23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

Skýrsla um utanríkismál

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Því er ekki að neita, að umræður um utanríkis- og öryggismál okkar Íslendinga mótast mjög af þungum ásökunum hvers í annars garð. Málflutningur manna er of oft fólginn í órökstuddum fullyrðingum, og kjarni hvers málstaðar jaðrar við öfgar og brigzl. Ásakanir og aðdróttanir ganga á víxl, og öryggismál og þó einkum varnarmál eru ekki rædd í þeim anda, að leitt geti til samkomulags. Tilgangurinn virðist ekki vera sá, að deilur skuli jafnaðar. Ræða hv. 4. þm. Reykn. hér fyrr í dag er ljós vottur þessa málflutnings, en í þeirri ræðu var að finna ummæli um málflutning sjálfstæðismanna, sem ræðumaður lýsti sem óhemjuskap, svikabrigzlum, lágkúrulegum málflutningi, ofstækisskrifum, nátttröllaáróðri og móðursýkishrópum. Ungt fólk, sem afskipti hefur af stjórnmálum, verður gjarnan fyrir áhrifum af slíkum málflutningi, ánetjast fyrrnefndum rökum og gleymir sjálft að leggja eigið mat á reynslu og staðreyndir. Þó væri í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að ný kynslóð, sem ekki hefur mótazt af styrjöldum og spennu, gæti metið ástandið hlutlaust, svo fremi skynsemi ráði í stað hleypidóma og að því tilskildu, að annarleg sjónarmið séu ekki höfð að leiðarljósi.

Ég mun ekki setjast sjálfur í dómarasæti, telja mig þess umkominni að sjá einn í réttu ljósi samhengi skoðana og stefnu, hafna rökum eða lítilsvirða fullyrðingar. Ég skal játa, að forsendur mínar í umræðum um öryggismál eru sjálfstæði þjóðarinnar, frelsi og lýðræði, andúð á ofbeldi og yfirgangi erlendis frá. Ég tel reyndar, að það sjónarmið sé efst í huga allra sannra Íslendinga án tillits til stjórnmálaskoðana, og ágreiningur okkar stafar ekki af óheilum hvötum, heldur af því, að okkur greinir á um, á hvern hátt öryggi okkar sé bezt varðveitt. Fyrir fram vil ég engan dæma eða saka um landráð, svik við framangreindar hugsjónir, undirlægjuhátt eða falska þjóðhollustu. Ég geng út frá því, að öllum Íslendingum, hvar í flokki sem þeir standa, gangi gott til að íslenzkir hagsmunir, sjálfstæði þjóðar, vaki fyrir okkur öllum. Mér dettur ekki í hug eitt andartak að halda því fram, að menn séu mismunandi miklir íslendingar, eftir því hvar í flokki þeir standa, að þeir, þrátt fyrir ýmsar stjórnmálaskoðanir, sem eru andstæðar Sjálfstfl. t. d., vilji leiða yfir þessa þjóð yfirráð annarra þjóða, ófrelsi eða sviptingu mannréttinda. En ég fer þá sömuleiðis fram á, að stjórnmálaandstæðingar þess flokks, sem ég styð, láti af slíkum ásökunum, saki sjálfstæðismenn ekki um undirlægjuhátt eða landsölu, enda þótt þeir, þ. e. sjálfstæðismenn, eins og á stendur, séu fylgjandi samstarfi við aðrar þjóðir um hervernd landsins. Við getum hins vegar játað, að mismunandi stjórnmálaskoðanir hafi áhrif á afstöðu okkar til öryggismála eða varnarmála. Skilningur eða öllu frekar túlkun okkar á gildi og hlutverki hinna ýmsu stjórnmálakenninga ræður mestu í mati okkar á því, hvernig sjálfstæði þjóðarinnar verður bezt varðveitt, hvernig öryggi okkar verður bezt tryggt. Um leið og þessi sjónarmið eru skiljanleg, er hér um að ræða annarleg áhrif á það sjálfstæða mat, sem verður að fara fram, þegar um öryggismál eigin þjóðar er að ræða. Öryggi landsins, sjálfstæði þjóðarinnar, hlýtur að eiga sér forsendur, hafa sjálfstætt gildi án tillits til þeirra stjórnmálaskoðana, sem ráða ferðinni í þjóðfélaginu hverju sinni. Öryggið og sjálfstæðið er jafnmikils virði án tillits til þeirra stjórnmálaskoðana og án tillits til þess, hvort hér situr viðreisnarstjórn eða vinstri stjórn.

