23.11.1971
Sameinað þing: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

Skýrsla um utanríkismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir það að hafa svarað tveim spurninga minna. Ég hafði að vísu vænzt þess, að hann svaraði þeim fleirum, eins og ég mun síðar rekja. Hann svaraði fyrst fsp. minni varðandi ráðherranefndina og taldi, að engin breyting hefði orðið á verkaskiptingu ráðh. þrátt fyrir skipun hennar. Nú háttar svo til, að utanrrh. hefur nokkra sérstöðu í varnarmálum og að því er snertir ráðherravald á Keflavíkurflugvelli. Undir utanrrh. falla sem sagt öll mál annarra ráðh., þegar um Keflavíkurflugvöll er að ræða. Hann hefur þess vegna dómsmálaráðherravald, atvinnumálaráðherravald, samgöngumálaráðherravald á Keflavíkurflugvelli og að því er snertir varnarliðið. Það er þess vegna e. t. v. rétt, að það hefur ekki verið gefin út breyting á tilkynningu um verkaskiptingu ráðh., eftir að hin svokallaða ráðherranefnd var skipuð. En í reynd er það svo, að hér eftir fjalla þrír ráðh. um varnarmálin, sem utanrrh. á einn um að fjalla.

Hin spurningin var um það, hvort búið væri að taka ákvörðun um brottför varnarliðsins, og mér þykir vænt um það, að hæstv. utanrrh. svaraði, að ekki væri búið að taka ákvörðun um brottför varnarliðsins, sú ákvörðun mundi ekki verða tekin fyrr en að lokinni ítarlegri könnun, sú könnun yrði lögð fyrir Alþ. og Alþ. mundi fjalla um málið. Ég skal þess vegna ekki elta ólar við hæstv. utanrrh. um það, hvort Vísir hafi ekki að öllu leyti farið rétt með ummæli hans í viðtali hans og þess dagblaðs, og ég skal heldur ekki elta ólar við hæstv. utanrrh. um það, hvort misræmi hafi verið á milli yfirlýsinga hans á fundi framsóknarmanna í Keflavík og fundi Varðbergs hér í Reykjavík með örfárra daga millibili. Aðalatriðið er, að þetta er svar hæstv. utanrrh., það er ekki búið að taka ákvörðun um brottför varnarliðsins. Sú ákvörðun verður ekki tekin fyrr en að aflokinni ítarlegri könnun, og sú könnun verður lögð fyrir Alþingi. Þessari yfirlýsingu ber að vísu ekki saman við yfirlýsingu stjórnar Sambands ungra framsóknarmanna, og þess vegna situr hæstv. utanrrh. undir sömu snuprum og hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, fékk frá þeim samtökum ungra framsóknarmanna, eins og birtist í Tímanum. En það er aukaatriði út af fyrir sig. Meginatriðið er, að hæstv. utanrrh. og hæstv. viðsk.- og sjútvrh. ber engan veginn saman, eins og hv. þm. heyrðu hér áðan af ræðu hæstv. viðskrh. Og hæstv. viðskrh. hélt sig við það, sem hann sagði í Þjóðviljanum eða Þjóðviljinn hefur eftir honum í dag. Hæstv. viðskrh. var að vísu hálfhvumpinn við öllum þessum spurningum og fsp. frá þm. og taldi slíkar fsp. algeran óþarfa, og hann lýsti því yfir meira að segja, að hann hefði alls ekki ætlað sér að svara þessum fsp. Það er sú virðing, sem hann sýnir Alþ. og þingbræðrum. En það er á öðrum vettvangi, sem hann taldi sér skylt að svara. Það var á landsfundi Alþb., og það var auðvitað vegna þess, að fyrirspyrjandinn var enginn annar en Brynjólfur Bjarnason. Það er e. t. v. von, að þessum hæstv. ráðh. standi nokkur stuggur af þessum gamla þingbróður sínum, Brynjólfi Bjarnasyni, en ég man ekki betur en það hafi verið einmitt þessi ágæti fyrrv. þm., sem lýsti því yfir einu sinni í þessum sölum, að það mætti gjarnan skjóta eins mikið og vildi hér á Íslandi, ef það væri eingöngu í þágu sigurs sósíalismans í heiminum. Þá skilur maður kannske betur alvöruna í því hjali og í því ábyrgðarlausa tali, þegar fulltrúar Alþb. koma hér og tala um, að við eigum auðvitað ekki að taka þátt í varnarbandalögum.

