr fáfræði okkar hinna. Hér á landi veit ég ekki um neitt sambærilegt við þetta, því að það er algjörlega ósambærilegt, þó að ráðh. á milli funda taki það að sér sérstaklega að vinna að einhverjum málum, sem eru þess eðlis, að þau heyra sameiginlega undir fleira en eitt rn.

Hér er sett á laggirnar sérstök ráðherranefnd. Við vitum að vísu ekki, hvernig hún var sett á laggirnar. Mættum við fá að heyra það? Var það fyrir stjórnarmyndun eða var það eftir stjórnarmyndun? Var það á stjórnarfundi? Er til samþykkt um það í ríkisstj.? Og af hvaða tilefni er hún sett á laggirnar? Ég geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. utanrrh. þyki spurningar eins og þessar neitt annað en eðlilegar, en þær eru m. a. til þess fallnar að skýra svolítið betur afstöðuna hér á þingi.

Margt skýrist auðvitað betur, þegar mál eins og þessi eru rædd í n., ef þau fara til n., sem verður að gera ráð fyrir, en eins og ég segi, þá er flutningur þál. okkar á þskj. 47 í samræmi við höfuðmarkmið okkar, og einmitt þess vegna fögnum við því, að slík skýrsla, sem gefur tilefni til umræðna, er lögð fram af hæstv. ráðh., því að höfuðtilgangur okkar er sá, að a. m. k. hér á Alþ. sé hægt að ræða þessi mál fordómalaust fyrir opnum tjöldum og frammi fyrir alþjóð að sjálfsögðu. Ég hygg, að málið sé þannig vaxið í dag, að meginþorri almennings óski eftir og telji til góðs, hvort sem menn eru nú með eða á móti, að a. m. k. þjóðin viti, að hverju stefnir, og ekki sé farið dult með eða menn þurfi lengur að vera að deila um það, hvað felist í sjálfum stjórnarsamningnum, t. d. um varnar- og öryggismál landsins.