En menn kunna þá að spyrja, hvað erum við þá að vernda? Í hverju felst öryggi okkar? Og til hvers að verja sig gegn vondum kommúnistum, ef þeir geta tekið völdin innan frá? Hvers virði er sjálfstæði þjóðar, sjálfstæði einstaklings, þegar það síðarnefnda er einskis virt? Ég spyr ekki vegna þess, að ég hafi ekki sjálfur svör á reiðum höndum, heldur vegna þess, að slíkar spurningar koma upp í huga hvers þess, sem ann sjálfstæði þjóðar, en lýðræði og mannréttindum um leið. Stjórnmálabarátta Íslendinga sjálfra í formi flokkadrátta er eitt, sjálfstæðisbarátta þeirra út á við er annað. Ég tel sjálfan mig lýðræðissinnaðan og tek þátt í stjórnmálum með þær skoðanir að leiðarljósi. Ég berst gegn einræði og ofbeldi, og ég hef andstyggð á kommúnisma jafnt sem fasisma. En ég get ekkert við því sagt, ef slíkar kenningar verða ofan á meðal þjóðarinnar með lýðræðislegum hætti, ef þjóðin kýs yfir sig slíkt stjórnarfar, þá ræður hennar vilji. Barátta Íslendinga fyrir öryggi og sjálfstæði heldur áfram án tillits til stjórnmálaástandsins innanlands gegn erlendri íhlutun, gegn utanaðkomandi yfirráðum.

Ég veit ekki, hvort ljóst er, hvert ég er að fara með þessum orðum mínum, en ég vildi hafa þennan formála að máli mínu til þess að leggja áherzlu á, að öryggismál eiga í rauninni að vera hafin yfir allt dægurþras, og til þess að vekja athygli á, að öryggi Íslands er ekki ógnað um aldur og ævi úr einni og sömu áttinni. Nýjar hættur geta steðjað að. M. ö. o., öryggismál Íslands á ekki að ræða út frá því eina sjónarmiði, að hætta stafi frá Sovétríkjunum og menn komist að þeirri niðurstöðu, að sé sú ógnun ekki lengur fyrir hendi, þá sé öryggi þjóðarinnar borgið, þá muni friður ríkja um alla eilífð. Bandarískt varnarlið á Íslandi er aðeins einn þáttur í öryggismálum, og er engan veginn kjarni þessara mála. Sjálfstæð þjóð getur aldrei orðið varnarlaus, hvort sem herforingjar, stjórnmálamenn eða aðrir spekingar telja ástand í heimsmálum friðvænlegt á einhverju tilteknu augnabliki. Hvernig við viljum haga þessum vörnum er því afleiðing en ekki orsök þeirrar forsendu, að öryggi Íslands verði tryggt með einum eða öðrum hætti um alla framtíð.

Íslendingar hafa valið þann kost að hafa samstöðu með öðrum vestrænum þjóðum um öryggismál sín. Það hefur verið gert með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og þeirri skyldu, sem við höfum tekið á okkur með því aðleyfa varnarstöð hér á landi. Í þessum umræðum tel ég nauðsynlegt að gera greinarmun annars vegar á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu við stofnun þess og forsendum þeirrar aðildar og á hinn bóginn áframhaldandi aðild og tilvist bandaríska varnarliðsins hér á landi nú. Þennan greinarmun, þetta sjónarmið mitt, vil ég leyfa mér að útskýra nokkru nánar.

Allir þeir, sem hirða um skynsemi og staðreyndir, munu viðurkenna, að sögulegar staðreyndir sanna, að forsenda stofnunar Atlantshafsbandalagsins var ógnunin af yfirgangi Sovétríkjanna og tilgangur bandalagsins var sá að verja frelsi og sjálfstæði þeirra ríkja, sem eftir stóðu í Vestur-Evrópu. Þessi ríki vildu ekki kalla yfir sig ógnarstjórn kommúnismans, og ég vil leyfa mér að vitna til nál. meiri hl. varnarsamningsnefndar Alþ. frá árinu 1951, þar sem segir m. a.:

„Að aflokinni síðustu heimsstyrjöld vonaði og þráði meginhluti mannkynsins, að koma mundi langvarandi friðartímabil. Í trausti þess og því til styrktar voru samtök Sameinuðu þjóðanna stofnuð. Þjóðir Bandaríkjanna og Bretlands sýndu og trú sína um frið í verki. Þær tóku þegar að afvopnast, og herstyrkur þessara stórvelda varð bráðlega aðeins rúmlega tíundi hluti af því, er þær höfðu haft í stríðslok. En Sovét-Rússland hegðaði sér á aðra lund. Þar voru 4 milljónir manna áfram hafðar undir vopnum, eða helmingi meiri her en samanlagt var um þær mundir í Bretlandi og Bandaríkjunum. Og samtímis gerði Sovét-Rússland Rúmeníu, Pólland, Ungverjaland og Tékkóslóvakíu að leppríkjum sínum og studdi þar að hervæðingu, sem, bráðlega varð raunverulega hluti af her Rússlands og undir þess stjórn. Þannig myndaðist hin geigvænlega austurblökk, grá fyrir járnum og ógnandi, það varð upphaf hinna ótryggu tíma.“

Ég vil ekki rekja þessa ívitnun lengur. Hún er til stuðnings þeirri forsendu, sem ég var að gera grein fyrir, sem olli stofnun Atlantshafsbandalagsins.