Í þessu skrifi Þjóðviljans, sem eftir hæstv. viðskrh. er haft, stendur, með leyfi forseta:

„Ég get ekki fullyrt, að það sé rétt haft eftir utanrrh., að fyrst skuli fara fram rækileg athugun á aðstöðu hersins hér á landi og síðan eigi að taka ákvörðun um brottför hans eða áframhaldandi dvöl hans hér,“ sagði Lúðvík. Þetta getum við þm. fullyrt, að er alveg rétt eftir hæstv. utanrrh. haft. Þjóðviljinn heldur áfram að vítna til viðskrh., Lúðvíks Jósepssonar: „En hér er haldið fram algerlega rangri túlkun málefnasáttmálans.“ Sem sagt, hæstv. viðskrh. segir hæstv. utanrrh. túlka málefnasamning stjórnarinnar algerlega ranglega. Þetta finnst mér alvarlegar ásakanir fyrir hæstv. utanrrh. að sitja undir og alvarlegar ásakanir af hálfu hæstv. viðskrh. að saka ráðherrabróður sinn um.

Hæstv. utanrrh. vék svo nokkuð að því, sem ég hafði um viðskiptabandalög að segja og afstöðu Framsfl. til EFTA. Hann afsakaði Framsfl. fyrir það að hafa setið hjá í atkvgr. um inngöngu Íslands í EFTA-viðskiptabandalagið og sagði, að svo væri nú hagur Íslendinga af EFTA-aðildinni eftir allt saman sennilega ekki ýkjamikill, — og hvað kæmi í staðinn og hvaða lönd hjálpuðu okkur í EFTA? Ég vil þá vitna til hæstv. viðskrh. og þess, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér á þingi í dag, að hæstv. viðskrh. finnst svo mikilvægt, hvað kemur í staðinn fyrir EFTA og hvernig við eigum að snúast við því, að EFTA verður e. t. v. ekki eins stórt og sterkt viðskiptabandalag eftir stækkun Efnahagsbandalagsins og áður, að hann hefur óskað eftir því, að EFTA-nefndin, sem starfandi var hér með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkunum, héldi áfram störfum til þess að kanna, hvernig bregðast ætti við hinum breyttu viðhorfum. Ef EFTA-aðildin er einskis virði, um hvað á þá að tala?

Þá hefur hæstv. utanrrh. og reyndar ýmsir aðrir ræðumenn hér í dag fjallað nokkuð um þáltill. okkar sjálfstæðismanna um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál Íslands. Þar er því haldið fram, að hún sé ólýðræðisleg, af því að hún geri ráð fyrir því, að hluti alþm. hafi ekki fulltrúa í þeirri nefnd eða hafi ekki fulltrúa í þeim viðræðum, sem þar er gert ráð fyrir, að fari fram. Menn verða að athuga það, að forsenda fyrir þessari till. okkar sjálfstæðismanna um fyrirkomulag viðræðna um öryggismál Íslands er sú, að við styðjum áframhaldandi þátttöku Íslendinga í og aðild að Atlantshafsbandalaginu. Forsendan er áframhaldandi stuðningur við varnarbandalag Atlantshafsþjóðanna, og það er gengið út frá því, að það skipti fyrst og fremst þá máli, sem styðja áframhaldandi þátttöku okkar í því bandalagi, hvernig fer um fyrirætlanir, hvernig þeirri aðild skuli háttað og hvernig vörnum skuli háttað á grundvelli þeirrar þátttöku. Það er í raun gert ráð fyrir því, að þeir menn, eins og t. d. fulltrúar Alþb. hér á þingi, sem líta á þátttöku í Atlantshafsbandalaginu því sem næst sem landráð, hafi engan áhuga á því að fjalla um, hvernig þátttöku okkar sé varið. Og það kemur mér satt að segja á óvart að heyra þann áhuga þeirra einstakra að þessu leyti. En þó eru það aðallega aðrir stjórnarsinnar en Alþb.-þm., sem hafa haft þetta við till. okkar að athuga. En spyrja má, þegar sagt er, að þessi till. sé ólýðræðisleg, hvort t. d. landhelgisnefndin í Genf hafi verið ólýðræðisleg, vegna þess að þar voru aðeins fulltrúar stjórnarflokkanna, eða viðræðunefndirnar í London og Bonn, vegna þess að þar voru aðeins fulltrúar tveggja þingflokka. Er þriggja manna nefnd kosin í Sþ. ólýðræðisleg, af því að allir stjórnmálaflokkar eða þingflokkar hafa ekki fulltrúa í henni? Auðvitað getur Alþingi Íslendinga ákveðið að skipa eða kjósa nefnd eða viðræðunefnd eða fulltrúa til viðræðna með þeim hætti, sem Alþ. sjálft ákveður, og það, sem sker úr, hvort um lýðræðislega aðferð er að ræða, er það, sem Alþ. ákveður, og ef Alþ. ákveður, að þetta skuli vera fyrirkomulagið, þá verður að ganga út frá því, að það sé gert með meiri hluta atkv. hér á Alþ.

