15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu var ríkisstj. búin að kynna sér þau gögn, sem lágu fyrir, og þær upplýsingar, sem hún fékk í hendur frá ýmsum aðilum, áður en hún gaf sína yfirlýsingu út. Þetta var hennar mat þá á þeim gögnum, sem fyrir lágu, að þannig væri hægt að standa að málum, að því markmiði, sem þar var sett fram, yrði náð. Vitaskuld var það markmið líka sett með hliðsjón af því, sem átt hafði sér stað í kjaramálum, m. a. þeim samningum, sem gerðir höfðu verið á s. l. sumri við opinbera starfsmenn, þar sem opinberir starfsmenn höfðu fengið mjög verulegar kauphækkanir. Og auðvitað var öllum það ljóst, að þeir samningar mundu síðan verða notaðir til viðmiðunar og aðrir mundu eðlilega vilja sigla í það kjölfar, eins og líka hefur komið á daginn, og auðvitað þarf engum að vera það undrunarefni, að t. d. verzlunar- og skrifstofumenn beri sig saman við opinbera starfsmenn. Það liggur í augum uppi, að í mörgum tilfellum hlýtur slíkt að teljast eðlilegt.

Ég vona, að þetta nægi sem svar við þessari fsp. hv. þm. Vitaskuld geta menn svo alltaf lagt mismunandi mat á gögn og upplýsingar, sem fyrir liggja. Og það má vel vera, að aðrir, t. d. atvinnurekendur, hefðu viljað meta þetta á einhvern annan veg en við gerðum. En þessi stefnuyfirlýsing okkar byggðist auðvitað á því mati, sem við gerðum þá, þegar verið var að mynda stjórnina, og á grundvelli þeirra gagna og þeirra upplýsinga, sem við þá gátum aflað okkur um ástand og horfur um stöðu atvinnuvega.