Á þessum árum héldu íslenzkir sósíalistar uppi vörnum fyrir Sovétríkin og framferði þeirra, bæði í heimalandi þeirra sem og í leppríkjunum, og viðurkenndu ekki þá ógnarstjórn og þá kúgun, sem Sovétríkin beittu hinar undirokuðu þjóðir. Þessi afstaða íslenzkra sósíalista hefur smám saman tekið breytingum á seinni árum og liggja ýmsar orsakir eflaust til þess. Ræða Krúsjeffs, atburðirnir í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu, breyttar baráttuaðferðir og að einhverju leyti nýtt fólk í hópi þessa stjórnmálaflokks. Látum það liggja milli hluta, en staðreyndin er hins vegar sú, að vinstri sósíalistar, Alþb.-menn, arftakar gömlu kommúnistanna hafa afdráttarlaust fordæmt framkvæmd kommúnismans í Sovét og undirokun og frelsissviptingu Austur-Evrópuþjóðanna. Með þessari fordæmingu hafa þeir auðvitað viðurkennt þau rök og þann málflutning, sem þeir höfnuðu 1949 og 1951, en sem réð afstöðu okkar til aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu. Ég get ekki betur séð né aðrar ályktanir dregið, ef núv. Alþb. fordæmir ofbeldisstefnu Sovétríkjanna og lýsir andúð sinni á framkvæmd sósíalismans þar, en að sá flokkur hljóti um leið að viðurkenna nú um síðir réttmæti stofnunar Atlantshafsbandalagsins og aðildar okkar að því. Þeir geta verið á móti þeirri þjóðfélagsskipan, sem við höfum búið við, en þeir hafa vissulega fallizt á með þessum fordæmingum sínum og afneitunum, að drottnun Sovétríkjanna var ekki eftirsóknarverð fyrir Evrópu og Ísland. Það hefur sagan sýnt og sannað. Við skulum því láta af karpi um stofnun bandalagsins og upphaflega þátttöku okkar í því og ganga út frá þeirri staðreynd, að aðild okkar að NATO hafi átt fyllsta rétt á sér, a. m. k. í huga þeirra, sem ekki vildu og vilja kalla yfir sig kommúnisma Rússanna.

Við skulum þessu næst snúa okkur að þeirri spurningu, hvort áframhaldandi aðild eða þá öllu heldur áframhaldandi dvöl bandaríska varnarliðsins sé æskileg eða nauðsynleg nú í dag fullum 20 árum síðar. Fyrir þá, sem vilja horfast í augu við staðreyndir, fyrir þá, sem í einlægni trúa á samstarf lýðræðisþjóðanna og nauðsyn Atlantshafsbandalagsins, fyrir alla þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir eftirfarandi: Stofnun og tilgangur Atlantshafsbandalagsins mótaðist á sínum tíma af hræðslunni við kommúnista. Sú forsenda þarf ekki að vera eilíf. Aðstæður geta breytzt. Eins og fyrr segir, er verndun og öryggi Íslands ekki einskorðað við vonda Rússa. Við teljum okkur lýðræðisþjóð, og við viljum vernda þau mannréttindi, sem þeim hugsjónum fylgja. En lýðræðinu stendur ógn og hætta af fleira en kommúnismanum, og kommúnisminn getur reynzt vera í öðrum búningi en í gervi rússneska bjarnarins. Það er kapítuli út af fyrir sig. En ofbeldi og einræði á sér víðar stað, og víða má benda á brotalamir. Nærtækast er að minnast á einræðið í Grikklandi, nýlendustefnu Portúgala, jafnvel framkomu Breta í þorskastríðinu, athæfi Bandaríkjamanna í Víetnam o. s. frv. Sovétríkin verða vonandi ekki ævarandi fjötruð niður af ægivaldi kommúnismans, og við skulum vera minnug þess, að við erum ekki andsnúin þjóðinni, heldur stjórninni og stjórnarfyrirkomulaginu í Sovét. Grikkir eru ekki verra fólk, enda þótt þeir hafi fengið yfir sig breytt stjórnarfar. Jafnvel í Bandaríkjunum geta komizt til valda öfl eða menn, sem breytt geta stjórnmálum eða stjórnarfari þar í landi í þá átt, að á því munum við hafa fulla andúð. M. ö. o., aðstæður geta breytzt og eru alltaf að breytast; allt er slíkum breytingum undirorpið. Af þessum sökum er augljóst, að við Íslendingar verðum að vera vakandi og reiðubúnir til endurskoðunar, ef við viljum vera hugsjónum okkar og sjálfstæði trúir.

