23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

Skýrsla um utanríkismál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég var rétt að koma til þings og er hér ekki með neina sérstaklega undirbúna ræðu, en get þó ekki stillt mig um að blanda mér ofurlítið í þessar umræður.

Háttv. þm. Jóhann Hafstein sagði hér áðan, að hann vonaði, að sú till., sem hér hefur allmikið verið rædd, þ. e. till. sjálfstæðismanna til þál. um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál, ylli ekki neinum misskilningi. Það er ekki nokkur minnsta hætta á því, að þessi till. valdi misskilningi. Það er alveg ljóst, hvað fyrir flutningsmönnum vakir, og það verð ég að segja, að ég furða mig á því að lesa þau nöfn, sem eru meðal nafna flm. þessarar till. Ég efast um það, að þess séu mörg dæmi í sögu okkar, að jafnmargir ágætir og margrómaðir lýðræðissinnar hafi sameinazt um jafnólýðræðislegt mál.

Ég get ekki stillt mig um að vekja til að mynda athygli á einu atriði. Í grg. með till. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, þar sem talað er um tvo ráðh., sem eigi að ráðgast svolítið við utanrrh. í sambandi við varnarsamninginn svonefnda: „Ekki er vitað annað en að þessir tveir ráðherrar hafi alla tíð verið andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Slík ráðstöfun hlýtur mjög að skaða málstað landsins í viðræðum við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkjastjórn um varnarmálin, en er einnig til þess fallin að skaða mjög orðstír landsins á erlendum vettvangi, nú er sízt skyldi, þar sem nauðsyn ber til að vinna fylgi málstað okkar í landhelgismálinu.“

Ég spyr: Ef ástæða er til þess, að Alþ. fordæmi þessa ráðstöfun og komi því til leiðar, að þessum tveimur ráðh. verði vikið úr þessari n., er þá ekki enn þá meiri ástæða til þess vegna hagsmuna okkar í landhelgismálinu, að Alþ. samþykki ályktun um það að víkja núv. hæstv. sjútvrh. úr embætti? Ég spyr: Er það ekki fyrir neðan virðingu Alþ. að ganga svo langt að taka jafnvel til umr. till. þess efnis, að Alþ. geri örgustu ofstækisskrif Morgunblaðsins að ályktun sinni? Ég sé ekki betur en að í samræmi við þann málflutning, sem við höfum heyrt hér af hálfu sjálfstæðismanna, þá gæti það alveg eins komið til mála að flytja till. um það, að núv. hæstv. sjútvrh. verði vikið úr embætti vegna þess, að hann er kallaður kommúnisti í Morgunblaðinu.

Nú skal ég segja ykkur sögu. Það vill svo til, að Morgunblaðið er ekki lesið um allan heim; það er t. d. ekki lesið í Boston. Ég var í Boston á merkum fundi nú ekki alls fyrir löngu, þar sem saman voru komnir forystumenn stjórnmála þeirra ríkja, sem einu nafni nefnast Nýja-England; það eru sex ríki. Þessi fundur var haldinn til að knýja á um kröfuna um útfærslu fiskveiðilögsögunnar útí fyrir ströndum Nýja-Englands. Það hefur nú reyndar borið þann árangur núna nýlega, að Sargent, ríkisstjóri í Massachusetts, hefur undirskrifað lög þess efnis, að fiskimálastjóra ríkisins sé heimilt að setja ákveðnar reglur um þetta. Svo er annað mál, hvað alríkisstjórnin segir við því. Á þessum fundi flutti ég ávarp fyrir hönd sjútvrh. Íslendinga, og ég skal játa það, að ég gat ekki stillt mig um að láta þess getið í leiðinni, svona rétt til að villa ekki á mér heimildir, hver ég væri pólitískt hér. Ég væri t. d. töluvert til vinstri miðað við þá skilgreiningu, sem maður sæi í blöðum þar í Bandaríkjunum, að ríkisstjórnin væri, þ. e. „left of center“. Sumir okkar væru töluvert meira til vinstri en það, og sá ráðh., sem ég væri fulltrúi fyrir, og okkar flokkur berðist fyrir því t. d., að herinn færi af Keflavíkurflugvelli, og til þess hefðum við okkar eigin ástæður. Og ég lét þess getið líka, að við værum kallaðir kommúnistar af ýmsum ágætum mönnum hér uppi, þ. á m. af einum mætum flokksforingja, fyrrv. forsrh., Jóhanni Hafstein að nafni. Þessu fólki þarna varð bara ekkert bilt við þetta. Þegar ég síðar hvatti til þess, að við Íslendingar og þeir í Nýja-Englandi stæðum saman um kröfur okkar í landhelgismálum, þá fékk það vægast sagt mjög góðar undirtektir, og ég efast um, að það hefði fengið nokkuð betri undirtektir, þó að mér hefði veitzt sá sómi að geta sagt, að ég talaði þarna fyrir hönd hins sómakæra borgarstjóra í Reykjavík.

