15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. S. l. föstudag birtist á baksíðu Morgunblaðsins grein, sem ber svo hljóðandi fyrirsögn:

„Ólafur Jóhannesson á fundi framsóknarmanna: 5–7% kauphækkun ætti að nægja.“

Þetta er svo endurtekið í feitletruðum inngangsorðum að fréttafrásögn af fundi Félags ungra framsóknarmanna, þar sem segir: „ . . og taldi, að 5–7% bein kauphækkun ætti að nægja auk annarra aðgerða.“

Ummæli þau, sem mér eru þarna eignuð, hef ég aldrei viðhaft, hvorki á fundi í Félagi ungra framsóknarmanna né neins staðar annars staðar. Þau eru því alröng og algert hugarfóstur þess blaðamanns, sem þau hefur sett á blað, eins og reyndar verður ljóst, ef farið er gegnum fréttafrásögnina, eins og gengið hefur verið frá henni, væntanlega af þeim fréttaritara, sem á fundinum var. En ég vil ekki ætla honum það, að hann hafi samið þessa fréttafyrirsögn, heldur sé hún samin af blaðinu sjálfu og inngangsorðin, sem henni fylgja. Í fréttagreininni er alls engin stoð, ekki neinn stafur fyrir þessari fyrirsögn, sem fréttinni er valin. Það, sem gerðist á fundi í Félagi ungra framsóknarmanna, eins og reyndar kemur fram í þessari fréttafrásögn Morgunblaðsfréttaritarans, sem á fundinum var, ef hún er lesin öll, var þetta, að einn fundarmanna, Kristján Friðriksson iðnrekandi, ræddi kjarasamninga og þau vandamál, sem þar er við að eiga. Hann sló fram 5–7% kauphækkun á ári auk tiltekinna hliðarráðstafana, skattabreytinga, trygginga og vinnutímastyttingar. Þegar ég aðvaraði Kristjáni Friðrikssyni, sagði ég, að mér virtist hann í hugmyndum sínum vera farinn að nálgast það, sem ríkisstj. hefði nefnt í málefnasamningi sínum, að að skyldi stefnt.

Af þessu sést, að það var ekki ég, sem nefndi 5–7% kauphækkun, heldur annar fundarmaður, vel að merkja á einu ári, sem mundi gera 10–14% á tveimur árum, auk ýmissa hliðarráðstafana. Sést af þessu, að það er ekki fótur fyrir þeim ummælum, sem Morgunblaðið eignar mér. Og á þessum fundi voru fjölmargir staddir, sem geta borið vitni um það. En út af þessum ummælum hafa svo önnur blöð, einkum Vísir, lagt í tveimur feitletruðum forsíðugreinum, bæði á föstudag og laugardag. Og jafnvel Morgunblaðið, sem ætti þó að þekkja sannleikann, — ef þeir, sem leiðarann skrifa í Morgunblaðið, lesa það — það heldur hinu sama fram í leiðara sínum í gær.

Ég er nú hvorki vanur að eltast við blaðamissagnir né kvarta undan gagnrýni, enda er það sjálfsagður hlutur, að þeir, sem pólitísku starfi gegna, verða að sætta sig við það. En hér gegnir nokkuð öðru máli. Hér er farið alrangt með, þannig að ekki er stafkrókur fyrir. Hér er um alvarlegt mál að ræða, hér er um viðkvæmt mál að ræða, og þessi skrif og þessi ummæli, sem mér eru ranglega eignuð, eru til þess fallnir að skapa tortryggni og spilla fyrir áríðandi kjarasamningum. Þess vegna hef ég talið mér nauðsynlegt að koma leiðréttingu hér á framfæri á hv. Alþ., svo að sú leiðrétting gæti komizt til alþjóðar í gegnum fjölmiðla. Auðvitað væri skemmtilegast, að Morgunblaðið sýndi þann manndóm að leiðrétta og biðjast afsökunar, en það er nú kannske til of mikils mælzt. En ég hef staðið í þeirri meiningu og stend það reyndar enn, að blaðamennska hér á landi væri að batna. Blaðamennskustarf er vandasamt og ábyrgðarmikið. Það er oft unnið við erfið ytri og innri skilyrði, ef svo má segja. Þess vegna geta alltaf átt sér stað þar mistök. Það er sjálfsagt að afsaka slík mistök og virða til betri vegar, ef þau mistök eru viðurkennd.