Ungt fólk stendur frammi fyrir breyttum tímum frá því, sem var, þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað. Atburðir síðustu styrjaldar eru sögulegir bautasteinar, Frelsistilraunir Tékka og Ungverja og Slóvaka eru löngu liðnar í hugum þess, og jafnvel þótt það muni þessa atburði, þá er atburðarásin svo hröð, að stuttur tími varpar daufu ljósi á þessa mynd, slævir áhrif slíkra atburða. Ungt fólk er ekki alið upp við spennu kalda stríðsins, heldur í skugganum af vetnissprengjum, það þráir frið og hefur óbeit á hernaðarbandalögum, skilur það eitt, að vopn tákni stríð og manndráp og gengur í lið með þeim stjórnmálahreyfingum, sem í orði kveðnu hafna slíkum vopnabandalögum. Ungt fólk er fjölfrótt um svívirðilega stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Suðaustur-Asíu á sama tíma og Sovétleiðtogar ferðast með friðarbros um heiminn, taka þátt í því að draga úr spennu í Evrópu og sýna á sér það andlit, sem gerir það nánast hlægilegt að halda því fram, að fyrir þeim vaki annað en friður og sættir. Ég læt hins vegar skynsemi og dómgreind hvers og eins um það að dæma, hvort skoða beri sovézka kommúnistaleiðtoga sem boðbera friðarins, en vissulega hefur þessi atburðarás haft sín áhrif á ungt fólk hér á landi sem annars staðar.

Á sama tíma hafa íslenzkir sósíalistar tekið upp breyttar baráttuaðferðir. Þeir fyllast vandlætingu, ef þeir eru kallaðir kommúnistar, og biðla til lýðræðisins og nytsamra sakleysingja með réttlátum ákafa. Þau öfl, sem Þórarinn Þórarinsson kallar kommúnistana í ríkisstj. og Hannibal Valdimarsson kallar ólýðræðislegan flokk, eru orðin í augum allt of margra málsvarar „sjálfstæðisbaráttu“, hversu ankannalegt sem það kann nú að virðast í ljósi sögunnar. Allt þetta, þróun þessara mála, atburðarásin, áróðurinn, vekur upp andstöðu við Atlantshafsbandalagið og varnarsamstarf okkar, sem er á misskilningi byggð, og fær ungt fólk jafnvel til að vera í andstöðu við lífsskoðanir sínar. Þetta er háskaleg þróun og erfið öllum þeim, sem unna lýðræði og skilja hlutverk okkar í varnarbandalagi vestrænna þjóða. Þurfum við virkilega byltingu eða uppreisn í Austur-Evrópu á 5 eða 10 ára fresti til að minna á eðli kommúnismans, og þurfum við spennu og kalt stríð til þess, að fólk átti sig á málstað okkar og hlutverki varna hér á landi? Það er vissulega kaldhæðni örlaganna, ef Atlantshafsbandalagið er orðin ímynd hernaðar og íhlutunar, ef áróður andstæðinga þess hefur brenglað svo frelsishug okkar, að málsvarar marxisma og einræðis eru orðnir fánaberar frjálsræðis og frelsis.

En hvað segja nú andstæðingar Atlantshafsbandalagsins í dag? Hver eru rök þeirra fyrir því, að hér skuli ekki vera varnarstöð? Þeir segja: Í dag eru breyttir tímar. Við eigum ekki að taka þátt í hernaðarbandalagi og taka þannig þátt í vígbúnaðarkapphlaupi. Við eigum og viljum ekki hafa her á friðartímum. Við eigum að stuðla að friði og losa okkur við hernám Bandaríkjamanna. Við skulum virða þessi rök fyrir okkur nánar, og fyrst er það þá hernaðarbandalagið. Vissulega er NATO hernaðarbandalag, og þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að koma auga á, hvernig við getum fullnægt skyldum okkar í bandalaginu með öðrum hætti en þeim, sem hingað til hefur verið á hafður. En hernaðarbandalag getur haft tvö markmið, annað til árásar, en hitt til varna. Atlantshafsbandalagið var í upphafi stofnað sem varnarbandalag, og sagan hefur sannað, að annað vakti ekki fyrir bandalagsþjóðum. Ein af röksemdunum gegn varnarliðinu er einmitt sú, að hér sé um svo afskaplega fámennt lið að ræða, að það geti engum vörnum við komið, ef á annað borð sé á landið ráðizt. Þetta er alveg rétt, en undirstrikar einmitt það hlutverk, sem varnarliðinu er ætlað, þ. e. að hefja ekki árásir, heldur að fyrirbyggja árásir með eftirliti og aðstöðu. Í grg. meiri hl. varnarsamningsnefndarinnar frá 1951 á Alþ. var tekið fram m. a. eftirfarandi, hvað þetta atriði snertir:

„Um samning þann, er hér liggur fyrir fyrir Alþ. til staðfestingar, má það sama segja og um Atlantshafssáttmálann yfirleitt. Hvort tveggja er einungis gert til varnar. Það eru höfuðatriði málsins, sem aldrei má gleyma og sérstaklega ber að undirstrika. Með varnarsamningnum er alls ekki samið um neinn þann viðbúnað, sem til þess væri ætlaður að gera héðan hernaðarárásir á önnur lönd. Var þetta sérstaklega fram tekið í yfirlýsingu ríkisstj., sem birt var samtímis samningnum. Engri þjóð á að stafa árásarhætta af þeim viðbúnaði, sem hefur verið gerður og gera á.“

En hefur þetta varnar- eða hernaðarbandalag brugðizt þessu hlutverki sínu? Hefur ríkt styrjaldarástand í Evrópu? Er blika ófriðar á lofti, þar sem NATO hefur látið til sín taka? Nei, þvert á móti hefur friður haldizt í þessari heimsálfu allt frá stofnun bandalagsins, og með góðum og gildum rökum má halda því fram, að sú þíða, sem nú virðist vera að byrja að segja til sín sérstaklega í Þýzkalandsmálunum, eigi sér skýringu einmitt í hinni einörðu og ótvíræðu samstöðu lýðræðisríkjanna, því valdajafnvægi, sem bandalagið hefur skapað. Varnarbandalag þessara þjóða, hvort sem því er viðhaldið í sjálfu sér í skjóli vopna eða ekki, hefur stuðlað að friði og friðvænlegra ástandi en menn þekkja áður í þessum heimshluta.

Að þessu leyti má auðveldlega halda því fram, að Íslendingar hafi jafnvel með þátttöku í hernaðarbandalagi stuðlað að friði. Við höfum ekki talið það æskilegt í sjálfu sér, að erlent lið skyldi dvelja hér á landi, en reynslan hefur sýnt okkur, að vert hefur verið að færa þá fórn. Sú fórn var og er þátttaka okkar í vörnum frjálsra þjóða, skjaldborgin um sjálfstæði þeirra. Enginn getur spáð um, hvernig þróun sögunnar hefði ella orðið, en má ekki halda því fram, að Atlantshafsbandalagið hafi í raun tryggt sjálfstæði okkar, og sú fórn, sú sjálfstæðisskerðing, var ekki meiri en svo, að þegar sósíalistar, andstæðingar þessa bandalags komast til valda á Íslandi, þá telja þeir það einfaldan og eðlilegan hlut að vísa hinu erlenda stórveldi úr landi með einu pennastriki. Þrátt fyrir hrakspár og margtuggðar yfirlýsingar kommúnista fyrri ára og núv. forystumanna Alþb. um, að Bandaríkjamenn hygðust aldrei fara héðan, þá var ástandið ekki verra en svo, mannvonzkuleg heimsveldisstefna Bandaríkjanna er ekki meiri en það, að ég hef engan mann heyrt bera brigður á, að brottför varnarliðsins hefði ekki sinn eðlilega gang, ef þess væri óskað af íslenzkum stjórnvöldum. Og Bandaríkjamenn sjálfir hafa gefið opinbera yfirlýsingu um, að þeir mundu þegar í stað hverfa úr landi, þegar þess verður óskað.

Eitt af því auvirðilegasta í röksemdafærslunni gegn dvöl varnarliðsins er sú staðhæfing, að dvöl varnarliðsins auki hættuna á því, að á okkur verði ráðizt, ef til styrjaldar kæmi. Það má vera, að til séu þeir Íslendingar, sem telja sig fullsæmda af því að sitja hér hlutlausir og óáreittir, ef til styrjaldar kemur, meðan vinaþjóðir okkar berjast fyrir lífi sínu. En ég er ekki þannig skapi farinn, og svo held ég að sé um flesta Íslendinga. Þeir eru áreiðanlega menn til að axla þá byrði, sem ábyrgri samstöðu og frelsisbaráttu er samfara. Þess vegna skil ég ekki þann hugsunarhátt og hafna afdráttarlaust þeim rökum, að við Íslendingar eigum að taka þátt í varnarbandalagi án þess að leggja neitt af mörkum sjálfir og að við getum uppfyllt skyldur okkar án þess, að hér sé hlekkur í varnarkeðjunni. Samt ætlumst við engu síður til aðstoðar annarra, ef til átaka kemur. Ég held, að þessu sjónarmiði verði ekki gerð betri skil en með eftirfarandi tilvitnun í Bjarna heitinn Benediktsson, sem rituð var af sama tilefni: „Sá, sem ekki vill sjálfur einhverju fórna, er ekki þess virði, að honum sé hjálpað.“

