11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

71. mál, innlent lán

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Reykn., hvernig nota ætti þá fjármuni, sem hér er um að ræða og eftir er sótt, þá, eins og tekið er fram í grg. frv., er gert ráð fyrir því, að það verði notað til framkvæmda á vegum ríkisins á næsta ári samkv. þeirri framkvæmdaáætlun, sem síðar verður lögð fyrir hv. Alþ. Og ég tel mig muna það rétt, að fordæmi er fyrir því, að fjár hafi verið aflað til væntanlegra framkvæmda ríkissjóðs, áður en frá framkvæmdaáætlun hefur verið gengið, og minni þar á enska framkvæmdalánið, sem á sínum tíma var tekið, og reyndar hefur það verið svo með fleiri, vegna þess að þótt drög hafi verið lögð fram að framkvæmdaáætlun, þá hafa það aldrei verið nema drög, sem síðan hafa breytzt. Hitt skal ég taka fram, að ætlunin er, að sala á þessum skuldabréfum eða spariskírteinum fari fram á þessu ári, en fjármagnið verði geymt til framkvæmda á næsta ári, eins og kemur fram í grg. fjárlagafrv.

Út af fsp. hv. 5. þm. Norðurl. e. um, hvað líði frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, þá get ég sagt það, að ég held, að það sé stutt í það, að það verði lagt fram hér á hv. Alþ., svo að hv. þm. þurfa ekki lengi að bíða eftir því úr þessu, en ég gerði hins vegar grein fyrir því, að í sambandi við þá væntanlegu stofnun mundi framkvæmdaáætlun næsta árs verða unnin. Þó að drög séu að því nú, þá er það ekki á því stigi, að ákvörðun hafi verið tekin þar um. Og af þessum ástæðum er þessi framkvæmdamáti hafður, að gert er ráð fyrir að selja bréfin nú og Alþ. ráðstafi síðar, hvernig féð verður notað í samræmi við þá framkvæmdaáætlun, sem lögð verður hér fram síðar á þessu þingi.