Þá hefur hæstv. utanrrh. sérstaklega kallað sér til vitnis og varnar í sambandi við andsvar við till. okkar sjálfstæðismanna hæstv. fyrrv. utanrrh., Guðmund Í. Guðmundsson, og vitnað til þess, sem hann hafi sagt hér 1956. Ég vissi ekki, að hæstv. utanrrh. teldi þann fyrirrennara sinn slíka fyrirmynd. Og víst er um það, að þegar rætt var um samninga við Bandaríkjamenn 1946 og 1949, 1951 og 1954, þá voru í þeim viðræðum fulltrúar þeirra flokka, sem aðhylltust, að ráðstafanir væru gerðar til varna á Íslandi.

Það er haft eftir þessum fyrrv. utanrrh., að venjan hafi verið sú, að ríkisstj. skipaði slíka nefnd. Það má vel vera, en ég hygg, að það sé ekkert á móti því, að Alþ. geri það, og það, sem einu sinni hefur verið, þarf ekki ávallt að standa, og það verður í það minnsta að synja breytinganna með rökum af ákveðnum ástæðum. Helzta ástæðan fannst mér koma fram hjá hæstv. utanrrh., þegar hann sagði, að ekki væri traustvekjandi fyrir hann að vera ekki sterkari á svellinu en svo í samningaviðræðunum við gagnaðila, að Alþ. þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla honum aðstoðarmanna. Ég tel þetta hins vegar mjög mikinn misskilning hjá hæstv. utanrrh. og bið hann um að endurskoða þessa afstöðu sína, sérstaklega með tilliti til þess, að hann telur það ekkert vantraust á sig, að tveir ráðh. séu sérstaklega settir honum sinn til hvorrar handar til að fjalla um varnarmálin almennt. Hann spurði að vísu, í gamni skildist mér þó, hvort það væri nokkuð betra, að fjórir ráðh. fjölluðu um þessi mál en tveir. En ég vil þá, svo að gamninu sé haldið áfram. spyrja, hvort það sé ekki verra að vera einn á móti tveimur heldur en ef væru kannske þrír á móti fjórum, að ég tali nú ekki um að vera í meiri hl. og vera einn af fjórum á móti þrem. En opinberlega hefur verið frá því skýrt, að atkvgr. hafi farið fram í ríkisstj. um það, hvort leyfa skyldi tilteknar framkvæmdir af hálfu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, og það hafi verið samþykkt í ríkisstj. með 4:3 atkv. Þetta er nú kannske hreinskilnislega sagt ástæðan til þess í raun og veru, að þrátt fyrir allt teljum við þessi mál betur komin í höndum fyrst og fremst hæstv. utanrrh. og í öðru lagi í höndum allrar ríkisstj. fremur en sérstök slík ráðherranefnd sé skipuð. Og víst er um það, að þrátt fyrir það, að hæstv. utanrrh. hefur verið inntur eftir þeim fordæmum, sem eru fyrir slíkri ráðherranefndarskipun og hann taldi vera fyrir hendi, þegar 1. þm. Reykv. spurðist fyrir um þetta utan dagskrár hér á Alþ., þrátt fyrir það, að hann hafi spurt um, hver þessi fordæmi væru, þá höfum við ekki fengið að heyra þau. Það má vel vera, að ekki hafi nægilegt samstarf og samvinna verið höfð við framsóknarmenn á því tímabili, sem þeir voru utan ríkisstj. og í stjórnarandstöðu, um varnarmálin. Ég er ekki nægilega kunnugur því, og get því ekkert um það sagt. En hæstv. utanrrh. sagði, að framsóknarmenn eða fulltrúar þeirra hefðu verið reknir úr varnarmálanefnd, og þá er spurningin, — af hverju? Ég hygg, að fyrirmyndar hæstv. utanrrh. sé nú helzt að leita hjá þeim, sem hann vitnaði til, fyrrv. utanrrh. Guðmundi Í. Guðmundssyni, en bið um leiðréttingu, ef ég hef þann mann fyrir rangri sök. Ég er ekki hugsanalesari, en mér er ekki grunlaust, að það hafi flogið í hug hæstv. utanrrh. að hafa sama háttinn á, þegar hann tók við störfum, þótt hann hafi hugsað sig betur um og talið rétt að halda fulltrúum lýðræðisflokkanna í varnarmálanefnd. Og ef það er svo voðalegt að gera till. hér á Alþ. um að tilnefna fulltrúa flokka, sem styðja áframhaldandi aðild að Atlantshafsbandalaginu, og ganga þannig fram hjá væntanlega fulltrúum Alþb., af því að við höfum ekkert heyrt um afstöðu Frjálslyndra og vinstri manna enn þá til Atlantshafsbandalagsins, ef það er svo voðaleg synd, þá spyr ég, drýgir ekki hæstv. utanrrh. synd, ef hann býður ekki fulltrúum allra þingflokka aðild í varnarmálanefndinni?