Þetta er til marks um það, að það sálarlíf, sem hér er túlkað af hálfu Sjálfstfl., er ekki ríkjandi, guði sé lof, í veröldinni allri, og Morgunblaðið, eins og ég sagði, er ekki lesið í Boston.

En það er annað þýðingarmikið atriði, sem ég vildi víkja að, mjög þýðingarmikið atriði. Háttv. 8. landsk. þm. gerði hér að umtalsefni aukinn flotastyrk Rússa á Norðaustur-Atlantshafi og aukið hernaðarbrambolt þeirra hér í námunda við okkur. Reyndar skaut hann fram sögulegri fullyrðingu, allathyglisverðri. Ég tók ekki eftir, hvaða ár hann nefndi, en hann tiltók árið, þegar fyrsta rússneska herskipið sigldi allt í kringum Ísland. Þetta fór fram hjá mér, þetta merkisár, en það heyrði ég, að hann tiltók alveg sérstaklega. Við höfum sjálfsagt allir tekið eftir þessum fullyrðingum um aukinn flotastyrk Rússa, enda hafa þeir verið þarna með æfingar. Ýmsir mætir menn fullyrða jafnvel, hvað þeir hafi mikið af skipum og hvað margir kafbátar séu á ferðinni o. s. frv. Að mínum dómi eru þetta ekki neinar sannanir, vegna þess að þeir, sem þetta fullyrða, eru venjulega þeir, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við aukið hernaðarbrölt og styrjaldarótta, aðmírálar og aðrir slíkir. Bezt gæti ég trúað því, að það væri ákveðið svona öðru hverju í flotamálaráðuneyti Bandaríkjanna, hvað okkur skuli talin trú um hverju sinni varðandi tölu rússneskra kafbáta og herskipa kringum landið. En það er annað mál. Hitt er staðreynd að sjálfsögðu, að það hefur borið æ meira á þessum æfingum Rússa.

Þess vegna tel ég, að það komi mjög svo til mála, að við Íslendingar felum sendinefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum að beita sér fyrir tillögu þess efnis, að tiltekið svæði hér á Norðaustur-Atlantshafi, sem allra stærst svæði, sem Ísland væri á, yrði friðlýst. Þarna myndum við fara að dæmi Ceylon-manna og Tanzaníu-manna, sem fluttu núna á þingi Sameinuðu þjóðanna tillögu um friðlýsingu Indlandshafs. Þetta kann að virðast óraunhæf tillaga, en margt það, sem virtist óraunhæft í fyrra og hitteðfyrra, er raunhæft í dag, svo örar eru breytingarnar. Í allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna var samþykkt að taka þessa tillögu fyrir, og ég aflaði mér upplýsinga um viðhorf ýmissa fulltrúa til hennar, og það er ekki annað sýnna en hún verði samþykkt á þessu þingi, — sem sé tillaga um friðlýsingu alls Indlandshafsins, sem er allmiklu stærra en það svæði, sem ég var að nefna rétt áðan.