Þá er því haldið fram, að landið sé hernumið, talað um hernámsandstæðinga, að létta þurfi af þjóðinni þessu óskaplega hernámi Bandaríkjamanna. Annaðhvort er hér um að ræða hugtakarugling ellegar viljandi misnotkun á þessu orði. Hernám er ástand, sem þvingað er upp á þjóð nauðuga viljuga með valdi og ofbeldi. Slíkt er ekki til staðar hér, eins og núv. ríkisstj. hefur raunar sannað með yfirlýsingum, sem fela í sér einhliða ákvarðanir okkar um brottflutning varnarliðsins.

Í framhaldi af atburðunum í Tékkóslóvakíu 1968 sagði m. a. núv. form. Alþb., að árás Rússa inn í landið, þ. e. Tékkóslóvakíu, væri staðfesting á því, að smáar þjóðir ættu ekki að taka þátt í hernaðarbandalögum. Stórveldin væru búin að skipta heiminum á milli sín. Við hefðum ekkert að óttast af hálfu Rússa. Við værum ekki á þeirra yfirráðasvæði. Það má vera, að hann og hans líkar hafi sætt sig við, að þjóðir í Austur-Evrópu verði um aldur og ævi undir oki Sovétríkjanna, en ég a. m. k. geri mér vonir um, að sú stund renni upp, að þær öðlist frelsi á nýjan leik, losni undan yfirráðum Sovétríkjanna. Að því leyti viðurkenni ég engin áhrifasvæði, hvorki austan megin né vestan. En um hitt spyr ég nú: Er við því að búast, að Bandaríkin hverfi héðan þegjandi og hljóðalaust af þessu áhrifasvæði sínu, ég tala nú ekki um, þegar vondir kommúnistar uppi á Íslandi krefjast þess, eða hvað er nú orðið um kenningar Brezhnevs og Ragnars Arnalds, og hver var að tala um hernám?

Í varnarbandalagi vestrænna þjóða hafa Bandaríkjamenn axlað þyngstu byrðarnar. Þeir stóðu í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn nasistunum. Þeir komu fyrstir til hjálpar uppgefnum þjóðum að styrjöldinni lokinni, og þeir gengu fram fyrir skjöldu til að mæta útþenslustefnu kommúnista, en um leið og við metum hlutverk þeirra í styrjöldinni og baráttu þeirra gegn kommúnistunum, þá lýsum við yfir vonbrigðum okkar yfir framgangi þeirra í Víetnam, sem mjög hefur dregið úr trú hins frjálsa heims á forystuhlutverki Bandaríkjanna. Í Víetnam hefur tilgangurinn því miður of oft helgað meðalið, og þar eins og víðar hefur ósveigjanleg andstaða gegn kommúnistum aflað þeim bandamanna, sem eru engu betri. Herforingjastjórnin í Grikklandi og gervilýðræðið í Suður-Víetnam eru áþreifanleg og átakanleg dæmi.

En þessir atburðir mega þó ekki draga úr baráttuþreki eða kjarki þeirra manna, sem á annað borð vilja standa vörð um lýðræði og frelsi. Þátttaka Grikklands í Atlantshafsbandalaginu dregur ekki úr tilgangi bandalagsins. Styrjaldaraðgerðir Bandaríkjamanna í Víetnam fella ekki dóm yfir stjórnskipulagi í Bandaríkjunum og friðarhjal Rússa afsannar ekki ógnarstjórn þeirra í Austur-Evrópu. Batnandi og friðvænlegra ástand í heimsmálunum dregur ekki úr mikilvægi varna og öryggis hér á landi. Vissulega særir það þjóðerniskennd okkar allra, að hér skuli dveljast erlent varnarlið, og sú staðreynd er öllu viðkvæmari, þar sem það lið kemur frá einu mesta stórveldi heims, en ég held þó, að þjóðerniskennd okkar yrði ekki betur borgið, enda þótt annarra þjóða menn væru hér í staðinn, og fagna ber þeim ummælum bæði forsrh. og utanrrh., að þeir vilji enga fremur en Bandaríkjamenn, ef nauðsyn krefst þess á annað borð, að við hér þurfum á erlendum varnarliðsmönnum að halda. Þær yfirlýsingar stangast sannarlega á við brigzlyrði, sem úr röðum annarra stjórnarflokka hafa komið í garð þessa vesturheimska stórveldis.