Ég tel rétt að geta hér nokkurra till., sem fram hafa komið. Ég vil fyrst nefna þá ábendingu, sem fram hefur komið frá hv. 8. landsk. þm. um það, að æskilegt væri, að við Íslendingar hefðum samráð og samband við þær þjóðir, sem eiga lönd að Norðaustur-Atlantshafi, Norðmenn og Dani, að því er mér skildist sérstaklega, til þess að ráðgast um það við þær, hvernig við gætum bezt komið fyrir vörnum á þessu svæði og gert sameiginlegar ráðstafanir e. t. v. Ég held, að þetta sé athyglisverð till. og vil taka undir þessa ábendingu hv. 8. landsk. þm. Í þessu sambandi tel ég rétt að geta þess, að á fundi þingmannasambands Atlantshafsríkjanna í Ottawa í haust bar það á góma, að sérstök undirnefnd yrði skipuð af þingmannasambandinu til þess að kanna varnarstöðu bandalagsríkjanna á Norðaustur-Atlantshafi. Það var boðað, að slík nefnd mundi heimsækja Ísland, og beðið um að kanna, hvort hún mundi ekki vera velkomin hingað, en um leið var boðið, að við Íslendingar ættum aðild að slíkri nefnd. Ég hef aðeins lauslega nefnt þetta við hæstv. utanrrh. ásamt með formanni þingmannasendinefndarinnar, hv. 4. þm. Vestf., og vonast til þess, að þessi ábending verði einnig tekin til vinsamlegrar athugunar.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega frekar um till. okkar sjálfstæðismanna, sem raunar er ekki á dagskrá undir þessum dagskrárlið, en tel rétt að benda á, að hún fer í engu í bága við till. þm. Alþfl. á þskj. 62, sem fjallar um athugun á öryggismálum Íslands.

Það er e. t. v. rétt, áður en ég lýk máli mínu, að víkja nokkuð frekar að ræðu hæstv. viðskrh., en hann drap nokkuð á gildi varnarbandalaga og Atlantshafsbandalagsins sérstaklega annars vegar og hins vegar á gildi varnarliðs hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé mjög gagnlegt, að hér fari fram umr. um þessi efni, og ég gerði tilraun til þess í minni fyrri ræðu í þessum umr. að fjalla um málin á þessum grundvelli. Er nauðsyn fyrir Íslendinga að taka þátt í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna? Ég svaraði þeirri spurningu með því að rifja upp aðdraganda þeirrar bandalagsstofnunar og skal ekki ítreka þá sögu. Þær forsendur, sem voru fyrir stofnuninni, eru enn við lýði og sú staðreynd blasir við, að vegna starfs þessa varnarbandalags er e. t. v. ekki eingöngu búinn að vera friður í okkar heimshluta þau 21 ár, sem bandalagið hefur starfað, heldur eru nú ýmis teikn, sem benda til þess, að lengra náist í þeirri viðleitni að koma á friðvænlegra ástandi í Evrópu en verið hefur allt frá stríðslokum. Ég hygg, að þessar staðreyndir sanni gildi þátttöku okkar í þessu bandalagi. Að því er dvöl varnarliðsins snertir vil ég aðeins geta þess um leið og ekki skorast undan að svara utanrrh., — en hygg þó, að ég verði að fá að ná í handrit af ræðu minni frá því í dag, til þess að geta svarað þeirri spurningu,— þar sem hann spurði mig, hvort ég væri þeirrar skoðunar, að herinn mætti aldrei fara. Ég sagði mjög greinilega í ræðu minni á þessa leið, með leyfi forseta:

„Auðvitað er það eðlileg ósk okkar að komast hjá því, ef mögulegt er, að hafa erlent varnarlið hér á landi, alveg eins og aðrar lýðfrjálsar þjóðir reyna að komast af með sem lægst útgjöld til varnarmála og sem stytzta herskyldu ungmenna sinna.“

Ég tel sjálfsagt að ganga út frá því sem forsendu, að helzt viljum við vera án þess að hafa varnarlið hér á landi, en ég tel það hins vegar litla kvöð fyrir Íslendinga að hafa varnarlið hér á landi til þess að tryggja öryggi og frelsi sitt. Og það er svo lítil kvöð miðað við það, sem aðrar þjóðir verða að leggja á sig til þess að tryggja öryggi og frelsi sitt, að við Íslendingar metum þá lítils frelsi okkar og öryggi, ef við erum ekki reiðubúnir að taka þá kvöð á okkur.

Ég reyndi í minni fyrri ræðu að rifja upp forsendurnar fyrir því, af hverju við hefðum óskað eftir varnarliði hingað til lands 1951 og af hverju vinstri stjórnin 1956 hætti við að óska eftir brottför þess, og líkti ástandinu nú við þær forsendur, sem lágu fyrir þessum báðum ákvörðunum. Ég komst að þeirri niðurstöðu, sem ekki hefur verið mótmælt hér, að hafi þessar ákvarðanir verið réttar, annars vegar 1951 að gera varnarsamninginn við Bandaríkin og hins vegar rétt sú ákvörðun vinstri stjórnar 1956 að hætta við að óska eftir brottför varnarliðsins, þá bentu öll ummerki í heiminum í dag til þess, að óráðlegt væri að óska eftir brottför varnarliðsins nú, að ég tali nú ekki um að tímasetja það og segja, að það skuli gert innan fjögurra ára. Þessi bjargfasta skoðun mín þýðir hins vegar ekki, að ég telji ekki sjálfsagt á hverjum tíma að hyggja að þessum málum, taka þau til endurskoðunar og fylgjast með öllum aðstæðum í þeim efnum, sem okkur snerta og geta haft áhrif á forsendur fyrir áframhaldandi dvöl varnarliðsins, fylgjast með öllum breytingum í heiminum og átta sig á því, hvort við þurfum að óska eftir meiri vörnum okkar landi og þjóð til handa eða hvort óhætt sé að draga úr þeim. Mér þykir leitt, að því er snertir umr. um varnarmálin og þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, að umr. gátu ekki bundizt meira við þessi atriði, sem ég tel sjálfsagt að ræða hér á Alþingi Íslendinga, sem ég tel sjálfsagt, að séu ávallt til meðferðar, þannig einnig að við getum gefið þjóð okkar kost á að fylgjast með skoðunum okkar í þessum efnum og stefnumörkun. Og þá vil ég að lokum lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að hér hefur ýmsum spurningum ekki verið svarað.

Það hefur að vísu komið fram, að ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en ekki í hverju sá ágreiningur er fólginn, nema að því leyti, sem skýrt er, að Alþb. vill ekki þátttöku í bandalaginu, en Framsfl. vill áfram taka þátt í bandalaginu. Við höfum ekki fengið nein svör af hálfu formælenda SF við því, hver afstaða þeirra er til áframhaldandi þátttöku í Atlantshafsbandalaginu.

Því hefur ekki heldur verið svarað, hvort það hefur borið á góma innan ríkisstj. eða t. d. við samningu málefnasamningsins, hvort um það hafi verið rætt að segja Ísland úr varnarsamtökum Atlantshafsríkjanna að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, en þessi spurning er borin fram af fullu tilefni af því orðalagi, sem er að þessu leyti í málefnasamningnum.

Þá hefur það komið fram, að ágreiningur er milli hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., væntanlega fyrir hönd þessara flokka, um túlkun á málefnasamningnum, eins og ég gat um þegar í upphafi þessarar ræðu minnar, en hins vegar hefur ekki komið hér fram í umr., hver skoðun hvers stjórnarflokksins um sig væri að þessu leyti eða hver væri skoðun hvers ráðh. fyrir sig. Ég hlýt að vekja athygli á því, sem hér vantar á, að fullar skýringar hafi verið gefnar í svo mikilvægu máli sem hér hefur verið til umr., og ég tel ástæðu til að spyrja þessara spurninga áfram, þar til svar fæst, því að það er ekki eingöngu Alþingi Íslendinga, sem á kröfu til þess, að afstaða þm. sé heyrinkunn, heldur og þjóðin öll.