Hvað felst í þessari friðlýsingu? Ég held, að það sé rétt, að ég lesi hér upp kafla úr grg. frá Amerasinghe, aðalfulltrúa Ceylon hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann er reyndar sá maður, sem talinn er ásamt Jakobson hinum finnska líklegastur til að verða framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, m. ö. o. þessi maður, sem flytur þessa tillögu, kynni eftir fáeinar vikur að vera orðinn framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Ég ætla að lesa hér kafla úr þeirri grg., sem hann lét fylgja þessari tillögu, þegar hún var lögð fram í allsherjarnefnd:

„Kjarninn í tillögu Ceylon er, að gervallur útsær Indlandshafs verði lýstur friðhelgur gagnvart vígvélum, hvort heldur er til sóknar eða varnar, og einungis megi nýta hann í friðsamlegum tilgangi. Herskip og önnur skip, er hafa vígbúnað um borð, fái að vísu að sigla yfir hafið,“ — þannig að stórveldin Rússar og Bandaríkjamenn, þessi tvö stórveldi, sem líkleg eru til að berjast gegn þessari tillögu, gætu a. m. k. ekki sagt, að þarna sé verið að skerða siglingafrelsið. Þessi herskip og önnur skip, er hafa vígbúnað um borð, fá að vísu að sigla yfir hafið — „en ekki hafa þar neina töf á, nema um sé að ræða neyðartilfelli,“ — þ. e. slys eða eitthvað slíkt um borð í skipunum eða sjávarháska. „Hið sama á við um kafbáta, siglingar þeirra í og á Indlandshafi verði bannaðar, nema sannað sé, að förin sé farin í friðsamlegum tilgangi. Flotaæfingar, njósnir á sjó og tilraunir með vopn verði með öllu óleyfilegar.“

Þetta mundi ég telja, að ætti að vera inntakið í okkar tillögu, sem við mundum náttúrlega skilgreina nánar á ýmsan hátt.

Ég ætla svo ekki að lengja frekar mál mitt um þetta, að þessu sinni, en ég skýt því til þess mæta manns, 8. landsk. þm., —- sem hugleiðir alþjóðamál mikið og er nú fulltrúi fyrir kannske skynsamlegri stefnu stjórnarandstöðunnar en sú stefna er, sem hér hefur verið túlkuð af hálfu sjálfstæðismanna, — hvort hann teldi ekki líkur á því, að við gætum nokkrir hér sameinazt um að fá það samþykkt hér á Alþ., að sendinefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum verði falið að beita sér fyrir þessu. Það er að sjálfsögðu orðið of seint á þessu Allsherjarþingi að fá þetta í gegn, en það er hægt að fá þetta í gegn á næsta Allsherjarþingi. Menn segja að sjálfsögðu, að það sé hægt að setja reglur, en þær verði brotnar og þeir, sem þarna eiga hluta að máli, annars vegar Bandaríkjamenn og hins vegar Rússar, mundu ekki virða þetta. Það er þannig um öll lög og allar reglur, að þær eru brotnar. En hér yrði a. m. k. um siðferðilega yfirlýsingu, óumdeilanlega siðferðilega afstöðu að ræða, af hálfu Sameinuðu þjóðanna og okkar, sem yrði ómetanlegt framlag til friðar í heiminum.

Ég vil enda með því að bæta því við, að áðurnefndur Amerasinghe, fulltrúi Ceylon, og ég ræddum þetta mál, og hann sagði, að þetta væri einmitt það, sem fyrir þeim vekti, að sem flestir færu að dæmi þeirra, gerðu hreint fyrir sínum dyrum, og einn góðan veðurdag, sagði hann, verðum við búnir að friðlýsa þennan hnött okkar.