Alþb. hefur hlutleysi á stefnuskrá sinni. En hver er reynsla smáþjóða af hlutleysi? Hlutleysi þýðir varnarleysi. Og hvaða sjálfstæð þjóð er varnarlaus í dag, og hverjir eru helztu boðberar hlutleysisins? Eru málsvarar Alþb. í raun hlutlausir, án áhrifa frá öðrum, einlægir í afstöðu sinni? Þessir menn fordæma hernaðarbandalög og valdajafnvægið, telja sér misboðið, þegar heiminum er skipt upp í blokkir austurs og vesturs. Látum vera, hvort slíkt ástand er heppilegt. Því hafa reyndar verið gerð skil hér á undan. En hitt er víst, að valdajafnvægi er ríkjandi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við erum lóð á þeirri vogarskál. Fari svo, að varnarliðinu sé vísað úr landi, er þá ekki hitt jafnaugljóst, að þetta valdajafnvægi raskast, og hverjum verður það til góðs, nema þeirri blokkinni, sem við tilheyrum ekki? Og hver vill stofna til slíks óvinafagnaðar? Alþb. Og af hverju?

Þá hafa það verið rök í málflutningi þeirra manna, sem aðhyllast það, að við göngum úr Atlantshafsbandalaginu og vísum hernum úr landi, að þátttaka okkar í bandalaginu hafi verið bundin því, að ekki skyldi vera her hér á friðartímum. Því er haldið fram, að forystumenn Sjálfstfl. hafi margtekið fram, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum og þeir hafi brugðizt þessu loforði og nú sé orðið svo friðvænlegt í heiminum, að ekki þurfi lengur á her að halda. Eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á hér fyrr í dag, þá vill svo til, að á forsíðu Morgunblaðsins eru þrjár fyrirsagnir, stórfréttir, sem segja frá því, að Indverjar hafi hafið stríð samkvæmt frásögn Pakistana, hersveitir í Súez séu viðbúnar nýju stríði og fjölmennt lið sæki langt inn í Kambódíu. Telst þetta friðvænlegt ástand í heiminum, og hvað er friður, og hvað er friðvænlegt ástand? Ég vil leyfa mér í tilefni af þessum rökum þessara ágætu manna að vitna hér til ummæla Bjarna heitins Benediktssonar einmitt um þetta atriði, sem hann viðhafði í ræðu 14. apríl 1957, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir: „Það er að vísu satt, að þegar við gerðumst aðili að Atlantshafsbandalaginu 1949, þá höfðum við þann fyrirvara á, að við vildum ekki hafa erlendar herstöðvar hér á friðartímum, heldur ætluðum við okkur einungis að veita erlendum aðilum svipaða aðstöðu hér, ef til ófriðar kæmi, eins og gert var í síðustu styrjöld. En síðan eru viðhorfin gersamlega breytt. Nú er það komið í ljós, eins og í orðum „Hvítu bókarinnar“ brezku bezt lýsir sér, að styrjöld hlýtur að hafa í för með sér slíka gereyðileggingu, að tiltölulega lítils virði er að vera að tala um, hvað eigi að gera, eftir að styrjöldin hefur brotizt út. Alla áherzlu verður að leggja á það, sem á allt annað hlýtur að skyggja, að leggja sitt fram til þess, meðan hið geigvænlega ástand ríkir, sem nú er fyrir höndum, að koma í veg fyrir að nokkur þori að leggja til nýrrar árásar.

Það er ekki einungis, að styrjöldin sjálf sé orðin miklu hættulegri og með hörmulegri afleiðingum en nokkru sinni áður, heldur er nú, gagnstætt því sem áður var, nærri undirbúningslaust hægt að hefja styrjöld. En þegar við vorum að semja um inngöngu í Atlantshafshandalagið 1949, var því haldið fram og með rökum, að hægt væri að sjá með nokkurra vikna fyrirvara, hvort styrjöld væri í aðsigi eða ekki. Herflutningar og hin og þessi atvik til undirbúnings gæfu til kynna, að verið væri að efna til styrjaldar. Þetta var alveg rétt. Bæði 1914 og 1939 mátti næstu vikurnar á undan sjá, að þá var verið að efna til styrjaldar. Það gat fram hjá engum farið. En nú er orðin á þessu breyting. Eftir að hin nýju ógurlegu vopn komu til sögunnar, flugvélarnar, sem hægt er að senda frá flugvöllum innan úr miðjum löndum, eldflaugar, sem hægt er að skjóta frá eldflaugastæðum, sem eru fyrir hendi þegar í dag, þá er hægt að hefja styrjöld svo að segja gersamlega fyrirvaralaust. Þess vegna er sá fyrirvari“ — segir hér í ræðu Bjarna Benediktssonar — „Þess vegna er sá fyrirvari, sem um var talað 1949 og við þá í góðri trú gerðum ráð fyrir, nú gjörsamlega úr sögunni.“

Þessi tilvitnun afgreiðir að mínu viti mjög skilmerkilega þau rök, sem fram eru borin nú um það, að það eigi að vísa varnarliðinu úr landi, vegna þess að það sé svo friðvænlegt í heiminum.

Nú er talað um endurskoðun varnarsamningsins, og í ræðu utanrrh. er gefið í skyn, að sjálfstæðismenn hafi eitthvað við það að athuga, en það er alrangt. Sjálfstfl. hefur margoft lýst því yfir, að endurskoðun væri eðlileg og sjálfsögð og í rauninni hefur skipan varnarmála verið sífellt til endurskoðunar og aðlögunar. Þannig má benda á þær breytingar, sem átt hafa sér stað, þegar nú er komið sjóherlið í stað flughers, og þannig má benda á, að samkvæmt nýjustu upplýsingum munu vera rétt rúmlega 120 menn undir vopnum á Keflavíkurflugvelli. En endurskoðun verður ávallt að fara fram út frá þeirri grundvallarforsendu, að Íslendingar vilja áfram hafa samstöðu með vestrænum bandalagsþjóðum og gegna skyldum sínum í Atlantshafsbandalaginu. Á þetta sjónarmið hefur Sjálfstfl. lagt áherzlu, og því hefur hann fordæmt, að málefnasamningurinn bar með sér, að ákvörðun um brottför varnarliðsins var þegar gerð og án tillits til þeirrar endurskoðunar, sem boðuð er. Sjálfstfl. fordæmir sömuleiðis, að þeir menn skulu hafðir með í ráðum, sem fyrir fram eru á móti þeirri samstöðu, sem er forsenda allrar athugunar og endurskoðunar, eins og kom hér fram m. a. hjá hv. 4. þm. Reykn. fyrr í dag, þar sem hann sagði, að þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu væri bæði órökrétt og fáránleg. Til hvers á að hafa slíka menn með í endurskoðun á varnarmálum eða öryggismálum, ef sú grundvallarforsenda er höfð í huga, sem ég hef gefið mer?

Af þessu tilefni vil ég minna á þær yfirlýsingar, sem utanrrh. og hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, hafa viðhaft og gefið um túlkun sína á málefnasamningnum, hvað þetta varðar, á fundum nú fyrir skömmu bæði m. a. í Keflavík og í félaginu Varðbergi. Þar var utanrrh. spurður ítrekað um þetta atriði, og þar gaf hann ótvíræða yfirlýsingu um, að skilja bæri samninginn svo, að engin ákvörðun hefði verið tekin um brottför varnarliðsins og verði ekki tekin fyrr en að endurskoðun lokinni. Þetta er að sjálfsögðu grundvallaratriði og afar mikilvægt í öllum umræðum um þetta mál. og ég skora á utanrrh. og reyndar 2. þm. Reykn. sömuleiðis að staðfesta þessi ummæli sín hér í þessari umr., svo að ekki fari milli mála, hver skilningur þeirra sé á þessu atriði. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir.) Eina mínútu.

Ég hef sjálfur talið, að endurskoðun varnarsamningsins væri ekki aðeins eðlileg, heldur sömuleiðis nauðsynleg. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að það ætti að vera á valdi okkar sjálfra að meta, hvort hér ætti að hafa varnarlið í þessu formi eða öðru. Því er lífsspursmál til þess að við séum færir um að taka slíkar ákvarðanir, að við höfum þekkingu og vitneskju til að bera. Endurskoðun getur leitt í ljós, að varnir séu ekki nægjanlegar og endurskoðun getur falið í sér, að við þurfum að vera viðbúnir því, að til annarra aðgerða eða varna þurfi að grípa, ef Bandaríkjamenn sjálfir tækju þá ákvörðun, t. d. að kalla heim sitt lið. Ef sú endurskoðun, sem nú fer fram, verður gerð með fullu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar og leiðir í ljós, að við getum án erlends varnarliðs verið, þá skal ég fyrstur manna fagna þeirri niðurstöðu. Ef öryggi Íslands og vestrænna vinaþjóða er jafn vel eða betur tryggt með einhverjum öðrum hætti, þá ber vissulega að kanna þann möguleika. Afstaða mín eða annarra þeirra, sem stutt hafa þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, ræðst ekki af því, hvort hér sé bandarísk varnarstöð eða ekki, heldur af hinu, hvernig verður áfram hægt að standa vörð um öryggi og sjálfstæði þeirra þjóða, sem í bandalaginu eru. Mál þetta snýst ekki um tilvist erlends hers á Íslandi, heldur um það, hvort og hvernig við getum bezt stuðlað að lýðræði þjóða og frelsi í þessum hverfula heimi.